0122 Tilvitnanir 1

0122

Textastíll
Tilvitnanir I
Þín orð eða mín

Fréttir fjalla að miklu leyti um það, sem fólk segir og hvernig það segir það. Sem aðilar að fréttum, áhorfendur, vitni, upplýsingagjafar, sem pólitískir aðilar. Kliðurinn er endalaus. Einnig tilraunir blaðamanna til að eima úr honum tilvitnanir.

Beinar tilvitnanir eru ómissandi. Þær gefa staðfestingarsvip. Þær koma lesendum í snertingu við fólk eins beint og hægt er að gera á prenti. Sæmilega löng saga, sem skortir beinar tilvitnanir, er ófrjó eins og landslagið á tunglinu.

Beinar tilvitnanir eiga að gefa stutta og leiftrandi innsýn í lífið. Því miður eru ekki allar tilvitnanir stuttar eða leiftrandi, heldur andvana og ofhlaðnar. Það er ekki endilega þér að kenna, að fólk er hvorki gagnort né leiftrandi.

En þú getur valið það, sem þú birtir. Ekki nægir að setja gæsalappir. Þær breyta ekki rýti svíns í fúgu. Flestar tilvitnanir koma þó á hraðferð. Eru stutt innslag málflutningsmanns, lýsing lögreglumanns eða ryk, sem embættismaður þyrlar upp á flótta.

Það eina sem þú getur gert við beinar tilvitnanir er að nota þær eða hafna þeim. Þegar búið er að setja gæsalappir utan um texta, á hann að vera það, sem hinn tilvitnaði sagði. Það er ekki hægt að bæta textann umfram villur í málfræði.

Listin um beinar tilvitnanir felst í að vita ýmislegt: Hvenær á að vitna beint, hvenær á að vitna óbeint og hvenær á að gleyma öllu klabbinu. Dæmi um ómótstæðilega tilvitnun beina: “Læmingjar eru góðir liðsmenn, en líttu á, hvar þeir enda.”

“Þingmaðurinn sagði, að “á þessu fjögurra ára kjörtímabili hafi nefndin aðeins starfað í sex daga”.” Þetta er ekki efni í beina tilvitnun, svo að betra er að segja: “Þingmaðurinn sagði nefndina aðeins hafa hist í sex daga á fjórum árum.”

Stundum geta merkingarlitlar tilvitnanir sagt sérstæða sögu: “Persónulega sagt, fyrir mig sjálfan, að því er ég best veit, þá held ég ekki, að ég viti neitt, að því er best verður séð.”

Góðar tilvitnanir beinar eiga að segja það, sem hvílir á þeim, sem talar. Þær eiga að sýna fram á tilfinningu eða viðhorf einstaklingsins, helst á þéttan og áhugaverðan hátt.

“Við náum ekki endum saman”, sagði 36 ára afgreiðslukona og þriggja barna móðir í höfuðborginni. “Allt hækkar í verði. Við keyptum áður kjöt flesta daga, en nú er það útilokað. Við erum í biðröð eftir sykri og hrísgrjónum .”

Beinar tilvitnanir eiga að taka djúpt í árinni til að flytja söguna fram á leið. Ítrekanir eru þar hættulegastar. Beinar tilvitnanir eiga ekki að ítreka það, sem búið er að segja áður á annan hátt í textanum.

Ekki skrifa: “Stjórnarformaðurinn sagði, að fyrirtækið mundi hefja mesta verkfræðilega verkefnið í sögu þess. “Við munum hefja mesta verkfræðilega verkefnið í sögu okkar”, sagði hann við hluthafana og hlaut klapp að launum.”

Þrír úrfellingarpunktar … eru notaðir til að sýna úrfellingu í beinni tilvitnun. Gallinn við þá er, að þeir vekja meiri athygli á því brottfallna en því sem birt er. Sjaldgæft er, að úrfellingarpunktar séu notaðir í fjölmiðlum.

Skýringar og tilvísanir, sem varða beina tilvitnun, eru betri á undan henni, lakari á eftir. Texti, sem án allra skýringa hefst á beinni tilvitnun, veldur lesandanum pirringi, því að hann veit ekki einu sinni, hver talar þar.

Stundum þarf aðeins að laga beinar tilvitnanir. Stundum eru settar skýringar í sviga innan textans: “Hann sagðist ekki vita, hvert hann (Jón) hefði farið.” Ef meira en þetta þarf af skýringum, er betra að nota óbeina tilvitnun.

“Þetta er óvenjulegt. Við fáum ekki oft svona margar óskir,” sagði Jóna um 300 undirskriftir frá Jóni. Betra er að segja: Jón safnaði 300 undirskriftum. “Það er óvenjulegt,” sagði Jóna, “við fáum ekki oft svona margar óskir.”

Vertu alltaf viss um, að lesandinn viti, hver er að tala, en ekki leggja of mikla áherslu á það. Ekki setja of langa eða fyrirferðarmikla útskýringu innan í tilvitnaðan texta. Hún þarf að koma inn í eðlilegri málhvíld, til dæmis:

“Ég hélt, að ég yrði laus löngu fyrr,” sagði hann “en það fór á annan veg.”
“Sagði um” er orðalag, sem stundum er notað til að skýra það, sem ljóst er hvort sem er af textanum, og er því óþarft.

Ekki skrifa “Ákæran er ekki,” sagði lögfræðingurinn, “réttlætanleg á nokkurn hátt.” Betra er að sameina tilvitnunina. “Ákæran er ekki réttlætanleg á nokkurn hátt,” sagði lögfræðingurinn.”

Tilvitnanir:
Þín orð eða mín