0121 Malcolm Mallette

0121

Textastíll
24 reglur Mallette

Hafðu ekki slangur í gæsalöppum. Annað hvort viðurkennir þú slangur sem mál eða notar ekki.
Sparaðu upphrópunarmerki.
Sterku orðin eru fremst og aftast í málsgreinum.

Þú kemst langt í stíl, ef þú tileinkar þér tíu reglur Strunks.
Skrifaðu eins og fólk,
ekki eins og fræðimenn

24 reglur Mallette um stíl
Malcolm F. Mallette,
Handbook For Journalists,
1998

1. Íslenska er hratt og hreyfanlegt tungumál, að því leyti lík ensku.
2. Nota eina hugmynd í hverri málsgrein. Flest eru 17 orð í málsgrein. Hemingway.
3. Nota sagnorð, ekki nafnorð (hann kaus, ekki: hann greiddi atkvæði).

4. Nota frumlag, ekki andlag (hann gerði, ekki: það var framkvæmt af honum).
5. Nota sagnorð og nafnorð, ekki lýsingar- og atviksorð.
6. Nota einfaldar og stuttar málsgreinar: Frumlag, umsögn, andlag.

7. Nota einföld og stutt orð. (kjör, kosning, ekki: atkvæðagreiðsla).
8. Forðast klisjur, tískufyrirbæri (á ári, ekki: á ársgrundvelli) (kaupa, ekki: versla sér).
9. Nota rétta tíð og mynd (þeir léku vel, ekki: þeir voru að spila vel).

10. Gæta þess, að tíðir, myndir, tölur og föll orða standist á. Lestu yfir.
11. Þjappa ekki of miklu í málsgreinar, einkum í upphafi greinar.
12. Lýsa aðstæðum og bakgrunni, flytja lesandann á vettvang.

13. Skilgreina hugtök, sem lesandinn skilur ekki (ekki: LÍÚ, BNA).
14. Vísa til hliðstæðna, þegar þú útskýrir flókin atriði.
15. Svara öllum spurningum, sem upp kunna að koma.

16. Búa ekki til væntingar, sem þú stendur ekki við. Sýndu dæmin.
17. Vera varfærinn í orðum, þegar sagan sjálf er dramatísk.
18. Sýna í stað þess að segja frá (hann lamdi hnefanum í borðið).

19. Hafa mikilvægustu orðin fremst í málsgrein. Lesandinn nennir ekki að bíða.
20. Fara sparlega með beinar tilvitnanir til að forðast að vera langorður
21. Koma strax með nafn viðmælandans, ekki á eftir tilvitnuninni.

22. Strika út óþörf atriði. Góður stíll er knappur, kraftmikill.
23. Ýkja ekki, láta söguna segja sig sjálfa. Það gera góðar sögur.
24. Lesa söguna upphátt. Það segir þér, þegar textinn fer að ramba.

Aðskotaorð. Forðist lýsingar- og atviksorð, þau veikja söguna. Forðastu: of, mjög, nokkuð, fremur, eins konar, dálítið, allnokkuð, einfaldlega, nokkurs konar). Forðastu aukaorð yfirleitt. “Farið var” komi í stað “Það var farið”.

Forðastu tvítekningar. Ekki segja “Hann gnísti tönnum fast”. Að gnísta er fast.
Forðastu langar málsgreinar, skilningur lesenda minnkar. Leitaðu að orðum á borð við “og” og “en”. Settu þar punkt og stóran staf.

Útskýrðu. Ef þú skilur textann ekki, mun lesandinn ekki skilja hann. Margir eiga auðvelt með að bera saman hluti og samhengi, aðrir þurfa að læra það. Ef útskýringar eru ekki þín sterkasta hlið, skaltu ákveða að gera þær að henni.

Reyndu að meta, hvort lesandinn viti mikið um málið. Gerðu ekki ráð fyrir, að hann hafi fylgst með fréttum í gær. Er þetta eitthvað, sem hann getur látið sig varða um? Er fréttin of flókin? Fjallar hún nógu mikið um fólk sem gerendur?

1. Þekking og meðvitund þín hjálpa þér að skilja flóknar aðstæður og lýsa þeim.
2. Æfðu. Lýstu móður þinni svo, að annar noti lýsinguna í flugstöð.
3. Berðu það óþekkta saman við það þekkta. Notaðu hugtök og þekkt dæmi.

Engin reiknar með, að þú komir með eins góðan texta og hér hefur verið lýst. Það er ekki auðvelt eða fljótlegt að koma lit í sögu. Fyrst þarftu að læra að skrifa hratt og vel. Þú hefur ekki marga daga til að skrifa, oftast mínútur eða stund.

Þú kemst langt í stíl, ef þú tileinkar þér tíu reglur Strunks
og 24 reglur Mallette.
Skrifaðu eins og fólk,
ekki eins og fræðimenn

Sjá nánar:
Malcolm F. Mallette, Handbook For Journalists, 1998.
William Strunk jr & E.B White,
The Elements of Style
3. útgáfa 2005.