0112 Frumlag

0112

Textastíll
Notaðu sértækt frumlag
Keyrðu á sagnorðum og
notaðu sértækt frumlag

Lesendur vilja virkni í sögnum og enn frekar vilja þeir persónur í frumlagi. “Óttast var, að mælt yrði með niðurskurði”. Hver óttast? Hver mælir með? Hver sker niður? Það er ekki nóg að hafa sagnir virkar, heldur verður frumlagið í málsgrein að vera stutt, sértækt og áþreifanlegt.

Ekki segja þetta: “Guðfræðileg umræða á miðöldum fjallaði oft um atriði, sem talin eru skipta litlu máli í heimspekihugsun nútímans.” Heldur þetta: Guðfræðingar miðalda fjölluðu oft um atriði, sem heimspekingar í nútímanum telja skipta litlu máli.

Persónur í frumlagi geta verið í forsetningum eða atviksorðum, ekki bara í nafnorðum. Finna þarf þessar persónur. “Ákveðið var að framkvæma rannsókn á ósamkomulagi.” Þetta breytist annað hvort í “Við ákváðum, að ég kannaði deilumálið.” Eða: “Ég ákvað, að þú kannaðir deilumálið.”

Stundum segja menn: “Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því, að skortur er á sönnunum.” Þeir eiga þá við þetta: “Ég get útskýrt, af hverju ég hef ekki fundið neinar sannanir.” Menn nota persónulausa frásögn til að draga athygli frá aðild sinni að máli eða frá ábyrgð sinni á máli.

Flestir lesendur vilja, að frumlög með sögnum nefni aðalpersónur sögunnar og að þessar aðalpersónur séu holdi og blóði klæddar. Oft verður þú samt að skrifa um óhlutlæg hugtök. Vont er að skrifa um mörg óhlutlæg hugtök í einni málsgrein. “Kenning málfrelsis hefur verið tekin upp af öllum málsaðilum.”

Hver er gerandi málsins, það er spurningin. Er það ég, ert það þú eða er það hann eða hún eða þeir eða þær eða þau? Hverjir eru svokallað fólk, hverjir eru svokallaðir sérfræðingar, hverjir eru svokallaðir viðmælendur, hverjir eru allir þessir óáþreifanlegu aðilar, sem sagnorðin eru falin á bak við.

Ekki segja: “Á síðustu árum hefur innleiðing nýrra túlkana á gildi fundar Ameríku leitt til endurmats á stöðu Kólumbusar í sögu vesturlanda.” Heldur: “Jared Diamond hefur endurmetið stöðu Kólumbusar í sögu vesturlanda af því að hann hefur túlkað fund Ameríku á nýjan hátt.”

Ekki: “Með minnkun áhorfs hjá sjónvarpskeðjum og aukningu áhorfs á kapal og mynddiska hefur aukist meðvitund um það hjá keðjunum, að þörf sé á endurskoðun dagskrár.” Heldur: “Ráðamenn Sýnar hafa séð, að breyta þarf dagskránni, því að notendur horfa minna á keðjusjónvarp, meira á kapal og diska.”

Ekki segja: “Rannsókn var framkvæmd á því, hvers vegna svona fá viðtöl voru framkvæmd við nýbúa.” Heldur þetta: “Við könnuðum, hvers vegna þeir töluðu svona lítið við nýbúa.” Ekki segja: “Peningarnir voru týndir.” Heldur “Ég/hann/hún týndi peningunum.” Ekki leyna gerandanum fyrir lesendum.

Stundum er ekki vitað um geranda í máli og þá verður að nota ópersónulegt orðalag: “Sagt var, að ráðherrann hefði íhugað að segja af sér.” “Þeir sem sekir verða fundir, geta sætt sektum.” Eða “Dýrmæt gögn ber ætíð að geyma á öruggum stað.” Best er þó að finna gerandann, ef það er hægt.

Margir viðmælendur eru feimnir við að nota myndir orðsins “Ég”. Þeir nota ópersónulegt orðalag í staðinn, “maður”. Þeim finnst það vera fræðilegra, hlutlausara, ekki síst ef þeir eru í vörn. En það nær ekki eins vel til lesenda, enda er ópersónulegt orðalag oft notað til að halda fram órökstuddum fullyrðingum.

Flestir starfshópar leggja áherslu á, að félagarnir virði gildi þeirra með því að nota orð þeirra og framsetningu. Bankamaður verður að tala og skrifa á bankamáli. Úr þessu verður stíll, sem reynir að útiloka almenning frá hópnum. Slík framsetning á ekki heima í fjölmiðlum, sem ætlaðir eru fólki.

Fimmtán reglur um meðferð texta

1. Lestu fyrst alla greinina áður en þú breytir nokkru. Þú þarft að sjá allt.
2. Fullvissaðu þig um, að sagan sé rétt byggð með góðri efnisröð.
3. Þéttu söguna, styttu hana. Taktu út hluta, sem ekki skipta máli.

4. Taktu út óþörf orð, bættu bygginguna, léttu rennsli málsgreina.
5. Fullvissaðu þig um, að öllum mikilvægum spurningum sé svarað í greininni.
6. Fullvissaðu þig um, að sagan sé sanngjörn og óhlutdræg.

7. Hafðu efasemdir um svokallaðar staðreyndir. Passaðu nöfn og tímasetningar.
8. Einfaldaðu málið. Breyttu flóknum málsgreinum í einfaldar.
9. Útskýrðu, útskýrðu. Láttu ekki lesandann fá eitthvað, sem hann skilur ekki.

10.Forðastu óþarflega miklar tilvitnanir. Gættu þess, að rétt sé eftir haft.
11.Hafðu málfræðina rétta. Forðastu tískuorð og klisjur.
12.Fylgdu stíl blaðsins. Víða eru samræmdar reglur um notkun tungunnar.

13.Skerðu miskunnarlaust niður nauðsynlegar, leiðinlegar sögur.
14.Notaðu læknishníf, ekki kjötskurðarhníf við allan niðurskurð.
15.Vertu í símasambandi við höfundinn, ef hann er farinn af skrifstofunni.

Frumlag + umsögn
Fimmta regla Jónasar:
Keyrðu á sagnorðum og
notaðu sértækt frumlag