0141 Orðalist 2

0141

Textastíll
Orðalist greina II

Rennsli:
Þegar rennsli er í sögu, fer lesandinn erfiðislaust gegnum hana og er næstum því hissa, þegar hann er búinn. Hann varð hvergi var við holur eða hvörf á veginum og engar skarpar beygjur.

1. Yfirfærslutexti:
Höfundar gera oft þau mistök að nota sérstök orð í yfirfærslutexta milli kafla í frásögninni, til dæmis “En”. Þetta dregur úr rennslinu. Góður greinahöfundur reynir að sleppa yfirfærslutextanum og fara beint yfir í nýja sálma.

Stundum neyðist sögumaðurinn til að nota einhvern texta til að sýna, að nú sé komið að þáttaskilum í sögunni. Við slíkar aðstæður borgar sig að hafa texta yfirfærslunnar eins stuttan og hægt er.

2. Nöfn heimildarmanna:
Nöfn embættismanna með löngum titlum rjúfa frásögnina. Reyndu að skera titlana niður og jafnvel að sleppa tilvitnuninni alveg. Ef hún er mikilvæg og kemur lesendum þar á ofan á óvart, er þó rétt að láta hana ekki niður falla.

Ef tilvitnun kemur lesendum ekki á óvart, er hún væntanlega ekki viðkvæm. Blaðamaðurinn getur því sjálfur fullyrt textann og þarf ekki að bera viðkomandi heimildarmann fyrir honum.

Hér er ekki verið að tala um meirihlutaskoðanir, heldur óumdeildar yfirlýsingar. Ef skoðanir eða yfirlýsingar eru af því tagi, að um þær er meirihluti og minnihluti, er rétt að bera nafngreinda persónu fyrir texta innan gæsalappa.

3. Útskýringar:
Hér og þar í hverri sögu þarf höfundurinn að stöðva rennslið til að útskýra atriði. Yfirleitt eru þetta hversdagsleg smáatriði, sem virka þreytandi, en eru nauðsynleg. Vertu fljótur að afgreiða slíkar útskýringar.

Gerð málsliða:
Með því að beita gerð og skipulagi á málsliði og málsgreinar getur höfundurinn haft meðvituð áhrif á lesandann.

1. Hraði:
Til að ná hraða í frásögnina smíðar höfundurinn málsgrein, sem er eins og járnbrautarlest. Eimvagn frumlags og sagnorðs dregur nokkra vagna af andlagi og aukasetningum:

Járnbrautarlest:
“Þeir fóru í mótmælagöngu, stóðu með spjöld fyrir framan Alþingishúsið og afhentu undirskriftalista í forsætisráðuneytinu.” Mikið af upplýsingum er hengt aftan við frumlag og sögn til að spara pláss og tíma, viðhalda hraðanum.

Kraftur:
Ef höfundurinn vill frekar ná krafti í frásögnina, hægir hann á ferðinni og notar oft fleiri orð en nauðsynlegt er. Hann sameinar ekki setningar í málsgrein, heldur klippir málsgreinar niður í hamarshögg:

“Við höfum tuttugu sinnum ákveðið að flytja burt. Við höfum tuttugu sinnum ákveðið að verða eftir. Við höfum ákveðið að flýja og við höfum ákveðið að berjast. Við trúum ekki því, sem okkur er sagt.”

Kraftur fæst einnig með því að velja áhersluorði stað í málsgrein. Sterkast er að hafa það fremst eða aftast, veikara að hafa það í miðjunni.

Ekki: “Gregor Samsa fann, að hann hafði breyst í risastóra pöddu, þegar hann vaknaði í rúminu um morguninn.” Kafka skrifaði svona: “Þegar Gregor Samsa vaknaði í rúminu um morguninn, hafði hann breyst í risastóra pöddu.”

3. Fjölbreytni og ryþmi:
Lesendur eru ekki bara ánægðir með fjölbreytni í efni, heldur einnig í framsetningu, gott rennsli í einum hluta frásagnar, skorinorðan einfaldleika í öðrum hluta hennar. Gott er að láta kafla hraða og kafla krafts kallast á.

Ryþmi gefur sveiflu í texta. Endurtekning orða gefur styrk. Endurtekning málsliða gefur ryþma. “Engisprettur eyddu ökrum í Utah, ofsaregn spillti túnum í Iowa og kæfandi hiti krumpaði baðmull í Arizona.”
Langar málsgreinar eru yfirleitt ekki æskilegar. En þær geta gengið með réttri skipan orða og aukasetninga.

Langar greinar:
Hér hefur verið talað um venjulegar blaða- og tímaritagreinar frá 1200 orðum upp í 2500 orð. Stundum fá blaðamenn færi á lengri greinum með 10.000 orðum. Á bls. 189-215 í Blundell er rakið dæmi um heillandi tilvik af slíku tagi.

Sjálfsritskoðun:
Ekki skila handritinu strax. Lestu það yfir. Prófaðu að lengja það með atriðum, sem vantar í það. Farðu svo yfir fullyrðingar og rennsli. Klipptu það loks, ekki klippa kafla, heldur orð og setningar. Skerðu það þannig niður um 30%.

Mundu svo: Stíll vex hvergi, þar sem óttinn gengur um garða. Lærðu af rithöfundum. Mest gagn hefurðu af Graham Greene. Hann skrifar sparlega, segir mikið í fáum orðum. Hann skrifar einfalt mál um flókna hluti. Hann skrifar eins og blaðamaður.

Orðalist greina
Sögusmiður málar þegar hann getur. Hann stingur við fótum, þegar hann er farinn að nota orð hugsunarlaust. Spyr sjálfan sig, hvort hann geti ekki notað sértækari orð, meira lýsandi.