0144 Sjónvarp 3

0144

Textastíll
Sjónvarp III

Ljósvakastíll er ólíkur öðrum stíl, af því að hann er skrifaður fyrir eyrað, ekki fyrir augað. Texti, sem kemur frá öðrum aðilum, er umskrifaður, svo að hann henti útvarpi og sjónvarpi. Fréttastofutexti er yfirleitt hugsaður út frá dagblöðum.

Þegar þú færð fréttastofutexta, þá lestu hann, meltu hann og fleygðu honum síðan. Skrifaðu svo það, sem þú manst og horfðu ekki á fréttatextann aftur nema til að sannreyna staðreyndir. Þetta er eina leiðin til að breyta yfir í ljósvaxtatexta.

Ef lesendur dagblaða skilja ekki framsetningu í texta, geta þeir lesið hann aftur. Hlustendur og áhorfendur geta það ekki. Þess vegna þarf ljósvakatexti að vera skýr og einfaldur. Segja þarf hugsanir á einfaldan og snöggan hátt.

Þú finnur muninn, ef þú lest fréttina upphátt. Þá sérðu kosti og galla textans frá sjónarmiði ljósvakans. Svo kann að fara, að þú áttir þig ekki á, hversu flókinn skrifaður texti er, fyrr en þú lest hann upphátt.

Ofhleðsla upplýsinga er algeng. Fyrir ljósvakann þurfum við að klippa flókinn texta niður í stuttar málsgreinar, sem hlustandinn skilur.

Forðist tilvísanir: Sem. Aukasetningar, sem byrja á tilvísunarorði, vísa yfirleitt til nafnorðs, sem kom framar í málsgreininni. Hlustendur átta sig síður en lesendur á, hvert nafnorðið var. Betra er að klippa málsgreinina sundur.

Forðist löng orð: Notaðu stutt orð, ef það er til.
Notaðu “minnisstæður” í stað “eftirminnilegur”.
Notaðu “játaði” í stað “viðurkenndi”.
Forðastu líka orð, sem erfitt er að bera fram.

Samtengingar: Þær geta oft gert ljósvakatexta talmálslegri, en ofnotaðu þær ekki.
Forsetningar: Koma oft í stað eignarfalls, sem er klossað.
Fornöfn: Hafðu ekki of langt á milli nafns og fornafns, svo að ekki misskiljist.

Skýringarsetningar: Hafðu ekki of langt á milli þeirra og orðanna, sem þær skýra. Ekki skrifa: “Árekstur varð í mikilli rigningu á Miklubraut á annatímanum”. Heldur: “Árekstur varð á Miklubraut í mikilli rigningu á annatímanum.”

Forðastu klisjur: Alltof algengar í ljósvakatexta, tíðari en í prenttexta. Í ljósvaka reyna menn stundum að klippa textann niður í hálfgerð stikkorð. Mest er af klisjum í íþróttafréttum, frægast er “Enginn annar en Ingimar Stenmark.”

Ljósvakafréttir þurfa alltaf að vera tengdar núinu. Hlutverk skrifarans er að segja fréttina eins og hún sé að gerast eða hafi verið að gerast, án þess þó að reyna að blekkja hlustendur á því að meðhöndla gamla frétt eins og hún væri ný.

Flestir eru að heyra fréttina í fyrsta skipti. Nútíð og núliðin tíð sagnorða tengir fréttina við núið. Ekki segja: “Alþingismenn luku störfum í dag og fóru heim.”. Heldur: “Alþingismenn eru á heimleið eftir að hafa lokið störfum.”

Ekki: “Formaðurinn hélt fund með stjórninni í dag.” Betra: “Formaðurinn er á fundi með ríkisstjórninni í dag. Ekki: “Stormviðvörun fyrir Vestfirði var gefin út í kvöld.” Heldur: “Stormviðvörun gildir í kvöld fyrir Vestfirði.”

Ekki skrifa: “Forsetinn fór til Akureyrar”. Heldur “Forsetinn er farinn til Akureyrar.” Ekki skrifa: “Áætlunin fór úr skorðum í morgun.” Heldur: “Áætlunin hefur farið úr skorðum. Í morgun …”

Frétt kann að fela í sér atburði, sem gerðust í fortíðinni. Hún getur hafist í nútíð, en flust til þátíðar, svo að orðavalið sé við hæfi. Þú segir ekki: “Hann er á fundi í gær”. En þú getur sagt: “Hann er ánægður með fundinn, sem var í gær.”

Góður texti notar virkar sagnir, ekki óvirkar. Virkar sagnir hraða sögunni og gefa henni vægi, af því að þær setja fókus á atburðinn sjálfar fremur en andlag hans. Dæmi: “Eldur eyðilagði þrjú hús.” Ekki: “Þrjú hús voru eyðilögð í eldi.”

Vertu ekki hræddur við SAGÐI. Sumir reyna að nota önnur orð eins og samheiti, en þau eru yfirleitt ekki samheiti. Öll þessi orð þýða annað en SAGÐI: Lýsti yfir, játaði, samþykkti, hrópaði, upplýsti, fullyrti. Sagði er hlutlaust orð.

Stundum koma lýsingarorð og atviksorð auknum lit í ljósvakatexta, en oftast eru þau þó til vandræða. Þau bæta þá við óþarfri lýsingu, sem bindur textann niður fremur en að lyfta honum upp. Þau fylgja oft óvirkum sagorðum. Finndu heldur virk sagnorð.

Tilvitnanir, beinar eða óbeinar, eru lykilatriði frétta. Í prenttexta kemur óbein tilvitnun á undan, en í ljósvakatexta kemur hún á eftir. Hlustandinn þarf að vita, hver talar, áður en tilvitnunin birtist. Á prenti skiptir það minna máli.

Beinar tilvitnanir eru algengar á prenti, en sjaldgæfar í ljósvaka. Þar er betra að nota hljóðbita, láta viðmælandann tala sjálfan, fremur en að vitna í hann. Það er klossað að þurfa að segja, hvenær tilvitnun hefst og hvenær henni lýkur.