0120 William Strunk

0120

Textastíll
Tíu reglur W. Strunk

Reglur William Strunk um stíl hafa áratugum saman verið biblía bandarískra textahöfunda, jafnt blaðamanna sem rithöfunda.
William Strunk jr & E.B White,
The Elements of Style
3. útgáfa 2005.

1. NOTAÐU BEINAGRIND.
Hafðu meginatriðin í huga, þegar þú sest við skriftir og setur hold og blóð á beinagrindina. Því betur sem höfundur gerir sér grein fyrir skipulagi, þeim mun meiri árangurs er að vænta.

Menn byrja ekki að skrifa til að átta sig á, um hvað þeir eru að skrifa. Menn finna ekki rétta þemað á leiðinni. Menn skrifa sig ekki fram til skilning á því, sem þeir eru að skrifa um. Skipulagið er til fyrst, áður en skrifað er.

2. NOTAÐU MÁLSLIÐI SEM EININGAR. Þegar þú hefur skrifað málslið (paragraff), skaltu líta yfir hann og skoða, hvort megi skipta honum. Gættu þín á mjög löngum málsliðum, þeir eru ekki árennilegir fyrir lesandann. skiptu þeim í fleiri málsliði.

Málsliðir mega ekki vera margar málsgreinar að lengd. Og hver málsgrein má ekki vera mörg orð að lengd. Áður var miðað við, að málsgrein væri ekki lengri en 23 orð. En nú er farið að nota töluna 17 orð. Það er fyrir áhrif sjónvarps, netmiðla og gemsamiðla.

3. NOTAÐU GERMYND SAGNA.
Ekki skrifa: “Fyrsta heimsókn mín til Akureyrar verður mér alltaf eftirminnileg.” Heldur: “Ég man alltaf eftir fyrstu heimsókn minni til Akureyrar.

Ekki: “Það var mikið af föllnu laufi á jörðinni.” Heldur: “Fallin lauf þöktu jörðina.” Ekki: “Leikritahöfundar rómantíska tímans eru nú í litlum metum.” Heldur: “Lesendur hafa núna litlar mætur á leikritaskáldum rómantíska tímans.”

Ekki: “Um morguninn mátti heyra gal hanans.” Heldur: “Hanagalið heyrðist um morguninn.” Ekki: “Ástæðan fyrir því, að hann hvarf úr háskóla, var sú, að heilsa hans hafði bilað.” Heldur: “Vanheilsa knúði hann til að hverfa úr háskóla.”

4. SKRIFAÐU JÁKVÆTT, STERKT, LITRÍKT.
Ekki: “Hann var ekki oft stundvís.” Heldur: “Hann var venjulega seinn.” Ekki: Hún taldi ekki, að það kæmi að gagni að læra latínu.” Heldur: “Hún taldi latínulærdóm óþarfan.”

“Ekki heiðarlegur” verður “óheiðarlegur”. “Ekki mikilvægur” verður “lítilvægur”. “Mundi ekki” verður “gleymdi”. “Treysti ekki” verður “Vantreysti”. Það er betra, að nota orð, sem felur í sér neitun en að nota orðið “ekki”. Orðið “ekki” er veikt orð.

5. NOTAÐU ÁKVEÐIÐ, SÉRTÆKT, HLUTLÆGT MÁL.
Ekki segja: “Þetta var tími óhagstæðra veðurskilyrða”. Heldur: “Það rigndi á hverjum degi í viku.” Ekki segja: “Hann virtist ánægður”. Heldur: “Hann brosti.”

Forðast ber óskýrt orðalag, alhæft og óhlutlægt. Forðist “óhagstæðar efnahagsaðstæður”, “kynferðisleg áreitni”, “vopnaður ágreiningur”. Komist að kjarna málsins með sértæku orðavali.

6. STRIKAÐU ÚT ÓÞÖRF ORÐ.
Ekki “spurningin um hvort”, heldur “hvort”. Ekki “það er enginn vafi á”, heldur “vafalaust”. Ekki “hann er maður sem”, heldur “hann”. Ekki “þetta er málefni, sem”, heldur “málið”. Ekki “ástæðan fyrir því að”, heldur “þess vegna”.

Ekki “vegna þeirrar staðreyndar að”, heldur “því að”. Ekki “vekja athygli þína á þeirri staðreynd að”, heldur “minna þig á”. Ekki “sú staðreynd að honum hafði mistekist”, heldur “mistök hans”.

7. FORÐASTU RÖÐ LOSARALEGRA SETNINGA.
Settu punkt og stóran staf í stað hlutlausra tengingarorða á borð við “og”, “en”, “sem”, “meðan”. Ef þessi orð eru brýn, má nota þau fremst í nýrri málsgrein. Oftast eru óþörf.

8. HAFÐU SAMRÆMI Í ORÐAVALI.
“ÁÐUR voru vísindi kennd af bók, NÚ eru þau kennd í tilraunum.” Athugið mismun á föllum: “Ræða hans einkenndist af tillitssemi VIÐ flokksmenn og fyrirlitningu Á andstæðingum.”

9. HAFÐU TENGD ORÐ SAMAN.
Ekki: “Hann tók eftir stórum bletti á teppinu, sem var í miðjunni.”. Heldur: “Hann tók eftir stórum bletti í miðjunni á teppinu.” Bletturinn er í miðju, en teppið var ekki miðju.

Ekki skilja sundur frumlag og umsögn. Ekki skrifa: “Hundur, ef þú siðar hann ekki til, verður til vandræða”. Heldur þetta: “Ef hundur er ekki siðaður, verður hann til vandræða.”

Ekki skrifa: “Hann ritaði þrjár greinar um ævintýri sín á Spáni, sem voru birtar í Mannlífi.” Betra: “Hann skrifaði þrjár greinar í Mannlíf um ævintýri sín á Spáni.” Ekki skrifa “allir voru ekki viðstaddir”, heldur “sumir voru fjarstaddir”.

10. NOTIÐ SÖMU TÍÐ ÚT Í GEGN.
Ekki: “Hann gekk út úr húsinu og fer síðan upp í bíl.” Heldur: “Hann gekk út úr húsinu og fór síðan upp í bíl.” Eða: “Hann gengur út úr húsinu og fer síðan upp í bíl.”

Reglur William Strunk um stíl hafa áratugum saman verið biblía bandarískra textahöfunda, jafnt blaðamanna sem rithöfunda.
William Strunk jr & E.B White,
The Elements of Style
3. útgáfa 2005.