0123 Tilvitnanir 2

0123

Textastíll
Tilvitnanir II
Þín orð eða mín

Óheft árátta til beinna tilvitnana eða kannski öryggisleysi ginnir blaðamenn stundum. Þeir setja þá inn brot af tilvitnun, eitt eða tvö ómerkileg orð, sem notuð eru á hefðbundinn hátt: “Borgarstjórinn sagði það vera “lykilatriði” áætlunar sinnar.”

Þessi orð kunna hins vegar að vera mikilvæg til að leggja áherslu á orðavalið: Formaðurinn sagði, að Jón Magnússon væri ekki “rasisti” á neinn hátt. Eða: Þegar hann var handtekinn, sagðist Pétur vera “reddari”. Það lætur í ljós efa.

Næst á eftir því að hafa allt rétt eftir í beinni tilvitnun er að láta hana vera í samhengi við textann. Stundum er reynt að stytta tilvitnunina, þannig að óvart verður hún of ákveðin. Mikilvægt þrengingarorð fellur brott eða gamansemi hverfur.

Sérstakar gætur þarf að hafa á stuttum tilvitnunum í inngangi. Ef þar er felld niður aukasetning, sem dregur úr fullyrðingunni, er nauðsynlegt, að aukasetningin komi þar strax á eftir. Það er ekki nóg, að hún komi miklu neðar.

Oft hefur verið vitnað í James Watt innanríkisráðherra Reagans: “Ég veit ekki, hvað koma margar kynslóðir manna áður en Kristur kemur aftur.” Þar vantar þrengingarorð ráðherrans: “Við verðum samt að varðveita auðlindir okkar”.

Alls ekki má breyta spurningu í svar: Blaðamaður: “Finnst þér dómurinn hafa verið rangur”. Viðmælandi: “Ætli það ekki”. Birtur texti: “Hann sagðist telja “dóminn hafa verið rangan.”

Ekki vitna nema í eina persónu í tilvitnun. Ekki vitna í hóp: “Femínistar gerðu hróp að fundarmönnum. “Við samþykkjum ekki dýrkun á karlmannlegri ímynd”, sögðu þær.

Þótt óbeinar tilvitnanir séu ekki eins vandmeðfarnar, er þar að finna svipaðar gildrur. Ekki vitna óbeint í orðalag frá öðrum aðila en þeim, sem vitnað er beint í á sama stað í textanum. Fólk getur haldið, að óbeini textinn sé frá honum.

Stundum þarf að leiðrétta málfræðivillur, sem eru algengar í mæltu máli, en ekki viðurkenndar í skrifuðu máli. Markmiðið með því er ekki að fegra viðmælandann, heldur að létta lífið fyrir lesendum.

Hér er aðeins um plástrun að ræða. Ekki má taka snarvitlausan texta og snúa honum yfir á rétt mál. Stjórnmálamaður svarar á þann hátt, að það sýnir algert skilningsleysi á máli. Þá er nauðsynlegt, að skilningsleysið komi fram í textanum.

Hvað um þá, sem tala vont mál eða tala sérstaka mállýsku hóps. Ef Silvía Nótt segir: “Ég er tremma góð díva,” þá þarf að hafa það óbreytt eftir henni. Það vísar til málfars, sem hún notar, en er ekki hefðbundin villa.

Bölv og ragn og dónaskapur er annar vandi. Samfélagið sættir sig meira en áður við slíkt orðaval á flestum sviðum fjölmiðlunar. Það, sem gengur í sérhæfðu tímariti, gengur kannski ekki í dagblaði, sem höfðar á annan hátt til fólks.

Takmörkin eru breytileg á blöðunum. Venjan er að forðast dægurbundið bölv og ragn og dónaskap. Margir fleiri en Nixon nota slík orð svo óhóflega, að þau virka eins og uppfyllingar í þagnir í töluðu máli. Í slíkum tilvikum er auðvelt að sleppa þeim.

Ef bölv og ragn og dónaskapur er ekki til uppfyllingar, heldur varða málsatriði og varpa ljósi á þau, getur verið nauðsynlegt að birta orðin. “Ég ætla að sparka í litla rassinn á henni,” sagði George Bush eldri.

1) Það er ekki hlutverk blaðamanna að vernda fólk fyrir eigin orðum þess, en það er ekki heldur fagmennska að láta einhvern líta út eins og fífl, þegar hann hefur bara mismælt sig.

2) Ekki er hægt að gefa nákvæma forskrift fyrir mismun á notkun beinnar og óbeinnar ræðu. Valið byggist á aðstæðum, sem eru sérstæðar fyrir hvern texta fyrir sig.

3) Því meira sem bein tilvitnun líkist samtali í formi, þeim mun líflegri er textinn. Orðaskipti valda því, að lesandanum finnst hann taka meiri þátt, vera á staðnum, þar sem talað var.

4) Stuttar tilvitnanir eiga að falla að málfræði setningarinnar.
5) Forðist tvöfalda tilvitnun: “Hann sagðist berjast gegn því, sem hann kallaði “ögrun”.”

6) Sumar tilvitnanir eru orðnar svo útjaskaðar, að þær anga af skítalykt. Þær koma fram aftur og aftur: “Þetta er metnaðarfull tilraun.” “Hræðsluáróður.” “Hann er Baugspenni.” “Þetta er mikill misskilningur.”

Tilvitnanir:
Þín orð eða mín