0145 Sjónvarp 4

0145

Textastíll
Sjónvarp IV

Í ljósvakamiðlum þarf ekki að nota hugtakið Í DAG. Fréttir ljósvakans gerast hvort sem er í dag; taka þarf fram, ef atburðir eru gamlir. Ef hlutir eru að gerast nú, er sagt NÚ, NÚNA, FYRIR STUNDU, FYRR Í KVÖLD, RÉTT Í ÞESSU o.s.frv.

Yfirfærslur eru orðalag, sem tengja saman málsgreinar. Þær geta leitt til mýkra rennslis í fréttum, en eru þó varhugaverðar, því að þær eru oft gervilegar. Ekki: “Páfinn er ekki sá eini, sem á afmæli í dag. Fyrir réttum fimm árum gaus Hekla.”

Notaðu fremur orðin FÓLK eða MANNS heldur en PERSÓNUR. Ekki skrifa: “Fimm persónur slösuðust.” Heldur: “Fimm manns slösuðust.” Athugaðu líka, að orðið MENN nær bæði yfir karla og konur.

Samantekt: Sagnorð eru mikilvæg orð, notuð í germynd, en ekki í þolmynd; í nútíð eða núliðinni tíð, en ekki í þátíð eða þáliðinni. Fólk notar útvarp og sjónvarp til að vita, hvað er að gerast núna. Láttu fréttirnar hljóma nýjar, en þó ekki gervilega nýjar.

Mikilvægt er að finna rétta sagnorðið. Ekki spara mikla notkun á SAGÐI. Leitaðu annars að virku sagnorði, sem kemur í stað nafnorðs + lýsingar eða atviksorðs. Nafn þess, sem vitnað er til, kemur alltaf á undan óbeinni tilvitnun.

Inngangurinn gefur tón þess, sem á eftir kemur. Hann verður að grípa athygli hlustenda og áhorfenda í eins fáum orðum og unnt er. Veiðikrókurinn getur verið spennandi eða dramatísk málsgrein, ögrandi staðreynd eða bein tilvitnun.

Ef sagan er ekki grein, verður hún að hafa einkenni fréttar. Hún verður að takast á við HV-in sjö: Hver, hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna, hvað svo? Í prentmiðlum er reynt að svara nokkrum þessara spurninga þegar í innganginum.

Krafan er ekki eins hörð í ljósvakanum. Þó er nauðsynlegt, að einni eða fleirum þessara spurninga sé svarað þegar í upphafi. Og fréttin í heild á að svara öllum þessum spurningum í prentmiðlum og flestum þeirra í ljósvakamiðlum.

Ekki skrifa hægt: “Colin Powell, formaður herráðsins, hefur hitt blaðamenn.” Heldur hratt: “Colin Powell, formaður herráðsins, sagði blaðamönnum í morgun, að Bandaríkin mundu sennilega hafa her í Írak í nokkra mánuði.”

Hörð byrjun á sögu fer beint í kjarna málsins og segir mikilvægar staðreyndir strax. Hörð byrjun er notuð, þegar frétt fer fyrst í gang. Dæmi: “Fjórir eru á gjörgæslu eftir sjóslysið í gær.” Eða: “Tveir hafa setið inn síðan í gær í fíkniefnamálinu.”

Mjúk byrjun fer mildar af stað, hitar upp, bendir notendum á, að frétt sé að koma aftar í sögunni: “Skemma hrundi í Kópavogi. Fjórir slösuðust.” Eða: “Handtökur í fíkniefnamálinu. Tveir eru í varðhaldi vegna málsins.”

Mjúka byrjunin hljómar ekki eins spennandi eða dramatískt og sú harða, en býður hlustandanum á að fylgjast með. Hún minnir á yfirfyrirsögn í prentmiðli. Hún gefur líka þeim, sem fylgjast óbeint með, færi á að sperra eyrun, og gerir þá tilbúna.

Hörð byrjun er oftar notuð en mjúk. Hin síðarnefnda er notuð til að brjóta upp langa röð frétta, sem allar byrja hart. Ef hins vegar mjúk byrjun er mikið notuð í fréttatíma, hefur hann tilhneigingu til að virka hægfara.

Haglabyssu-inngangur eða regnhlífin er notuð til að sameina tvær eða fleiri sögur, svo að ekki þurfi að kynna hverja fyrir sig: “Sinueldar fóru úr böndum í dag á Mýrum, við Hvanneyri og á höfuðborgarsvæðinu. Þurrkarnir, sem hafa …”

Spennu-inngangur er notaður til að fresta lykilstaðreynd málsins til loka sögunnar.
Frestaður inngangur frestar mikilvægum staðreyndum um nokkrar málsgreinar. Veitir tilbreytni, en má ekki nota mikið.

Ein áhrifamesta leiðin til að halda hlustendum við efnið er að sannfæra þá um, að fréttirnar séu nýjar. Þess vegna þarf að endurskrifa innganginn í framhaldsfrétt. Til þess þarf að koma með nýtt atriði, sem ekki var í síðustu frétt.

Í ljósvakamiðlum eru orðin bara hluti af sögunni. Til viðbótar koma myndir í prentmiðlum, hljóð í útvarpi og hljóð og hreyfimyndir í sjónvarpi. Með því að nýta alla möguleikana getur sjónvarp sagt marga hluti í 20 sekúndna frétt.

Sérstaða fréttatexta í útvarpi og sjónvarpi er, að þjappa verður efninu saman og skilja eftir það, sem síst er mikilvægt, án þess að skekkja söguna eða skekkja staðreyndir málsins. Sumar staðreyndir má segja í hreyfimyndum.

Sjónvarp
Ljósvakastíll er ólíkur öðrum stíl, af því að hann er skrifaður fyrir eyrað, ekki fyrir augað.