0146 Sjónvarpstexti 1

0146

Textastíll
Skýr sjónvarpsskrif I

Langir titlar manna trufla oft eðlilegt flæði sögu. Oft er gott að slíta nafn og titil í sundur: “Vilhjálmur Egilsson vill taka upp evruna. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði á hádegisfundi …”.

Í ljósvakamiðlum tala viðmælendur sjálfir. Orð þeirra eru ekki endursögð af fréttaþul. Endursögn skapar vandamál í tengslum við, að jafnan þarf að vera skýrt, hvað er haft eftir hverjum. Segulbandið leysir þann vanda.

Ljósvakamiðlar flytja notandann á vettvang atburða. Ljósvakamiðlar eru sakaðir um að láta stjórnast af myndskeiði og hljóði. Þeir reyni frekar að skemmta fólki en að upplýsa það. Þetta byggist á misskilningi á samhengi myndar, hljóðs og texta.

Það eru fréttirnar sjálfar, ekki hljóðið eða myndin, sem ákveða, hvernig þær eru sagðar eða sýndar. Hljóð og mynd gera söguna hins vegar auðskilda og skilja eftir meiri áhrif. Tilvist bands hefur áhrif á, hvernig texti er skrifaður.

Viðtöl á vettvangi eru hljóðbitar, sem gegna sama hlutverki í útvarpi og sjónvarpi og tilvitnun gerir í prentmiðli. Hljóðið færir ekki aðeins sögð orð, heldur líka hugarástand þess, sem talar, og tilfinningu fyrir aðstæðum á staðnum.

Auðveldasta hljóðið er viðtal við vitni. Fréttagildi þess er augljóst og auðvelt er að búa það undir flutning. Þú segir, að einhver hafi séð eitthvað og setur viðtalið í gang. Stundum er það svo grípandi, að þú byrjar á viðtalinu.

Annað dæmi um hljóð er viðtal við málsaðila, sem skýra áhrif sögunnar. Þeir tala frítt út á bandinu og segja oft hlutina eðlilegar og óformlegar en blaðamaður eða fréttaþulur mundi gera. Bandið er besta leiðin til að flytja notanda á staðinn.

Þriðja dæmi um hljóð er viðtal eða hljóðbiti, sem bætir hlustendum og áhorfendum það upp, að blaðamaður getur ekki verið sorgmæddur eða furðu lostinn, heldur verður að vera í jafnvægi, með hemil á tilfinningum og dálítið formlegur.

Lengd hljóðbita getur einkennt stíl stöðvar. Því styttri sem meðalbitinn er, þeim mun hraðari er fréttaflutningurinn. Almennt má hljóðbiti ekki vera svo langur, að hann missi fókus. Það þýðir að viðtöl eiga að vera frá 10 sekúndum upp í 30 sek.

Hafa þarf í huga, að menn hlusta á útvarp við mismunandi góðar aðstæður, til dæmis í þungri umferð. Þess vegna er mikilvægt, að hljóðið sé skýrt og ótruflað í útsendingum. Það takmarkar möguleika á notkun bakgrunnshljóða.

Þegar talað er á erlendum tungumálum, er byrjað á viðmælandanum, en síðan lækkað niður í honum, en ekki skrúfað alveg fyrir, meðan þýðing máls hans er flutt. Í lokin er oft hækkað í viðmælandanum aftur til að færa notendur nær veruleikanum.

Sum hljóð- og myndbönd hafa enga rödd, heldur segja frá aðstæðum, náttúrulegum hljóðum. Þau geta verið bakgrunnur fyrir rödd og magnað það, sem hann segir. Þetta gerir brýnt, að hljóð og rödd falli eðlilega saman.

Mikilvægt er að byrja á bakgrunnshljóðinu til að stimpla inn aðstæður á staðnum, áður en röddin byrjar. Mikilvægt er að lækka ekki of mikið í hljóðinu í bakgrunni, þótt röddin sé í forgrunni.

Ef notaðar eru textalínur í sjónvarpi er með nafni viðmælandans hægt að spara tímann, sem fer í að segja frá, hver hann sé. Í útvarpi verður hins vegar að segja frá nafninu, því að þar er ekki hægt að koma því á framfæri á annan hátt.

Gott er að flétta saman hljóði og lestri í sjónvarpi, skipta á milli þess eftir aðstæðum, láta stundum viðmælandann tala og stundum nota frásögn þular, en láta myndina ganga á meðan. Ekki láta lestur endurtaka það, sem viðmælandi segir.

Þú þarft að segja flókna hluti með einföldum orðum, málsgreinum og málsliðum. Framsetningin þarf að vera línulaga, af því að notandinn heyrir textann bara einu sinni. Hver staðreynd á að koma í rökréttu framhaldi af fyrri staðreynd. Sjónvarp er línulaga.

Richard Lederer: “Notaðu stutt, gömul orð, ef þú getur. Ef langt orð er nákvæmt, skaltu samt nota það. En áttaðu þig á, að tungan er full af skýrum og hröðum, stuttum orðum. Gerðu þau að beinagrindinni. Þau eru vinir, sem ekki svíkja þig.”

Af hverju nota langt orð, þegar stutt orð dugar. Forðastu líka að nota flókin orð, sem eru erfið í framburði. Margir nota stærri, formlegri orð, af því að þeim finnst sagan fá við það meira vægi. Forðastu þá freistingu.

Skrifaðu einfaldar málsgreinar. Láttu hvert orð skipta máli. Tími í lofti er takmarkaður. Sérhvert orð, sem þú sparar, gefur tíma annars staðar til að gefa notandanum fleiri og betri fréttir. Markmiðið er að bæta textagerðina.

Önnur ástæða fyrir stuttum orðum og málsgreinum er, að fólk hugsar á þann hátt. Fólk hugsar líka óformlega. Notaðu mælt mál og algengt mál, eins og fjölskylda þín og vinir mundu nota. Segðu “könnuðu”, ekki “framkvæmdu skoðanakönnun”.