0138 Tegundir greina 1

0138

Textastíll
Tegundir greina I

Þegar ritstjórar eru spurðir, hver sé helsti galli handrita, segja þeir: Vont skipulag. Þetta vonda skipulag á vinnu blaðamannsins stafar af slakri hugsun, sérstaklega á fyrstu stigum málsins, þegar áætlanir skipta mestu máli.

Lögmálin um lesandann:
A. Stríddu mér. Komdu með agn. Gefðu mér ástæðu til að hefja lestur.
B. Segðu mér, hvað vakir fyrir þér. Um hvað snýst sagan eiginlega?
C. Þú verður síðan að sanna mál þitt, sýndu mér rökfræðina.
D. Ég kaupi söguna. Skýra, sterka sögu með fínum enda.

Fyrsti lestur:
Nú er kominn tími til að lesa söguna yfir og pússa aðalþema hennar, sem er mikilvægasti hluti söguþráðarins. Mundu að leggja áherslu á atburði, hreyfingu. Aðalþemað þarf að vera vönduð smíði, stutt eða langt eftir atvikum.

Endirinn er líka mikilvægur. Hlutverk hans er að festa söguna í minni lesenda. Þar á ekki að segja staðreynd í fyrsta sinn í sögunni eða lýsa atburði í fyrsta sinn. Endirinn er oftast endurtekning með nýju og betra orðalagi. Hann er það, sem lesandinn man eftir.

Annar lestur:
Blundell semur efnisskrána ekki út frá viðmælendunum, heldur út frá þáttum sögunnar. Efnisskráin hjálpar til að ná utan um söguna í heild, hvar í henni er hægt að fjalla um ákveðin efnisatriði. Annars gleymast sum efnisatriði.

Það er pirrandi að þurfa að endurlesa löng viðtöl til að finna atriðið, sem maður heldur, að hafi komið þar fram, til dæmis ákveðin tala. Betra er að hafa atriðið í efnisskrá. Flokkaðu í forsögu, sögusvið, gildi, áhrif, gagnverkanir, framtíð.

Hleðslusteinasaga:
Flokkun efnisins í atriði, sem varða forsögu, sögusvið, gildi, áhrif, gagnverkanir og framtíð gerir blaðamanninum kleift að raða þeim upp í sögunni næst á eftir aðalþemanu. Úr þessu verða til blokkir, hleðslusteinar af texta.

Haltu skyldu efni saman í textanum. Efnisskráin auðveldar þér það. Þú ert kominn fyrst með inngang, síðan með aðalþema og loks með hleðslusteina skyldra atriða, sem koma hver á fætur öðrum inn í textann og búa samanlagt til sannfærandi sögu. Næst er að raða upp þessum hleðslusteinum.

Hleðslusteinaaðferð við greinaskrif hentar best, ef engin ein persóna einokar söguna og þegar margir þættir koma að einni atburðarás. Með því að flokka slíka sögu í hleðslusteina er hún gerð aðgengileg lesendum.

Tímaþráðarsaga:
Farðu oft út af tímaþræði sögunnar, en ekki lengi í hvert sinn. Lýsingar og útskýringar, fræðsla og athugasemdir og einkum tilvitnanir eru nauðsynlegir útúrdúrar, sem samt mega ekki skyggja á sjálfan söguþráðinn í tímaröð.

Útúrdúrar skapa fjölbreytni og koma upplýsingum á framfæri, en þá skortir hreyfingu, atburðarás og verða leiðinlegir aflestrar, ef þeir fara úr hófi. Þess vegna þarf að hafa á þeim stranga gæslu.

Þemasaga:
Þessi saga er með skilaboð. Í stað þess að rölta í réttri tímaröð gegnum hana, hamrar höfundurinn á nokkrum atriðum, sem hann vill setja í kastljós. Hann getur byrjað á dramatískustu atriðum fyrst, þótt það sé ekki í réttri tímaröð.

Ef þú átt mjög erfitt með að skrifa innganginn, geturðu frestað honum, þangað til sagan liggur öll í tölvunni. Áður en þú veist af, liggur eðlilegur inngangur ljós fyrir þér. Hugsunin við vinnslu greinarinnar framkallar eðlilegan inngang.

Lykilatriði frásagnar:
Þegar við skrifum, tökum við hundruð lítilla ákvarðana um, hverning við sníðum til efnið. Sérhver saga hefur sínar eigin ögranir við okkur sem fagmenn. Flestar sögur kalla líka á almennar ákvarðanir, sem gagnast okkur aftur og aftur.

Lesandi dagblaðs skannar síður af kæruleysi og óþolinmæði. Hann vill vera gripinn í fyrstu málsgrein og að sagan þróist hratt í lestri. Hann biður höfundinn um að stríða sér og ögra í upphafi og gefi sér síðan ástæðu til að lesa áfram.

Loksins þegar lesandinn er búinn að lesa nokkrar línur, er hann búinn að festa áhuga sinn á henni og þolinmæði hans eykst. Ein besta leiðin til að fanga lesandann í innganginum er að hafa þar ráðgátu, spennusögu.

“Dag nokkurn í skólafríinu í sumar var drengur að nafni Billy Shannon á Don Cesar ströndinni. Hann var að synda í Mexikóflóa úti við dýptarmerkingarnar. Hann fann eitthvað gúmkennt strjúkast við fótinn og sá ugga yfir sjónum.”

Í innganginum eru ekki smáatriði, ekkert truflar hann. Það er góð aðferð við að hefja sögu. Þungur og flókinn inngangur fælir lesandann. Með því að hafa innganginn einfaldan, kemst ráðgátan, spennan sterkt í gegn.

“Með 346 farþega auk áhafnar tók DC-10 flugvél frá tyrkneska ríkisflugfélaginu sig á loft frá Orly flugvelli við París á leið til London. Í 12.000 feta hæð kom svo skelfingin.”