0101 Alþýðustíll 1

0101

Textastíll
Alþýðustíll I
Skrifaðu eins og fólk,
ekki eins og fræðimenn

Matthew Arnold:
Hafðu eitthvað að segja
Jónas Kristjánsson:
Stuttur stíll er skýr og skýr stíll er spennandi.

Góður stíll felst alls ekki í að kunna rétta stafsetningu. Menn geta fyrst byrjað að fást við stíl, þegar þeir kunna stafsetningu. Stafsetning er bara forsenda, sem allir þurfa að kunna. Hún er ekki millistöð og hvað þá endastöð í leit okkar að góðum stíl.

Rétt stafsetning er nauðsynleg en ekki fullnægjandi. Stafsetning er endastöð í námi í íslenzku. Nám í stíl er hins vegar fjölþjóðlegt. Reglur um stíl eru hinar sömu viða um heim indóevrópskra tungumála. Amerískur stíll er hinn sami og íslenzkur stíll.

Kvartað er yfir amerískum áhrifum á íslensku. En það er ekki góð ameríska, sem spillir íslensku. Það sem menn kvarta um, er yfirfærsla á vondri amerísku. Vond ameríska verður vond íslenska. Góð ameríska er hins vegar svipuð góðri íslensku.

Góður stíll er Halldór Laxness og Íslendingasögurnar. Góður stíll er Ernest Hemingway og George Orwell og Graham Greene. Alls staðar nota menn sömu aðferðir við að spúla texta og snurfusa hann. Svo að hann verði frambærilegur fyrir venjulegt fólk.

Stíll menntamanna: “Skilningur á orsakasamhengi í tengslum við óhóflega drykkju þeirra gæti leitt til betri meðferðar þeirra.”
Stíll almennings, Íslendingasagna og Halldórs Laxness: “Við gætum hjálpað þeim, ef við skildum hvers vegna þeir drekka úr hófi.”

Hér verður kenndur stíll fólks. Þess vegna þurfa háskólamenn að umpólast á þessu námskeiði. Til að skrifa góðan stíl, þurfa menn að sleppa úr greipum bureaucratese, legalese, academese, journalese. Þetta eru angar af kansellístíl, málfari einstakra hópa.

Menntamenn nota ekki einföld sagnorð. Þeir breyta “brjóta”, “stöðva”, “drepa” í nafnorð eða lýsingarorð, í heilar setningar. Þær hengja þeir á alhæfð sagnorð á borð við “gera” og “vera”. Nota þolmynd í stað germyndar, “kannað var” í stað “ég kannaði”.

C. Wright Mills: “Flókinn stíll fleirkvæðisorða ræður ríkjum í félagsvísindum. Þessi torskildi stíll stafar ekki af flókinni hugsun. Hann byggist nánast eingöngu á ruglingi í höfði menntamanns um, hver sé staða hans í tilverunni.”

Douglas Chadwick (NYT): “Oft skiljum við þeim mun minna, þeim mun meira sem höfundar útskýra. Apar virðast skilja það, sem aðrir apar segja þeim. En vafasamt er, að vísindamenn skilji það, sem aðrir vísindamenn segja þeim.”

Tom Goldstein, NYT: “Í tímaritum lögfræðinga, í ræðum þeirra, í fyrirlestrum og í dómsölum, eru lögmenn farnir að hafa áhyggjur af, að þeir skiljist ekki. Og þeir eru farnir að uppgötva, að þeir skilja ekki einu sinni hver annan.”

“Viðurkenning á þeirri staðreynd, að kerfi í málfræði eru breytileg frá einu tungumáli til annars getur verið grunnur að alvarlegri skoðun á vandamálum, sem þýðendur stórverka í heimsbókmenntum standa andspænis, þegar þeir þýða af öðrum málum en ensku.” Vont.

Þetta er helmingi styttra á máli almennings og þýðir þar: “Þegar við skiljum, að tungumál hafa misjafna málfræði, getum við skoðað vandamál þeirra, sem þýða heimsbókmenntir yfir á ensku.” Í stað 38 orða eru hér komin 19 orð.

Allir hópar fræðinga hafa sérstakt tungumál. Embættismenn notuðu kansellístíl áður fyrr. Læknar og lögmenn hafa sitt tungumál nú á dögum. Unglingar hafa sérmál. Alltaf eru menn að greina sig frá fjöldanum, varpa þoku á texta, svo að hann skiljist ekki fólki.

Dæmi: Í fræðiritum nútímans er talið gróft að segja: “Ég kannaði skoðanir Skagamanna á pólitík.” Í staðinn eru höfundar látnir segja: “Framkvæmd var athugun á dreifingu skoðana íbúa Akraness á atriðum, sem varða afstöðu þeirra til stjórnmálaflokka.”

Vondur stíll einkennist af löngum málsgreinum og löngum málsliðum. Af of lítilli notkun sagnorða og hossi á stirðum nafnorðum. Af of mikilli notkun lýsingar- og atviksorða og smáorða yfirleitt. Af notkun þolmyndar og af stöðugum klisjum og endurtekningu.

Góður stíll einkennist af stuttum málsgreinum og -liðum. Af sagnorðum á kostnað nafnorða, lýsingarorða, atviksorða, smáorða og klisjusetninga. Af frumlagi nafnorða og germynd sagnorða. Einkum þó einkennist hann af harðri útstrikun hvers konar truflana.

Margir skrifa vondan stíl, því að þeir frjósa, er þeir horfa á skjáinn. Þeir leita skjóls í úreltum reglum um stíl úr háskólahefðum um ritgerðir. Aðrir skrifa illa, af því að þeir eru hræddir. Þeir líta á texta sem fljót, sem þeir geti stigið yfir, með því að tipla á nafnorðum.

Svo reyna sumir bara að gera sig merkilega með því að blása froðu inn í textann. Algengast er þó, að menn skrifi illa, af því að þeir skilja ekki, hvernig fólk les texta. Og hvernig það getur ekki lesið texta. Lykillinn að lausninni er að hugsa og skrifa einfaldan texta.

Reglur Jónasar um stíl:
1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd, andlag og viðtengingarhátt.
8. Hafðu innganginn skýran og sértækan.
-Sjá www.jonas.is