0142 Sjónvarp 1

0142

Textastíll

Sjónvarp 1
Ernest Hemingway: “Steffens, sjáðu þetta skeyti, engin fita, engin atviksorð, engin lýsingarorð, ekkert nema blóð og bein og vöðvar. Þetta er nýtt tungumál.

Ernest Hemingway var frábær fréttamaður. Hann skrifaði skáldsögur sínar í harðsoðnum fréttastíl. Í fréttamennsku lærði hann að fara sparlega með orð. Við skulum sjá, hvað hann segir í Gamla manninum og hafinu:

“Hann var gamall maður, sem fiskaði einn á báti í Mexikóflóa og hafði róið í 84 daga án þess að draga fisk. Fyrstu 40 dagana var drengurinn með honum. En eftir fisklausa 40 daga höfðu foreldrarnir sagt drengnum, að gamli maðurinn væri ógæfa, …

… sem er verri en óheppni. Drengurinn hafði fyrir orð þeirra fært sig á annan bát, sem veiddi þrjá góða fiska í fyrstu vikunni. Það hryggði drenginn að sjá gamla manninn koma inn á hverjum degi. Hann fór alltaf og hjálpaði honum að …

… bera kaðlana og rána og skutulinn og seglið, sem var vafið um mastrið. Seglið var bætt með hveitisekkjum og þegar það var þanið, leit það út eins og fáni samfellds ósigurs. Gamli maðurinn var magur og beinaber með djúpar hrukkur aftan á hálsi.

… Brúnir blettir góðkynjaðs húðkrabba af völdum endurkasts sólarinnar frá heitu hafinu voru á kinnum hans, láku niður andlitið. Og hendurnar voru með djúp ör af völdum fiskveiðanna. En örin voru gömul eins og rof í fiskilausri eyðimörk.”

Sögumenn fréttamennsku geta lært mikið af rithöfundum, eins og Hemingway lærði mikið af blaðamennsku. Allar sögur, hvort sem þær eru fréttir eða skáldsögur, þurfa að hafa innri gerð, rökrétta áætlun með upphafi, miðju og enda.

Gott er að vera þolinmóður, þangað til þú finnur rétta orðið. Mark Twain: “Munurinn á rétta orðinu og næstum rétta orðinu er munurinn á eldingu og eldflugu.”

Listin að skrifa sögur, fréttir eins og aðrar sögur, er að skera, skera, skera. Taktu út allt skrautið, sem þú ætlaðir að nota, taktu burt allt það sem truflar auðveldan lestur, og þú ert kominn með betri sögu. Sem sagt: Hafðu það einfalt.

Öflugur texti fyrir ljósvaka:
1) Einföld málsgrein með sagnorði í germynd.
2) Notar málvenju og myndmál talmáls.
3) Sameinar texta, hljóð og mynd.
4) Upplýsir, blindar ekki.

Næstum allt er skrifað niður. “Ad libbing” er sjaldgæft nú til dags.
Endurritanir eru nauðsynlegar, líka endurritanir efnis annarra höfunda.
Hæfni þarf til að skrifa undir álagi og standast tímasetningar.

Ljósvakamenn líta aðeins öðrum augum á málin en prentmenn.
Lengd sögu í sjónvarpsfrétt er 20-30 sekúndur, hámark 2 mínútur.
Þess vegna eru þar notaðar sögur, sem aðeins henta útvarpi eða sjónvarpi.

Forðist atviksorð og önnur smáorð, notið sagnorð og nafnorð. Notið framsöguhátt, germynd. Notið stuttar setningar. Ljósvakafréttir þurfa að ná athyglinni í upphafi, segja þar ekki alla söguna. Fella þarf út upplýsingar til að koma frétt fyrir.

Ekki er notaður öfugur píramídi, heldur “leikræn eining”. Hápunktur, orsök, áhrif.
Píramídann er hægt að klippa að neðan, en leikræna einingu ekki.
Ljósvakafréttir þurfa að ná athyglinni í upphafi, segja þar ekki alla söguna.

Tólf ljósvakareglur:
1. Forðist skammstafanir. Notið aðeins þær allra algengustu, sem allir þekkja.
2. Forðist beinar tilvitnanir. Erfiðar í töluðu máli án gæsalappa.
3. Getið heimildarmanns á undan tilvitnun.

4. Notið lítið af greinarmerkjum. Þau trufla bara upplestur.
5. Sléttið tölur og vísitölur. Nákvæmar tölur henta ekki töluðu máli.
6. Persónugerið fréttirnar, svo að hlustandinn, áhorfandinn fái áhuga.

7. Forðist að nota tákn á leturborðum. Skrifaðu dollara og pund fullum stöfum.
8. Notið hljóðskrift fyrir erfið nöfn. Skrifið “ka-RA-kas” (Cara-cas) vegna áherslunnar.
9. Forðist fornöfn. Vertu viss um, að þau vísi rétt á nöfn.

10.Forðist innskotssetningar eftir mannanöfnum. Þær geta valdið misskilningi.
11.Notið nútíð sagna. Það færir fréttirnar nær líðandi stund.
12.Notið ekki aukasetningu í upphafi málsgreinar. Slíkt truflar notendur.

Sjónvarpsfréttir: Stuttar málsgreinar, kunnuglegt orðaval, skýr framsetning. Lengdin passar. Nútíð sagnorða. Persónuleg framsetning. Heimildarmanns getið framan við tilvitnun. Tölur notaðar sparlega og sléttaðar út.