0107 Klisjur 1

0107

Textastíll
Klisjur I
Forðastu klisjur, þær voru
sniðugar bara einu sinni

Skrifaðu eins og fólk,
ekki eins og fræðimenn
Settu sem víðast
punkt og stóran staf.
Strikaðu út óþörf orð,
helmingaðu textann.

Þetta voru fyrstu þrjár reglurnar um stíl. Þessi kafli fjallar um fjórðu regluna:
Forðastu klisjur
þreyttra blaðamanna.

Persóna í leikriti Moliere var hissa að fá að vita, að hann hefði talað prósa alla ævi. Eins eru sumir blaðamenn hissa að fá að vita, að þeir hafi skrifað blaðamannaklisjur alla ævi.

Fæstar fréttastofnanir eru lausar við sjúkdóminn. Reyndir og frægir blaðamenn láta sumir eina og eina fagklisju sleppa í gegn. Við getum ekki kennt opinberum sérfræðingum um þetta. Þær eru okkar eigin villur, ræktaðar af blaðamönnum.

Sjúkdómurinn hófst í gamla daga, þegar drykkjumenn byltu sér í dálkum dagblaða. Við búum enn við klisjur þeirra: Áríðandi, kaldhæðnislegt, sögulegt, einstætt. Við hafa bæst nýjar klisjur: Senda skilaboð, markmið, kynþokki, svo sannarlega.

Wilson Follett: “Almennt felur blaðamannaklisja í sér ýktan æsing. Er staðreyndir málsins fá ekki hjarta lesenda til að slá hraðar, telur blaðamaðurinn það vera skyldu sína að nota spora og svipu andstuttra og mikið notaðra frasa.”

Enginn talar svona: “Ég tek hreinskilnislega fram, að áhyggjur mínar hafa farið vaxandi undanfarnar vikur og síðasti atburðurinn hefur svo sannarlega aukið gremju mína. Hvað fær unga fólkið til að efna til eilífra uppþota við Tjörnina?”

Ekki: “Spenna magnaðist milli tveggja þingmanna frá Suðurlandi í fjárlaganefnd þingsins.” Heldur: “Tveir sunnlenzkir þingmenn rifust opinberlega í fjárlaganefnd Alþingis.”

Ekki: “Mikhail Gorbatsjof forseti fékk í gær friðarverðlaun Nóbels fyrir að draga úr spennunni í alþjóðamálum.” Betra er: “Mikhail Gorbatsjof forseti fékk í gær friðarverðlaun Nóbels fyrir að taka þátt í að enda kalda stríðið.”

Fleiri blaðamannaklisjur: Brennandi eldur, vítisturn eldsvoðans, glæsilegt veitingahús, alger stöðvun, logar brustu. Menn “kveikja í brennandi ágreiningi” í pólska þinginu. Jarðskjálftar eru “öflugir”, áhorfendur eru “skelfingu lostnir”.

Lögreglumenn eru “veifandi kylfum”, glæponar eru “veifandi hnífum”, hermenn eru “þungvopnaðir”, óeirðir “blossa upp”, atburðir eru sem “olía á eldinn”, ráðherra “sendir skilaboð” með torskildum texta, “mælir með” eða “veifar sáttatilboði.”

Endalaust lýsa menn áhyggjum út af öllu. Ísrael hefur áhyggjur af (óttast) Hamas. Borgarstjórn hefur áhyggjur (er undrandi á) af háum tilboðum í lóðir. Rússar hafa áhyggjur af (áhuga á) efnahagsmálum. Ég hef áhyggjur af (samúð með) Sómölum.

Þegar eitt hugtak verður yfirþyrmandi og ryður öðrum til hliðar, er það gott dæmi um blaðamannaklisju. New York Times er hins vegar dæmi um fjölmiðil, sem forðast slíkar klisjur. Það skrifar einfaldan og tilgerðarlausan stíl, sem allir geta skilið.

Blaðamannaklisja er eins og Stóri Dani, sem aldrei hefur vaxið upp úr því að vera hvolpur. Hann flaðrar upp um gesti og slefar á andlit þeirra. Það er svo sem hægt að kalla það aðferð við að ná athygli, en hún er ekki sú besta.

Blaðamannaklisjur fela í sér hugsunarleysi. Skrif fela ekki í sér að raða upp þekktum klisjum. Þau felast í að velja orð fyrir orð það, sem hentar textanum. Samuel Johnson sagði: “Það sem er skrifað án áreynslu, er yfirleitt lesið án ánægju.”

Í ensku hefur á síðustu árum verið lögð mikil áhersla á félagslegan réttrúnað í skrifum, “þau”, ekki “þeir”. “Karlar og konur”, ekki “menn”. Í stílbók AP er lögð áhersla á, að ekki sé alltaf gert ráð fyrir, að viðkomandi sé karl. Gera má ráð fyrir slíkri kröfu hér líka.

Og/eða er vinsælt hugtak í lögfræði. Látið lögfræðingana um það, blaðamenn geta alltaf forðast og/eða. Sama er að segja um hugtakið “ef einhver”: “Sá sem vill, ef einhver, gera þetta …”

Það er ekkert rangt við notkun viðtengingarháttar, en hann er yfirleitt óþarfur í blaðamennsku og leiðir þar til erfiðari lestrar. Í blaðamennsku er verið að tala í framsöguhætti um staðreyndir, en spekúlasjónir látnar eiga sig.

Margir höfundar grýta punktaröðum og bandstrikum í textann til að lífga upp á hann. En þessi fyrirbæri líkjast að því leyti semikommum og svigum, að þau eiga betur heima í stærðfræði. Í blaðatexta hafa þau truflandi áhrif.

4. regla Jónasar
Forðastu klisjur, þær voru
sniðugar bara einu sinni.