0115 Aðskotaorð 1

0115

Textastíll
Aðskotaorð I
Sparaðu lýsingarorð, atviksorð,
þolmynd og viðtengingarhátt

Forðastu aðskotaorð, lýsingar- og atviksorð, þau veikja söguna. Forðastu: of, mjög, nokkuð, fremur, eins konar, dálítið, allnokkuð, einfaldlega, nokkurs konar). Forðastu aukaorð yfirleitt. “Farið var” komi í stað “Það var farið”.

Ekki þurfa öll nafnorð að hafa lýsingarorð. Ekki þurfa öll lýsingarorð að hafa atviksorð. Mark Twain sagði: “Þegar þú nærð í lýsingarorð, skaltu drepa það.” Þau eru vani og það er eins erfitt að losna við þau og hverja aðra fíkn.

Sterkur fréttastíll reiðir sig á nafnorð og sagnorð. Ef þú velur þau rétt, þarftu ekki aðskotaorð á borð við lýsingarorð og atviksorð. Notaðu lýsingarorð til að skýra mál þitt, en ekki sem skraut eða bakþanka.

Ekki hlaða utan á nafnorð, sem geta staðið sjálf óstudd. Ekki segja: Alvarleg hætta, baneitrað eitur, algerlega sannað, mikil nálægð, fullkomin einokun, alveg fullt, endanleg niðurstaða, nákvæmlega hornrétt, framtíðaráætlun

Ekki heldur segja: Leigður málaliði, líflaust lík, meiningarlaus þvæla, gagnkvæmt samstarf, nýtt met, gömul þjóðsaga, upprunalegur stofnandi, sýnilega augljóst, persónulegur vinur, persónuleg skoðun.

Sama er að segja um atviksorð. Ekki segja: Mjög brýnt, sérstaklega óvenjulegt, afar alvarlegt, fara örugglega, tiltölulega auðvelt, hlutfallslega mikið. Atviksorð auka bara við hávaðann, en segja ekkert í viðbót.

“Tiltölulega fáir þingmenn voru mættir.” “Hlutfallslega eru mikil meiðsli í fótboltanum í sumar.” “Dómstóllinn var sakaður um óþarflega frjálsa túlkun stjórnarskrárinnar.” “Hitinn fór upp í mjög hættulegar gráður.”

Aðskotaorð: Við þurfum þau, ef óvissa er í málinu. Þú getur þurft að nota orðin: Sennilega, ef til vill, næstum, almennt séð, meintur, að grunni til. Margir nota þau samt, þótt textinn sýni að öðru leyti, að ekki sé um neina óvissu að ræða.

“Það má sennilega segja það með fullri vissu.” “Hinir grunuðu játuðu að hafa framið hið meinta afbrot.” “Sádi-Arabía er næstum stefnuföst.” “Að grunni til er Bónus að breyta verðstefnunni.” “Þeir reyna að sleppa við hugsanlegt verkfall.”

Látið sagnorðin vinna: Ekki “urðu fyrir sáru hungri”, heldur “sultu”. Ekki “bærinn sýndi sameiginlega sorg”, heldur “syrgði”. Ekki “ákvað sannleiksgildi”, heldur “sannreyndi”. Ekki “sýndi fram á eindregin sönnunargögn”, heldur “sannaði”.

Ekki “gaf leyfi til að”, heldur “leyfði”. Ekki “héldu fund”, heldur “funduðu”. Ekki “náðu samkomulagi um”, heldur “sömdu um”. Ekki “lagði inn uppsagnarbréf”, heldur “sagði upp”. Ekki “viðskiptabann hafði áhrif á söluna, heldur “minnkaði”.

Vertu stuttur, kunnuglegur, nákvæmur:
Taktu stutt orð fram yfir langt. Taktu kunnuglegt orð fram yfir hrifnæmt. Taktu nákvæmt orð fram yfir óhlutlægt. Notaðu ekki fleiri orð en þarf til að gera meininguna skiljanlega.

Íbúð, ekki vistarverur. “Um”, ekki “um það bil”. “Loka”, ekki “gera óvirkt”. “Leita”, ekki “framkvæma leit”. “Þar sem”, ekki “vegna þess að”. “Aðferð”, ekki “aðferðafræði”. “Kaupa”, ekki “versla sér”. “Kanna”, ekki “framkvæma rannsókn”.

Fangaðu aðskotaorðin: Ef þú notar þrengingu, skaltu hafa hana við orðið, sem hún þrengir, ekki langt frá. “Gotbatsjof sást síðast, þegar hann talaði við bandaríska enskukennara í Moskvu” Betra: “… sást síðast í Moskvu, þegar hann talaði við bandaríska …”

Ekki: “Lögreglan fann líkið troðið inn í skúffu með hjálp miðils.” Heldur: “Lögreglan fann líkið með hjálp miðils. Því hafði verið troðið í skúffu.” Ekki “Maður fannst drepinn af konu sinni.” Heldur: “Kona fann líkið af manni sínum.”

Hver er hver? Þjáningu stafar af fornafni, sem finnur ekki nafnorðið, sem það vísar til. Ekki: “Málverkið er eftir Picasso. Þar er nafn hans og það felur í sér þekkt andlit úr málverkum hans”. Andlitin eru ekki í nafninu, heldur í málverkinu.

Barátta gegn nástöðu: Hún gengur út í öfgar, þegar menn reyna að finna samheiti til að þurfa ekki að endurtaka sama nafnorðið í sífellu. Betra er að nota “Hann, það”, sem vísa til nafnorðsins. Ekki nota líkingar úr fornljóðum: “Ölduhestur.”

Forðastu þolmynd: Notaðu germynd, ef þú mögulega getur. Segðu “Jón framdi glæpinn”, ekki “Glæpurinn var framinn af Jóni”. Þolmynd er sérstakt tæki fyrir embættismenn til að þyrla upp ryki og fela sig í móðunni: “Mælt er með.” “Reiknað hefur verið.”

Ekki: “Logandi kerti voru borin af mótmælendum.” Heldur: “Mótmælendur báru logandi kerti.” Ekki: “Frumvarpið var borið fram af þingflokkum stjórnarinnar.” Heldur: “Þingflokkar stjórnarinnar báru fram frumvarpið.”

Sjöunda regla Jónasar:
Sparaðu lýsingarorð, atviksorð,
þolmynd og viðtengingarhátt