0129 Tónn 2

0129

Textastíll
Tónn II
Innri tónlist orðanna

Blaðamaður deplar ekki auga, glottir hvorki við tönn né les milli lína. Hann segir fréttir og getur svo komið með bakgrunn til viðbótar. Fyrst má tala um innlegg Halldórs Ásgrímssonar í kvótakerfinu og síðar má nefna, að hann eigi í kvótaútgerð.

Ekki gefa í skyn: Í sumum frásögnum rannsóknarblaðamanna er gefið það í skyn, sem rannsókninni tókst ekki að sannreyna: “Þótt ótrúlegt megi virðast, sagði Árni Johnsen ekki frá því í þrjú löng ár, að hann hafði sleppt þessu atriði úr skýrslunni.”

Notuð eru orðasambönd á borð við “þótt ótrúlegt megi virðast”, “eftirtektarverð tilviljun”, “þægilegur eldsvoði”, “sagði hreinskilnislega”, “skellti símanum á”, “fýlulegt svar”. Þarna er ekki verið að segja fréttir, heldur gefa í skyn.

Blaðamaðurinn talar eins og dálkahöfundur eða saksóknari og hefur engin áhrif. Ef þú hefur unnið heimavinnuna, hefurðu röð af sönnunargögnum, sem þú setur fram í einfaldri röð. Lesandinn sjálfur ræður því síðan, hvaða ályktanir hann dregur.

Því minna af tilfinningaþrungnum orðum, þeim mun betra. Því færri einkunnir, sem þú gefur, þeim mun betra. Því minna, sem skotið er inn af skoðunum, þeim mun betra.

Það borgar sig ekki að reyna að þvinga lesandann til fyrirfram ákveðinnar niðurstöðu. Margir neita að láta fara þannig með sig. Ekki má heldur gleyma kröfunni um óhlutdrægni, sem er hornsteinn rannsóknarblaðamennsku.

Gene Roberts: “Ég held, að mörg dagblöð fari flatt á því í rannsóknarblaðamennsku að skilgreina hana sem uppljóstrun um glæpamenn. Þetta setur blaðamenn í hlutverk löggunnar fremur en safnara upplýsinga.” Ritstjórnir eru ekki löggustöðvar.

Roberts áfram: “Aðalatriði rannsóknarblaðamennsku er, að hún grefur og grefur og grefur. Besti textinn er í sjálfu sér útskýrandi, af því að hann setur málin í ljós á svo lifandi hátt, að lesendur sjá málið og skilja textann.”

Óformlegur og afslappaður tónn höfðar til margra, en getur leiðst út í öfgar. Vertu ekki of kumpánlegur, það er eins og þú talir niður til fólks. Ekki segja, að Rússakeisari hafi fengið sparkið 1917. Hann var fangelsaður og síðan drepinn.

Nútíminn hefur breytt um smekk og vill fá fréttirnar ómengaðar. Minna er um hinn siðsama tónn, sem notaði veigrunarorð, kurteisislega umorðun staðreynda. Talað var um “heldri borgara”, ekki gamlingja, “misþroska börn”, ekki tossa.

Froða úr félagsvísindum er mikilvæg rót þessarar tegundar af fínimennsku. Önnur rót er stjórnarráðið og stofnanir þess. “Tekjubætandi aðgerðir” koma í stað “skatta”. “Gengisbreyting” í stað “gengislækkunar” var framlag Jóhannesar Nordal til tungunnar.

Stundum er viðeigandi að nota kurteisi í orðavali. Betra er að segja karl og konu hafa eytt nóttinni saman í stað þess að fara út í smáatriði. Veigrunarorð eru þó óviðeigandi, þegar þau eru notuð til að dylja mikilvægar staðreyndir.

Tónn fer eftir sögunni, viðfangsefninu, hæfni blaðamanns og smekk fréttastjóra. Tónninn er misjafn í Wall Street Journal, New York Times, New York Post og Los Angeles Times. Tónninn er misjafn í Fréttablaðinu, DV, Morgunblaðinu og Blaðinu.

Sameiginlegt er þó, að síðasta hálfa annan áratuginn hafa fjölmiðlar lagt áherslu á einfaldan og óskreyttan tón. Sem talar við lesendur, ekki niður til þeirra, sem skýrir, en predikar ekki, samræðulegan tón, ekki öskrandi tón.

Sagan af McElroy
í Nodaway sýslu.
(AP)

“Hann slóst ekki á götunum. Hann var sérstakur. Hann hræddi sál þína með því að stara á þig. Hann sveiflaði byssu og notaði hana stundum. Ef hann var með þig í sigtinu, elti hann þig. Hann starði þögull á þig og talaði með hvísli. Hann frysti.

Hann fæddist á bæ utan við þorpið. Þegar hann var drengur, datt hann af heyvagni og þurfti að fá stálplötu í höfuðið. Sumir undruðust, hversu illskeyttur hann var. Þetta er lítið þorp, 440 manns, bensínstöð, banki, pósthús, krá, kornturnar.

Kerry McElroy var ekki í stíl við þessa sveitasælu. Þess vegna eru allir fegnir og glaðir núna í Nodaway sýslu, þegar þeir tala um hann í fortíð. Hann er dauður. Enn eimir þó af óttanum, sem fylgdi honum, í nýrri og óvæntri mynd.”

Tónn
Fjölmiðlar leggja áherslu á einfaldan og óskreyttan tón. Sem talar við lesendur, ekki niður til þeirra.