0135 Hráefni 2

0135

Textastíll
Hráefni greina II

Þegar búið er að skrifa uppkast að greininni kann að vera nauðsynlegt að endurskoða aðalþemað í ljósi fyrirliggjandi staðreynda, sem kunna að hafa breytt sýn þinni á málið eða hliðrað henni til.

Aðalþemað fer eftir því, hvort um er að ræða unga eða gamla sögu, nýja sögu eða sögu, sem áður hefur að einhverju leyti verið sögð. Í ungri sögu er aðalatvikið sjálft þemað, en í gamalli sögu felst þemað í áhrifum atviksins og gagnverkunum.

Ung saga: “Skortur á læknum í mörgum sérgreinum hefur haft áhrif á gæði og magn læknisþjónustu”. Gömul saga: “Versnandi læknaþjónusta vegna læknaskorts hefur leitt til málaferla vegna læknamistaka, sem hafa hækkað verð læknatrygginga.”

Einkum eru til tvær gerðir lýsingar. Almenn lýsing er valin, þegar viðfangsefnið er sérstaklega athyglisvert, einstætt eða óvenjulegt. Smálýsing er valin, þegar sagt er frá viðfangsefni, sem er dæmigert, venjulegt, segir sögu um heildina.

Þar sem atburðinn vantar í sögu, sem byggist á lýsingu, þarf að koma öðru á framfæri í aðalþemanu. Það er ekki atburður, heldur þættir úr lýsingu á því máli eða þeirri persónu, sem blaðamaðurinn fjallar um.
(Blundell: Skógarhöggsmenn, bls. 30-36)

Oft leita blaðamenn einfaldra leiða. Þrjú viðtöl verða t.d. að sögu, sem ekki er góð. Skoðaðu málið í ljósi mismunar á atburðarás og lýsingu. Notaðu síðan þá leið, sem virðist leiða til bests árangurs, ekki þá, sem þér finnst vera þægilegust.

Lýsing er oft skelfilega leiðinleg, ef viðfangsefnið er ekki áhugavert. Skoða þarf vel, hvort viðfangsefni í almennri lýsingu sé leiðinlegt og hvort viðfangsefni í smálýsingu eða örlýsingu sé dæmigert fyrir heildina.

Stundum er hægt að leysa málið með því að láta heildarlýsingu leysa lýsingu einstaklings af hólmi, láta marga tala, ekki bara einn. Það skapar blaðamanninum svigrúm til að tryggja, að nóg kjöt sé á beinagrind sögunnar.

Tónn í frásögn getur verið rangur. Þegar sagt er frá Boston Strangler er ekki viðeigandi að láta aðalþemað vera, að verra en áður sé að stunda sölumennsku með því að hringja að dyrum. Þá er sorgaratburði breytt í kaupsýslufrétt.

Algengara er, að yfirleitt vanti tón. Lausn við því er að líta augum rithöfundar á viðfangsefnið, hafa augun opin fyrir gleðileik og sorgarleik, háði eða spennu, er finnst í efninu, sem safnað hefur verið um málið.

Ef þú getur ekki virkjað tilfinningar þínar í skrifum, geturðu ekki virkjað tilfinningar lesandans. Blaðamaður á ekki að gleyma sjálfum sér. Þú átt líka að efast um fólk og stofnanir, sem næstum allir taka alvarlega.

Oft gleyma blaðamenn forsögunni. Við erum að skrifa um nútímann og þar eigum við heima. En stundum leikur fortíðin hlutverk í sögunni. Forsagan getur hjálpað til við að skýra nútímann.
(Blundell: Mitchell-sagan, bls. 44-47)

“Fyrir rúmri öld sigldi ungur liðsforingi, Joseph Ives, í könnunarleiðangri upp Colorado ána. Við djúp gljúfur og hraðan straum árinnar stansaði hann og sagði: “Við erum án efa fyrsti og síðasti hópur hvítra manna í þessu hrjóstri.”

Framtíðin skiptir líka máli í framvindunni: Forsaga-nútími-framtíð. Auk þess hefur hún þann kost, að hún útvegar góðan enda sögunnar betur en aðrar aðferðir.

Þegar búið er að girða af söguna og finna, hvað er innan girðingar, þarf blaðamaðurinn að gera sér grein fyrir að segja söguna á fullnægjandi hátt innan girðingarinnar. Þar koma við sögu: Umfang, staðsetning, fjölbreytni, nánd.

Blaðamaðurinn gerir sér grein fyrir umfangi sögunnar og staðsetningu hennar. Til þess að nálgast fjölbreytni og nánd þarf hann að treysta á reynslu þeirra, sem tóku þátt í atburðarásinni.

Fjölbreytni fæst til dæmis með því að koma með margs konar fyrsta stigs heimildir, sem tóku þátt í atburðarásinni, ekki annars stigs heimildir sérfræðinga eða álitsgjafa.
(Blundell: Slysafræðingurinn, bls. 50-52)

Fjölbreytni fæst líka með því að koma með margs konar staðfestingar. Gullinn meðalvegur reynslunnar eru þrjár staðfestingar, oft notaðar af góðum greinahöfundum.

Tilvísanir í fyrirlestrinum vísa til greina og blaðsíðna í bók Blundell: The Art and Craft of Feature Writing.
Sjá heimildaskrá.

Hráefni greinar
Ritstjórar og aðrir efnisstjórar verða oft að umskrifa texta, af því að þemað var óljóst í handritinu, fókusinn var ekki skýr, frásögnin ruglingsleg.