0119 Inngangur 2

0119

Textastíll
Inngangur II
Hafðu innganginn
skýran og sértækan

Gott: “Nokkrum skítugum verkamönnum undir Ermasundi tókst það í gær, sem Flotanum ósigrandi, Napóleon, Hitler og skriffinnum Evrópusambandsins hafði ekki tekist. Þeir tengdu Bretland við meginland Evrópu.”

Beinum tilvitnunum fylgja ýmsir pyttir, sem menn falla í. Forðast ber að endurtaka sama atriðið í tilvitnun og öðrum texta. Algengast er, að tilvitnun endurtaki að nokkru leyti það, sem búið er að segja í inngangi:

Ekki skrifa: “Fræðsluskrifstofunni kom á óvart úrskurður dómara um, að óheimilt sé að banna drengjum með sítt hár og eyrnalokka aðgang að skólum. “Við vorum dálítið hissa”, sagði Jón Jónsson, fræðslustjóri Norðurlands eystra.”

Ekki heldur: “Helmingur deilda Listasafnsins var lokaður í gær vegna skorts á safnvörðum. Talsmaður safnsins, sagði deildunum hafa verið lokað, af því að borgarstjórn hafði ekki útvegað fjármagn fyrir einn safnvörð til viðbótar.”

Betra er að spara plássið, nota óbeina tilvitnun og segja: “Helmingur deilda Listasafnsins var lokaður í gær af því að borgin hafði ekki útvegað fjármagn fyrir einn safnvörð til viðbótar, sagði Jón Jónsson safnstjóri.”

Allt of margir inngangar byrja á langri aukasetningu, sem fer framúr aðalsetningu og grefur undan áhrifum hennar. Þú heyrir slíkar málsgreinar ekki í mæltu máli.

Algengt er að byrja á aðalsetningu og villast síðan inn á hliðargötu aukasetningar:
“Clinton forseti, með tilvísun til samstarfs Mexikó í vörnum gegn fíkniefnum, sagði, að viðræður um viðskiptasamning ríkjanna mundu hefjast …”

Ef aukasetning er mjög stutt, getur hún gengið fremst: “Með annan vænginn logandi nauðlenti orrustuflugvél á Kennedy-flugvelli um kvöldmatarleytið í gær.”
Jafngott er: “Orrustuflugvél nauðlenti með annan vænginn logandi á Kennedy-flugvelli …”

Blaðamenn reyna stundum að draga fjöður yfir aldur frétta. Þeir segja ekki “í fyrradag”. Þetta getur verið vandamál, ef ekki er neitt nýtt að frétta af málinu til umræðu. Í því tilviki má endurnota efni úr fyrri fréttum.

Framhaldsfrétt, ekkert nýtt: “Kaliforníuríki varði 16 mánuðum og 2 milljónum dollara til að þyngja refsingar þriggja fanga, þar af tveggja, sem sitja hvort sem er í lífstíðarfangelsi. Þeir voru fundnir sekir á fimmtudaginn …”

Nýr vinkill fundinn á gamalli frétt um eldsvoða.: “Ferðamenn í Hollywood fengu í gær að fara í hópferðir og skoða rústir kvikmyndavers Universal Studios, sem brann í fyrradag.”

Inngangur er oft of langorður, reynir að segja alla söguna. Hann reynir að svara öllu: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Hann þarf ekki að svara nema þremur-fjórum af þessum sjö spurningum.

Opinberir dómar og ákvarðanir hafa oft að geyma tæknilegar frásagnir og flækjur í lögfræði. Í inngangi er oft ekki nægilega reynt að þýða þetta efni yfir á mannamál. Í stað þess að segja, að dómari hafi neitað að stöðva atkvæðagreiðslu:

“Sýslumaður Suðurlands neitaði á miðvikudaginn að gefa út lögbann til að stöðva kosningu í stéttarfélagi um dómsúrskurð um kaup og kjör í deilu Póstmannafélagsins og Ríkispóstsins.” Þessi útgáfa af inngangi er kölluð ping-pong-útgáfan.

Annað dæmi: “Alríkisdómstóll samþykkti á miðvikudag að endurskoða héraðsdóm, sem hafði úrskurðað, að Eftirlitsnefnd kjarnorkumála hefði sýnt réttinum óvirðingu með því að neita að opna almenningi aðgang að fundum um fjárhagsáætlunina.”

Blaðamenn beita ping-pong-aðferðinni með tilheyrandi klisjum úr tungumáli dómara og embættismanna. Þeir treysta sér ekki til að þýða þetta yfir á mannamál. Þeir leita sér öryggis í skjóli klisjanna.

Breyting hefur orðið á fréttum, þar sem “í gær” og “í fyrradag” hafa vikið fyrir dögum vikunnar, “mánudaginn” og “þriðjudaginn”. Gættu þess að hafa dagsetninguna á eftir sagnorðinu. Sumir bæta við óþörfu aukaorði, “á”, segja “á miðvikudaginn”.

Dagsetning getur valdið erfiðleikum við smíði á inngangi. Þá er allt í lagi að fresta henni fram í næsta málslið á eftir innganginum. Tímasetning atviks er yfirleitt ekki svo brýn, að hún þurfi að vera í sjálfum innganginum.

Markmið í inngangi: Þú stefnir að stuttum og hreinum málslið, aðalatriði fremur en aukaatriðum, fylgir rökréttri leið hugans, stefnir að hlutlægu og sértæku orðalagi.

Áttunda regla Jónasar:
Hafðu innganginn
skýran og sértækan.