0102 Alþýðustíll 2

0102

Textastíll
Alþýðustíll II
Skrifaðu eins og fólk,
ekki eins og fræðimenn

Gissur Sigurðsson:
“Klisjur eru alls staðar, einkum hjá ungu fólki.
Blaðamaður skrifar: “Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” (10 orð).
Þetta þýðir á íslensku: “Engan sakaði” (2 orð).”

Fréttaskrif eiga að vera skýr, þétt, nákvæm og áhugaverð. Þau eru raunar furðu góð miðað við erfiðar aðstæður í tímahraki. Ekki er hægt að sjá neinn mun á gæðum frétta, sem skrifaðar eru í tímahraki, og hinna, er hafa fengið betri tíma.

Vandamálið er skortur á tæknilegri meðvitund. Við erum ekki heimsk, heldur töpum við athyglisgáfunni. Okkur mistekst í litlu skrefunum, natninni, sem fagmennska heimtar. “Að skrifa vel er eins erfitt og að vera góður” sagði Somerset Maugham.

Byrjaðu á að hreinsa smáatriði á borð við “upp”, eins og í “lyfta upp”. Það er nefnilega ekki hægt að “lyfta niður”. Einnig “núna”, eins og í “hann er núna þingmaður”. Það er ekki hægt að vera þingmaður án þess að vera það núna.

Víða eru bólgnar setningar: “Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram þrátt fyrir þá staðreynd, að andstaða í þinginu fer vaxandi.” Styttra og skiljanlegra er þetta: “Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram, þrátt fyrir vaxandi andstöðu á þinginu.”

Í vinnunni sæta blaðamenn stöðugri textabólgu, klisjum frá heimildarmönnum í embættismannakerfi, stofnunum og stórfyrirtækjum. Blaðamenn verða að reyna að þýða bullið á mannamál. En stundum verður þeim fótaskortur á slíkum þýðingum.

George Orwell sagði, að versta stig í skrifum nú á tímum felist í að nota ekki orð vegna inntaks þeirra. Heldur með því að líma saman langar raðir orða, sem einhver annar hefur búið til. Þannig verða til klisjur, sem dreifast um heiminn.

Flott (AP): “Stundum horfir Mary Freedland á son sinn og man eftir barninu, sem hjólaði niður Colonel Bell Drive með félögum sínum. Síðan horfir hún aftur og veruleikinn síast inn. Það eru liðnir tveir áratugir og hann er ennþá þetta sama barn.”

Markmið tungumáls er að gera sig skiljanlegan. Til þess notum við alls ekki sérhæft klisjumál fagstétta. Við notum til þess tungumál almennings, kraftmikið tungumál, sem er þétt og tært í senn. Það segir það, sem segja þarf, og hafnar froðunni.

Við skulum ekki hafa áhyggjur af þessu og ekki reyna að muna allt í einu. Allir geta umpólast, ef þeir ráðast gegn vandanum með leiðbeiningum námskeiðsins. Við tökum bara eitt atriði í einu. Við byrjum á að banna allar málsgreinar, sem eru lengri en 23 orð.

Slepptu aukasetningum, sem byrja á “þótt” eða “enda þótt”: “Nefndin undir forustu Moakley sagði á miðvikudaginn, að efi væri um, hvort fólkið, sem skipulagði morðin, hefði verið fundið, þótt höfuðsmaður hafi verið handtekinn.”

Betra er að klippa í tvennt og segja: “Höfuðsmaður í her Salvador hefur verið handtekinn. En Moakley-nefndin sagði, að óvíst sé, að handtekið hafi verið fólkið, sem skipulagði morðin.”

Sleppið lýsingarhætti nútíðar: “Cheney varaforseti sagði, að 5.000 hermenn yrðu fluttir brott frá Suður-Kóreu með 7.000 til viðbótar verandi fluttir brott frá Filipseyjum að sögn embættismanna.” Amerísk áhrif.

Betra er að nota tvær málsgreinar: “Cheney varaforseti sagði, að 5.000 hermenn yrðu fluttir frá Suður-Kóreu. Til viðbótar verða 7.000 hermenn fluttir frá Filipseyjum að sögn embættismanna.”

Ekki skrifa: “En þeir sögðust ekki mundu vilja sækja tíma, þar sem þeir krefðust þess, að fyrsti svarti skólastjórinn yrði ráðinn og að fleiri svartir nemendur yrðu settir í nám á hærra stigi.”

Betra: “En þeir sögðust mundu hunsa skólatíma til stuðnings kröfu sinni um fyrsta svarta skólastjórann. Þeir vilja líka, að fleiri svartir nemendur verði settir í nám á hærra stigi.” Einni 31 orðs málsgrein verið skipt í tvær 14 orða málsgreinar.”

“Ungu Sovétríkin undir forustu Leníns þjóðnýttu flestar einkaeignir eftir byltinguna 1917 og átak Stalíns við að ná landinu af bændum með samyrkjubúum á fjórða tug aldarinnar leiddi til mannfalls milljóna manna af hungursneyð og fjöldamorðum.”

Betra er: “Sovétríkin þjóðnýttu flestar eignir eftir byltinguna undir stjórn Leníns. Stalín þjóðnýtti landið á fjórða áratugnum með samyrkjubúum. Það leiddi til mannfalls milljóna af hungursneyð, nauðungarflutningum og fjöldamorðum.”

Farsímar eru að verða tölvur almennings. Þar er skjárinn lítill. Það eykur kröfur til aukins hraða á textanum. Í forritinu Twitter, sem notað er í fjölpósti í farsíma, er hámarksfjöldi stafa 140. Það jafngildir einni 17-23 orða setningu. Einni skjámynd í farsíma.

Þú kemst langt í stíl, ef þú tileinkar þér fyrstu reglu Jónasar.
Skrifaðu eins og fólk,
ekki eins og fræðimenn