0105 Þétting 1

0105

Textastíll
Þétting I
Strikaðu út óþörf orð,
helmingaðu textann.

Ekki “spurningin um hvort”, heldur “hvort”. Ekki “það er enginn vafi á”, heldur “vafalaust”. Ekki “hann er maður sem”, heldur “hann”. Ekki “þetta er málefni, sem”, heldur “málið”. Ekki “ástæðan fyrir því að”, heldur “þess vegna”.

Ekki skrifa: “Mín persónulega skoðun er, að það sé nauðsynlegt, að við lítum ekki fram hjá tækifærum til að hugsa um sérhverja tillögu og allar tillögur, sem fram koma.” Betra er að klippa og segja einfaldlega: “Við skulum skoða allar tillögur”.

Fimm leiðarljós: 1. Klipptu orð, sem merkja lítið eða ekkert. 2. Klipptu orð, sem endurtaka meiningu annarra orða. 3. Klipptu orð, sem gefin eru í skyn af öðrum orðum. 4. Klipptu út setningar og settu stök orð í staðinn. 5. Klipptu “ekki” og settu rétt orð í staðinn.

Snauð orð: Eins konar, örugglega, raunar, sérstaklega, raunverulega, satt að segja, ýmsir, að grunni til. Ekki: “Framleiðni byggist raunar á ýmsum þáttum, sem að grunni til eru sálfræðilegir fremur en tæknilegir.” Heldur: “Framleiðni hvílir meira á sálfræði en tækni.”

Klipptu tvöföld orð: Full og alger, von og traust, sérhver og allir, satt og rétt, fyrst og fremst, von og þrá. Þú hljómar eins og pólitíkus: “Ég segi það satt og rétt, að von og þrá mín er sú, að frumvarpið, sem felur í sér styrk og dug fólks, nái fullri og algerri samstöðu.”

Klipptu orð, sem tvítaka hugsun: “Reyndu ekki að spá um atburði í framtíðinni, sem algerlega bylta samfélaginu, því liðin saga sýnir, að endanleg útkoma komi okkur óvænt á óvart.” Betra er: “Reyndu ekki að spá byltingu. Sagan segir að útkoman komi á óvart.”

Dæmi um slík orð: Hræðileg harmafrétt, frí gjöf, grundvallaratriði að stofni til, framtíðaráætl-anir, sérhver einstaklingur, endanleg útkoma, sannar staðreyndir, sameiginleg skoðun, tímabil, bleik að lit, skínandi að útliti, nákvæmur háttur, kerfi.

Ekki: “Ríkið stýrir menntakerfinu og félagsafþreyingarkerfinu.” Betra er: “Ríkið stýrir menntun og félagslegri afþreyingu.” Óþörf orð: Stór að stærð, óvenjulegur í eðli sínu, bjartur að lit, snemma á ferli, heiðarlegur í skoðun, á sviði stærðfræði, í ringluðu ástandi.

Ekki skrifa: “Þeir stóðu á spjalli,” heldur: “Þeir spjölluðu”. Ekki: “Þeir eru staðsettir/staddir í Grindavík,” heldur: “Þeir eru í Grindavík”. Ekki: “Sjálfsölum er stillt upp við vegginn.” heldur “Sjálfsalar eru við vegginn.”

Ekki skrifa: “Veitingar sem boðið er upp á eru ekki af verri kantinum.”. Heldur: “Veitingarnar eru ekki af verri endanum.” Ekki: Þegar komið er inn í mötuneytið blasir við stórt afgreiðsluborð.” Heldur: “Afgreiðsluborð blasir við.”

Ekki skrifa: “Upptökur eru nauðsynlegar þegar umdeild mál eru tekin fyrir.” Heldur: “Upptökur eru nauðsynlegar í umdeildum málum.” Ekki: “Ef um stuttar greinar er að ræða.” Heldur: “Í stuttum greinum.”

“Þegar þú lest vandlega það, sem þú hefur skrifað til að bæta orðalag og laga stafsetningu og greinarmerki, þarftu fyrst og fremst að skoða, hvort þú getir notað raðir frumlaga og sagna í stað nafnorða.” Þetta þýðir: “Þegar þú ritstýrir, skaltu nota sagnorð.”

“Ástæðan fyrir því að” verði “þótt”. “Í því tilviki að” verði “ef”. “Þrátt fyrir það að” verði “Þótt”. “Við aðstæður þar sem” verði “þegar”. “Varðandi málefni” verði “um”. “Þörf er fyrir” verði “verður”. “Við erum í stöðu til að” verði “við getum”.

Burt með “ekki”: “Ekki ólíkt” verði “svipað”, “ekki eins” verði “öðruvísi”, “leyfa ekki” verði “hindra”, “taka ekki eftir” verði “líta framhjá”, “ekki margir” verði “fáir”, “ekki oft” verði sjaldan, “stansa ekki” verði “halda áfram”, “fela ekki í sér” verði “fella út”.

Afleitur texti: “Ekki skal vera um að ræða neina afhendingu fjármuna án tilkynningar til AFS, nema greiðslan sé ekki yfir 10.000 krónum. Og afhendið ekki fjármuni, ef þú hefur ekki tilkynnt AFS, nema þú borgir minna en 10.000 krónur.”

Þetta þýðir á íslensku: “Ef þú borgar meira en 10.000 krónur, skaltu fyrst tilkynna það skrifstofu AFS.”

Kjarni þessa máls er, að þú notar ekki önnur orð en þú þarf til að segja meiningu þína. Þá telur lesandinn að þú farir með skýrt mál. Strikaðu út óþörf orð og endurtekningar. Láttu stakt orð koma í stað aukasetningar. Breyttu neitunum í játanir.

Hugmyndir þínar drukkna í hugtökum á borð við: Þegar á heildina er litið. Satt að segja trúi ég. Ef til vill. Örugglega. Takið eftir. Skoðið nú. Eins og þið sjáið. Í fyrsta lagi, í annan stað, í þriðja lagi. Að lokum þetta. Þess vegna. Samt sem áður. Í rauninni.

Ekki: “Síðasti punktur minn er sá, að í samskiptum karla og kvenna er mikilvægt að hafa í huga, að mestu breytingarnar hafa orðið á því, hvernig kynin vinna saman.” Betra er: “Mesta breytingin í samskiptum kynjanna er, hvernig þau vinna saman.

3. regla Jónasar
Strikaðu út óþörf orð.
Helmingaðu textann.