0139 Tegundir greina 2

0139

Textastíll
Tegundir greina II

Ein aðferð við inngang er að byggja spennu með ráðgátu í fyrsta málslið, leysa hana aðeins að hluta í öðrum málslið og ekki að öllu leyti fyrr en í hinum þriðja. Hægt að fara of langt í leit að ráðgátu. Ekki er nóg að segja: “Hæ, ég er hér með spennandi sögu handa þér.”

Margir þeir, sem skrifa greinar, forðast harkalega byrjun frétta og setja þess í stað eitthvað sætt fremst. Í margar sögur skortir raunar miðlæga frétt. Ef hún er þar hins vegar, er eðlilegt að hefja söguna eins og hverja aðra frétt.

Einfaldleiki:
Gott dæmi um inngang krækir sig við það, sem á eftir fer í nokkrum orðum, í mesta lagi í einni línu eða tveimur. Ef þessi kræking er ekki eðlileg og snyrtileg, skaltu prófa aðra leið, skilja milli inngangs og meginefnis.

Gildi þemans:
Inngangurinn má ekki gefa villandi mynd af því, sem kemur á eftir. Lesendur eru ósáttir við að vera plataðir. Byrjaðu ekki sögu um góða aðlögun Pólverja að Grindavík með því að segja smásögu af heimþrá gamals manns.

Eðlislægur áhugi:
Dæmi úr daglega lífinu í inngangi er aðeins eins gott og sagan er sjálf. Vont er að byrja sögu með tilvitnun í fólk, sem er leiðinlegt eða segir leiðinlega hluti. Betra er að byrja hversdagslega án tilvitnunar.

“Þegar Grandi tilkynnti lokun fiskvinnslunnar á Akranesi í nóvember, sagði Jóna Jónsdóttir, sem hefur unnið við færibandið í aldarfjórðung: “Allir hafa áhyggjur”.” Svona persónugerving megnar ekki að breyta froski í prins.

Fókus:
Dæmið, sem notað er í inngangi, á að lýsa lykilþætti sögunnar. Ef það kemur úr minni háttar kafla hennar, getur lesandinn sakað þig um blekkingu. Ekki birta í inngangi ávaxtasalat úr ýmsum köflum, taktu eitt atriði fram fyrir hin.

Skrifaðu til dæmis: “Hér koma litlu tölvurnar. Og beint á eftir þeim koma skúrkarnir.” Hér er í tólf orðum farið yfir aðalþemu greinarinnar og gefið í skyn, hvert sé sambandið milli þeirra, en hluti ráðgátunnar er enn óleystur.

Stundum er spurningunni HVERNIG ekki svarað í inngangi. Það kann að nægja sem óleyst ráðgáta: “Ef þú veist ekki, hvað þú átt að gera í frítímanum, geturðu reynt að nota hann til að finna út úr því. Þú getur borgað sérfræðingi fyrir það.”

Meðferð talna:
Sumir blaðamenn telja tölur vera töfralausn og setja þær í bunkum inn í greinar sínar. Við eigum að taka tillit til talna og nota sumar þeirra, en reynum að hafa fjölda þeirra í hófi og ekki birta of margar í einni klessu.

Þú verður að vera vandvirkur í vali á tölum og varfærinn í notkun þeirra, af því að þær reisa óhlutlægan múr milli þín og lesandans. Mörgum tölum getur þú breytt í einfaldara form, rúmar 2 milljónir, í stað 2.187.276.

Öðrum tölum getur þú breytt í hlutlægan samanburð, miðað við verð meðalíbúðar, miðað við hæð Hallgrímskirkju, miðað við stærð Tjarnarinnar. Þú getur líka notað hlutföll, fjórði hver Íslendingur á flatskjá, fimmti hver á jeppa.

Fólk og tilvitnanir:
Margar sögur verða ruglingslegar, af því að of margt fólk er í þeim. Það hægir á sögunni, gerir hana óskýrari og lengir hana. Oft fela þessar tilvitnanir í sér sjálfsagða hluti, sem ekki þarf að segja í beinni ræðu. Höfundur er of feiminn.

Stundum er svona margt fólk, af því að höfundurinn vill láta sjá, að hann hafi unnið heimavinnuna, hafi talað við marga. Hann felur sig bak við heimildirnar. Stundum telur hann sig vera að gleðja heimildarmennina, en hann á að gleðja lesendur.

Ef vitnað er í einhvern í grein, á það að hafa tilgang, annars sleppa því. Við tölum við fullt af fólki, án þess að nöfn þeirra komi fram, þótt ekki sé til annars en að geta haft eina rétta, sterka og sannfærandi tilvitnun í einn þeirra.

Varaðu þig á nafnlausum tilvitnunum. Þær eru umdeildar og eru raunar plága í blaðamennsku. Yfirlýsingar dularfullra persóna vekja grunsemdir lesandans og pirra hann að lokum. Notaðu slíkar aðeins um minni háttar atriði í frásögninni.

Horft til baka:
Góðir eru endar, sem minna lesandann á aðalefni greinarinnar eða mikilvægan þátt þess: “Hvað gerum við hjá Disney? Við framleiðum hamingju.” Oft er einföld samantekt þó það eina, sem lesandinn þarf til að vera sáttur við endann.

Horft fram á við:
Það, sem kann að vera óþarfa innlegg í miðri frásögn, kann að eiga vel við í enda hennar: “ “Ég verð í lagi til níræðs.” Hann hefur þá tólf ár eftir. Og 20 tinda, sem hann á eftir að klífa.”

Tegundir greina
Þegar ritstjórar eru spurðir, hver sé helsti galli handrita, segja þeir: Vont skipulag.