Punktar

Leyndarmál Tony Blair

Punktar

Andrew Rawnsley segir í Observer í morgun, að ímyndarfræðingurinn Alastair Campell hafi játað fyrir vinum sínum, að hafa gert mistök í tengslum við fölsuðu skýrslurnar, sem áttu að sanna gereyðingarvopn Íraks. Rawnsley segir, að tregða Tony Blair forsætisráðherra við að leyfa stofnun óháðrar rannsóknarnefndar að fjalla um fölsunarmálið, muni sannfæra menn um, að hann hafi sjálfur eitthvað að fela.

Campbell falsaði skjalið

Punktar

Í grein Richard Ingram í Observer í morgun minnir hann á, að ímyndarfræðingur Tony Blair sé Alastair Campbell, sem áður vann hjá kynlífstímariti og Robert Maxwell. Því sé engin furða, þótt Campbell beri ábyrgð á notkun gamallar skólaritgerðar eftir Ibrahim al-Marashi í Kaliforníu til staðfestingar á gereyðingarvopnum Íraks. Nú hefur al-Marashi upplýst, að við ritstuldinn hafi mikilvægum orðum verið breytt til að láta ritgerðina hljóma safaríkar.

Ekki ég, það var hann

Punktar

Observer í morgun var barmafullur af mikilvægum greinum um falsaðar skýrslur forsætisráðherra Bretlands um meint gereyðingarvopn Íraks. Í aðalgrein blaðsins telja Kamal Ahmed og Gaby Hinsliff, að forsætisráðuneytið hafi ákveðið að játa mistök í tengslum við síðari skýrsluna, sem var uppskrift úr þrettán ára gamalli skólaritgerð frá Kaliforníu. Fyrri skýrslan hafi hins vegar að mestu verið óbreytt eins og hún kom frá leyniþjónustunni. Undir niðri geisar nú styrjöld milli ráðuneytisins og leyniþjónustunnar um, hvor aðilinn hafi falsað upplýsingarnar í fyrri skýrslunni. Hvor aðili um sig er að reyna að bjarga sínu skinni á kostnað hins.

Kraftaverk í Evrópu

Punktar

Ótrúlegt er, hversu vel Evrópusambandinu gengur að sameina Evrópu, þótt mikill tími fari í þjark og þras. Því hefur tekizt að opna landamæri milli aðildarríkjanna, koma upp sameiginlegum seðlabanka og sameiginlegri mynt. Nú virðist enn eitt kraftaverkið vera í uppsiglingu. Fréttir í morgun hermdu, að stjórnarskrárnefnd sambandsins hefði í gær óvænt náð siglingu í átt til samkomulags um nýja stjórnarskrá. Uppkastið felur meðal annars í sér þing í tveimur deildum, forsætisráðherra og forseta Evrópusambandsins. Einnig felur þar í sér ákveðin þrepahlaup milli ákvarðana, sem þurfa 80% fylgi aðildarríkjanna og þeirra, sem þurfa 60% fylgi þeirra. Thomas Fuller segir frá nýju tillögunum í International Herald Tribune.

Hættulegar kreddur

Punktar

Sumt er eðlilegt og sjálfsagt af því, sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ráðleggur ríkisstjórnum, svo sem þau almæltu tíðindi, að ekki sé ráðlegt að safna of miklum skuldum. Annað af ráðgjöfinni er hættulegra, svo sem frægt er af fræðiritum, sem benda á, að sjóðurinn á höfuðþátt í yfirþyrmandi efnahagserfiðleikum ríkja á borð við Sovétríkin og Argentínu, sem hafa rambað á barmi gjaldþrots. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn keyrir á úreltri hagfræði, sem kennd er við Chicago-háskóla og felur í sér óhefta auðhyggju. Einkarekstur skóla og sjúkrahúsa er ein af kreddum þessarar úreltu hagfræði Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem nóbelsverðlaunahafinn Joseph E. Stiglitz, fyrrverandi varaforseti Alþjóðabankans, tók rækilega í gegn í bókinni ?Globalization and Its Discontents?. Skynsamlegt er af íslenzkum ráðamönnum að taka ekkert mark á ráðleggingum kreddustofnunar, sem ekki nýtur lengur neinnar hagfræðilegrar virðingar eða viðurkenningar.

Félagsþroskaðir hundar

Punktar

Hundar eru að því leyti fullkomnari en önnur dýr, að þeir horfast í augu við manninn og fara nærri um, hvað hann vill. Flest önnur dýr forðast augnsamband. Katharine Arney hjá BBC segir frá rannsóknum á getu hunda og annarra dýra til að hafa gagn af manninum í samskiptum við hann. Augnsambandið er talið benda til, að hundar hafi óvenjulega mikinn félagsþroska í samanburði við önnur dýr, meðal annars í samanburði við nánustu ættingja mannsins, sjimpansa.

Erfðabreytt hræsni

Punktar

Jeremy Rifkin telur í Guardian, að tilraunir George W. Bush Bandaríkjaforseta til að þröngva erfðabreyttum matvælum upp á Evrópu muni ekki bara mistakast, heldur gera illt verra. Neytendur í Evrópu séu samkvæmt skoðanakönnunum staðráðnir í að forðast slík matvæli, hvað sem Heimsviðskiptastofnunin segir. Rifkin telur óviðeigandi, að Bush skuli vísa til fátæku ríkjanna, því að Bandaríkin séu miklu nízkari en Evrópa í þróunaraðstoð. Þar að auki segir hann, að nóg matvæli séu til í löndum þriðja heimsins. Þau þurfi ekki erfðabreytt matvæli, heldur betri notkun þeirra matvæla, sem fyrir eru. Hann segir, að erfðabreytt matvæli séu aðferð til að mjólka þróunarríkin með því að láta þau borga leyfisgjald til bandarískra fyrirtækja. Hann segir, að svokölluð “töfrahrísgrjón” séu gagnslaus í þriðja heiminum. Allt tal Bush um erfðabreytt matvæli sé einber hræsni.

Heiðraðu skálkinn

Punktar

Kannist þið við stóru og sterku bekkjarbulluna, sem er gefin fyrir að níðast á litlum strákum í öðrum bekkjum og vill fá litlu strákana í sínum bekk til að taka þátt í ofbeldinu, annars refsi hann þeim? Þetta er nútímaútgáfan af vestrænni samvinnu. Berlusconi og Aznar, Davíð og Halldór halla sér að bullunni, samkvæmt íslenzka máltækinu: Heiðraðu skálkinn, svo hann skaði þig ekki. Svo að hann taki ekki flugvélarnar frá Keflavíkurvelli! Chirac og Schröder og Chrétien neita hins vegar að taka þátt í ofbeldinu, þrátt fyrir ógnanir bullunnar og fara þá eftir spakmæli Benjamíns Franklín: Ef við höngum ekki saman, höngum við örugglega hver í sínu lagi.

Wolfowitz tjáir sig enn

Punktar

Maureen Dowd minnir í New York Times á, að Paul Wolfowitz, aðstoðar-stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna hafi nýlega í viðtali við Vanity Fair sagt hina raunverulega ástæðu árásar Bandaríkjanna á Írak hafa verið að geta í kjölfar hennar flutt setulið sitt frá Sádi-Arabíu til furstadæmanna við Persaflóa án þess að það liti út fyrir að vera uppgjöf fyrir þeirri meginkröfu Osama bin Laden, að bandaríski herinn færi frá Sádi-Arabíu. Ef þessi kenning hins róttæka ráðherra er rétt, hefur bandaríski herinn drepið mörg þúsund saklausra manna af litlu og langsóttu tilefni. Wolfowitz þessi hvatti nýlega tyrkneska herinn til að bylta stjórninni í Tyrklandi til að taka þátt í stríðinu gegn Írak. Hann er talinn með hinum truflaðri í stjórn Bandaríkjanna og eru þó sumir þar næsta skrautlegir.

Við getum drepið ykkur

Punktar

Thomas L. Friedman heldur því fram í New York Times, að ástæðan fyrir árás Bandaríkjanna á Írak hafi ekki verið hættan, sem ríkisstjórnin sagði Bandaríkjunum stafa af meintum gereyðingarvopnum Íraks. Hin raunverulega ástæða hafi verið, að stjórnin hafi talið sér nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum á framfæri, að bandaríski herinn gæti farið til Miðausturlanda og drepið þar fólk til að sýna mátt og megin Bandaríkjanna.

Kotrosknir lífeyrissjóðir

Punktar

Gaman er að auglýsingu lífeyrissjóðanna um, að þeir hafi ekki tapað nema svo og svo miklu af lífeyri landsmanna, frá 3% á ári og upp úr. Á sama tíma og þeir tapa sparifé landsmanna, geta menn fengið 6-7% raunvexti á ári í hvaða banka sem er, það er að segja 6-7% vexti ofan á verðbólguna. Lengi var talið heimskulegt að eiga fé í banka, en fjármálasnilld lífeyrissjóðanna á síðustu árum hefur leitt til, að skárra er að eiga fé í banka en lífeyrissjóði. Venjulegir bankareikningar ávaxta fé þitt um lága en örugga prósentu, en lífeyrissjóðir sólunda sparifé þínu.

Jafntefli í Evian

Punktar

Paul Taylor hjá Reuters telur stöðuna jafna í skák Bandaríkjanna og Frakklands á G8 fundi auðríkjanna í Evian. Hvorugur hafi gefið eftir, franska stjórnin telji enn, að innrásin í Írak hafi verið ólögleg. Þótt Bandaríkin geti háð stríð ein og sér, geti þau ekki unnið friðinn ein og sér. Heimurinn sé ekki einpóla og verði ekki einpóla. William Pfaff hjá International Herald Tribune telur George W. Bush og ráðherra hans ekki skilja sögu utanríkismála. Þeir haldi sig geta breytt samráða- og bandamannakerfi vesturlanda í kerfi fyrirskipana, þrýstings og ógnana, en muni reka sig á sjálfstæðan vilja Evrópuríkja.

Hernámið hefnir sín

Punktar

Samkvæmt alþjóðlega dálkahöfundinum Gwynne Dyer telja ríkisstjórnirnar, sem voru andvígar stríðinu gegn Írak, að hernámið feli í sér skelfileg mistök, sem muni eyðileggja ríkisstjórn Bandaríkjanna. Eftir hálfs annars mánaðar hernám hafi grundvallarþjónustu ekki enn verið komið á fót, enn séu svæði í Bagdað og öðrum borgum, sem hernámsliðar þori ekki að fara um, og senn hefjist vopnað viðnám heimamanna gegn hernámsliðinu. Þær muni af þessum sökum ekki senda sveitir til Íraks, heldur segja árásarríkjunum að hreinsa upp eftir sig. Samt hafi þær ekki hátt um þessi sjónarmið til að æsa venjulega Bandaríkjamenn ekki upp, meðan George W. Bush Bandaríkjaforseti keyri sig í kaf. Þær bíði eftir nýrri ríkisstjórn í Bandaríkjunum og reikni með, að þá verði hægt að endurreisa fjölþjóðlegt samstarf, sem núverandi stjórn Bandaríkjanna hefur valtað yfir kruss og þvers.

Robin Cook er harðorður

Punktar

Robin Cook sagði af sér embætti utanríkisráðherra Bretlands í vetur til að mótmæla fyrirhuguðu stríði gegn Írak. Í morgun skrifar hann grein í International Herald Tribune, þar sem hann ræðst óvenju harkalega gegn ráðamönnum Bandaríkjanna og Bretlands. Hann sakar þá um að hafa ráðizt á Írak á upplognum forsendum og segir raunverulega ástæðu stríðsins að finna í bandarískum innanríkismálum. Hann varar við yfirlýstum áhuga róttækt hægri sinnaðra ráðamanna í Bandaríkjunum á að ráðast næst á Íran. Hann segir þann áhuga hlaða undir erkiklerka og grafa undan vestrænt sinnuðum mönnum í valdastöðum Írans.

Óvinir finnast ekki

Punktar

Leyniþjónustur Bandaríkjanna eru svo önnum kafnar við að falsa gögn um gereyðingarvopn Íraks, svo sem frægt er orðið, að þeim hefur ekki enn unnizt tími til að finna Saddam Hussein, syni hans Qusay og Uday og flesta ráðamenn Íraks á valdatíma þeirra. Þeim hefur raunar ekki heldur tekizt að finna Osama bin Laden, sem var uppspretta árásarinnar á World Trade Center, og helztu ráðgjafa hans. Líklegt má telja, að fyrr eða síðar planti leyniþjónusturnar gereyðingarvopnum til að reyna að bjarga andliti árásaraðilanna. En það getur ekki talizt dæmi um hæfni þessara stofnana að hafa ekki enn fundið skálkana.