Samkvæmt alþjóðlega dálkahöfundinum Gwynne Dyer telja ríkisstjórnirnar, sem voru andvígar stríðinu gegn Írak, að hernámið feli í sér skelfileg mistök, sem muni eyðileggja ríkisstjórn Bandaríkjanna. Eftir hálfs annars mánaðar hernám hafi grundvallarþjónustu ekki enn verið komið á fót, enn séu svæði í Bagdað og öðrum borgum, sem hernámsliðar þori ekki að fara um, og senn hefjist vopnað viðnám heimamanna gegn hernámsliðinu. Þær muni af þessum sökum ekki senda sveitir til Íraks, heldur segja árásarríkjunum að hreinsa upp eftir sig. Samt hafi þær ekki hátt um þessi sjónarmið til að æsa venjulega Bandaríkjamenn ekki upp, meðan George W. Bush Bandaríkjaforseti keyri sig í kaf. Þær bíði eftir nýrri ríkisstjórn í Bandaríkjunum og reikni með, að þá verði hægt að endurreisa fjölþjóðlegt samstarf, sem núverandi stjórn Bandaríkjanna hefur valtað yfir kruss og þvers.