Punktar

Fullkomlega galið lið

Punktar

Ég er tæpast farinn að ná þessu enn. Sigmundur Davíð og aðstoðarmenn hans söfnuðu úrklippum af skrifum ritstjóra og blaðamanna. Kölluðu þá á teppið. Og þeir hlýddu jafnvel! Ég veit ekki, hvort er ömurlegra að skipa fyrir eða að hlýða. Þarna voru þeir nánast í röðum á biðstofunni, allt upp í útvarpsstjóra. Mættir til að hlusta á íslenzku útgáfuna af CIA og KGB. „Heyrðu, ef þú ferð ekki að halda þér á mottunni, látum við bara reka þig.“ Í bakgrunninum heyrist svo gargið í Vigdísi Hauksdóttir, er vill fá að sparka í allt og alla, sem ekki makka rétt. Þetta er fullkomlega galið lið pólitíkusa og handrukkara þeirra.

Ólafur Ragnar er óvissan

Punktar

Ólafur Ragnar er engin kjölfesta. Hann er óvissan sjálf holdi klædd. Hefur ævinlega komið illu af stað, hvar sem hann hefur verið. Hefur ævinlega verið sundrungarafl í samfélaginu. Hefur alla öldina verið umboðsmaður auðgreifa, fyrst útrásarvíkinga og síðan kvótagreifa, sem óttast nýja stjórnarskrá. Hefur alla öldina verið þröskuldur í vegi þjóðarinnar á þrautagöngu hennar úr þrælkun auðræðis til lýðræðis. Mun á næsta kjörtímabili leita allra færa til að hindra innleiðingu lýðræðis. Mun misnota útúrsnúninga til að setja allt á hvolf að hætti lagatækna. Ólafur Ragnar gæti hindrað innleiðingu nýrrar stjórnarskrár.

Nú getur Jón Ásgeir skilað

Punktar

Virkin hrynja hvert af öðru. Dagblaðið Stundin hefur í Panamaskjölunum rakið slóðir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur í Panama. Þar er fyrirtækið Jovita, sem Jón Ásgeir á. Og þar er fyrirtækið Guru Invest, áður Moon Capital, sem Ingibjörg á og Jón Ásgeir hefur prókúru fyrir. Þessi huldu fyrirtæki voru öll í umsjá Mossack Fonseca og hafa staðið í umfangsmiklum flutningum á peningum. Guru borgaði til dæmis 2,4 milljarða fyrir Jón Ásgeir til Glitnis. Þið munið, að milljarðar voru afskrifaðir hjá fyrirtækjum hans. Við vitum núna, hvar týndu peningana er að finna. Nú getur Jón Ásgeir skilað.

Hér skín engin stjarna

Punktar

Enn nýtur ekkert íslenzkt matarhús þeirrar náðar að fá eina Michelin-stjörnu. Líklega við hæfi, ekkert býður þann lúxus í umbúnaði, sem til þarf. Michelin-stjarna snýst um meira en matreiðslu. Því er enginn kafli um Ísland í Evrópubók Michelin og það skaðar ferðaþjónustuna. Til dæmis kemur ekki enn í ljós, hvort eitthvert veitingahús á skilið einn Michelin-haus, sem táknar mikil gæði fyrir skaplegt verð. Einkum fækkar það eyðslusömum, sem annars kæmu. Bill Clinton og almenningur eru sátt við hamborgara eða pítsu, jafnvel humarsúpu á Sægreifanum og pulsu með öllu og rigningu á Bæjarins beztu. En stjörnuleysið er hættuspil.

Siðblindingjar hafa orðið

Punktar

Vestrænir valdamenn segja, að sauma þurfi að skattaskjólum, að þau séu eitt af stóru vandamálum nútímans. Íslenzkir eru flestir á öðru máli. Nýi forsætis sér ekkert athugavert við skattaskjól, einhvers staðar verði peningar að vera og að flókið sé að eiga þá heima. Íslenzkir valdamenn skilja nefnilega lítið í siðum, siðleysi og siðrofi. Þeir eru flestir siðblindir. Stjórnarflokkarnir eru studdir málgögnum, einkum Morgunblaðinu. Hinn siðblindi Davíð Oddsson telur ekkert að athuga við „skattasniðgöngu“. Flinkir menn eigi að geta fundið glufur og nýtt sér þær. Ekkert athugavert við það, segir landsins dýrasti pólitíkus.

Sofandi sauðir vakna

Punktar

Er einn þeirra, sem vilja færa vald frá alþingi og forseta til þjóðaratkvæðis fólksins. Styð stjórnarskrána, sem fjórflokkurinn hefur árum saman falið ofan í skúffu. Á sama tíma efast ég um getu meirihluta fólks til að taka mikilvægar ákvarðanir. Þetta er vissulega þverstætt, en ég get skýrt máli mitt. Getuleysi fólks stafar af langvinnri fjarlægð frá valdinu. Aðeins einn dag á fjögurra ára fresti hefur fólk einhverja til að hlusta á sig. Væri fólkið í stöðugri návist við stýritæki valdsins, mundi það öðlast ábyrgð og ábyrgðartilfinningu. Hefðum öðruvísi kjósendur en þá, sem hingað til létu smala sér sem sofandi sauðum.

Sundrungarafl Íslands

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson hefur böðlast fram allt frá þeim tíma, er hann birtist á framabraut. Fékk ekki framgang í Framsókn, fluttist í Alþýðubandalagið. Á báðum stöðum hefur fólk beizkar minningar innan flokks og utan. Fór svo í siðlyftingu og fékk Bessastaði í verðlaun. Líka þar umdeildur, enda fluttist hann yfir til tortólinga útrásarinnar. Varð samherji Davíðs og pólitískur guðfaðir Sigmundar Davíðs. Hann er ég um mig frá mér til mín. Skildi eftir lemstraða förunauta og fékk nýja á færibandi. Jafnan slægur. Þykist hógvær en er eilíft sundrungarafl. Sundrar meira en nokkru sinni fyrr, hefur gert embættið hápólitískt og umdeilt.

Nú skal stöðva skrílinn

Punktar

Áður fyrr börðust nokkrir hópar valdastéttar um völdin í landinu. Áttu skrílinn með húð og hári. Gátu leyft sér að berjast innbyrðis. Ólafur Ragnar og Davíð sökuðu hvor annan um skítlegt eðli. Ekki lengur. Sameiginleg skelfing út af upprisu þjóðarinnar sameinar valdastéttina á undanhaldi hennar. Lýðræðið ber æ fastar að dyrum. Hvarvetna ryðst þjóðin fram og krefst réttar síns. Því styður Davíð núna Ólaf Ragnar sem síðasta vígi valdastéttarinnar. Honum er falið að standa í vegi stjórnarskrár fólksins. Honum er falið að vernda þrælahaldið og straum verðmæta úr landi. Forsetaframboð Ólafs Ragnars á að stöðva skrílinn.

Skammtíma reddarinn

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson er klókur í skammtíma reddingum, en á erfitt með að sjá til langra tímabila. Hann lék hrikalega afleiki. Til dæmis þegar hann spilaði sig upp sem klappstýra útrásarinnar. Flaug með þeim spilltustu í einkaþotum vítt um heim. Til dæmis þegar hann veðjaði á ótraustan Sigmund Davíð og gerðist pólitískur guðfaðir hans. Í bæði skiptin brást honum mannþekking. Framtíðarsýn hans reyndist röng. En klóraði í bakkann með reddingum fyrir horn og spilaði sig upp í nýju hlutverki. Nýtur þess, að fólk er margt reikult í ráði og hefur skammtíma minni. Að margir ánetjast þeim, sem mest geta belgt sig út á haugnum.

Síðasta vígi siðblindra

Punktar

Siðblind valdastétt sér síðasta vígið í Ólafi Ragnari Grímssyni. Framboð hans veitir henni von um, að unnt verði að bregða fæti fyrir hina nýju stjórnarskrá fólksins. Valdastéttin vill ekki fullveldi fólksins, vill hindra, að það taki eigin ákvarðanir. Valdakerfið snýst um, að greifar mjólki þjóðarbúið og komi árlega hundrað milljörðum króna í felur. Þeir vilja hindra auðlindarentu og auðlegðarskatt eins og þeir vilja hindra nýju stjórnarskrána. Ólafur Ragnar er klókasti pólitíkus landsins. Hefur ætíð klórað sig út úr afleikjum sínum, fyrst sem klappstýra útrásarinnar og síðan sem pólitískur guðfaðir Sigmundar Davíðs.

Vond ákvörðun forsetans

Punktar

Þetta var vond ákvörðun hjá Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann mun nota endurkjörið til að vinna gegn gildistöku stjórnarskrárinnar, sem fjórflokkurinn stakk niður í skúffu. Mun standa í vegi tilrauna til að mynda spánnýjan stjórnarmeirihluta eftir kosningar, sem menn vænta í haust. Og takist það ekki, mun hann leita færis til að tefja framvindu málsins og eyða því. Hann er einfaldlega andvígur því, að vald verði fært frá forsetanum til þjóðarinnar og þjóðaratkvæðis. Hann er fulltrúi gamla tímans, sem óttast breytingar og vill ekki, að vald sé flutt frá valdamönnum til hinna valdalausu. Hann hefur valið sér vond eftirmæli.

Píratar skulda engum

Punktar

Ég sé ekki, að píratar skuldi svokölluðum vinstri flokkum neitt, allra sízt samkrull á borð við kosningabandalag. Forræðishyggja vinstri flokkanna gengur svo langt, að þeir vilja stjórna öðrum flokkum. Á því gefst ekki kostur. Að vísu eru píratar hlynntir samneyzlu á borð við velferð og heilsu. Samt telja þeir ekki, að „góða fólkið“ hjá vinstri flokkunum eigi að hafa vit fyrir fólki. Píratar taka frelsi fram yfir forsjá, frelsi almennings en ekki sérfrelsi hinna voldugu. Ýmis atriði gefa kost á snertiflötum pírata og vinstri flokka. En það eru atriði, sem snúast mikið um að binda enda á spillingu alls fjórflokksins.

Kokhraustir sukkarar

Punktar

Í gamla daga voru athafnamenn og foringjar Sjálfstæðisflokksins í Keflavík svo ruglaðir, að þeir máluðu flokksfálka á stofuveggi. Trylltast reis ruglið hjá Árna Sigfússyni bæjarstjóra. Þá var sko sukkað og stolið. Bæjarhúsnæði var selt upp í skuldir. Bærinn tók eigið húsnæði á leigu á okurverði. Að lokum sligaðist bærinn og rambaði á jaðri gjaldþrots. Flokkurinn missti meirihlutann og aðrir hafa reynt að stilla kúrsinn. Tveimur árum síðar er ljóst, að það mistekst. Reykjanesbær fer í gjörgæzlu hjá ráðuneytinu. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki séð um peninga. Og kokhraustir sukkarar óstjórntæka flokksins saka hreingerningaliðið um uppgjöf.

Ótímabær samstarfsfundur

Punktar

Fundur fjögurra stjórnmálaflokka um samstarf lyktar af tilraun tveggja manna í Samfylkingunni að lyfta sér og flokknum. Fólk verður því að fara gætilega í aðild að slíkum fundum. Þeir gagnast að vísu upp að vissu marki. Fróðlegt er svo sem að vita um undirtektir við hugmynd pírata um stutt kjörtímabil og nýju stjórnarskrána. Þar sem fjárlagagerð er óhjákvæmilega hornsteinn hvers þings, þarf líka að vera vitneskja um viðhorf til tekjuöflunar og tekjudreifingar. Til dæmis hverjir vilja endurheimt auðlindarentu og auðlegðarskatts og uppboð á veiðiheimildum. Það dugar lítt að kjafta, ef Samfylkingin er efins um slík mál.

Birtingar verða þungbærar

Punktar

Erfitt er að spá í þróun almannaálits í pólitíkinni næstu mánuði. Ekki er víst, að mikið komi fram af nöfnum kvótagreifa með skattaskjól á aflandseyjum. Þeir voru byrjaðir í svindlinu fyrir löngu og fóru meira gegnum Möltu. Tölurnar, sem unnið er í, takmarkast hins vegar við fyrirtækið Mossack Fonseca í Panama. Það var sérhæft í skattaskjóli á Tortóla. Vitað er, að þar eru nöfn pilsfaldafólks, sem tengist Sjálfstæðisflokknum. Vinnan snýst ekki um saumnálar í 11 milljónum skjala. Snýst um tengingu 600 íslenzkra nafna, sem þar koma fram. Birtingar næstu mánaða verða því væntanlega þungbærar hinum pólitíska armi bófaflokkanna.