Punktar

Eigingjörn ungmenni

Punktar

Nútíminn er afar eigingjarn, unga fólkið mest. Það hugsar um að koma sér áfram í starfi og ná þaki yfir höfuðið. Það hugsar hóflega mikið um pólitík og lætur sér alls ekki detta í hug að taka af skarið, þegar mikið liggur við. Fyrir aldamótin logaði allt í mótmælum á Vesturlöndum út af eyðingu vistkerfis jarðarinnar og hamförum hnattvæðingar. Nú segir unga fólkið fátt og stöku hræður láta sjá sig við Kárahnjúka. Jafnaldrar þeirra eru að reyna að koma sér vel í vinnunni og reikna út vaxtahækkun á íbúðaláninu. “Hver er sinnar gæfu smiður” hugsar hver fyrir sig í sínu einrúmi.

Halldór er svartur

Punktar

Halldór Ásgrímsson á að segja af sér sem formaður Framsóknar. Hann hefur leitt flokkinn í fylgishrun í fjölmennustu byggðum landsins. Mistök hans felast ekki í stjórnarsamstarfi eða efnahagsmálum, heldur í landspjöllum og álverum, dálæti á Evrópusambandinu og óvild í garð gamlingja og öryrkja og allra þeirra, sem minnst mega sín í samfélaginu. Allt er þetta á skjön við hefðbundin sjónarmið í Framsókn á fyrri áratugum. Halldór er samnefnari allra þessara mistaka og verður að axla sín skinn til að reyna að þvo flokkinn af svartri hægri stefnu.

Þola saman sætt og súrt

Punktar

Heitasta parið um þessar mundir er það, sem saman myndar meirihluta eða minnihluta í flestum stærstu byggðum landsins. Íhald og Framsókn hafa meirihluta í Reykjavík og í Kópavogi og væru saman í minnihluta í Hafnarfirði, ef Framsókn hefði komizt þar inn. Ríkisstjórnarmynztrið endurspeglast í sveitarfélögum, sem hafa samtals helming þjóðarinnar. Flokkarnir tveir geta hvorugur þvegið sig af hinum fyrir næstu kosningar. Hin svarta Framsókn má því búast við enn frekara einelti því nær sem dregur til stóra skellisins í alþingiskosningum að ári.

Féll á eigin bragði

Punktar

Ólafur F. Magnússon fór illa út úr meirihlutaviðræðunum. Fyrst reyndi hann að vera í viðræðu á tveimur stöðum. Hann lét Vilhjálm H. Vilhjálmsson ná í sig á vinstri fundi, þóttist þá vera svangur og þurfa heim að éta og skipta um föt. Hann er ekki enn kominn úr þeirri för. Eftir bragðvísina féll hann svo á eigin bragði, þegar hlé varð á viðræðu hans við Vilhjálm. Þá hringdi Vilhjálmur í Björn Inga Hrafnsson og komst að raun um, að eina krafa Björns væri að fá embættisbíl sem formaður borgarráðs, þó ekki Hummer. Ólafur er að vonum súr yfir, að fleiri kunna brögð en hann.

Eyðimerkur þenjast út

Punktar

Forbes segir á vefnum, að loftslagsbreytingar séu að stækka eyðimerkur heimsins. Þær skríða nær þéttbýlum svæðum og borgum í Bandaríkjunum, Sahara og Góbí. Þær stækka einkum á mörkunum, sem snúa að pólum jarðar. Frá 1969 til 2005 hafa þessir loftstraumar færst 100 kílómetra nær pólunum og stefna í voða þekktum borgum á borð við Salt Lake City. Skýrasta dæmið um þetta er þó við Miðjarðarhafið, þar sem úrkoma minnkar ár frá ári og þurrkar magnast. Skíðasvæði í Ölpunum munu minnka á næstu árum, þegar snjólínan hækkar. Þessar breytingar eru auðvitað allar af manna völdum.

Ríkisstjórn í skotlínu

Punktar

Gott var, að Vilhjálmi tókst að mynda meirihluta í Reykjavík og binda enda á langvinnan valdaferil Reykjavíkurlistans og arfaflokka hans. Mikilvægasta markmið stjórnmála í lýðræði er að skipta um valdamenn án blóðsúthellinga. Nú má vænta nýrra strauma og meiri atorku í borgarmálum, en sósíallinn verður líklega óbreyttur, samanber vinstri stefnu Sjálfstæðisflokksins. Næsta mál á dagskrá þjóðarinnar er að hrinda meirihlutanum í landsstjórninni, sem hefur verið of lengi við völd og er kominn í sama öngstræti og allir lenda í, er fá að vera of lengi við völd.

Vilhjálmur var fljótur

Punktar

Vilhjálmur var fljótur að þessu, búinn að mynda meirihluta í Reykjavík hálfum öðrum sólarhring eftir úrslitin. Hann tók frumkvæði, meðan aðrir voru áhorfendur, sem biðu við símann. Fyrst prófaði hann Ólaf hjá Frjálslyndum, sem að venju gerði sér of háar hugmyndir um sjálfan sig. Næstur í röðinni var Björn Ingi hjá Framsókn, sem hafði auðvitað enga skoðun aðra en að verða sá áttundi. Völdin eru hjá þeim, sem er fljótur að kýla á það, meðan aðrir eru vanir tímafrekum samráðum. Enda hef ég áður sagt, að spunnið er í mann, sem veit, hvar Klambratún er í bænum.

Schumacher í svindli

Punktar

Gott er, að dómarar í Formúlu 1 höfðu hugrekki til að refsa Michael Schumacher fyrir að drepa á bílnum og parkera í beygju á þröngri brautinni og hindra helztu keppinausta sína til að ná hámarksárangri í síðasta hring forkeppninnar í Monaco. Schumacher hefur stundum áður dansað á gráum svæðum í siðleysi og tími var kominn til að taka á honum. Villeneuve hitti naglann á höfuðið, þegar hann sagði, að Schumacher ætti ekki að hafa keppnisleyfi, ef þetta hefðu verið mistök hjá honum. Svo gróf voru mistökin, að Formúla 1 hefði glatað trausti, ef hún hefði látið Schumacher komast upp með svindl.

Framsókn glataði rómantík

Punktar

Afhroð Framsóknar í byggðakosningunum stafar ekki af ríkisstjórninni. Hún nýtur stuðnings í könnunum og Íhaldið vann á í kosningunum. Hrunið stafar af, að Framsókn hefur glatað rómantíkinni, sem einkenndi flokkinn áður fyrr, þegar Eysteinn Jónsson var grænasti stjórnmálamaður landsins. Fyrir hálfri öld var Framsókn flokkur grænna sveita og menntamanna, en nú er hann svartur og menntasnauður flokkur landskemmda og markaðsgrimmdar. Vinstri grænir hafa tekið upp merki gömlu Framsóknar og munu ekki gefa það eftir. Framsókn flúði á mölina, féll milli pólitískra stóla og er mörkuð dauðanum.

Frjálslyndir stjórna borg

Punktar

Sigurvegarar byggðakosninganna í heild voru Vinstri grænir og Frjálslyndir, en Framsókn beið afhroð. Íhaldið stóð sig, þótt það næði ekki meirihluta í Reykjavík, en heldur hallaði á Samfylkinguna, sem glutraði borginni úr höndum sér. Oddaatkvæðið færðist úr höndum arfaflokka Reykjavíkurlistans, ekki í hendur Íhaldsins, heldur til Frjálslyndra, sem sennilega verða hækja hægri stjórnar, þar sem Vilhjálmur verður borgarstjóri og Ólafur læknir forseti borgarstjórnar. Ólafur kom frá hægri inn á græna sviðið og á fremur heima hægra megin í pólitíkinni, þótt hann sé vel grænn.

Misgóðar auglýsingar

Punktar

Lakastar í baráttunni hafa verið auglýsingar Samfylkingar, kraftlausar og geldar, ólíkar kraftmiklum auglýsingum Framsóknar. Vinstri grænir hafa staðið sig ágætlega í grænmetisstílnum og Frjálslyndir hafa náð árangri með illa teknum ljósmyndum í gamaldags auglýsingum. Sjálfstæðið hefur svo vakið athygli í restina fyrir væga baráttu og einkennilega klippta auglýsingu, þar sem Vilhjálmur var hafður út úr fókus og látinn tala hvellt og stressað, ólíkur sjálfum sér. Komust róttækir “neo-cons” í framleiðsluna?

Hverfin eru pólitísk

Punktar

Hverfi borgarinnar eru pólitísk. Grafarvogurinn er Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænir eru öflugir í 101. Sjálfstæðisflokkurinn hefur 60% í Grafarvogi og 35% í 101. Vinstri grænir hafa 20% í 101 og 5% í Grafarvogi. Samfylkingin á ekki séns í Árbænum, aðeins 20%. Frjálslyndir flykkjast í Breiðholtið, þar sem þeir eru 10%, en aðeins 3% í Vesturbænum. Framsókn hefur þar líka lítið fylgi, 2%, en bætir sér það upp í Grafarholti, þar sem hann er með 10%. Framsóknarmenn og Frjálslyndir vilja því búa næst landsbyggðinni og allra sízt við flugvelli sína í Vatnsmýri eða Lönguskerjum.

Ósýnileg barátta

Punktar

Þegar ég fór um bæinn í gærmorgun, tók ég eftir, að Reykjavík er ólík öllum erlendum borgum á kosningadegi. Hvergi var áróður, ekki á stuðurum bíla, ekki á ljósastaurum, ekki á plakötum. Aðeins á örfáum flettiskiltum og kosningaskrifstofum voru kynningar frambjóðenda. Útlendingur á ferð um borgina hefði ekki hugmynd um kosningadaginn. Þetta er bezta dæmið um, að baráttan hefur verið á lágum nótum, enda hafa fjölmiðlar gefið framboðum gott svigrúm til að koma sér á framfæri. Sambúð fjölmiðla og stjórnmála er óvenjulega góð hér á landi, þótt menn haldi stundum annað.

Dagur selur ekki

Punktar

Dagur B. Eggertsson virðist ekki selja sem borgarstjóraefni, ef litið er á lágar tölur Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum. Ef áfram verður samstarf um vinstri meirihluta eftir kosningar, er ljóst, að hann verður ekki borgarstjóri, heldur Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem meiri sátt er um milli flokka. Einnig er ljóst, að flugvöllurinn fer ekki í slíku samstarfi, því að Frjálslyndir hafna flutningi hans. Ef Sjálfstæðisflokkurinn vinnur kosningarnar, verður svo gaman að fylgjast með ferli hans sem róttæks vinstri flokks samkvæmt kosningaloforðum hans.

Barnsleg spilling

Punktar

Spilling í kosningabaráttu er rekin af meira sjálfstrausti en áður var. Í Kópavogi og Mosfellsbæ undirritaði bæjarstjórinn ávísanir, sem kjósendum bárust rétt fyrir kjördag, eins og hann sé að gefa peninga, sem kerfið þarf að endurgreiða og gjaldkerinn á að undirrita. Það má hafa til marks um blindu kjósenda á spillingu, að fáir kippa sér upp við þetta. Hér á Seltjarnarnesi er stórflóð plagga frá bæjarfélaginu og á kostnað skattgreiðenda um ýmis mál, þar sem mynd og grein bæjarstjórans er í fyrirrúmi. Spillingin er barnslegri en áður og enginn skammast sín neitt.