Punktar

Grafskrift birt

Punktar

Staksteinar Morgunblaðsins eru dagleg rödd ríkiseigenda. Þar er í gær sagt beint, að ekki sé lengur fylgi í landinu við stóriðjustefnuna. “Stuðningur við náttúruvernd og verðveizlu hálendisins og annarra óbyggða í óbreyttri mynd er orðinn svo mikill, að það er óhjákvæmilegt fyrir alla stjórnmálaflokka að fylgja í kjölfar þessa unga fólks. Þetta er niðurstaðan af baráttu margra hópa náttúruverndarsinna,” segir Styrmir. Þar sem formannsefni Framsóknar finnur alls ekki stóriðjustefnuna, má reikna með, að hún sé týnd. Og grafskriftin er þegar komin í Staksteinum.

Fyrirsögn um mansal

Punktar

Skrítna fyrirsögn las ég í gær um, að mansal um Ísland hafi verið stöðvað. Nánari lestur fréttarinnar leiðir í ljós, að þetta er haft eftir Jóhanni R. Benediktssyni sýslumanni á Keflavíkurvelli, sem hælist um, án þess að rekja neina sönnun fullyrðingarinnar. Þannig er mikið af fréttum líðandi stundar endurómun fullyrðinga embættismanna um, að allt sé gott, sem þeir geri. Fullyrðing Jóhanns kann að vera rétt, en fjölmiðlar eiga að krefja menn um trúverðugar röksemdir til stuðnings málinu. Annars túlka ég þetta sem blaður eitt.

Stjórnarstefna rambar

Punktar

Nýr orkuráðherra, Jón Sigurðsson, kannast ekki við neina stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma er forveri hans og utanríkisráðherra úti um allar trissur að reka þessa stefnu. Líklega sér nýi ráðherrann, að þessi stefna mun áfram skaða Framsóknarflokkinn. Hann ákveður því að þykjast alls ekki finna stefnuna. Hitt er svo aftur rétt, þegar svo er komið, að orkuráðherra finnur enga stóriðjustefnu, að þá er hann að lýsa yfir, að framvegis muni hann ekki reka slíka stefnu. Hann er því að boða, að undir hans stjórn muni Framsókn loksins láta af hinni óvinsælu stefnu.

Allir vilja lága vexti

Punktar

Enginn er sáttur við hækkun Seðlabankans á forvöxtum. Ekki má milli sjá, hvorir eru reiðari, ráðamenn samtaka atvinnurekenda eða launamanna. Enda segir Davíð Oddsson seðlabankastjóri, að nýtt samkomulag vinnumarkaðar og ríkisstjórnar valdi auknu verðbólguskriði. Forstjóri atvinnurekenda segir hækkun bankans óþarfa, því að samdráttur sé á leiðinni. Hitt mun sanni nær, að ráðagerðir um minnkaða vegagerð hafa jafnan komið á vorin og ráðagerðir um aukna vegagerð blómstrað á haustin. Áratugum saman hefur góðvilji stjórnvalda verið skammvinnur. Því var rétt af bankanum að hækka vextina.

Heilsu- og féleysi

Punktar

Kristján Sveinsson skrifar mér: “Því miður drekka mörg ungmenni í Evrópu alls ekki við sleitur heldur af ofurkappi. Fullorðið fólk einnig. Leiðir þetta sem kunnugt er af sér heilsuleysi, féleysi og margháttaða ógæfu aðra. Var nýverið í Skotlandi um tveggja vikna skeið. Áfengisvandi er þar mikill sem og á Bretlandi öllu. Sjá stjórnvöld þar, að meðferð áfengis hjá stórum hluta þjóðarinnar er í megnasta ólagi og leita leiða til að koma skipan á þetta. Enda eru risavaxin útgjöld vegna ofdrykkju og sjúkdóma og félagslegrar eymdar, sem af henni leiðir.

Málfar kontórista

Punktar

Í hestamennsku hefur frá gamalli tíð verið talað um gerð og kosti hrossa. Þessi einföldu og stuttu orð voru ekki nógu góð fyrir kontórista, sem vilja langt og flókið orðalag. Því er í sýningum á hryssum og stóðhestum talað um sköpulag og hæfileika í stað gerðar og kosta. Fætur hrossa eru sagðir hafa réttleika. Mikið fax er ekki lengu prýði hrossa, heldur er notað orðið prúðleiki. Brokk er sagt vera lyftingargott. Vindrauðir hestar heita núna rauðir og vindóttir. Hestamenn láta allt þetta yfir sig ganga, af því að allt er þar sem annars staðar talið vera gott, sem frá kontóristum kemur.

Bónstöðin rifin

Punktar

Þvotta- og bónstöðinni í Sóltúni hefur verið lokað fyrir fullt og allt, því að rífa á húsið til að þétta byggð. Þarna fór bíllinn skítugur í gegn á færibandi og kom bónaður og þurrkaður út. Þetta var einn af hornsteinum lífsins, einkum að vetrarlagi, lofaður sé Kjartan Sveinsson arkitekt, sem lengi átti stöðina. Nú er engin slík stöð lengur til og lífið í borginni verður þeim mun fátækara. Dauð hönd byggðaþéttingar hefur víða skaðað, en þetta er með því versta. Svona leika trúarsetningar vinstri manna okkur grátt. Vonandi verður borgin ekki þétt frekar en orðið er.

Lúðar borgi skatt

Punktar

Evrópusambandið sér fyrir sér skatt á áfengisinnihaldi drykkja, sama skatt um alla Evrópu. Það vill aðvörunarmiða á flöskur og dósir. Það sér líka fyrir sér takmarkanir á áfengisauglýsingum, til dæmis í tengslum við íþróttir og barnaefni. Nú eru auglýsingar á vodka og bjór í bíómyndum um Harry Potter. Fimmtán ára lúðar liggja fyrir hunda og manna fótum um alla Evrópu vegna ofurölvunar. Það er helzt í rauðvínslöndum Miðjarðarhafsins, að menn kunni að halda niðri áfengi án tjóns á sjálfum þeim og umhverfinu. Komið til Danmerkur og sjáið lúðana, segir skýrsla sambandsins.

Aðvörun á bjór

Punktar

Evrópusambandið segir, að unga fólkið hafi ekki ráð á íbúð og drekki í staðinn við sleitur, unz peningarnir eru búnir. Félagsleg vandamál af völdum fyllerís nema 1000 milljörðum króna á hverju ári, þegar talin eru með tremmi, umferðarslys, barsmíðar á heimilum, lifrarbilanir, ótímabær dauði og slagsmálaslys. 27% af dauðsföllum í Evrópu á aldrinum 15-29 ára tengjast áfengisneyzlu. Útköll sjúkrabíla vegna ölvunar hefur í London fjölgað úr 3500 í 5000 á dag vegna heimsleika fótboltans. Evrópusambandið er orðið svo skelkað, að þar er nú talað um aðvörunarmiða á bjór eins og tóbak.

Fyllerí játað

Punktar

Fyllerí er víðar vandi en hér, orðið almennt um Evrópu alla. International Herald Tribune skrifar um lúðana í Kaupmannahöfn. Blaðið hefur séð, að frjálsar auglýsingar og lágt verð í Danmörku leiðir til harms og þjóðarböls. Evrópusambandið er að átta sig á þessu, um það bil að hætta að styðja áfengi eins og hverja aðra framleiðslu. Í nýrri skýrslu þess eru komin aftur hin gamalkunnu ráð, takmarkanir á auglýsingum og hærri skattar. Hingað til hefur bandalagið reynt að pína Svía og jafnvel Íslendinga til að lækka bjór og brennivín. Nú má vænta þess að þrýstingnum fari að linna.

Hættuleg öryggislögregla

Punktar

Komið hefur í ljós, að Björn Bjarnason stríðsráðherra og félagar hans í ríkisstjórn blekktu Alþingi til að samþykkja víðtæk lög um hryðjuverk, sem Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur ganga of langt. Björn og félagar þrengdu um of rétt fólks til að koma saman í friðsamlegum tilgangi. Því er engin furða, þótt menn skelfist hugmyndir ráðherrans um öryggislögreglu, sem stundi fyrirbyggjandi aðgerðir að hætti Bandaríkjanna. Hugmyndum af þessu tagi ber að hafna og síðan breyta lögum um friðsamleg mótmæli eftir kosningar, svo að borgaraleg réttindi séu hér hin sömu og í Evrópu.

Swift lekur millifærslum

Punktar

Allir pólitíkusar, embættismenn og blaðamenn í Bandaríkjunum, sem fylgjast með, vissu fyrir löngu, að stjórnvöld hafa aðgang að upplýsingum banka um allan heim. Einnig allir leiðtogar hryðjuverkamanna. New York Times, Wall Street Journal og Los Angeles Times gerðu ekki annað en að upplýsa fólk um þetta sama. Allt brjálaðist þar vestra, af því að ekki er til þess ætlast, að almenningur viti það, sem yfirstéttin veit og terroristar vita. Það er samvinnustofnun banka að nafni Swift í Belgíu, sem lætur yfirvöld vestra vita um grunsamlegar millifærslur á reikningum.

Dómarar eru sammála

Punktar

Hross eru dæmd huglægt eins og fimleikamenn. Dómarar meta hrossin hver fyrir sig. Á landsmóti hestamanna á Vindheimamelum kom í ljós, að miklar framfarir hafa orðið í þessum huglægu dómum. Í flestum tilvikum voru dómarar nokkurn vegin sammála og í ótrúlega mörgum tilvikum nákvæmlega sammála. Þetta stafar af góðum aga meðal dómara og mikilli vinnu við að fara yfir dóma liðins árs og meta frávik. Gæðingadómarar hafa sótt vel þessar ráðstefnur og árangurinn er farinn að skila sér í dómum, sem allir treysta. Þetta fylgir öðrum framförum í hestamennsku.

Bara 13 milljónir

Punktar

Vinstri grænir virðast ekki hafa varið nema 12-13 milljónum króna í kosningarnar í vor. Flokkurinn notaði sjálfur 4-5 milljónir og styrkti framboð sín og sameiginleg framboð í sveitarfélögum um mismuninn. Sumir staðir hafa ekki gert upp enn, svo að heildarupphæðin fer í 13 milljónir. Þetta er skynsamleg fjárupphæð, ólík austri ýmissa annarra flokka, einkum Framsóknar, sem eyddi 70-100 milljónum í kosningabaráttu, sem aflaði lítils sem einskis fylgis. Atkvæði verða ekki með þessum hætti keypt fyrir peninga.

Göng og sjúkrahús bíði

Punktar

Forsætisráðherra segir gott að fresta vegagerð til að hamla gegn verðbólgu. Hann segir þó, að Héðinsfjarðargöngum verði ekki frestað. Það er einmitt sú vegagerð, sem helzt ætti að fresta, því að göngin eru út í hött og eiga að kosta milljarða. Þar sem borgarstjórinn er nú í sama flokki og forsætisráðherra, eru þó ekki líkur á, að brýnasta vegagerð í Reykjavík verði látin bíða. En gjarna má fresta hátæknisjúkrahúsi, því að sú framkvæmd hentar ekki á þenslutíma. Tekjurnar af sölu Símans ætti bara að nota í að greiða skuldir, ekki í hugdettu frá tíma Davíðs.