Göng og sjúkrahús bíði

Punktar

Forsætisráðherra segir gott að fresta vegagerð til að hamla gegn verðbólgu. Hann segir þó, að Héðinsfjarðargöngum verði ekki frestað. Það er einmitt sú vegagerð, sem helzt ætti að fresta, því að göngin eru út í hött og eiga að kosta milljarða. Þar sem borgarstjórinn er nú í sama flokki og forsætisráðherra, eru þó ekki líkur á, að brýnasta vegagerð í Reykjavík verði látin bíða. En gjarna má fresta hátæknisjúkrahúsi, því að sú framkvæmd hentar ekki á þenslutíma. Tekjurnar af sölu Símans ætti bara að nota í að greiða skuldir, ekki í hugdettu frá tíma Davíðs.