Punktar

Börðust ekki á baki

Punktar

Sturlungar voru litlir herstjórar, þótt þeir sætu í erlendum hirðum og vissu um hermennsku riddara á miðöldum. Sturla Sighvatsson fór alla leið til Rómar. Samt þóttust Íslendingar berskjaldaðir á hestbaki og fóru af baki til að berjast. Kannski höfðu þeir grjótið helzt að vopni. Höfðingjar kenndu mönnum sínum enga hermennsku og kunnu ekki að skipa liði. Sturla og Sighvatur virðast hafa verið heillum horfnir í Örlygsstaðabardaga. Þeir voru ekki undir bardaga búnir, þótt þeim hafi klukkustundum saman verið ljóst, að tvöþúsund manna her var að þoka sér austur yfir Héraðsvötn.

Vosbúð var þeim töm

Punktar

Forfeður okkar, sem lýst er af samtímamönnum í Sturlungu, voru engir innisetumenn. Hvað eftir annað fóru þeir í langar hestaferðir til að gæta hagsmuna sinna, oft að vetrarlagi. Vosbúð var þeim töm. Þeir nenntu ekki alltaf að taka króka á vöð, heldur böðluðust yfir ár og fljót á sundreið og áðu í blautum mýrum. Notalegra hefur verið að liggja í Snorralaug. En höfðingjar þess tíma virðast þó ekki hafa óttazt hrakninga í fljótum og á heiðum. Söðlar forfeðra okkar og ferðabúnaður allur var lakari en hann er nú á tímum góritex. Við nútímamenn erum dúllur í samanburði við þá.

Þegar farið er að reka

Punktar

Það er fyrst gaman, þegar farið er að reka, sagði kunnur skólamaður fyrir hálfri öld. Hestaferðir með rekstur eiga djúp tengsli í sálarlífi manna og hesta. Flökkulífið heillar. Menn og hestar lesta sig í halarófu í átt að nýju vatnsbóli, nýjum haga. Þannig voru forfeður Íslendinga á gresjum Úkraínu fyrir 100 kynslóðum. Þá lifðu þeir á hestbaki og áttu ekki annað heimili. Minningin um þetta lifir í undirvitund fólks, sem á 30 kynslóðir að baki hér á þessu landi. Þar sem ævinlega hefur verið ferðast á hestum og fjarlægðir hafa ævinlega verið stuttar í hugum fólks.

Yfir heiðina um hávetur

Punktar

Kolbeinn ungi frétti norður í Skagafjörð af Suðurlandsferð Þórðar kakala. Kallaði hann saman 700 manna lið um Norðurland og hélt með flokkinn á Arnarvatnsheiði til að sitja fyrir Þórði í Borgarfirði. Á heiðinni brast á stórhríð og urðu nokkrir menn úti. Kolbeinn lét menn glíma til að halda á sér hita. Niður í Hvítársíðu komust þeir og og gerðu þau mistök að fara suður yfir Hvítá til hvíldar í Reykholti. Meðan þeir sváfu þar fór Þórður um Bæjarsveit og norður yfir Hvítá. Þá hófst mögnuð eftirför, sem lýst er af samtímamönnum í Sturlungu.

30 klukkustunda reið

Punktar

Var í gær á fjörum Hítarár og Kaldár. Á síðari fjörunum slapp Þórður kakali undan Kolbeini unga á fjörunni, þegar aðfallið stöðvaði norðanmenn. Líklega hefur Þórður sullast yfir viðsjárverðan Saltnesál, sem klukkustund síðar reyndist Kolbeini ekki árennilegur. Hafði Þórður og 200 manna lið hans þá farið dagfari og náttfari alla leið frá Þingvelli. Til Helgafells við Stykkishólm komst hann eftir rúmlega 30 klukkustunda reið um 200 kílómetra leið frá Þingvelli, sumpart í snjóþæfingi á Mýrum, enda var þetta um hávetur. Íslendingar Sturlungaaldar voru meiri hestaferðamenn en við erum á 21. öld.

Gamla fólkið

Punktar

Rýr var samningur ríkisins og samtaka aldraðra um, að hinir verst settu fengju sama og hinir verst settu hjá stéttarfélögunum, 15.000 krónur á mánuði. Að mestu var litið fram hjá hlutfallslega versnandi kjörum gamals fólks á löngu æviskeiði ríkisstjórnarinnar. Enn er langt í land, að ríkið skili aftur því, sem það hefur hrifsað af gömlu fólki á rúmum áratug. En þeim fjölgar stöðugt, sem verða gamlir, og þeir verða liðtækari í átök. Því má búast við, að samtök aldraðra fái smám saman harðara haustak á pólitíkusum, sem ekki nenna að ræða við aðra en þá allra frekustu.

Vítahringur Strætó

Punktar

Erfitt er að reka strætó í samstarfi margra sveitarfélaga, þar sem sýn manna er misjöfn á samgöngur almennings. Sumir vilja, að þær standi undir sér og aðrir vilja, að þær séu ókeypis. Sátt hefur verið um millileið í taprekstri. Þegar mönnum ógnar tapið, er leitað leiða til sparnaðar og þær koma gjarna niður á tíðustu leiðunum. Svo er raunin núna, þegar hætt verður að fara þær á tíu mínútna fresti. Strætó verður eins og veitingahús, sem ekki fær næga aðsókn, ákveður að spara í mat og þjónustu án þess að lækka verðið. Slíkt verður ævinlega vítahringur og hann er nú á fullu hjá Strætó.

Huliðseyjan

Punktar

Hjörsey er þriðja stærsta eyja Íslands, lítt þekkt og af fáum séð, enda er þar ekki vegur, höfn eða flugvöllur. Hún er upphafspunktur landmælinga á Íslandi, því að frá vörðu í eyjunni mældi danska herforingjaráðið fyrsta þríhyrninginn, sem varð upphaf að víðtæku kortasafni landsins. Hjörsey er grösug eyja í Faxaflóa út af Mýrum, hægt að sullast þangað á hestum á fjöru. Hún var kostajörð allar aldir og eru þar einnig tilnefndar sex hjáleigur. Kirkja var þar til 1896. Nú er ekki önnur byggð þar en í sumarbústað. Miðnæturreið út í eyjuna í kvöldroðanum væri góð lækning þeim, sem kvarta um, að þeir séu andvaka út af fuglagargi.

Hjálmaskyldan

Punktar

Hjálmaskylda hefur lengi verið í ferðum fyrirtækja á borð við Íshesta og Eldhesta. Hins vegar sá ég í sjónvarpinu mynd frá hestaferð um Þingeyjarsýslur, að starfsmaður í rekstri var hjálmlaus. Þannig er búin til stéttaskipting í ferðum. Annars vegar eru atvinnumenn, sem ekki nota hjálm, og hins vegar almenningur, sem notar hjálm. Skilaboðin eru röng, sem fyrirtækið sendir með þessu. Þær skyldur, sem lagðar eru á ferðamenn, eiga líka að gilda um starfsmenn. Ég er í fleiri en einni langferð á hestum á sumri hverju og hjálmaskyldan nær þar til allra.

Draumalandið

Punktar

Löngufjörur eru draumaland hestamannsins. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum, bæði dagleiðin suður í átt til Hítarness og Akra og dagleiðin vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Hestum líður vel á þessari leið, þeir teygja sig á góðgangi og hafa margir gaman af að sulla eins og börn. Gamlir klárhestar verða ágætlega meðfærilegir á tölti, skeiðhestum er att saman og lausu hrossin æða áfram á stökki eins og þau eigi lífið að leysa. Erfitt er að hemja fjörið á leirunum og þá er ráðið að leita upp í gróðursælar eyjar til að hvíla gæðingana.

Löngufjörur

Punktar

Fáir aðrir en hestaferðamenn kynnast Löngufjörum, miklu landflæmi í fjörum Mýra, Hnappadals og Snæfellsnes. Sumpart eru þetta flatar leirur innan við eyjar og nes, Akraós, Kaldárós, Haffjarðarós og Straumfjarðarós. Vestar taka við hvítir skeljasandar frá Stakkhamri vestur að Arnarstapa. Allt er þetta land fjarri vegum, enda undir sjó tvisvar á sólarhring. Á sumrin er oft mikil umferð ferðahesta á svæðinu, margir að flýta sér að ná fjörunni í Hítará, Saltnesál, Haffjarðará, Straumfjarðará, Staðará eða Búðaósi. Milli þessara farartálma eru miklir skeiðvellir fjarri mannabyggðum.

Biskupaleiðin kortlögð

Punktar

Fín kort eru í nýjustu árbók Ferðafélags Íslands eins og í mörgum þeirra hin síðari ár. Þau eru sérhönnuð fyrir efni bókarinnar. Jón Gauti Jónsson bókarhöfundur segir m.a. frá merkri vinnu Ferðafélags Akureyrar við að kanna hina gömlu Biskupaleið um Ódáðahraun, finna vörður leiðarinnar, lappa upp á þær og skrá hnit þeirra á GPS. Jón dregur þessa áður týndu leið inn á bókarkortin. Þetta var leið Skálholtsbiskupa til austasta hluta umdæmis þeirra. Hún lá upp með Þjórsá, yfir Sprengisand og Ódáðahraun að ferju, sem þá var sunnarlega yfir Jökulsá á Fjöllum, þar sem enn heitir Ferjufjall, sunnan Möðrudals á Fjöllum.

Ódáðahraunsvegur

Punktar

Ódáðahraunsvegur
Þjóðvegur var um Sprengisand og Ódáðahraun fram undir miðja 17. öld. Var þá fylgt varðaðri leið, sem lá milli vatnsbóla og hrossahaga, enda voru óbyggðir gróðursælli í þá daga en þær eru núna. Svo gersamlega hvarf þessi þjóðvegur úr minni manna, að einni öld síðar, eftir miðja 18. öld, var hans leitað, en fannst ekki. Það var ekki fyrr en 1976, að skipuleg leit var hafin að þjóðvegi Ódáðahrauns. Smám saman hafa fundizt vörður og leifar af vörðum, svo að nú er hægt að fylgja hinni fornu leið með hjálp GPS-tækja. Frá þessu er sagt í nýútkominni árbók Ferðafélags Íslands.

Vörðuvinafélagið

Punktar

Vörðuvinafélagið er merkasta fornleifafélagið. Það skráir gamlar vörður á óbyggðaleiðum, lagar þær og hleður sumar að nýju. Það hefur tekið fyrir Sprengisandsleið upp Gnúpverjaafrétt meðfram Þjórsá vestanverðri upp að Sóleyjarhöfða, þaðan sem leiðin lá yfir Sprengisand og stundum Ódáðahraun. Vörður eru þau mannvirki fyrri alda, sem enn standa nú á tímum. Því er mikilvægt að varðveita þær og hlúa að þeim. Ferðafélag Akureyrar hefur unnið hliðstæða vinnu við Biskupaleið yfir Ódáðahraun. Og eitthvað hefur verið lagað á Kjalvegi. Allt er þetta einkum frjálst framtak áhugafólks.

Hnattvæðing hnígur

Punktar

Áttveldafundinum í Sankti-Pétursborg hefur ekki aðeins mistekizt að hemja stríð Ísrael. Honum hefur líka mistekizt að finna leiðir til að bjarga hnattvæðingunni. Hún hefur nú verið til umræðu í fimm ár í fundaröð, sem kennd er við Doha. Vesturveldin neita að opna markaði fyrir búvörur þróunarlandanna og þróunarlöndin neita að opna markaði fyrir hátækni og fjársýslu vesturveldanna. Hagsmunasamtök bænda á vesturlöndum bera mesta ábyrgð. Í kjölfarið tekur verndarstefna við af hnattvæðingu.