Forfeður okkar, sem lýst er af samtímamönnum í Sturlungu, voru engir innisetumenn. Hvað eftir annað fóru þeir í langar hestaferðir til að gæta hagsmuna sinna, oft að vetrarlagi. Vosbúð var þeim töm. Þeir nenntu ekki alltaf að taka króka á vöð, heldur böðluðust yfir ár og fljót á sundreið og áðu í blautum mýrum. Notalegra hefur verið að liggja í Snorralaug. En höfðingjar þess tíma virðast þó ekki hafa óttazt hrakninga í fljótum og á heiðum. Söðlar forfeðra okkar og ferðabúnaður allur var lakari en hann er nú á tímum góritex. Við nútímamenn erum dúllur í samanburði við þá.