Punktar

Samband úti í móa

Punktar

Auðvelt er að komast í samband við umheiminn nánast hvar sem er í byggð. Við þurfum ekki að komast í staðartölvur eða velta fyrir okkur tengingum við síma eða staðarnet. GPRS og Bluetooth leysa málin. GPRS er hugbúnaður í farsímum, sem flytur tölvuefni símleiðis og Bluetooth tengir síma og tölvu þráðlaust. Önnur aðferð er Blackberry, handhægt tæki, sem þó vantar gott lyklaborð og góða tölvu. Ég mundi ekki nenna að senda þessa klausu úr Blackberry. Gaman er að finna sér gott samband úti í móa og setjast þar á þúfu með tölvuna. Menn eru alltaf í vinnunni, jafnvel í hestaferðum. Verst er okrið á símaþjónustunni.

Þvargað um þýfi

Punktar

Mjókursamsalan og Mjólka saka hvort annað um stuld á merkingum osta. Báðir hafa stolið heitinu “feta”, sem er alþjóðlega og evrópskt lögverndað nafn á grískum geitaosti. Hvorugur aðilinn framleiðir geitaost, heldur einkar lélega eftirlíkingu úr kúamjólk. Hvorugur getur sakað hinn um stuld, því að báðir hafa stolið grísku vörumerki. Ísland er bara svo langt frá menningunni, að fáir nenna að rexa í afbrotum alla leið hingað til lands. En þeir eru brattir þjófarnir, þegar þeir rífast í fjölmiðlum og jafnvel fyrir dómstólum um, hvor þeirra eigi þýfið.

Svefnsæla á Búðum

Punktar

Dularfullt er að ríða að Snæfellsjökli. Á fjöruleiðinni frá Snorrastöðum um Stóra-Hraun og Skógarnes, um Stakkhamar og Garða, stækkar hann stöðugt og verður myndarlegastur að Búðum. Þegar enn nær dregur, minnkar fegurðin, því að ljótar undirhlíðar verða áberandi, þegar horft er frá Arnarstapa eða Hellnum. Oft er sagt, að dularmagn jökulsins sé mest á Hellnum, en mér finnst það vera mest í hrauninu á Búðum, þar sem menn og hestar hvílast vel. Ég hef verið með hesta í áningu á Búðum á hverju sumri í mörg ár og aldrei hafa þeir verið eins rólegir og sælir og einmitt þar. Þeir sofna bara.

Skökk hamingjuvog

Punktar

Gallinn við flestar mælingar á hamingju þjóða er, að fólk er sjálft spurt, hvort það sé hamingjusamt. Marklaus er ný könnun, sem sýnir Íslendinga í fjórða sæti í hamingju, því að hún spyr, hvort menn séu sáttir við líf sitt. Slíkum spurningum svara Íslendingar jafnan játandi. Þjóðir eru að meðaltali mismunandi lygnar og Íslendingar eru óvenjulega lygnir. Það er mín reynsla, að Íslendingar svari eins og þeir telja vera heppilegt í stöðunni. Betra er að mæla hamingju þjóða með mælingu áþreifanlegra atriða, svo sem ýmissa þátta í heilsufari og sérstaklega í geðheilsu.

Gegnsæi í skattskrám

Punktar

Skattskrár eru brýnn þáttur gegnsæis í lýðræðisþjóðfélagi. Ungir sjálfstæðismenn mótmæla opnun þeirra, því að þeir vilja, að fjármál manna séu leyndarmál, á þessu sviði sem öðrum. Þeir eru auðvitað líka andvígir, að opinberuð séu framlög manna og fyrirtækja til flokka og framboða. Ungir og gamlir sjálfstæðismenn vilja, að fjármál séu einkamál, ekki hluti af opnu lýðræðisþjóðfélagi. Mikilvægt er, að lýðræðissinnar verjist ofbeldi ungra sjálfstæðismanna á skrifstofum skattstjóra, því að ofbeldið er fjandsamlegt gegnsæju og heilbrigðu lýðræði.

Froðufellandi ríki

Punktar

Heiminum stafar núna mest ógn af tveimur froðufellandi hryðjuverkaríkjum. Annars vegar vilja Bandaríkin ráða ein öllu í heiminum. Hins vegar vill Ísrael ráða eitt öllu í miðausturlöndum. Samtök hryðjuverkamanna í öðrum löndum eru leikskólar í samanburði við þessi hryðjuverkaríki, sem því miður tengjast Evrópu í bandalögum. Verst slíkra samtaka er Atlantshafsbandalagið, sem í þriðja heiminum er orðið hreingerningadama Bandaríkjanna, rekur til dæmis fyrir þau hatað hernám í Afganistan.

Hataðar krossferðir

Punktar

Almenningsálitið í löndum múslima hefur alveg snúizt til stuðnings við Hezbolla, Hamas og jafnvel al Kaída, róttækustu stjórnmálaflokkana. Hassan Nasralla, leiðtogi Hezbolla, er orðinn að trúarhetju á borð við Saladín, dýrkaður um öll nálæg austurlönd fyrir vörnina gegn árás Ísraels. Jafnvel ríkisstjórnir Egyptalands og Sádi-Arabíu hafa vikið frá stuðningi við Bandaríkin. Í þessum heimshluta eiga Bandaríkin alls enga vini lengur. Þannig hefur árásarhneigð Ísraels og Bandaríkjanna spillt stöðu vesturlanda í heimsmálunum. Enda mun krossferð hins illa öxuls enda með skelfingu.

Talsmaður álfunnar

Punktar

Efnahagsbandalag Suður-Ameríku, Mercosur, hefur formlega lýst yfir stuðningi við aðild Venezuela að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þessi stuðningur mun fella Guatemala, sem er frambjóðandi Bandaríkjanna. Í Mercosur eru ríki á borð við Brazilíu og Argentínu, auk hinna smærri ríkja álfunnar. Yfirlýsing þeirra þýðir, að Hugo Chávez, forseti Venezuela, verður helzti talsmaður álfunnar í heimsmálum. Jafnframt hefur Mercosur nú gert fríverzlunarsamning við Fidel Castro, forseta Kúbu. Að baki þessa er eindregið hatur íbúa álfunnar á illum harðlínumönnum Bandaríkjanna.

Stríð er hornsteinn

Punktar

Hornsteinn í viðhorfi bandarískra harðlínumanna til umheimsins er, að stríð komi í stað utanríkismála. Hægt sé að fá erlendar þjóðir til að taka upp bandaríska stjórnarhætti með því að sprengja þær upp, þar með talin börn og gamalmenni. Harðlínumenn telja, að fólk í útlöndum sjái ljósið, þegar það er sprengt í loft upp. Þegar sprengjum linnir, sé síðan hægt að varðveita nýfengið frelsi með því að halda fólki hernumdu. Við sjáum afleiðingarnar í Palestínu. Við sjáum þær í Afganistan og Írak. En harðlínumenn draga af þeim allt annan og gersamlega veruleikafirrtan lærdóm.

Pólitísk ógnargleði

Punktar

Ógnargleði er í herbúðum harðlínumanna í Bandaríkjunum. Stríð Ísraels við umheiminn hefur vakið þá til lífs. Langt er síðan þeir voru síðast glaðir. Það var, þegar Bandaríkin hófu stríð gegn Írak. Þá átti að sigra Óvininn með rothöggi. Nú á að sigra hann að nýju, að þessu sinni í Líbanon. Þótt skynvilla harðlínumanna sé ætíð fjarri veruleikanum, rís hún jafnan upp að nýju. Öðrum þræði á hún að þjappa þjóðinni um vanhæfan forseta. Stríðið í Líbanon er ekki einkaböl Ísraels, heldur þáttur í bandarískri pólitík, varðveizlu og eflingu fáránlegra viðhorfa til lífsins og tilverunnar.

Vaskfrír matur

Punktar

Það flækir mál að taka misjafnt á þeim, að forgangsraða. Skattþrep eru röng, betra er að efla félagslegt réttlæti á annan hátt, til dæmis með ókeypis leikskólum og hærri ellistyrk. Einnig er rangt að taka mat fram yfir aðra vöru í virðisaukaskatti. Betra er að hafa eitt þrep og alla vöru á því þrepi. Í stað þrenns konar afstöðu til vöru í vaski er rétt að hafa einn vask á allri vöru. Matur á hvorki að vera á lægra skattþrepi né vera vaskfrír. Það flækir þjóðarbókhaldið og eykur líkur á undanskoti. Matur er of dýr, en betra er að lækka verðið með innflutnings- og tollfrelsi.

Linnulaust stríð

Punktar

Linnulaust er stríð Ísraels gegn Líbanon að undirlagi Bandaríkjanna. Hundruð óbreyttra borgara hafa verið drepin. Það heitir “collateral damage” á bandarísku orðbragði. Um hálf milljón manna hefur misst heimili sitt. Það er fyrirkvíðanlegur andskoti, að íslenzka ríkisstjórnin hyggst reyna að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að styðja hagsmuni hins illa afls í heiminum, bandalags Ísraels og Bandaríkjanna. Ísland er þegar orðið aðili að bandarísku hernámi Afganistans og hefur stimplað sig inn í vitund alþjóðasamfélagsins sem snati hjá George W. Bush.

Engar tannskemmdir

Punktar

Í kaþólskum sið voru Haffjarðareyjar stórbýli og kirkjustaður. Lítið sér nú eftir af þeirri fortíð eyjanna þriggja milli Haffjarðarár og Skógarness, aðeins bæjarhóllinn er áberandi í landslaginu. Ekki er sýnilegur gamli kirkjugarðurinn í Bæjarey. Þar fann Vilhjálmur Stefánsson margar hauskúpur, alls engar með tannskemmdum. Byggð hélst í eyjunum fram á fyrsta fjórðung átjándu aldar, en þá fóru þær endanlega í eyði vegna sjávargangs og landbrots. Túngresi er enn töluvert í eynni, en undirlagið hefur breyzt í mosa.

Búvöruverðið

Punktar

Ráðherrar hafa tekið illa tillögum matvælaverðsnefndar. Sérstaklega eru Geir Haarde og Guðni Ágústsson viðskotaillir. Forsætisráðherra segir lægri matarskatt ekki munu skila sér í lægra matarverði, þótt sú hafi einmitt verið reynslan, þegar skatturinn var lækkaður. Landbúnaðarráðherra reynir að dreifa athyglinni með því að benda á verð á lyf og fatnaði. Innlend matvara og hátolluð erlend matvara eru þó þau atriði, sem mestu máli skipta í fjárhag almennings. Það er verndarstefnan, sem veldur hæsta matarverði í heimi. Hún er stjórnvöldum að kenna og engum öðrum.

Sex km sólarströnd

Punktar

Gamlaeyri fyrir mynni Kaldáróss er lengsti og bezti skeiðvöllur, sem ég veit um, sex kílómetrar af hvítum og rennisléttum skeljasandi. Ef hún væri í suðrænna loftslagi væri hún frábær sólbaðsströnd. Enginn sér þessa strönd nema fáir hestamenn. Enginn vegur liggur þangað og sjór liggur að henni á alla vegu milli Haffjarðarár og Saltnesáls. Á háfjöru ríða menn leirur út í eyrina til að fá sér skeiðsprett í fjörunni sjávarmegin. Beztan tíma fá menn milli flóða, ef þeir ríða frá Snorrastöðum yfir Saltnesál og taka síðan land í Stóra-Hrauni eftir að flæðir inn í álinn.