Punktar

Gögnin fjarlægð

Punktar

Björn Bjarnason hermálaráðherra sendi burt gögn um símahleranir á vegum Bjarna Benediktssonar, fyrrum hermálaráðherra. Það var nokkrum dögum áður en hann lét segja gagnaheimtendum, að þau væri ekki í ráðuneytinu. Nú eru þau í Þjóðskjalasafninu og verða væntanlega afhent þar. Þeir feðgar eru tákn paranoju í stjórnmálunum, tilhneigingar til að rugla saman stjórnarandstöðu og landráðum. Við höfum lengi séð í hrokanum í rökum Björns Bjarnasonar, að hann telur andstöðu við sjónarmið sín jaðra við drottinsvik. Hin nýja herlögregla hans er hluti af persónuvanda, óttanum við almenning.

Minna fiskát

Punktar

Fisksalinn minn segir, að það komi bara gamlingjar eins og ég í búðina hjá sér. Hann viðurkennir líka, að tilbúnir réttir í sósujukki seljist ekki í búðinni, því að gamlingjarnir vilji ferskan fisk, éti ekki gumsið, og unga fólkið komi hvort sem er ekki til að kaupa gumsið. Fiskát hefur minnkað um þriðjung á nokkrum árum. Komnar eru til sögunnar tvær kynslóðir, sem ekki þekkja fisk sem mat. Fáir nenna að virða fyrir sér ferskleika í fiskbúðum og tína frekar upp freðfisk í stórmarkaði. Nú orðið velja flestir frekar soðið hveiti í matinn og kalla það pasta.

Uppgjöf yfirmanna

Punktar

Yfirmenn löggunnar í Reykjavík viðurkenna óbeint, að þeir þori ekki að taka á ofbeldinu. Þeir vilja ekki einu sinni fá fleiri löggur af ótta við, að þær verði barðar í götuna og sparkað í þær. Í staðinn stinga yfirmenn löggunnar höfðinu í sandinn, veifa marklausri skýrslu um, að ástandið sé bara fínt. Þeir segja ofbeldismenn vera fyllirafta, sem þurfi að sofa úr sér. Þar með tekur löggan afstöðu með þeim, vill sýna þeim skilning, vill afsaka þá með “þeir voru bara fullir, greyin”. Meðan löggan neitar að vinna, leita 4-5 manns á dag að meðaltali til bráðamóttöku vegna áverka af völdum ofbeldis.

Ofsi ofurlaunamannanna

Punktar

Ofurlaun í bönkum eru gott dæmið um, að límið er að bila í samfélaginu. Launamunur er orðinn svo mikill, að ekki býr lengur ein þjóð í landinu, heldur margar. Hópar halda ekki lengur saman, heldur öfundar hver annan. Annað dæmi um bilað lím eru aðfarir Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða gegn öryrkjum. Sjóðirnir kunna að hafa að grunni rétt fyrir sér, en þeir áttu að setja breytinguna inn í áföngum á einu ári til að lina verkina. Ráðamenn þeirra eru hins vegar tillitslausir eins og aðrir ofurlaunamenn og ákváðu að smælingjarnir mættu umsvifalaust éta það, sem úti frýs.

Kostnaður krónunnar

Punktar

Vegna íslenzku krónunnar er kostnaður Íslendinga af íbúðalánum helmingi hærri en kostnaður þjóðanna, sem nota evru. Hvort tveggja er miklu hærra hér á landi en í Evrópu, vextir og verðtrygging. Viðurkennt er, að vextir þurfa að vera hærri í litlu myntsamfélagi krónunnar en stóru myntsamfélagi evrunnar og að verðtryggingar er ekki þörf í stóru myntsamfélagi. Þetta þýðir, að lífskjör eru miklu lakari hér á landi en í nálægum löndum, þrátt fyrir miklar tekjur og mikla vinnu. Unga fólkið í landinu er látið borga herkostnaðinn af of litlum gjaldmiðli, krónunni.

Hamfarir herlöggunnar

Punktar

Sigur Rós fær ekki að leika tónlist á svæðinu við Kárahnjúka. Herlöggan hatast við tónlist og hefur lokað vegum milli Snæfells og Kárahnjúka. Landsvirkjun hefur sett upp ferðabannskilti í byggð í Fljótsdal og þar með slegið eign sinni á allt víðerni svæðisins. Sérsveit ríkislögreglustjórans og hermálaráðherrans er komin á svæðið, svo og víkingasveitin á Akureyri. Við vissum áður, að markmið sérsveita og víkingasveita er ekki að verja borgara, heldur að verja kerfið fyrir borgurum. Slagsmál löggunnar við stelpur við Kárahnjúka er dæmigerð paranoja.

Bless, feðgar

Punktar

Skattablað Frjálsrar verslunar er merkasta tímarit Íslands, gefur innsýn í þjóðfélagið, meðan aðrir fjölmiðlar hoppa á yfirborðinu. Í skattablaðinu má sjá, að merkustu Íslendingarnir eru Sigurður Helgason hjá Calidris, Magnús Jónsson hjá Atorku og Jón Ásgeir Jóhannesson hjá Baugi. Þar má einnig sjá, hverjir eru alls engir Íslendingar, feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson, svo og Jón Ólafsson, sem allir hafa flúið land og greiða ekkert af tekjum sínum. Samt telja þremenningarnir sig geta gert sig breiða í umræðu á Íslandi. Svo er ekki, þeir eru farnir. Bless.

Ekki ofvirkur

Punktar

Þegar ég fer af bæ, geri ég eitthvað, fer í viku á skíði í Ölpunum, þrjár vikur í hestaferðir um landið og um helgar á Kaldbak að ríða út. Áður fór ég oft til erlendra stórborga og skrifaði bækur um þær. Ég er samt ekki alveg ofvirkur. Stundum nenni ég ekki að gera neitt. Það er bezt að stunda heima hjá mér, þar er betra rúm og betri letistóll en á sólarströnd, betri sturta og betri hitapottur, betra netsamband á tölvunni og 60 ónothæfar sjónvarpsrásir, langtum betri matreiðsla en á sólarströnd. Ég get ekki hugsað mér betri stað til slökunar en vera einmitt heima í stofu.

Skattar mínir

Punktar

Samkvæmt blaði frá tollstjóranum borga ég 2.844.268 krónur í skatt á þessu ári. Það er sjálfsagt hæfilegt og er sem betur fer ekki leyndó. Hins vegar hefur skatturinn tekið af mér 3.162.042 krónur, sem er 317.774 krónum of mikið. Ég hef meira að segja fengið ávísun upp á mismuninn. Hvergi í þessum plöggum er þess getið, að ég fái vexti og dráttarvexti af því, sem ríkið hefur oftekið. Ef hins vegar ríkið hefði vantekið af mér, þyrfti ég að borga vexti og dráttarvexti. Ríkið vill ekki jafnræði í þessu. Það er ein af orsökum þess, að flestir hata ríkið eins og pestina.

Áratuga fangelsi

Punktar

Bandaríkin loka þríbrotamenn inni til lífstíðar. Hér gerast menn þríbrotamenn og þrjátíubrotamenn áður en þeir eru settir inn. Sinnuleysi viðkomandi stjórnvalda er komið á leiðarenda. Kjósendur verða að leiða til valda fólk, sem ekki er hrætt við að læsa ofbeldismenn inni, ekki í þrjár vikur, ekki í þrjá mánuðí, ekki í þrjú ár, heldur í þrjátíu ár eða allan þann tíma, sem þarf til að borgararnir búi við öryggi. Það er raunar annað hlutverk ríkisins að tryggja öryggi borgaranna. Hitt er að reka vanhæfa embættismenn.

Vanhæf embætti

Punktar

Áður en fjölmiðlar lögðu fréttabann á ofbeldismenn, var vitað, að tiltölulega fáir menn eru valdir að helmingi hins glórulausa ofbeldis, sem löggan neitar að sjá og skilja. Við vissum þá, hverjir ofbeldismennirnir voru, en við vitum það ekki lengur vegna nýrra hugsjóna um persónuvernd og nafnleynd. Að vísu eru yfirmenn löggunnar ekki einir vanhæfir. Skilning skortir líka hjá ríkinu, sem reisir ekki og rekur ekki fangelsi, og hjá veruleikafirrtum dómurum, sem kerfisbundið nota aðeins botn þess svigrúms, sem þeir hafa í dómum ofbeldismanna.

Daglegur vígvöllur

Punktar

Ófært er, að daglega þurfi fjórir-fimm menn að fá meðferð á bráðamóttöku á höfuðborgarsvæðinu vegna ofbeldis. Það er hinn daglegi vígvöllur borgarinnar. Enda segir yfirlæknir móttökunnar ástandið vera glórulaust. Yfirmenn löggunnar eru hins vegar hinir rólegustu og segja, að áður hafi ástandið verið verra. Er þá vísað til arfavitlausrar rannsóknar á vegum löggunnar. Allir aðrir en löggan vita, að ofbeldið er harðara en nokkru sinni fyrr. Og það er ekki bundið við höfuðborgina, því að vikulega berast fréttir af glórulausu ofbeldi í kaupstöðum úti á landi.

Leiðir ragnarök Krists

Punktar

Bandarískir harðlínumenn telja heimsendi í vændum og vilja spilla umhverfi mannsins til að flýta fyrir honum. Þeir rekja nokkur dæmi um, að heimurinn sé að farast. Þeir nefna auðvitað homma og lesbíur, einnig velferðarkerfið eins og það leggur sig, hjónaskilnaði og einstæðar mæður. Fóstureyðingar sýna nálægð heimsendis. Sameinuðu þjóðirnar eru vettvangur djöfulsins. George W. Bush forseti telur beinlínis, að guð hafi valið sig til að leiða sannkristna menn út í þjóðamorð og ragnarök til að flýta fyrir endurkomu Krists og upprisu sannkristinna.

Framtíðarspá harðlínunnar

Punktar

Harðlína George W. Bush byggist á 19. aldar kreddu, sem telur, að Kristur muni senn ganga aftur. Þjóðamorð og heimsendir verði í kjölfarið og sannkristnir verði halaðir upp úr öngþveitinu inn í himnaríki. Þetta geti alls ekki gerzt, fyrr en gyðingar ráði öllu landinu helga. Þess vegna vilja harðlínumenn hjálpa gyðingum til landvinninga, svo að Kristur geti gengið aftur og framið þjóðarmorð á gyðingum og múslimum. Á þessari brengluðu kreddu byggjast flestir bandarískir sértrúarsöfnuðir. Utanríkisstefna Bandaríkjanna hvílir á þessari morðóðu framtíðarspá frá 19. öld.

Laugavegur á Löngufjörum

Punktar

“Þetta er eins og á Laugaveginum”, sagði félagi minn. Hestaferðamenn hafa fjölmennt á Löngufjörum. Við hittum hestarekstur á Stóra-Hrauni. Hann var að fara í Skógarnes, við í Haffjarðareyjar og urðum að setja hálftíma bil milli hópanna. Annan dag hittum við rekstur í Syðra-Skógarnesi. Fjórða reksturinn hittum við á Straumfjarðarfjörum, hinn fimmta á Krossi, hinn sjötta í Görðum og rétt misstum af hinum sjöunda á Búðum. Lagni og góða forreið þarf til að rugla lausum hestahópum ekki saman. Ég lenti í slíku undir Svarfhólsmúla fyrir áratug. Tvo tíma tók að skilja hópana sundur.