Punktar

Leigupennar yfirsóðans

Punktar

Vefþjóðviljinn vitnar mjög í Robert C. Balling Jr, Roger Bate, Richard Lindzen, Patrick J. Michaels, Nils-Axel Mörner og Fred Singer. Þetta eru leigupennar hjá stofnunum á borð við George C. Marshall Institute, The Cato Institute, The American Enterprise Institute, Competitive Enterprise Institute og The International Policy Network. Þær eru reknar á kostnað auðhringsins Exxon, sem ákaft grefur undan kenningum vísindamanna og Sameinuðu þjóðanna um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum. Þótt þeir hafi vísindagráður eru þeir leigupennar á vegum sjálfs yfirsóða hnattarins.

Lifi Schwarzenegger

Punktar

Schwarzenegger ríkisstjóri og repúblikani hefur höfðað mál fyrir hönd Kaliforníu gegn bílaframleiðendum fyrir mengun umhverfis og gróðurhúsaáhrif hennar. Í ákærunni segir, að bílaframleiðendur beri ábyrgð á skaðsemi vöru sinnar, sem þegar hafi valdið Kaliforníu vandræðum og kostnaði og borgurum ríkisins heilsutjórni. Samkvæmt nýjum lögum ríkisins eru bílaframleiðendur skyldaðir til að minnka útblástur koltvísýrings um 30%. Jafnframt hefur Schwarzenegger kært ríkisstjórn George W. Bush fyrir sinnuleysi gagnvart útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Lifi Schwarzenegger.

Atlantshafið í Afganistan

Punktar

Atlantshafsbandalagið er komið í vandræði í Afganistan. Það lét fyrst narra sig í friðargæzlu, sem smám saman breyttist í stríð gegn íbúum landsins. Bandalagið er nú orðið að hötuðu hernámsliði, sem hvarvetna óttast tilræði, jafnvel í höfuðborginni Kabúl. Bandaríkjastjórn narraði undirsáta sína í bandalaginu til að taka við hlutverki ógæfunnar í þessu hrjáða landi, þar sem ástandið er verra en nokkru sinni fyrr. Til dæmis er staða kvenna orðin verri en hún var á tíma talíbana og ræktun eiturlyfja er orðin meiri en nokkru sinni fyrr. Allt er það vegna vestrænnar afskiptasemi.

Orðbragð á allsherjarþingi

Punktar

Ef ég tryði á tilvist djöfulsins, sæi ég mynd hans í George W. Bush Bandaríkjaforseta, andstæðingi heimsfriðar og vistkerfis mannsins. Mér bregður því ekki, þegar Hugo Chávez, forseti Venesúela, fer í ræðustól á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og kallar hann djöfulinn sjálfan og einræðisherra heimsins. Enginn núlifandi maður hefur kallað eins mikil vandræði yfir mannkynið og George W. Bush. Sjálfur telur hann sig vera einræðisherra heimsins. Hitt er svo smekksatriði, hvort aðrir telji hann vera djöfulinn í mannsmynd. Það er bitamunur, en ekki fjár.

Exxon byltist um

Punktar

Konunglega brezka vísindafélagið hefur krafizt þess, að auðhringurinn Exxon hætti að fjármagna áróður gegn vistfræði nútímans. Það heldur uppi stofnunum á borð við Competitive Enterprise Institute, sem fagnar losun koltvísýrings í andrúmsloftið. Exxon getur alltaf fundið fátæka fræðimenn eða jólasveina á borð við Björn Lomborg til að segja svart vera hvítt. Vísindafélagið kannar, hverjir láti kaupa sig og segir það vera skelfilegt, þegar eitt stærsta fyrirtæki heimsins ljúgi markvisst að fólki um rétt ástand heimsins. Máttur auðhringanna er mikill. Og skelfilegur.

Tíðindalaust í Darfur

Punktar

Allir keppast um að segja vesturlönd þurfa að grípa í taumana í Darfur í Súdan, þar sem kristnir uppreisnarmenn hafa svikið samkomulag um vopnahlé. Ljóst er, að hvorki Bandaríkin né önnur vestræn ríki vilja senda þangað her, enda eru þau flest þegar yfirkeyrð af hernaði í öðrum löndum. Og af hverju ekki einnig senda her til Sómalíu, Austur-Tímor eða Aceh? Af því að þeir eru uppteknir í Afganistan, Írak og Líbanon. Og af því að vesturlönd hafa glatað siðferðiskrafti til að tugta harðstjóra þriðja heimsins, sem vísa bara til siðleysis Bandaríkjanna.

Laug linnulaust

Punktar

Ferenc Gyurcsany forsætisráðherra hefur ekki aðeins játað linnulausar lygar að ungversku þjóðinni um stöðu efnahagsmála, heldur ætlar hann ekki að segja af sér. Hann telur sig mikinn stjórnmálamann fyrir að hafa tekizt að telja þjóðinni trú um alls konar vitleysu. Mark Almond segir í Guardian, að lygaárátta einkenni ráðamenn um alla Austur-Evrópu, sé arfur frá sovétinu, þegar aldrei var sagt satt orð. Hann segir, að ástandið sé nú svipað og þá, ekki sé í boði nema ein stefna, þá kommúnismi og nú markaðshyggja. Báðar kreddur miði að því að fátæklingar þjáist og þrengi að sér beltið.

Íslam er ofbeldishneigt

Punktar

Íslam er þrungið ofbeldi, í Pakistan og Afganistan, í Íran og Írak, í Alsír og Líbíu. Við sjáum hvað eftir annað brúðubrennur og fánabrennur í heimi múslima. Við heyrum um morð á nunnu eftir boðskap páfans. Við sjáum dönsk sendiráð brennd eftir réttmætt grín að Múhameð spámanni. Það er heimur múslima, sem á að biðjast afsökunar á tilveru sinni, en hvorki rithöfundar né ritstjórar né aðrir páfar á vesturlöndum. Það er fyrst og fremst íslam, sem gengur fram af nútímafólki. Það stafar af, að eyðimerkurtrú karlrembunnar getur ekki fótað sig í vísindalegum nútíma.

Moggi ritskoðar ekki

Punktar

Japanskur prestur skrifar stundum blaðagreinar, sem mér finnst sumar endurspegla rætur hans í þjóðfélagi, þar sem félagslegur rétttrúnaður og samheldni skipta meira máli en vestrænt lýðræði og flokkadrættir. Hann hefur til dæmis gagnrýnt Morgunblaðið fyrir að ritskoða ekki greinar, sem rugga báti þess félagslega rétttrúnaðar, að ekki megi blaka við íslam. Það er hins vegar hluti af eðli Vesturlanda, að menn hljóta að gagnrýna trú og gera grín að trú, sem sífellt birtist okkur sem ofsi og ofbeldi. Presturinn skilur ekki vesturlönd frekar en veitingamaðurinn.

Fiskur fyrir ketti

Punktar

Ég man eftir blaðaviðtali fyrir mörgum árum við víetnamskan veitingamann, sem skildi ekki dálæti Íslendinga á rauðsprettu. Það er bara fiskur fyrir ketti, sagði hann, uppvaxinn í menningarheimi, þar sem bragð kemur úr sósum fremur en grunni máltíðar. Við erum hins vegar mótuð af nýfranskri matargerð, þar sem bragðið af grunninum, fiski eða kjöti, skiptir meira máli en bragðið af sósunni. Þessu hafði veitingamaðurinn ekki náð og gat því ekki séð fyrir sér sæluna af snöggt ofnbakaðri rauðsprettu með hvítum kartöflum og smjöri, án salts og annars krydds.

Bush í auglýsingum

Punktar

George W. Bush er meginþemað í kosningabaráttu demókrata í yfirvofandi þingkosningum. Þeir sýna myndir af honum með þingmönnum repúblikana, sem þeir vilja fella, helst myndir í faðmlögum. Markmiðið er að sýna, að þingmennirnir séu hallir undir Bush. Með auglýsingunum fylgir talning á þeim tilvikum, að þeir hafi stutt forsetann í atkvæðagreiðslu. Kosningarnar snúast um Bush, segja demókratar. Þeir vonast til, að fleiri verði andvígir forsetanum en fylgjandi honum, þegar til kastanna kemur. Bush er ekki sjálfur í framboði, en tekur mikinn þátt í baráttu ýmissa repúblikana.

Uppreisn gegn Bush

Punktar

Harður slagur hefur undanfarið staðið milli George W. Bush og þriggja uppreisnarmanna repúblikana í öldungadeildinni. Undir forustu John McCain vilja þremenningarnir ekki fallast á lagabreytingu, sem felur í sér herdómstóla, leynigögn og pyndingar að geðþótta leyniþjónustunnar. Allir hafa þeir herþjónustu að baki og eru studdir aldurhnignum herforingjum, þar á meðal Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra. Mikil áróðursvél hamrar gegn þremenningunum, því að fjöldi fólks í Bandaríkjunum vill pyndingar, vill stríð, vill djöfulgang í staðinn fyrir utanríkisstefnu.

Blekktir kjósa Bush

Punktar

Fátæklingar í Bandaríkjunum skipta tugum milljóna. Svartir fátæklingar kjósa demókrata, sem er skiljanlegt, en hvítir fátæklingar kjósa repúblikana. Samt hefur ríkisstjórn George W. Bush dregið úr lífskjörum fátæklinga og hossað ofsaríkum í staðinn. Hvítu fátæklingunum er talin trú um, að ofsafengin trú á gamla testamentið, andstaða við fóstureyðingar og homma skipti meira máli en lífskjörin. Svo langt gengur sjálfsblekking þeirra, að ávinningar Bush í síðari forsetakosningum hans voru mestir í þeim fimm ríkjum, þar sem lífskjör fátæklinganna skertust mest.

Óheiðarleg og ósvífin

Punktar

Kjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg skefur ekki af áliti sínu á skýrslu bandarísku fulltrúadeildarinnar um atómvopn í Íran. Stofnunin segir skýrsluna óheiðarlega og ósvífna. Þar sé ítrekað farið rangt með staðreyndir. Þetta minnir á, að Bandaríkin fóru í stríð við Írak á forsendu gereyðingarvopna, sem ekki reyndust vera til. Nú eru Bandaríkin að undirbúa stríð við Íran, en ólíklegt er, að margar verði fúsu þjóðirnar í þeirri herferð. Evrópuríkin taka meira mark á stofnun í Vínarborg en froðufellandi þingmönnum í Washington.

Ráðizt gegn spillingu

Punktar

Paul Wolfowitz hefur ráðizt gegn spillingu í Heimsbankanum. Hann hefur til dæmis látið stöðva peninga, sem áttu að fara til Kongó, af því að Denis Sassou-Nguesso forseti eyddi tólf milljónum króna í hótel á Manhattan. Af svipuðum ástæðum hefur hann látið stöðva fjárstreymi til Indlands, Eþiópíu og Bangladesh. Miklir ramakvein fer nú um þriðja heiminn út af kröfuhörku Wolfowitz, er áður var þekktari fyrir róttæka hægri stefnu, sem hafði önnur mál á oddinum. Forverar hans sáu gegnum fingur við þjófa þriðja heimsins, en Wolfowitz ætlar greinilega að láta góða stjórnsýslu ráða ferðinni.