Punktar

Níðingsmjólk

Punktar

Vegna búvörusamnings og einokunarverzlunar í landbúnaði er Ísland helfrosið í úreltum verkferlum. Ekki fæst upprunavottuð vara, nema kannski svæðisvottuð á borð við Fjallalamb. Haldið þið ekki, að það væri munur, ef kostur væri á Gunnarsstaðalambi með mynd af Steingrími J. Sigfússyni. Hér er enginn ostur framleiddur, bara eftirlíkingar af krydduðum smurosti og gúmmíosti. Öfugt við Frakkland, sem framleiðir 400 mismunandi osta og rauðvín með vottaðan uppruna frá tilgreindum hluta einnar fjallshlíðar. Hér fer allt í eina súpu, venjuleg mjólk og mjólk frá dýraníðingum, sem við viljum ekki þurfa að kaupa. Neytendur eiga enga aðild að búvörusamningi. Burt með hann.

Stjórntækir flokkar

Punktar

Æskilegt og líklegt er, að eftir kosningar verði mynduð ríkisstjórn, sem ýtir áfram nýrri stjórnarskrá. Sem kemur á heildstæðu kerfi uppboða á veiðiheimildum og annarri auðlindarentu. Sem notar þessar auknu ríkistekjur til að endurreisa fyrst heilsumálin, lífskjör aldraðra og öryrkja, og húsnæðismál unga fólksins. Píratar hafa þegar lagt fram metnaðarfulla stefnu á þessum sviðum. Í algerri andstöðu við ríkisstjórnarstefnu síðustu ára. Ætti að hafa hljómgrunn í öðrum flokkum, Vinstri grænum, Viðreisn, Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Gott er, eð þessir flokkar fari að sýna kjósendum lit, svo að þeir teljist stjórntækir.

Bomban sprakk í andlitið

Punktar

Kosningabomba Vigdísar Hauks og Guðlaugs Þórs sprakk í andlit þeirra sjálfra. Viðtökur á þingi og utan þess eru undantekningarlítið neikvæðar. Þingmenn stjórnarmeirihlutans í fjárlaganefnd kannast ekki við aðild að málinu. Sjálfur forseti alþingis segir plagg þeirra Vigdísar og Guðlaugs bara vera samantekt utan við allar reglur þingskapa og því Alþingi með öllu óviðkomandi. „Aumingja maðurinn“, sagði þá Vigdís af sinni alkunnu hófsemi. Guðlaugur hefur beðist afsökunar á kjarnyrtum landráðabrigzlum plaggsins um nokkra embættismenn. Nú verður reynt að prófarkalesa plaggið og koma því í þolanlegt horf fyrir þingið.

Lyfjafé upp urið

Punktar

Peningar til lyfjakaupa eru upp urnir hálfum fjórða mánuði fyrir árslok. Ýmis nauðsynjalyf eru því ekki lengur fáanleg, einkum krabbameinslyf og gigtarlyf. Hjá lyfjaeftirlitinu hefur verið sett upp forgangsröðun sjúklinga eins og á svo mörgum öðrum heilsusviðum. Það er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að svelta heilsukerfið til að rýma fyrir einkarekstri. Verða þá tvö kerfi, annað fínt fyrir þá, sem geta borgað. Hitt lágmarkskerfi fyrir blanka aumingja, til dæmis fyrir aldraða og öryrkja. Brýnt er, að stjórn Sjálfstæðis og Framsóknar verði felld í kosningunum til að koma upp norrænni velferð hér á landi.

Draumar kjósenda

Punktar

Flestir kjósendur telja endurreisn heilsumála vera mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar eftir árásir einkasinna. Næstflestir kjósendur telja mikilvægast að skila öldruðum og öryrkum peningunum, sem einkasinnar ríkisstjórnar hafa rænt af þeim. Þriðji í óskaröðinni eru svo húsnæðismál unga fólksins, sem hafa setið á hakanum í tíð ríkisstjórnarinnar. Þá fyrst kemur röðin að stjórnarskrá fólksins, sem ríkisstjórnin hefur geymt niðri í skúffu allt þetta kjörtímabil. Peningamálin eru nær hjarta almennings en góðar hugmyndir. Enda þarf ekki annað til en auðlindarentuna frá þeim, sem hafa fengið forgang að auðlindum okkar.

Nothæfar lýsingar

Punktar

Gamlar mannlýsingar verða flóknari, þegar sérfræðigreinar yfirtaka orð og segja þau merkja eitt og ekki annað. Mest er um þetta í lögfræði, sem greinir milli dæmdra og ódæmdra. Og í læknisfræði, þar sem gömul orð eru látin lýsa ákveðnum sjúkdómi. Ég get sagt að pólitíkus sé bófi og að flokkur sé bófaflokkur, af því að orðið bófi er ekki skilgreint í lögum. Ég get sagt, að pólitíkus sé bilaður, klikkaður eða snarvitlaus, af því að þessi orð heyra ekki til sérgreindra sjúkdóma. Sem betur fer er íslenzkan ekki orðin svo sérhæfð, að ómögulegt sé  að skilgreina bófann Bjarna Benediktsson og bilaðan Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Wintris van Tortola

Punktar

Eigandi peninga í skattaskjóli á aflandseyju getur ekki verið formaður eða varaformaður, þingmaður eða ráðherra stjórnmálaflokks. Firrtur maður, sem lýgur stjórnlaust og linnulaust, getur ekki heldur sinnt þessum verkum. Skaphundur, sem lætur allt falla í ljúfa löð í þingsal, meðan hann er í löngu veikindafríi, getur ekki sinnt þeim. Ekki heldur draumóramaður, sem fremur heimsmet á hverju misseri. Klofningsmaður, sem klýfur gamlan stjórnmálaflokk, getur ekki tekið þátt í myndun eða starfi ríkisstjórnar. Framsókn er ekki samstarfshæf í ríkisstjórn, meðan þessi Wintris van Tortola er innan sjóndeildarhrings.

Framsókn er klofin

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vann afgerandi sigur í kjördæmi sínu, efstur á listanum á norðausturlandi. Helzti andstæðingur hans í kjördæminu, Höskuldur Þórhallsson, verður ekki á listanum. Á sama tíma er mikil andstaða við Sigmund í ýmsum öðrum landshlutum. Þar hafa framsóknarfélög hvatt núverandi forsætis, Sigurð Inga Jóhannsson, til að bjóða sig fram gegn Sigmundi til formennsku í flokknum. Framsókn er klofin í herðar niður þessa stundina. Annars vegar eru aðdáendur Sigmundar. Hins vegar eru þeir, sem telja óhæft, að aflendingur í skattaskjóli sé formaður flokksins. Eða vita, að hann er veruleikafirrtur.

Bremsum ferðaþjónustu

Punktar

Enn vex hraðinn á fjölgun ferðamanna. Enginn samdráttur er fyrirsjáanlegur í náinni framtíð. Við þurfum að fara að bremsa þetta. Ekki er ráðlegt, að einn atvinnuvegur sé helmingur alls atvinnulífsins. Of áhættusamt í kreppum, sem munu verða dauðateygjur kapítalismans. Við þurfum að setja fullan vask á alla ferðaþjónustu og taka upp auðlindarentu í formi gistináttagjalds. Þannig getum við reynt að tempra skrímslið. Við þurfum jafnframt að finna fleiri tegundir atvinnu, til dæmis í tölvutækni. Hönnun vélmenna er dæmi um arðvænlega framtíð.

Vinsælir bófar

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn situr í undarlega góðum tölum í síðustu skoðanakönnunum. Hann er í hörmulegri ríkisstjórn, svíkur helztu loforðin, gælir við þrengstu sérhagsmuni auðgreifa. Mætir klofningsframboði Viðreisnar með afspyrnu lélegum framboðslista. Flokkurinn ætti að vera með langt innan við 20%, jafnvel í eins konar Davíðsfylgi. Mælist samt í 25-29% fylgi, rétt eins og hér séu fjölmennir hópar fávita á kjörskrá. Formaður og varaformaður flokksins híma í skattaskjóli á aflandseyjum, sem urðu altjend formanni Framsóknar að falli. Furðulegt, að kjósendur Flokksins sætti sig við að vera skjólstæðingar pólitísks bófaflokks.

Gleymdi stefnu flokksins

Punktar

Fámennir þingflokkar fá ekki sæti í öllum þingnefndum. Verða því oft að vera á fleiri en einum stað í senn. Þeir geta ekki kynnt sér öll mál til hlítar. Eiga þó að vita, að búvörusamningar hafa löngum verið umdeildir á alþingi. Því þarf sérstaka aðgát við þær aðstæður. Helgi Hrafn Gunnarsson mun núna hafa tekið að sér að fylgjast með frumvarpi um búvörusamning. Telur sig ekki hafa verið nógu vel undirbúinn. Samt hafa Píratar fremur ítarlega stefnu í landbúnaði, til dæmis um eins árs samninga. Helgi Hrafn hefði getað sparað sér vinnu og kynnt sér stefnuna. Áður en hann mælti með afar óvinsælu hlutleysi pírata.

Þú líka, pírati

Punktar

Get skilið, að Samfylkingin og Vinstri græn sitji hjá um 132 milljarða og tíu ára búvörusamning. Þeir hafa of oft sýnt fram á, að þeir eru hluti af gamla fjórflokknum. Á endanum var það bara Björt framtíð, sem greiddi atkvæði á móti, eini flokkur skynseminnar í þessu máli. En ég var furðu lostinn yfir hjásetu Pírata. Hafði haldið og vonað, að þeir vissu meira um innihald þessa samnings. Hann bindur hendur margra ríkisstjórna fram í tímann og takmarkar svigrúm til endurskoðunar á tímabilinu. Hjáseta Pírata verður brennimerki þræla kerfisins fram í tímann. Súrt, kæst og vont vegarnesti inn í aðvífandi meginkosningar.

Lúserar

Illa stafsett smjörklípa

Punktar

Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson klipptu og límdu kafla úr gömlum skýrslum til að búa til smjörklípu („attention shifting“). Það telur Sigurbjörg Sig­ur­geirs­dótt­ir, dósent við háskólann. Hún segir þetta ekki vera alvöru plagg, „til þess gert að skapa hávaða og vera póli­tísk í stað þess að vera hluti af eft­ir­lits­hlut­verki þing­nefnda með fram­kvæmda­vald­inu“. Heldur hefur hallað á ríkisstjórnarflokkana í aðdraganda kosningabaráttunnar. Hin undarlega stafsetta smjörklípa er tilraun til að skipta um umræðuefni. Draga athygli frá blóðbaðinu í Framsókn og firna dapurri útkomu úr prófkosningum Sjálfstæðisflokksins.

Aðkrepptur Sigmundur

Punktar

Guðni hefur talað og Sigmundur Davíð kominn út í horn. Þungavigtin í Framsókn vill losna við hinn undarlega formann, sem nú styðst einkum við Gunnar Braga Sveinsson. Sigmundur hefur lýst fyrirsjáanlegu blóðbaði með samanburði við Waterloo, þegar Napóleon var velt úr sessi. Lilja Alfreðsdóttir er óheppilegur arftaki. Sýndi dómgreindarleysi í nýjum varnarsamningi við Bandaríkin og harðri fylgispekt við æsinginn í Nató. Sveinbjörn Eyjólfsson á Hvanneyri er mun betri arftaki, vinsæll og framsóknarlegur, eins og raunar Sigurður Ingi forsætis er orðinn. Skást til langs tíma fyrir Framsókn er að leita skjóls hjá Sigurði.

Svipuð stefna flokka

Punktar

Vinstri græn fengu sjávarútvegsráðherra Færeyja og tvo aðra færeyska ráðherra til að koma og segja sér frá uppboði á veiðikvóta. Í Færeyjum er rekin svipuð stefna auðlindarentu og Píratar stefna að. Eftir þessa heimsókn má reikna með, að Vinstri græn hallist að svipaðri línu hér. Frumkvæði Færeyinga hefur líka haft áhrif á Samfylkinguna og Viðreisn. Í loftinu liggur, að næsta ríkisstjórn geti tekið upp auðlindastefnu og útboð, meðal annars til að kosta endurreisn heilsukerfisins. Sömu flokkar gætu jafnframt litið jákvæðum augum á þá stefnu pírata, að taka upp nýju stjórnarskrána, sem liggur tilbúin niðri í skúffu.