Punktar

Finna ekki taktinn sinn

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn fékk nægt fylgi til að kallast stóri flokkurinn. Nógu stór til að fá frumkvæðið að stjórnarmyndun. Þótt formaður flokksins sé landsþekktur braskari á gráa svæðinu með fé sitt í skattaskjóli á aflandseyju. Kjósendur vildu ekki refsa honum fyrir það og því erum við í þessari klípu. Fáir vilja starfa með spilltum flokki og sízt þeir, sem standa honum hugmyndafræðilega næst. Stjórnin er fallin og framsókn útskúfuð. Samt hefur fyrrverandi stjórnarandstaða ekki bolmagn til að sameinast um meirihluta. Vinstri græn, Píratar og Viðreisn finna ekki taktinn sinn og því erum við í þessari klípu. Kannski fram yfir nýársdag.

Heimska öfgafrjálshyggju

Punktar

Skattar eru ekki ofbeldi, þótt Pawel Bartoszek og Heiðrún Lind Marteinsdóttir haldi það. Þeir eru aðferð manna til að búa til siðað samfélag, er heldur saman sem ein þjóð. Ríkið er stjórntæki samfélags, sem hafnar ofbeldi. Ríkið getur átt eignir og þjóðin sem slík getur líka átt eignir. Munurinn er einkum sá, að ríkið getur í vissum tilvikum selt ríkiseignir, en getur ekki selt þjóðareignir. Þær ber ríkinu að varðveita fyrir hönd þjóðarinnar. Séu þjóðareignir markaðsleg verðmæti, má leigja þær út fyrir markaðsverð. Rentan af því finnst með því að ríkið bjóði aðgang með frjálsum uppboðum. Möntrur öfgafrjálshyggju eru heimska.

Fólk þarf að rabba saman

Punktar

Sé fátt athugavert við samstjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, til dæmis með stuðningi Pírata. Vinstri og hægri verða að læra að vinna saman í ríkisstjórn eins og í ýmsum minni valdastofnunum. Fráfarandi ríkisstjórn lagðist of mikið í öfgar. Til dæmis í lækkun kvótarentu og tilheyrandi niðurskurði í heilsukerfinu. Fólk verður að læra að setjast niður og leysa slíkan vanda yfir borðið í stað þess að öskra hvert á annað. Píratar hafa einmitt lagt til, að menn venji sig á að rabba saman. Tækifærið er ágætt, þegar nærri annar hver þingmaður er nýr í starfinu. Og ágætt, að hinar hefðbundnu andstæður byrji á samræðustjórnmálunum.

Fyrir siðað samfélag

Punktar

„Skattar eru gjaldið sem við greiðum fyrir siðað samfélag.“ Þannig eru viðbrögð eðlilegs fólks við byrðum af samfélaginu. Allir greiða skatta eftir útreikningum, sem taka tillit til ýmissa sjónarmiða, svo sem jöfnunar. Siðblindir hugsa öðru vísi. Þeir segja: „Skattar eru ofbeldi“. Þeir segja líka: „Þjóðin getur ekki átt neitt“. Þetta eru möntrur upp úr kennslubókum öfgafrjálshyggjunnar. Notaðar til að verja gildandi skipan skattaívilnana fyrir ríka og kvóta fyrir ríka. Notaðar til að verjast kröfum um dreifingu auðs í samfélaginu og um markaðsverð á kvóta. Siðblindir vilja ekki taka þátt í siðuðu samfélagi, heldur bara tudda sér áfram.

Hættulegri en Íhaldið

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið meiri íhaldsflokkur en markaðsflokkur. Á þessari öld hefur þverstæðan komið upp á yfirborðið og orðið sýnilegri. Í raun hefur markaðshyggjan fremur verið kápa á herðum, en innihaldið verið drifið af pilsfaldi ríkisins. Flokkurinn aftengdist verkalýðsleiðtogum og kaupsýslumönnum markaðahagkerfisins og varð að pólitískum armi kvótagreifa í sjávarútvegi. Þannig stendur hann núna í vegi markaðsvæðingar sjávarútvegs, uppboði kvótans og öllum fiski á markað. Úr flokknum kvarnast kaupsýslumenn og sértrúarmenn markaðshyggju og safnast saman í Viðreisn. Sem er ekki síður hættuleg fátæklingum en Íhaldið.

Sár fátækt magnast ört

Punktar

Rauði krossinn hefur látið gera rækilega rannsókn á íslenzkri fátækt. Í ljós kom, að 7-10% þjóðarinnar „búa við erfið kjör eða fátækt“. Þetta eru kannski um það bil 30.000 manns. Rosalega há tala, sem hækkar ört með aukinni stéttaskiptingu. Láglaunafólk, öryrkjar og gamalmenni hafa alveg gleymst og húsnæðiserfiðleikum ungs fólks hefur ekki verið sinnt. Þúsundir barna lifa við varanlega fátækt. Ég endurtek: Þúsundir barna lifa við varanlega fátækt. Nú hefur þjóðin kosið óðan flokk stéttaskiptingar til forustu, ásamt með nýjum flokki, sem segir, að skattar séu „ofbeldi“. Við eigum því ekki von á góðu vegna firringar meirihluta kjósenda.

Hver vísar á annan

Punktar

Fyrir tæplega hálfri öld voru samningar Landsvirkjunar við verktaka með ákvæðum um ábyrgð verktaka á undirverktökum sínum. Nú er dólgafrjálshyggjan svo langt leidd, að enginn ber ábyrgð á neinu og hver vísar á annan. LNS Saga fær mikið af verkum byggðum á undirboðum undirverktaka. Slíkir fara svo ekkert eftir reglum um laun og hlaupast svo af landi brott, þegar hringurinn þrengist. Eftir standa vinnuþrælar í ókunnu landi. Kominn er tími til að rífa alla þessa útúrdópuðu frjálshyggju og láta alla bera ábyrgð á svikum sínum og svindli. Hér eru bófar gerðir að ráðherrum og einum jafnvel falið að mynda ríkisstjórn. Tómt flopp.

Endurlífgun krata

Punktar

Margir hafa áhyggjur af dauðastríði Samfylkingarinnar. Ýmsir gamlingjar í þeim hópi strá salti í sárin með því að kenna henni sjálfri um ófarir sínar. Ein af tillögunum snýst um, að Alþýðuflokkurinn verði endurlífgaður. Gaman er að sjá rúmlega sjötuga öldunga lýsa áhuga á aðild að slíkri endurnýjun. Það er eftir öðru í pólitíkinni. Raunar sýnist fleirum, að sjónarmiðum krata sé víða flaggað í öðrum flokkum, hjá Bjartri framtíð, Pírötum, Viðreisn og Vinstri grænum. Þetta séu nógu margir flokkar með nógu mikið af kratisma til að það geti talizt nægja. Gamlingjar þurfi ekki að endurlífga löngu dauða flokka til að efla kratismann.

Verði ykkur að góðu

Punktar

Pólitíkin er komin í þá stöðu, sem spáð var. Reynt er að mynda Engeyjarstjórn með Svartri framtíð. Þar verða sömu Panama-bófar og voru í síðustu ríkisstjórn. Ég sagði ykkur, að Viðreisn væri hægra megin við Sjálfstæðis og að Björt framtíð hefði þá einu stefnu að komast í ríkisstjórn. Ég varaði ykkur við þessum flokkum og tilraunum þeirra til að villa á sér heimildir. Of margir kjósendur trúðu því ekki, þótt þetta lægi dagljóst fyrir. Mikil reynsla er fyrir því, að íslenzkir kjósendur eru úr hófi trúgjarnir. Því fór sem fór. Útkoman er að þessu sinni, að bófar munu stjórna Íslandi hér eftir sem hingað til. Verði ykkur að góðu, fífl.

Ofsatrú Viðreisnar

Punktar

Ríkisstjórn Viðreisnar verður hægri sinnaðri en fráfarandi ríkisstjórn. Viðreisn er flokkur atvinnurekenda og mun leggja áherzlu á hófleg lífskjör. Hún mun enn frekar en Sjálfstæðis halda arði þjóðarbúsins hjá auðjöfrum, láta setja lög á verkföll og þrengja að útifundum. Nýfrjálshyggja er ekki bara praxís á þeim bæ, heldur beinlínis trúarsetning. Kenningin felur í sér, að af nægtaborði auðsins falli brauðmolar til almennings á gólfinu, sem klappi saman höndum af fögnuði. Viðreisn kemur öll úr Sjálfstæðisflokknum og það er fólk, sem er sannfærðara í ofsatrúnni. Er sannfært um, að pupullinn láti sér vel líka skammtinn í askana.

Ef menn nenna

Punktar

Viðreisn neitar að hafa Framsókn með í ríkisstjórn atvinnurekenda. Neitaði fyrir kosningar og neitar enn. Sjálfstæðis hefur breytzt í pilsfaldaflokk kvótagreifa og Viðreisn kemur inn sem pilsfaldaflokkur verzlunargreifa. Vill ekki að neinn Þórólfur á Króknum reyni að stýra ríkisstjórninni. Í staðinn vill Viðreisn hafa meira en viljuga Bjarta framtíð með í stjórninni. Það gefur 32 þingmenn á móti 31. Viðreisn telur það duga, því að í þessum hópum séu engir villikettir til að smala. Til að sýnast vera að vinna þurfa menn kannski eina eða tvær vikur að möndla. Þessa auðveldu stjórnarmyndun má afgreiða fyrir hádegi, ef menn nenna.

Tignarfólk fær slummur

Punktar

Í tilefni lokinna kosninga hefur Kjararáð Yfirstéttarinnar hækkað laun ráðherra um 330 þúsund krónur á mánuði. Tekur sú ákvörðun þegar gildi, sem er nýtt, því venjulega hækkar ráðið launin langt aftur í tímann. Þingmaður fær nú 1,1 milljón á mánuði fyrir utan alls konar skattfríar sporslur. Ráðherrar fá 1,8 milljón krónur á mánuði fyrir utan aukagreiðslur. Forsætis fær 2 milljónir á mánuði plús tilheyrandi. Á toppnum er svo forseti, sem fær 3 milljónir á mánuði, en það er ekki lengur skattfrítt. Ég gæti því látið mér detta í hug, að ríkið hafi peninga aflögu til að hækka hlutdeild sína í sjúkrakostnaði og kostnaði við örorku.

Þrældómur fyrr og síðar

Punktar

Við Miðjarðarhafið er fólk kynslóð eftir kynslóð kúgað af landeigendum, prestum, lénsherrum, sýslumönnum og fógetum. Kynslóð eftir kynslóð venst fólk að leita trausts hjá sínum herra frekar en hvert hjá öðru. Var svona líka um aldir alda á Íslandi. Fest í lögum um vistarband og aðra ánauð. Þrældómur undir öðru nafni. Nú á tímum felst kúgunin í plastkortum, kaupaskyldu á íbúðum og gengdarlausri skuldasöfnun á gagnlausri neyzlu. Leiddi við Miðjarðarhaf til Mafíu, Camorra, N’drangheta og fleiri glæpafélaga með lénsherra á toppi og aumingja á botni. Hér höfum við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk með traustu fylgi aldraðra sauða.

Deyr úr bíllausum lífstíl

Punktar

Samfylkingin liggur í roti með þrjá þingmenn og formann, sem enn hefur ekki haft rænu á að segja af sér. Flokksvandinn hófst í byrjun með sambræðslu margs konar hópa. Það var á árum Blairismans. Broddar flokksins voru hugfangnir af Blair og tóku þátt í kosningabaráttu hans. Smám saman rofnuðu tengslin við launþegafélög og Samfylkingin varð brezkur miðstéttarflokkur. Tók ekki eftir kjaraskerðingu gamals fólks, öryrkja og láglaunafólks. Datt í hliðarmál, aukaatriði, lífsstíl. Gerði hosur sínar grænar fyrir auðgreifum. Lenti í að stjórna borgarskipulagi í þágu ágengustu lóðabraskaranna undir kjörorði „hins bíllausa lífstíls“.

Eins og á Sikiley

Punktar

Kjósendur hafa ákveðið sig, valið sér ímyndaða framtíð. Tóku ímyndaða staðfestu fram yfir ímyndaða endurræsingu. Að vísu græddu Píratar og Vinstri græn ellefu þingsæti og Flokkurinn bara eitt. Það nægir bara ekki, því að Viðreisn hallar sér til hægri. Næst verður hægt að velja eftir fjögur ár. Þá verða auðmjúkir hlutfallslega fleiri, því ungt fólk nennir ekki lengi að standa uppi á hárinu á hálsbindum. Erum varanlega komin á frjálshyggjubraut með verri velferð og allan arð til allra ríkustu. Veruleikinn er bara svona: Of margir Íslendingar telja bófaflokka hæfasta til að stjórna volaðri þjóð. Eins og á Sikiley og í Napólí.