Punktar

Vildi hitta græðgiskarlinn

Punktar

Hafa má til marks um fákænsku og eymd Geirs H. Haarde, að hann sóttist eftir að hitta Björgólf Thor Björgólfsson. Vildi að eigin sögn alltaf tala við hann, þegar Björgólfur væri á landinu. Á þessum tíma sagði ég, að menn ættu ekki að taka mark á Björgólfi. Hann væri aumingi, sem ekki borgaði skatta til samfélagsins. Árum saman var hann skattlaus og fyrir rest borgaði hann vinnukonuskatta. Fólk á ekki að taka mark á manni, sem ekki sinnir skyldum sínum við samfélagið. Fyrir mörgum árum sagði ég ítrekað, að Björgólfur Thor væri bara ómerkur græðgiskarl. Ég held, að Geir hafi ekki fattað það enn.

Sendiherra rekur áróður

Punktar

Ég sé enga ástæðu til að taka alvarlega grein sendiherra Rússlands í Mogga í gær. Victor I. Tatarintsev fegrar þátt Sovétríkjanna í síðari heimsstyrjöld. Það er atvinna hans, kemur sagnfræði lítið við. Rússland nútímans er undir stjórn fyrrverandi yfirmanns í leyniþjónustunni. Vladimir Pútín leggur mikla áherzlu á gamla heimsveldisdrauma. Grein sendiherrans er þáttur í tilraunum Pútíns að fegra Stalín og verk hans. Hún er ekki vitrænt innlegg í umræðu um Stalín og Sovétríkin og heimsstyrjöldina. Mér sýnist einstaklingar og útgáfur á blogginu taka grein þessa of alvarlega sem umræðugrundvöll.

Gæfulausi ofstækissjóðurinn

Punktar

Leitun er að innlendum eða erlendum fjármálafræðingi, sem telur Alþjóða gjaldeyrissjóðinn hafa vit á peningamálum. Ráðgjöf og kröfur sjóðsins eru fordæmdar um allan heim, af nóbelshagfræðingum jafnt sem öðrum. Tilraunir til að halda uppi vöxtum á Íslandi eru dæmi um trúarofstæki hans. Ráðamenn sjóðsins ímynda sér, að tröllatrú á Chicago-hagfræði sé allra meina bót. Skrítnast er, að þeir skuli ekki hafa vit á að skammast sín eftir hrakfarir sjóðsins í ógrynni af ríkjum þriðja heimsins. Svo virðist sem engin leið sé að fá vit í ráðgjöf og kröfur þessa algerlega gæfulausa frjálshyggjusjóðs.

Sumt er bara of gott

Punktar

Lyklaborð með hnöppum í fullri stærð er 27 sentimetra á breidd. Nauðsynleg breidd fyrir góða fingrasetningu, er jafnframt fullnægjandi breidd. Tölvan mín hefur þá sömu breidd, með svokölluðum tólf tommu skjá. Hún fer vel í farangri, tekur minna pláss en A4. Er af beztu stærð, optimal. Með hana hef ég flækzt um heiminn og öræfin. Er jafngóð enn þann dag í dag og hún var fyrir fimm árum. Slíkir Makkar fást ekki í dag, minnsta tölvan frá Apple hefur þrettán tommu skjá. Ég bíð eftir næstu árgerð af tólf tommu tölvu. Mér er sagt ég þurfi lengi að bíða. Sumt er bara of gott fyrir þennan heim.

Fjárframlög raska dómgreind

Punktar

Fjármálaráðuneytið fékk Hagfræðistofnun háskólans til að meta greinargerðir ráðuneytisins og Seðlabankans um IceSave. Ráðuneytið áttaði sig á, að þessir aðilar njóta einskis trausts almennings. Því að þeir hafa logið of miklu undanfarnar vikur. Hafa stundað illa grundaðan áróður. Til dæmis spáð góðum haggrunni næstu ár. Spurning er svo, hvort traust háskóla-stofnunarinnar sé miklu meira. Tryggvi Þór Herbertsson skapaði þar þá hefð að skila skýrslum í þágu þeirra, sem báðu um skýrslurnar. Ráðuneyti stýra peningaframlögum til háskólastofnana. Raska þar með dómgreind þeirra, sem þar skrifa skýrslur.

Trausti rúnar hagdeildir

Punktar

Ítrekaðar upplýsingar um skrítnar forsendur í hagtölum fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans eru daglegt brauð. Hagdeildir þessara stofnana hafa glatað öllu trausti. Þær fela meðal annars í sér hömlulausan áróður fyrir IceSave samningi. Áður hafði Tryggvi Þór Herbertsson eytt trausti Hagfræðistofnunar Háskólans, þegar hann stjórnaði þar. Greiningardeildir banka glötuðu trausti í hruninu í fyrra. Engar stofnanir geta lagt fram gögn, sem fólk treystir. Því vantar trúverðug gögn. Flestir harma slátrun Þjóðhagsstofnunar. Þar var á ferð eitt af illræmdum reiðiköstum greifans af Íslandi, Davíðs Oddssonar.

Steingrímur klúðrari

Punktar

Allt hefur gengið á afturfótunum síðan í vor, þegar Steingrímur J. Sigfússon sagði IceSave samning Svavars Gestssonar frábæran. Ítrekað faldi stjórnin gögn og neyddist síðan til að birta þau. Hún laug ítrekað út og suður, unz lygin kom smám saman í ljós. Hún falsaði hagtölur, sem fræðimenn hlógu að. Til dæmis miðaði hún greiðslubyrði IceSave við allt annan haggrunn en verður hér næstu árin. Smám saman glataði stjórnin traustinu, þar á meðal nokkurra þingmanna vinstri grænna. Mesta ábyrgð á klúðrinu ber Steingrímur. Hann á að segja af sér og hætta í pólitík. Alþingi á að svo að tæta niður samninginn.

IceSave: Löglaus fjárkúgun

Punktar

Ég fellst á rök Ragnars H. Hall, Harðar F. Harðarsonar og Eiríks Tómassonar um stóran galla á IceSave samningunum. Þeir gera ráð fyrir, að Ísland taki á sig meiri skuldbindingar en fjölþjóðalög gera ráð fyrir. Umtalsverður munur er á greiðslubyrði með og án þessa umframgjalds. Auk ábendinga þeirra hafa komið fram ótal gallar á samningunum, sem gera þá ónothæfa. Alþingi verður hreinlega að lýsa yfir, að tiltekin ákvæði séu óviðunandi. Jafnframt þarf Alþingi að fresta gildistöku þeirra. Og kæra aðild Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að löglausri fjárkúgun Bretlands og Hollands.

Davíð og félagar landrækir

Punktar

Davíð Oddsson í Seðlabankanum og Jónas Fr. Jónsson í Fjármálaeftirlitinu bera mesta ábyrgð á IceSave, næst á eftir Björgólfsfeðgum. Davíð Oddsson ber ábyrgð á 350 milljarða innspýtingu í gjaldþrota banka fyrir ári. Ríkissjóður varð að taka það á sig, annars hefði Seðlabankinn sjálfur orðið gjaldþrota. Geir Haarde ber ábyrgð á 270 milljarða innspýtingu í peningamarkaðssjóðina. Alls nemur tjónið af völdum örfárra sjálfstæðismanna 1000-1500 milljörðum. Meira en þjóðarbúið stendur undir. Er ekki kominn tími til að reka þessa pólitísku fjárglæframenn úr landi? Með bankastjórum og víkingum þeirra.

Sýkill í samfélaginu

Punktar

Eðli lögmennsku er að gæta hagsmuna. Þeir hafa umbjóðendur. Þess vegna eru flestir lögmenn vanhæfir að fjalla um orsakir bankahrunsins. Geta ekki sagt, að hagfræðingur í sannleiksnefndinni sé vanhæfur. Geta ekki fullyrt, að húsleit á lögmannsstofunni Logos sé óviðurkvæmileg. Félag lögmanna getur það ekki heldur, þótt það geri það. Lögmenn eru innstu koppar í búri svindls og brasks. Teygja og toga lög og siði út á yztu nöf og fram af henni. Lögmenn í hlutverki dómara geta ekki einu sinni dæmt aðra lögmenn, þeir eru vanhæfir vinir og stórvinir. Lögmenn eru margir ómarktækir sýklar í samfélaginu.

Heilar stéttir bera ábyrgð

Punktar

Kannski eru það bara nokkrir tugir lögmanna og nokkrir tugir endurskoðenda, sem komu óorði á stéttir sínar. Þjónar bankastjóra og yfirmanna í bönkum, þjónar bankaeigenda og útrásarvíkinga, kúlulánafólks og krosseignarfélaga. En stéttirnar bera ábyrgð á stjörnulögmönnum og stjörnuendurskoðendum í sínum röðum. Þær hafa félög lögmanna og endurskoðenda. Slík félög eiga að halda aga á félagsmönnum. Hindra þá í að fara sjálfum sér og stétt sinni að voða í græðgisæði. Almennir félagsmenn hafa ekki kallað á siðvæðingu svo heyrst hafi. Heilar stéttir bera því ábyrgð á hruninu og afleiðingum þess.

Veruleiki takmarkar fullveldi

Punktar

Fullveldi okkar er takmarkað. Við höfum tekið upp meiripartinn af reglum Evrópusambandsins sem aðilar að evrópska efnahagssvæðinu. Við höfum gert ótal fjölþjóðasamninga, sem takmarka fullveldið. Veruleiki efnahagslífsins takmarkar líka fullveldið. Við keyrum á erlendum lánum. Orkuver eru byggð fyrir lánsfé, vegir lagðir og aðrir innviðir samfélgsins. Atvinnuvegirnir byggjast líka á lánum. Ef við skrúfum fyrir peninga að utan, fer þjóðin á hliðina. Núna fáum við bara fé frá sjóðum opinberra aðila erlendis, ekkert frjálst fjármagn. Við getum því ekki gefið skít í Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Áfram með sektirnar

Punktar

Þarf oft að fá bílastæði í miðbænum. Í sumar er allt í einu nóg af stæðum. Það stafar af auknu eftirliti. Mér sýnist ég sjá fimm sinnum fleiri verði en áður. Auðvitað stafar það af atvinnuleysinu. Þeir, sem áður fóru yfir á mælunum, láta færri sjá sig. Ég vona, að viðbótartekjur af sektum séu hærri en viðbótarkostnaðurinn. Ef svo er, þá er breytingin til bóta. Einn plús í kreeppunni. Þar á ofan þarf að sinna því betur að sekta þá, sem leggja óloöglega í miðbænum. Ef málin verða framvegis í eins góðu lagi og þau hafa verið í sumar, verður ljúft að reka erindi í miðbænum. Áfram með sektirnar.

Hún gerir það bara ekki

Punktar

Okkur vantar siðferðilega reisn í landstjórnina. Okkur vantar Evu Joly, sem reyndi að róa okkur um daginn. Allt tekur tíma, sagði hún. Við þurfum ekki að heyra fleiri útifundatýpur af ræðum frá forsætisráðherra, sem talar á innsoginu. Við vitum, að ríkisstjórnin ræður ekki við allt. Ræður illa við lata og hlutdræga embættismenn. Ræður illa við lata saksóknara og dómara aftan úr öldum. En hún getur sagt, hvað henni finnst vera rétt og rangt. Hún getur gefið skilanefndum bankanna á kjaftinn. Hún getur sagt nokkur vel valin orð um stéttir lögmanna og endurskoðenda. En hún gerir það bara ekki.

Þeir fyrirlíta okkur

Punktar

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er og hefur alltaf verið innheimtustofnun fyrir fjölþjóðlegt fjármagn. Hann knésetur Ísland ekki af illgirni, heldur til að ná aftur peningum, sem lánaðir hafa verið hingað. Evrópusambandið er ekki heldur illgjarnt, en það hefur tröllatrú á frjálshyggju. Embættismenn þess, ráðherrar, þing þess og ráðherrar aðildarríkja eru á þeim kanti í pólitík. José Manuel Barroso, forseti þess, er frjálshyggjumaður. Engin furða er, að bandalagið höfðar til margra Samfylkingarmanna, sem aðhyllast frjálshyggju. En það er í eðli frjálshyggju að fyrirlíta niðurlægt og afskekkt skítaríki.