Punktar

Þjóðin líkist kvótagreifum

Punktar

Kvótagreifar gráta stöðugt, því meira sem þeim gengur betur. Ég óttast, að þjóðin sé á svipuðu róli. Alls staðar er grátur og gnístran tanna. Samt er fátækt á Íslandi árið 2011 hin sama og árið 2004, mun minni en á öðrum Norðurlöndum. Samt er skuldir heimilanna lægri hér en í Danmörku, þar sem þó er minna um, að fólki eigi íbúðir sínar. Samt er kaupmáttur launa samkvæmt Hagstofunni hinn sami árið 2011 og hann var árið 2004. Þessir hagvísar segja ekki alla söguna, en skipta miklu máli við stöðumatið. Við því eiga dólgar ekkert svar nema þetta sígilda og gersamlega innihaldslausa: “Lygi, lygi”.

Öfgamenn nútímans

Punktar

Hryðjuverkamenn nútímans eru einkum vestrænir hermenn, er gera usla í þriðja heiminum. En ekki hinir, sem Nató kallar hryðjuverkamenn. Á sama hátt eru þeir ekki öfgamenn, er hafa aðra skoðun en álitsgjafar Sjálfstæðisflokksins. Náttúruverndarfólk vill stöðva verktaka-æðið, sem einkenndi árin fyrir hrun. Það vill efla verðmæti náttúrunnar, en ekki spilla henni á ýmsa vegu. Hafi einhver öfgastefnu í umhverfismálum, er það einmitt Sjálfstæðisflokkurinn. Ber ábyrgð á stóriðju-ofstækinu, sem hefur bakað þjóðinni ofsalegar skuldir, sáralitla atvinnu og ýktar hagsveiflur. Þær enduðu svo í margfrægu hruni.

Ríkið er borg Davíðs

Punktar

Stjórnkerfi Davíðs Oddssonar kvelur okkur mörgum árum eftir hrun. Fjölmennar eftirlitsstofnanir ríkisins sinna markvisst nánast engu eftirliti. Um það eru ótal dæmi frá síðustu mánuðum. Skorturinn á eftirliti felldi bankana 2008 og er enn ráðandi stefna opinberra eftirlitsstofnana. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun eru skýr dæmi. Hrunið kom ekki úr heiðskíru lofti, heldur var það heimaræktað á löngu árabili. Aðgerðalítið góðmenni tók við taumunum af Davíð. Geir var fyllilega vanhæfur til að fást við vandamál, lokaði bara augunum fyrir þeim. Eftirmennirnir hafa tæpast reynt að hreinsa flórinn.

Þjóðin hefur það gott

Punktar

Samkvæmt hagtölum hafa Íslendingar það miklu betra en af er látið í fréttum fjölmiðla. Kaupmáttur launa er samkvæmt lífskjararannsóknum Hagstofunnar sá sami árið 2011 og hann var árið 2004. Samkvæmt því hefur tekizt að verja mikinn hluta þjóðarinnar fyrir skakkaföllum af völdum hrunsins. Samkvæmt tölum Seðlabankans eru skuldir heimilanna hér á landi lægri en í Danmörku og eiga þó fleiri íbúðir hér en þar. Skuldir heimilanna hafa lækkað ört síðustu árin. Sjást þar áhrif aðgerða í þágu skuldara íbúðalána. Rétt er að halda slíkum hagtölum til haga í einhliða orrahríð áróðurs í fréttum fjölmiðla.

Góðmennið hvæsir

Punktar

Góðmennið Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, hóf í gær atvinnuofsóknir gegn Þóru Arnórsdóttur að hætti bófaflokks Davíðs Oddssonar. Hún kann að hafa “lokið ferli sínum á sjónvarpi ríkisins” fyrir að hugleiða ósk um framboð til forseta Íslands. Þetta er mjög í fyrri stíl Björns, sem var sérfræðingur í spilltum mannaráðningum, þegar hann var og hét. Má líta á þetta sem hótun um, hvað gerist, þegar hirðin kemst aftur til valda. Ég hélt satt að segja, að Björn væri týndur og grafinn. Lengi lifir í gömlum glæðum. Gamla, spillta Ísland hvæsir eins og það sé enn við völd. Hefur ekkert lært og engu gleymt.

Fjölbreytt fátækt bæja

Punktar

Gengi bæja fer lítið eftir flokkspólitík valdhafanna. Álftanes fór á hausinn í sund-rússibana vinstri manna. Reykjanes fylgir fast á eftir undir traustri stjórn sjálfstæðismanna og rambar á barmi gjaldþrots. Síðan er Fjarðabyggð. sem á það sameiginlegt með illa stæðum Hafnarfirði að hafa miklar tekjur af stóriðju. Ekki er alltaf farsælt að hafa miklar tekjur umfram aðra. Meðal annarra bæja í mestu sukki eru gróðafíkið Norðurþing, sem reynir að klófesta stóriðju. Og verstöðin Vestmannaeyjar og pólitískt skrítinn Kópavogur, sem lengi hafði doktor í drullu að bæjarstjóra. Formúla fátæktar er fjölbreytt.

Blogg og fésbók batna

Punktar

Bloggið er flott og batnar við að minnka. Burt hafa horfið margir, sem áttu ekki erindi og voru lítið lesnir. Horfnir í athugasemdir, sem eru verri en áður. Aðskilnaður hefur kosti. Minni tíma tekur að fylgjast með skoðunum í bloggi, þú lætur kommentin bara eiga sig. Vitræn umræða um blogg hefur færzt úr athugasemdum yfir í fésbókina, þar sem fólk kemur fram undir nafni. Þótt fésbókin sé formlega séð kaffihús vina og kunningja, er auðvelt að fylgjast með meginstraumum umræðunnar. Saman hafa blogg og fésbók tekið við mannlegum samskiptum um málefni dagsins. Jafnframt hafa þau margfaldað samskiptin.

Fátækleg ferilskrá

Punktar

Nú kemur í ljós, að ríkisstjórnin nær ekki fleiri markverðum stefnumálum sínum fram á þessu kjörtímabili. Hún gengur til kosninga að ári með öll mál í uppnámi. Evrópusambandsaðild er sjálfdauð vegna erfiðra aðstæðna í sumum löndum sambandsins. Ný stjórnarskrá fellur á tíma í lok næstu viku. Ný lög um þjóðareign sjávarauðlinda ná ekki fram að ganga. Í staðinn mun stjórnin senn birta frumvarp um hækkun auðlindagjalds. Þjóðin bað um allt annað, klár ákvæði um þjóðareign. Stjórnin getur aðeins flaggað friðsamlegri sambúð við erlenda lánveitendur gjaldeyris og skammlausri stöðu efnahags- og fjármála.

Ítrekaður dómgreindarbrestur

Punktar

Steingrímur J. Sigfússon er ekki næmur, þótt hann sé duglegur og telji sig vera kláran. Skipaði pólitískan guðföður sinn yfir IceSave samninganefndina. Dómgreind hefði þó átt að segja honum, að þetta væri of viðkvæmt starf fyrir flokksbróður. Nú hefur Steingrímur skipað einn hrunverja sem nefndarformann til að setja ramma um bankana. Dæmigerð hugsun frá gamla Íslandi. Hann valdi “reyndan” mann, sem fyrir hrunið sagði: “Finances of the Icelandic banks are basically sound.” Steingrímur er gamla Ísland og fattar ekki nýja Ísland. Þjáist af félagslegu heyrnarleysi og sýnir því ítrekaðan dómgreindarbrest.

Þóra glansaði í könnuninni

Punktar

Eftir skoðanakönnunina um fylgi forsetaframbjóðenda er einsýnt, að þrýsta þarf á Þóru Arnórsdóttur að bjóða sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni. Ég tek þó fram, að ég styð alla fimm hæstu í könnuninni. Fyrir utan Þóru þau Elínu Hirst, Salvöru Nordal, Pál Skúlason og Stefán Jón Hafstein. Mér sýnist þó ljóst, að Þóra hafi verið svo langhæst í könnuninni, að hún ein hafi góða möguleika á að sigra núverandi forseta. Hver svo sem fæst í framboð af þessum topplista, þá þarf að hvetja alla aðra til að halda sér til hlés. Ef alvöruframbjóðendur verða fleiri en tveir, er engin leið að velta Ólafi.

Paradís gangstera

Punktar

Kannski verð ég að hætta að heyra fréttir, svo svartur er veruleiki dagsins á Íslandi. Dómarar heimta, að ríkið skili sektarfé vegna samráðs olíufélaga. Dómarar telja skotárás í Bryggjuhverfi ekki vera morðtilraun. Sýslumaður hafnar lögmætri lögbannskröfu Talsmanns neytenda. Grínað er með leynisímtal Davíðs og Geirs nokkrum klukkustundum fyrir hrun, þegar áttatíu milljarðar hurfu úr Seðlabankanum, afgangur gjaldeyrissjóðsins. Sjálfstæði og Framsókn hindra þjóðaratkvæði í sumar um stjórnarskrá. Stjórnin fellur endanlega frá þjóðareign sjávarauðlinda. Ísland er orðið ónýtt land, paradís gangstera.

Allt í pati í Seðló

Punktar

Í samráði við Geir Haarde í símtali daginn fyrir hrunið ákvað Davíð Oddsson að lána Kaupþingi restina af gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar. 80 milljarðar fuku út um gluggann án þess að fylgt væri verklagsreglum og án gildra veða samkvæmt reglum bankans. Svar Seðlabankans við fyrirspurn þingnefndar er skýrt. Yfirstjórn bankans tók sjálf þessa ákvörðun, sem leiddi til tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans. Í svarinu segir, að enginn tími hafi verið til að fylgja verklagsreglum. Þó hafði Davíð lengi vitað, að hrun bankanna væri í aðsigi, en lét samt slag standa. Og Geir var að venju meðvitundarlítill.

Umboðssvik Davíðs

Punktar

Davíð Oddsson er sekur um umboðssvik. Sjálfur upplýsti hann fyrir Landsdómi, að hann hafi fyrir löngu verið búinn að átta sig á, að Kaupþing mundi falla. Samt hreinsaði hann út allan gjaldeyri Seðlabankans einum degi fyrir hrun og afhenti óreiðumönnum Kaupþings. Fór ekki eftir verklagsreglum Seðlabankans um slík mál, enda týndist allt féð, 84 milljarðar króna í gjaldeyri. Þarna var Davíð vitandi vits að brenna verðmætum þjóðarinnar í einu vetfangi. Ef þetta eru ekki umboðssvik, þá eru umboðssvik ekki til. Ef eitthvert réttlæti væri til, ætti Davíð ekki að vera núna í Hádegismóum, heldur á Litla-Hrauni.

Froða norræns Dalai Lama

Punktar

Lesið ræður Dalai Lama norðursins fyrir hrun og sjáið þjóðrembdan þvætting og samtvinnað lýðskrum. Sjáið til dæmis hér: “Reynslan hefur sannfært mig um að návígi viðskipta, vísinda og menningar hér á heimavelli er mikilvæg skýring á árangri útrásarinnar.” Ólafur Ragnar Grímsson fer víða um heim og dásamaði útrásarvíkingana fyrir hrun. Hann er sölumaður snákaolíu og vefur lítt fróðum fjölmiðlungum um fingur sér. En staðkunnugir útlendingar hrista höfuðið yfir froðunni. Því miður er það handhægt dæmi um trega greind margra Íslendinga, að þeir hafa gert Dalai Lama norðursins að leiðtoga lífs síns.

Ný stjórnarskrá dauðvona

Punktar

Bófaflokkar Sjálfstæðis og Framsóknar á Alþingi munu hindra atkvæðagreiðslu þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Munu gera það með málþófi í næstu viku. Ef ekki tekst að ljúka málinu þá, er það fallið á tíma. Kjósendur geta fyrst og fremst sakað þessa tvo flokka um útkomuna. Að hluta er þetta líka að kenna verkstjórn í þingnefnd og á Alþingi. Stuðningsmenn stjórnarinnar höfðu allan veturinn til að ýta málinu fram. En voru með allt niðrum sig fram á síðustu stundu. Þannig hafa kaupin of oft gerzt á eyrinni á þessu kjörtímabili. Mál koma of seint fram og stjórnarandstaðan fer létt með að blaðra þau í hel.