Punktar

Frekja meintra rétthafa

Punktar

Þrír stóru bókaútgefendanna í Bandaríkjunum kæra nýjan útgefanda fyrir að gefa út á vefnum ókeypis kennslubækur. Þeir segja þær bækur líkjast sínum bókum. Eins og höfundaréttur nái ekki bara til texta höfunda, heldur líka til staðreynda í texta hans. Ef stærðfræðibókahöfundar hjá Pearson, Cengage og Macmillan segja, að 2 x 2 = 4, má þá höfundur hjá Boundless ekki segja hið sama? Verður hann þá að segja, að útkoman sé fimm eða þrír? Þegar menn eru farnir að heimta höfundarétt að almæltum staðreyndum, er frekjan komin út yfir allan þjófabálk. Við þurfum senn að verjast fleiru af slíku tagi.

Hanga enn í fortíðinni

Punktar

Samfylkingin á sér von um Evrópufylgi í næstu kosningum, en það dugar henni skammt. Vinstri grænir eiga ekki von um neitt fylgi. Hvorugur flokkurinn hefur endurnýjað sig. Jóhanna og Steingrímur eru eins og úr fornöld, skilja ekki nútímann. Þau eru partur af gamla og spillta Íslandi. Í tæka tíð fyrir kosningar þurfa þessir flokkar að skipta út forustuliðinu. Ekki síðar en í haust. Mér sýnist fólk skilgreina þessa flokka sem hluta af Fjórflokknum. Enda hafa þeir klúðrað stjórnarskrá og þjóðareign á kvóta, sem greina milli gamla og nýja Íslands. Kannski er framtíðin farin framhjá flokkunum tveimur.

Auðvelt að útvega vinnu

Punktar

Mér heyrist vanta störf. Reglulega er fárast yfir, að fólk fái ekki vinnu, einkum ungt fólk með takmarkaða menntun. Á sama tíma eiga margir erfitt með að skilja, hvernig ódýrast er að leysa þennan vanda. Tala af fyrirlitningu um ferðaþjónustu. Er samt ódýrasta leiðin til að búa til atvinnutækifæri. Alger andstæða stóriðjunnar, sem er dýrasta leiðin til að búa til atvinnu. Ferðaþjónusta er orðin stærsta atvinnugreinin og með mesta vinnsluvirðið. Hún magnast um tugi prósenta á hverju ári. Til að tryggja framtíð hennar þarf að búa svo um hnúta, að ekki verði bakslag, heldur samfelld aukning.

Röngum tölum misþyrmt

Punktar

Þótt Íslendingar hafi gullfiskaminni, nær þjóðarruglið ekki þeim hæðum, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi 43% fylgi. Enda segja tölurnar annað, hann hefur 23% fylgi, sem er sögulegt lágmark. Tölurnar segja líka frá hruni Framsóknar niður í 8%. Hvernig þeir tveir flokkar eigi að mynda stjórn að kosningum loknum, er mér hulin ráðgáta. Vitleysan nær hæstum hæðum, þegar fjölmiðlar misþyrma röngum tölum upp í meirihluta á þingi. Hvorki gömlu flokkarnir né nýju framboðin hafa neitt fylgi. Enn er ekki kominn til sögunnar flokkurinn, sem verður kjölfesta næstu ríkisstjórnar. Þar verður eina von þjóðarinnar.

Svarthol flokksformanna

Punktar

Nýjasta skoðanakönnunin sýnir, að ríkisstjórnarflokkarnir eru orðnir nánast fylgislausir. Samfylkingin á 8% og Vinstri græn 5%. Jóhanna og Steingrímur virka eins og svartholin í himingeimnum. Þeirra tími er liðinn. Samfylkingin hefur þó smáséns í næstu kosningum sem örflokkur evrópusinna. Þeirra sem þá kunna að verða eftir. En vinstri græn eiga engan séns. Auðvitað verður strax að skipta út báðum formönnum, áður en þeir stúta flokkum sínum endanlega. Spyrjið ekki, hvort þetta sé sanngjarnt eða ekki. Málið er, að Jóhönnu og Steingrími mistekst að selja kjósendum gerðir sínar. Hafa engan kjörþokka.

Óbreytt þjóðremba óheft

Punktar

Íslenzkir ríkisborgarar fóru fyrir nokkrum árum ránshendi um Evrópu og hirtu sparipeninga fólks. Voru hvattir áfram af forseta Íslands, sem festi orður á útrásarvíkingana. Sagði þá endurspegla hið sanna Íslendingseðli. Hér í þjóð væri eins konar erfðaefni snilldar í viðskiptum. Núna hættur að lofa bófana, en notar enn sama orðbragð þjóðrembunnar. Ólafur Ragnar Grímsson segir, að Gordon Brown eigi að biðja Íslendinga afsökunar á hryðjuverkalögunum. Væri ekki nær, að Ólafur sjálfur bæði útlendinga afsökunar á sínum stóra þætti í útrásinni? Það voru Íslendingar, sem rændu Holland og Bretland, ekki öfugt.

Hýenur renna á lyktina

Punktar

Samfylking Jóhönnu er að gefa upp öndina og hýenurnar eru farnar að þefa af dýrinu. Árni Páll öðlaðist djúpan skilning á bankamálum við að hætta að vera bankaráðherra. Skrifar um það hverja greinina á fætur annarri. Lítur á sig sem erfingja flokksins. Vill gera hann forstjóravænan að nýju og byrja að kjassa kvótagreifa. Kannski er Ingibjörg Sólrún í hópnum umhverfis dauðvona dýrið, því að Blair-isminn er sameiginlegt einkenni skuggaverja. Vilja taka við flokknum og endurreisa samstarf við hrunverja um nýtt blöðruhagkerfi að hætti ársins 2007. Hafa ekkert lært og engu gleymt. Eins og margir fleiri.

Lúta ekki lögum

Punktar

Kratastjórnin gamla í Bretlandi og stjórn Sarkozy í Frakklandi aðstoðuðu hryðjuverkastjórn Bush í Washington við ólöglega meðferð pólitískra fanga. Brezka þingmannanefndin, sem rannsakar fangaflugið illræmda, hefur rekizt á sama steinvegg og aðrir. Leyniþjónustur beggja ríkja eru eins konar útibú frá Bandaríkjunum og lúta ekki lögum og rétti heimalandsins. Þetta var gert með vitund ráðandi stjórnmálamanna, sem þar með gerðust sekir um pyntingar og aðra stríðsglæpi. Brezkir kratar voru alveg eins innréttaðir og franskt íhald. Þingnefndir komast ekki yfir steinveggina, þegar aðstæður eru slíkar.

Beðið eftir Godot

Punktar

Fjölmiðlar birta áfram rangar tölur úr skoðanakönnunum. Langstærsti flokkur landsins er ekki Sjálfstæðisflokkurinn, heldur flokkur hinna óákveðnu og sem neita að svara. Sjálfstæðisflokkurinn hefur bara 25% fylgi og aðrir flokkar minna. Skoðanakannanir sýna, að þriðjungur þjóðarinnar hafnar fjórflokknum og nýju flokkunum. Flokkar Hreyfingarinnar, Guðmundar Steingrímssonar og Lilju Mósesdóttur höfða ekki heldur til hóps hinna óákveðnu. Sem ekki hefur minnkað neitt, þrátt fyrir nýju framboðin. Enn og aftur sker í augu, að þriðjungur þjóðarinnar bíður áfram eftir sínum Godot. Það er eina fréttin.

Ítrekaðar ýkjufréttir

Punktar

Að segja Sjálfstæðisflokkinn hafa 45% fylgi samkvæmt könnunum er eins rangt og að segja Ólaf Ragnar og Þóru hafa 45% fylgi hvort um sig. Þá er eftir að telja þá, sem ekki hafa ákveðið sig. Fráleitt er að telja þau atkvæði munu falla eins á framboðin og atkvæði hinna. Ólafur Ragnar og Þóra hafa hvort um sig 30% fylgi. Ókomið framboð gæti reynzt hafa meira fylgi, ef það höfðaði eindregið til óákveðinna. Þegar vantaldir í könnunum eru reglubundið yfir 35%, er óhætt að segja, að útkoma kosninga sé opin í alla enda. Endurteknar ýkjufréttir um fylgi flokka og forsetaframboða rugla fólk bara í ríminu.

Með móðgelsi að leiðarljósi

Punktar

Samkvæmt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni snýst utanríkispólitík um móðgelsi. Bendir á ýmsar erlendar valdastofnanir, sem hann telur hafa móðgað Ísland, jafnvel ítrekað. Evrópusambandið er honum ofarlega í huga, en einnig stök lönd á borð við Bretland. Nú síðast er hann móðgaður yfir aðild sambandsins að málaferlum gegn Íslandi. Sigmundur Davíð er enn barnið í sandkassanum. Utanríkispólitík snýst ekki um móðgelsi, heldur um hagsmuni. Ríki þurfa að gæta hagsmuna sinna með sem mestan árangur að leiðarljósi. Ekki með móðgelsi að leiðarljósi. Móðgelsi er eingöngu brúklegt á innanlandsmarkaði þjóðrembu.

Traustur sólargleypir

Punktar

Bingi er einn af þessum hressu mönnum, sem gleyptu sólina. Eignarhaldsfélag hans skilur eftir sig 733 milljón króna skuld og á ekki krónu upp í hana. Samt getur Bingi rekið fyrirferðarmikla vefmiðla, væntanlega vegna ofsalegs trausts bankastjóra. Þeir trúa enn, að sólargleypar séu bezt allra manna hæfir til að fá lán. Þeir lána slíkum stórfé til að gleypa fleiri fjölmiðla. Þannig lifir gamla Ísland áfram. Á nýjum kennitölum, ef ekki vill betur. Í bönkum og fyrirtækjum er gamla og spillta Ísland á fullu sem aldrei fyrr. Sólargleypar fá afskrifað eftir þörfum, en aumingjar éta það, sem úti frýs.

Þjóðin valdi dómstól

Punktar

Fyrir réttu ári sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að Holland og Bretland hefðu ekki nokkurn áhuga á að fara með IceSave fyrir dómstóla. Þjóðin trúði plötuslagaranum og kollega hans, Ólafi Ragnari Grímssyni. Felldi samninginn í þjóðaratkvæði. Nú er málið komið fyrir EFTA-dómstólinn, þrátt fyrir hina þjóðrembdu spá. Samt fara menn upp á háa sé út af aðild Evrópusambandsins að málaferlunum. Telja alla anga málsins vera óréttmæta. Allir eru vondir við litlu, sætu Íslendingana. Er ekki kominn tími til, að fólk dragi ofurlítið niður í þjóðrembunni og taki sönsum? Þjóðin valdi sjálf að fara þessa leið.

Nóg komið af gömlum köllum

Punktar

Hreinar línur eru komnar í framboð til forseta. Tveir frambjóðendur hafa allan þorra fylgisins, Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir. Aðrir frambjóðendur hafa ekkert fylgi og geta því aflýst framboði nú þegar. Sama verður að segja um aðra, sem hafa legið undir feldi og eiga eftir að ákveða framboð. Margir hafa verið nefndir, en nú er ljóst, að einungis tveir eru útvaldir. Kosningarnar verða val milli Ólafs Ragnars og Þóru. Fyrir mér er valið einfalt, það er milli gamla og nýja Íslands. Fyrir mér rennur Ólafur Ragnar saman við Davíð Oddsson og aðra gamla kalla, sem ég hef heyrt nóg af.

Gíslar teknir í Norðfirði

Punktar

Kvótagreifarnir halda áfram að taka gísla. Fyrst stöðvaði Þorsteinn Már Baldvinsson vinnslu á Dalvík fyrir erlent dótturfyrirtæki Samherja. Nú hefur Gunnþór Ingvarsson hjá Síldarvinnslu Samherja í Norðfirði bætt við hótun um að reka áhöfn Barðans. Í báðum málum heimta greifarnir, að opinberir aðilar makki rétt við mafíuna. Gefi eftir í dómsmálum og lagafrumvörpum. Tárin eru sjaldan fjarri grátkórnum. Gunnþór hafði ógeðfelldan grátstaf í kverkunum, er hann flutti boðskap gíslatökunnar. Kvótagreifar hafa rænt þjóðina auðlind hennar og eru ákveðnir að verja þýfið með kjafti og klóm. Einnig með gráti.