Punktar

Banna, banna, banna

Punktar

Menntamálaráðherra er Stóra systir. Hefur áhyggjur af skoðanamótun frétta, þótt allar fréttir séu skoðanamótandi. Katrín Jakobsdóttir vill banna að birta úrslit skoðanakannana síðustu tvo daga fyrir kosningar. Banna, banna. Forsjá er því miður vinsælt vopn vinstri pólitíkusa. Skoðanakannanir eru samt bara fréttir eins og aðrar fréttir. Hjálpa fólki við að gera upp hug sinn. Og hjálpa fólki til að hafa áhuga á að drattast á kjörstað. Því skyldu skoðanakannanir ekki mega hafa áhrif á skoðanir eins og aðrar fréttir? Hver er vandinn? Væri ekki nær að setja reglur um vísindalega vandvirkni kannana?

Kennir öðrum um ógæfuna

Punktar

Hinn kynóði Dominique Strauss-Kahn kennir handlöngurum Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta um ógæfu sína. Þeir hafi gert út hótelþernuna Nafissatou Diallo til að eyðileggja framboðið til forseta Frakklands. “Kannski var ég pólitískur einfeldningur” að ímynda mér, að þeir gengju ekki svona langt, sagði hann. Strauss-Kahn er einfeldningur, en af öðrum ástæðum. Er lentur í hverju vandræðamálinu á fætur öðru vegna kynóra. Síðast kærður fyrir tengsli við vændishring. Samt sér hann ekki, að hann er sjálfur sinnar ógæfu smiður. Kennir öðrum um ófarir sínar. Gæti þess vegna verið íslenzkur pólitíkus.

Hinir eins og Geir

Punktar

Guðmundur Hálfdánarson prófessor sagði réttilega í viðtali við Spegilinn, að ríkisstjórnir hafi rekið ríkið eins og rassvasafyrirtæki. Ekki bara Geir H. Haarde, heldur líka forverar hans og eftirmenn. Dómurinn yfir Geir sé um leið áfellisdómur yfir stjórnsýslu pólitíkusa. Í stað formfastra vinnubragða hafa mál verið afgreidd á hlaupum, stundum í einrúmi og stundum í tveggja manna tali. Guðmundur benti líka á, að vont sé, að kontóristar ríkisins séu ráðnir pólitískt. Skemmst er að minnast Baldurs Guðlaugssonar, sem nú situr á Kvíabryggju. Geir farnaðist verr en öðrum, því að hrunið varð á hans vakt.

Upplýsingar um afskriftir

Punktar

Eygló Harðardóttir og meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis eru á réttu róli í gegnsæi. Vilja birta upplýsingar um afskriftir lána á vef Ríkisskattstjóra. Þau setja bara of hátt viðmið, að afskriftirnar nemi yfir hundrað milljónum króna. Vilji þingmenn hlífa almenningi, er nóg að setja gólfið við tíu milljón króna afskriftir. Venjulegur Jón fær ekki einu sinni svo mikið í sinn hlut. Allar afskriftir umfram tíu milljónir eru afskriftir af skuldum stórlaxa, séra Jóns. Með því að lækka gólfið niður í þá tölu væri lengra gengið í að efla gegnsæi og eyða tortryggni í illa löskuðu samfélagi.

Skrípaleikir Alþingis

Punktar

Ýmsar ástæður stuðla að litlu og minnkandi áliti fólks á Alþingi. Verkstjórn er þar ófær og versnandi. Mál ríkisstjórnarinnar koma seint fram og eru illa samin af lagatæknum ráðuneytanna. Formenn þingnefnda eru of lengi með mál í vinnslu. Forsetar Alþingis leyfa trylltu málþófsliði að hertaka ræðustólinn. Fyrirspurnir þingmanna eru sumar hverjar arfavitlausar, einkum spurningar Framsóknar. Misnotkun þingmanna á þingsköpum jafngildir hertöku ræðustóls, einkum hjá Sjálfstæðisflokknum. Framíköll og aulabrandarar krydda svo þessa ömurlega tilveru þingmanna, sem þjóðin er meira eða minna búin að afskrifa.

Merkel út – Hollande inn

Punktar

Evrópusambandið er að linast á stefnu Angelu Merkel Þýzkalandskanzlara um sparnað í ríkisútgjöldum. Hún segir þó enn, að ekki megi eyða meiru en aflað sé. Erfitt er að mótmæla slíkri stefnu. Keynes-istar í hagfræði vísa þó til reynslunnar eftir kreppuna miklu 1930, þegar ríki eyddu villt og galið til að koma lífi í hagkerfið. Líkja má því við að gefa rafkerfi stuð. Það tókst, þótt ríki eyddu um tíma um efni fram. Gengi gjaldmiðla hrundi eins og svo oft á Íslandi, en vélarnar fóru samt í gang. Með sigri Hollande í frönsku forsetakosningunum verður svigrúmið aukið í ríkisfjármálasamningi Evrópu.

Geir er Flokkurinn

Punktar

Sigurður Líndal prófessor segir í Fréttablaðinu í dag, að Geir Haarde hafi ekki rökstutt fullyrðingar sínar um pólitískan úrskurð Landsdóms. Orð Geirs séu bara kappræða og merkingarlaust rökþrot. Sigurður vekur líka athygli á sveiflum í viðbrögðum Geirs. Annað veifið hrósi hann 95% sigri, hitt veifið helli hann úr skálum reiði sinnar. Aðrir álitsgjafar benda á, að Geir hafi ekki sýnt neina iðrun, heldur rífi bara kjaft. Allt þetta sýnir, að hann er hinn dæmigerði sjálfstæðismaður. Hinn dæmdi Geir er Flokkurinn í hnotskurn, ábyrgðarlaus og merkingarlaus síkjaftamaskína á gráu svæði á jaðri lögbrota.

Geir upp úr Borgen

Punktar

Margir benda á, að vitnisburður Davíðs Oddssonar felldi Geir. Sýndi, að Geir hafði fengið upplýsingar, sem hann hélt síðan leyndum fyrir ráðherrum sínum og Alþingi. Það leiddi til viðbragðaleysis í stað viðbragða, sem hefðu linað skell þjóðarinnar. Aðrir benda á, að Geir felldu dómarar, sem skipaðir voru í Hæstarétt á löngu valdaskeiði Davíðs sem einræðisherra. Líka að því leyti felldi Davíð hinn dæmda eftirmann sinn. Þannig má segja um fall Geirs, að það sé ekki sprottið úr ranni pólitískra andstæðinga, heldur úr hans eigin flokki. Rétt eins og fall krataforingjans í dönsku sjónvarpsseríunni Borgen.

Krunkað saman í leyni

Punktar

Mikilvægt atriði í reiðilestri Geirs Haarde er einfalt: Hinir gerðu þetta líka. Það sagði Bjarni Benediktsson einnig, þegar honum var nuddað upp úr fjárglæfrum Vafnings og Sjóvá. Nokkuð er til í þessu, þótt það afsaki ekki Geir. Okkur hefur oft verið stjórnað framhjá stjórnarskrá. Davíð og Halldór krunkuðu saman, Geir og Ingibjörg krunkuðu, Jóhanna og Steingrímur krunka. Stjórnarskráin er samt æðri slæmum hefðum í stjórnsýslunni. Eftir landsdóm er mikilvægt, að ríkisstjórnir læri af reynslunni og hætti að krunka framhjá góðu verklagi. Bezt er að láta opna stjórnsýslu leysa leynimakk af hólmi.

Ekki spyrja leyfis

Punktar

Lög um náttúruvernd númer 44 frá 1999 skilgreina mörk réttar landeigenda og réttar ferðamanna. Þau eru engin nýtízku bóla frá meintum náttúrufasistum. Þau eru í fullu samræmi við öll eldri lög, alla leið aftur í gráa forneskju. Alla tíð hefur verið nauðsynlegt að skilgreina þörf fólks á að ferðast um landið. Og skilgreina rétt landeigenda til að vernda tún og akra. Í stórum dráttum má fólk ferðast óhindrað um allt ÓRÆKTAÐ land. Því var það firra hjá forsætis að leita leyfis til að koma með Kínverja í rútu á opinbert bilaplan við Kerið. Slíkt ferðalag er svo löglegt, að leyfis á aldrei að leita.

Hægri straumur nýfátækra

Punktar

Le Pen forsetaframbjóðandi náði 18% fylgi í Frakklandi með því að sameina hrædda kjósendur. Hinir nýfátæku hugsa á annan hátt en hinir gamalfátæku til vinstri. Hún var studd kjósendum, sem óttast breytingar og einkum allt, sem kemur frá útlöndum. Þar á meðal opin landamæri Schengen, er soga til sín innflytjendur að hirða störfin. Svo og fjölþjóðahagkerfið, sem sogar störf til Asíu. Einnig evran, sem sogar fé til Grikklands, og Evrópusambandið, sem setur óvinsælar reglur. Óttaslegna jaðarfólkið streymir ekki til vinstri, heldur til hægri. Og mun einnig gera það á Íslandi, samanber Heimssýn.

Engin iðrun sakamanns

Punktar

Einu sinni vottaði fyrir iðrun hjá Geir Haarde. Er hann mælti hin fleygu orð: “Maybee I should have”. Ekki lengur. Geir var reiður í gær og hafði fengið vonda ráðgjöf í almannatengslum. Segir dóminn pólitískan og raunar sprenghlægilegan. Enga iðrun er lengur að finna hjá Geir, enga auðmýkt, enga reisn. Segist hafa átt annað og betra inni hjá pólitíkusum, því að vani hafi verið að gera kaup kaups. Því miður verður lína Geirs einnig lína Flokksins. Sem stimplar sig inn sem flokkur pólitískra bófa, er vaða fram í drambi og hroka. Sigurður Líndal segir brot Geirs þó alvarlegt, ekki “formsatriði”.

Ég á auðlindina samt

Punktar

Bráðum hefur meirihluti stéttar lagatækna komið fram fyrir hönd kvótagreifa til að kynna eignarétt þeirra á þjóðarauðlindinni. Þeir segjast fara í mál gegn ríkinu, verði kvóti fyrirtækjanna skertur. Samkvæmt því er stjórnarskrá landsins markalaus, greifarnir eiga kvótann, en ekki þjóðin. Engin takmörk eru fyrir ruglinu, sem lagatæknar geta haldið fram. Ástandið er orðið líkt því, sem er í Bandaríkjunum, þar sem fræg dómsmál snúast mest um skrítnar útleggingar lagatækna á lögbókinni. Réttlæti víkur fyrir tímafreku og afar dýru dómstólavafstri. Réttlætið er þeirra, sem hafa sniðugustu lagatæknana.

Sykurinn drepur okkur

Punktar

Líkamleg hnignun þjóða er þegar hafin í Bandaríkjunum og Íslendingar koma næst á eftir. Sykursýki mun tuttugfaldast á næstu áratugum. Þróunina má sjá í hratt aukinni offitu. Orsökina er svo að finna í röngum lífsstíl. Annars vegar í hreyfingarleysi og hins vegar í röngu mataræði. Mesti bölvaldurinn er sykurinn. Hann er alls staðar, einkum þó í sykruðum drykkjum, sælgæti og skyndibita. Í stað hófáts kemur ofát og síát, sem magnast upp í óseðjandi fíkn. Vilhjálmur Ari Arason læknir segir í grein í Eyjunni í dag, að þetta sé faraldur sykurfíknar. Börn og unglingar séu snemma komin með sykuróþol.

Út og suður landsdómur

Punktar

Landsdómurinn yfir Geir H. Haarde reyndist út og suður eins og búast mátti við eftir út og suður yfirheyrslur. Geir er ósáttur, sem sýnir, að hann bar skarðan hlut frá borði. Samt var hann sýknaður af flestum ákæruliðum, hvorki gerð refsing né gert að greiða sakarkostnað. En dómurinn segir hann hafs trassazt í hlutverki forsætis og það stendur. Væntanlega fer hann ekki aftur fram í pólitík og það er gott. Málið gaf þjóðinni litlar upplýsingar umfram það, sem áður hafði birzt í sannleiksskýrslunni. Mættum við þó svo að lokum heyra hlátur Geirs, sem hann talaði um. En afgreiðslu á þætti pólitíkusa í hruninu er lokið.