Punktar

Bófarnir á vaktinni

Punktar

Gamla Ísland bófasamfélagsins ræður enn ríkjum, svo sem í ríkisstofnunum. Persónuvernd var stofnuð á sínum tíma til að verja hagsmuni bófanna fyrir afskiptasemi. Stofnunin lítur svo á, að fjármál séu einkamál. Nýjasta aðför hennar að almannahagsmunum er að ráðast gegn heimildum Seðlabankans til að fást við gjaldeyrisbrask bófa. Segir heimildir ekki samrýmast “sjónarmiðum um einkalífsrétt”. Bófasamfélagið lifir á, að leynd hvíli yfir atferli þess. Þjóðin þarf því að styrkja varnir Seðlabankans gegn græðgi bófasamfélagsins. En Persónuvernd bófanna er á vaktinni sem fyrri daginn og rekur upp vein.

Kjósa sig úr vandanum

Punktar

Grikkir halda sig geta kosið sig út úr vandanum. Kusu um daginn og það gekk ekki upp. Ætla að kjósa aftur í júní. Kannski gengur betur þá. Kannski kjósa þeir bara mánaðarlega, þangað til vandamálin hverfa, kannski. Þeir eru eins og Íslendingar. Við töldum okkur geta kosið okkur út úr vandamálum IceSave. Við getum kosið aftur og aftur um IceSave, verið stolt af okkur. En IceSave fer ekki neitt, ekki frekar en vandræði Grikkja. Sum mál eru þess eðlis, að þau verða ekki kosin út úr heiminum. Af því að þau snúast um samskipti við umheiminn. Þennan stóra, vonda umheim, sem við kennum um okkar mörgu ófarir.

Erfðabreytta ofstækið

Punktar

Umhverfisráðuneytið hélt í vikunni áróðursfund um erfðabreytta ræktun. Þar fengu eingöngu ofsatrúarmenn þeirrar stefnu að tala. Erfðabreytt ræktun er samt umdeild, ekki síður í hópi fræðimanna en leikmanna. Í ljos hefur komið, að fyrirtæki á borð við Monsanto beita gervi-fræðimönnum til að efla trú á erfðabreytta ræktun. Henni hefur verið illa tekið víða um Evrópu. Komnar eru reglur um merkingar á umbúðum, svo að fólk viti. Og bændur reyna að verjast því, að útiræktun erfðabreytts korns dreifist með vindi yfir á aðra akra. Monsanto-liðið berst af harðfylgi gegn vörnum. Og hér með hjálp ráðuneytis.

Þarf ekki peninga

Punktar

Meira ruglið í Ögmundi. Útlendingastofnun þarf ekki meira fjármagn. Hún er illa rekin stofnun með mörgum tugum starfsmanna. Þá sjaldan sem hún gerir eitthvað, er það svo vitlast, að innanríkisráðuneytið þarf að vanda ofan af hneykslinu. Að grunni til gerir stofnunin bara eitt: Hún segir NEI. Til þess þarf bara einn símsvara, ekki marga tugi starfsmanna. Ekki alls fyrir löngu var þetta bara skúffa í ráðuneyti. Varð að tekjulind óvinnufærra kvígilda Sjálfstæðisflokksins. Ríkið hefur nóg annað við peninga okkar að gera en að brenna þeim í þessari hít. Ögmundur er úti að aka eins og venjulega.

Friðarbandalag Árna

Punktar

Árni Páll Árnason alþingismaður er svo langt út á hægri jaðri, að hann segir Atlantshafsbandalagið ekki vera hernaðarbandalag. Sagði það í viðtali við DV. Stangast á við skilgreiningar alfræðirita. Svo má líka spyrja Árna, hvað bandalagið sé að gera í Afganistan. Árni er jafnframt svo brattur, að hann telur sig vera heppilegan framtíðarformann Samfylkingarinnar. Að kosningum loknum mun hann þá mynda nýja hrunstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sýndi sem bankaráðherra róttæka hægri takta. Ber manna þyngstu ábyrgð á, að bankarnir voru endurreistir í fyrri græðgismynd. Samfylkingin á því virkilega bágt.

Fýlan lekur af þeim

Punktar

Ótrúlegur fjöldi Íslendinga er siðblindur. Biðst ekki afsökunar á mistökum eða glæpum. “Mér þykir leitt, ef einhver hefur misskilið þetta” er innihald fýlulegra afsökunarbeiðna. Nýtt dæmi er hjá aðstandendum tónlistarhátíðar, sem segja handrukkarann Jón stóra ekki tengdan hátíðinni. Þetta “hefur farið fyrir brjóstið á fólki”, segja þeir í fýlu sinni. Auðvitað er ekkert þeim að kenna. Bara einhverjum bjánum úti í bæ, sem misskilja eða láta smámál “fara fyrir brjóstið á sér”. Íslandssagan eftir hrun er samfelld saga siðblindu. Enginn sannur Íslendingur biðst afsökunar á neinu. Allir í afneitun og fýlu.

Hangir í tvinnaþræði

Punktar

Málsvari lífeyrissjóða tönnlast á, að sjóðirnir hafi ekki leyfi til að gefa eftir af eigum sjóðfélaga. Þórey S. Þórðardóttir upplýsir samt ekki, hvers vegna þeir höfðu leyfi til að sukka villt og galið með eigur sjóðfélaganna. Sama fólk stjórnar sjóðunum núna og gerði það fyrir hrun. Klisja hennar er ekkert málsefni, bara tvinnaþráður, er hún umgengst eins og haldreipi. Telji samfélagið sjóðina eiga að taka á sig hluta tjóns af ofmati verðtryggingar, þá gerir samfélagið það. Án samráðs eða skaðabóta. Með því að skattleggja fé sjóðanna við innkomu, en ekki við úttekt. Gott mál, sem framkvæmist strax.

Gegn þingi og stjórn

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson hefur eins og aðrir tekið eftir, að alþingismenn eru almennt taldir botninn á tilverunni. Þar rétt fyrir ofan er ríkisstjórnin, óvinsælasta stjórn allra tíma. Þess vegna býður hann sig fram til 17-21 árs í forsetaferli sínum. Býður sig fram gegn alþingi og ríkisstjórn. Hyggst taka yfir störf þessara óvinsælu stofnana. Hér eftir verða frumvörp aðeins lögð fyrir þingið, ef forsetinn hefur blessað þau. Forsetinn er ekki lengur öryggisventill þjóðarinnar gegn stjórnsýslunni, heldur orðinn stjórnsýslan sjálf. Heimskir kjósendur munu láta sér vel líka og fagna einræðisherranum.

Frumvarp flækjufótanna

Punktar

Ótrúlega heimskuleg var meðferð flækjufótanna Jóns Bjarnasonar og Steingríms J. Sigfússonar á kvótanum. Þeir áttu að hafa þetta einfalt. Fyrna kvótann á fimm árum, bjóða árlega út fimmtung alls kvótans til fimm ára. Hæstbjóðendur hefðu fengið. Þá vissum við, hvers virði auðlind okkar er. En ráðherrarnir kusu að búa til flókna hnúta og hræra freistingum í potti. Ráðherraúthlutun kvóta lyktar af gamalli fjórflokkapólitík. Nú stendur Steingrímur með allt niðrum sig. Kominn í strand með hallærisfrumvarpið sitt. Sem þó er óralangt frá því, sem ríkisstjórnin lofaði þjóðinni í upphaflegum sáttmála sínum.

Þvert á flokkapólitíkina

Punktar

Samkvæmt skoðanakönnun MMR fylkja stuðningsmenn stjórnmálaflokka sér miklu dreifðar um forsetaefni en fjölmiðlar og netmiðlar hafa sagt. Aðeins rúmlega helmingur framsóknarmanna og sjálfstæðismanna styður Ólaf Ragnar og aðeins rúmlega helmingur vinstri grænna styður Þóru. Ástæðurnar að baki mismunandi vals kjósenda eru miklu flóknari en látið er í veðri vaka. Fjölmiðlar hafa enda nú orðið oft sérstök sjónarmið að baki frétta sinna. Nú stefnir í afar spennandi baráttu milli Þóru og Ólafs Ragnars, þar sem fjölbreytt sjónarmið ráða vali fólks. Þannig á baráttan líka að vera, þvert á flokkapólitíkina.

Fipast í sparnaði

Punktar

Angela Merkel Þýzkalandskanzlari gerði mistök í að styðja Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta í frönsku forsetakosningunum. Sá tapaði fyrir Francois Hollande, sem vill draga úr samevrópskri sparnaðarstefnu. Nú verður Merkel að gera hosur sínar grænar fyrir sigurvegara, sem hún hafði sjálf gert að pólitískum andstæðingi. Ekki bætir úr skák, að flokkur hennar fór um helgina illa út úr landskosningum Norður-Rínar og Westfalen. Hún hefur því veika stöðu til að fylgja eftir sparnaðarstefnu. Enda spyrja æ fleiri Þjóðverjar, hvers vegna þeir eigi að skúra eftir annálaða eyðsluseggi í Grikklandi.

Góð áhrif Hreyfingarinnar

Punktar

Nánast öll skilyrði Hreyfingarinnar við stuðningi við ríkisstjórnina eru af hinu góða. Hún leggur til dæmis áherzlu á þjóðaratkvæði um stjórnarskrána, eins og tillagan er frá Stjórnlagaráði. Hún vill afnema verðtryggingu, sem líklega er búin að gera nóg af sér. Þar á ofan minnir hún á persónukjör, gegnsæi, upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Það eru atriði, sem gamlingjarnir í ríkisstjórninni sýna furðanlega lítinn áhuga. Slíkt er sambandsleysi Jóhönnu Sigurðardóttur við nútímann. Ríkisstjórnin mundi gera rétt í að taka vel við kröfum Hreyfingarinnar. Þær fela í sér, að ríkisstjórnin ranki úr rotinu.

Viðbjóður valdakerfisins

Punktar

Djúp er fyrirlitning mín á siðareglulausum forseta Íslands. Alþingi er eins og við sjáum það í hálftíma hálfvitanna. Ekki gramm af trausti ber ég til dómsvaldsins, mundi sjálfur aldrei vísa málum til þess. Í stíl við þetta er handónýt stjórnsýsla. Sjáum hana í Matvælastofnun og í embætti Landlæknis, Persónuvernd, Útlendingastofnun og Fjármálaeftirliti, Umhverfisstofnun og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Stjórnsýslan er eins og dómsvaldið, Alþingi og forsetinn. Hvenær sem er tæki ég alþingi götunnar, dómstól götunnar og embættisvald götunnar fram yfir viðbjóð kerfisins, sem við þurfum að þola.

Grafa undan sjálfum sér

Punktar

Að undirlagi háskólans hafa heilar kynslóðir lagatækna gert orðhengilshátt að verkfæri sínu. Ekki er fundið út, hvað alþingismenn voru að meina, þegar þeir settu óljós lög. Fremur lesa lagatæknar úr textanum eigin meiningar og hugarflug. Ítrekað þarf að endurbæta lög, því að dómarar líta á þau öðrum augum en sjálfir höfundarnir. Komin er dómahefð, sem varðar ekki um réttlæti eða aðrar hugsjónir lagahöfundanna á Alþingi. Hæstiréttur kveður upp dóma út og suður. Núna nægir ekki prófmálið, heldur verður að flytja tugi prófmála. Dómarar köstuðu út réttlætinu og fólkið kastaði út virðingu fyrir dómurum.

Sameining eða sundrung

Punktar

Við þurfum forseta, sem sameinar meira en hann sundrar. Höfum fengið upp í kok af leðjuslag, sem oftast er kenndur við hálftíma hálfvitanna á Alþingi. Þurfum frið til að jafna okkur eftir áfallið 2008. Þurfum forseta, sem setur sér almennar siðareglur í umgengni við umhverfi sitt. Þurfum EKKI forseta, sem ryðst fram vígvellina með gargi og látum að hætti Vigdísar Hauksdóttur. Þurfum að losna við allt gamla hænsnahúsið innan og utan fjórflokksins, sem hefur of lengi ráðið ferð. Setjum á oddinn gott fólk. Ósnortið af leðjuslag fyrri ára, sem vonandi eru senn liðin. Við þurfum forseta fyrir framtíðina.