Punktar

Íslenzka frjálshyggjan

Punktar

Hugtakið frjálshyggja kemur oft fyrir í umræðunni, án þess að ljóst sé, hvað það þýði. Upprunalega er það pólitísk heimspeki frá útlöndum, sem þýdd var á íslenzkar aðstæður, einkum af Hannesi H. Gissurarsyni og lærisveinum hans. Vegna tengsla Hannesar við Davíð Oddsson og Eimreiðarhópinn fluttist orðið yfir á stjórnarstefnu Davíðs sem forsætis. Fór að snúast um einkavinavæðingu banka og pilsfaldakapítalisma, er fólst í að misnota aðstöðu ríkisvalds, til viðbótar skorti á eftirliti með framtaki. Hér er þetta núna almennt kölluð frjálshyggja eða nýfrjálshyggja, þótt sé á skjön við erlendar forskriftir.

Lífsþreytt stjórnarlið

Punktar

Ríkisstjórnin er svo veik, að hún hefur enga burði til að fylgja eftir nýrri stjórnarskrá. Áhuginn er líka svo lítill, að hún nennir ekki að láta Alþingi vera opið fyrri hluta janúar. Þótt aðrir vinnustaðir séu opnir, er Alþingi lokað og læst. Þannig vinnur málþófsliðið sigur. Ekki verður hægt að landa stjórnarskrá, ekki þjóðareign auðlinda og ekki rammaáætlun um orku.  Ekki er von, að neitt gangi, þegar ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti á þingi hafa ekki orku til að vinna vinnuna sína. Þá tekur stjórnarandstaðan við stjórn. Setur þjóðþrifamál í gíslingu, enda amast forsetinn og þjóðin ekki við því.

Bregðast við, til hvers?

Punktar

Forsetinn reynir eins og Flokkurinn að hindra framgang nýrrar stjórnarskrár, enda er hann hagsmunaaðili. Ríkiseigendur reyna að hefta aukið lýðræði og einkum að hindra þjóðareign auðlinda. Í því skyni eru sendar fram fylkingar lagatækna, sem segja nýju stjórnarskrána gallaða. Einn garpurinn segir meira að segja, að engin þjóðareign sé til, lagalega séð. Heimtað er, að forsætis bregðist við blaðri forsetans. Til hvers? Stjórnarskráin er í eðlilegu ferli og engin sérstök ástæða til að semja við bófa um útþynningu hennar. Bófarnir verða bara að biðja kjósendur um að kjósa sig í þingkosningunum að vori.

Hissa á almannatengli

Punktar

Steinhissa á Ólafi Haukssyni almannatengli. Hef þó unnið með honum og vissi ekki að hann ætti þetta til. Skrifar blaðagrein um fréttir DV og slær fram þeirri spurningu, hvort skrifin séu föl. Enga skýringu gefur hann á þessari furðulegu spurningu, engin rök, ekkert dæmi. Hann slær þessu bara fram eins og hann sé nafnleysingi í athugasemdakerfi veffrétta. Margir vekja athygli á óskammfeilni Ólafs, svo að ég er að bera í bakkafullan lækinn. En ég varð svo miður mín, að ég verð að benda á, að þetta var alls ekki prenthæf grein. Fjölmiðlar verða að halda uppi aga í kjallaragreinum, en það brást þarna.

Kerfið verndar kerfið

Punktar

Kerfið er þægilegt heiti yfir óformlegt samsæri embætta og sérfræði. Sér um, að því meira sem hlutirnir breytast, þeim mun meira séu þeir eins og þeir hafa alltaf verið. Kerfið sér um að bregða fæti fyrir framfarir. Þar á meðal að gera út flota sérfræðinga til að útskýra, hvers vegna nýbreytni sé mikil skelfing. Höfum virt þetta fyrir okkur í vetur í ferli stjórnarskrárinnar. Höfðum áður séð þetta í kjölfar vanmáttugra tilrauna að efna stjórnarloforð um fyrningu á kvóta greifanna. Enn áður sáum við þetta í vondu uppkasti að rammaáætlun um náttúru. Hugtakið Fjórflokkurinn er nátengt hugtakinu Kerfið.

Nýjasti umbinn Líndal

Punktar

Síðustu misseri hef ég hallazt að því, að annarleg sjónarmið lagatækna séu Sigurði Líndal prófessor að kenna. Hafi kennt þeim lagatækni að hætti Njálu, sem felst í að snúa út úr og brengla sýn á tilgang laga. Nú hefur Sigurður gengið í hóp umboðsmanna ógreiddra atkvæða. Tekur undir, að ógreidd atkvæði feli í sér eins konar andstöðu við tilefni atkvæðagreiðslunnar. Um allan hinn vestræna heim gilda atkvæðagreiðslur, þótt þátttakan sé minni en frægir umboðsmenn ógreiddra atkvæða telja nægilega. Þjóðarvilji kemur skýrt fram í þjóðaratkvæðagreiðslum, hvað sem Sigurður Líndal skemmtir sér við að bulla.

 

Hættur að fóta sig

Punktar

Franski nízkupúkinn Gérard Depardieu hefur fengið hæli í Rússlandi sem nýr ríkisborgari. Hæfir honum vel að búa í himnaríki Vladimirs Pútín, sem kominn er vel á veg með Rússland til gömlu Sovétríkjanna. Depardieu tímdi ekki að borga hátekjuskatt, enda fara miklir peningar í að borga brennivínssektir úr umferðinni í París. Rólegra er að delera í þorpum Rússlands, þar sem auðmenn njóta þeirrar virðingar sem þeim ber. Depardieu er gott dæmi um, að frægð og fyrirmynd fara ekki saman. Og heimsfrægð enn síður. Sennilega hefur hann of lengi haft of mikla aura milli handanna og er hættur að kunna að fóta sig.

Dögun á meira inni

Punktar

Dögun getur meira en þetta. Hún á að geta fengið mörg þingsæti í vor, sé rétt á spilunum haldið. Þingmenn Hreyfingarinnar eiga að koma að gagni, því að þeir eru næsta óflekkaðir af rugli Alþingis á kjörtímabilinu. Hins vegar eru Hagsmunasamtök heimilanna myllusteinn um háls flokksins. Óeðlilegt er, að sérhagsmunasamtök séu beint að vasast í flokkspólitík. Þótt fjölmennari séu en hagsmunasamtök kvótagreifa, eru þau sérhagsmunasamtök og eiga sem slík að vera á hliðarlínunni. Dögun þarf þungavigtarfólk úr Stjórnlagaráði í efstu sæti á framboðslistum, þá fyrst byrjar flokkurinn að mælast marktækur.

Kastið út moðhausum

Punktar

Sumpart er gagnlegt að sjá, hvílíkir moðhausar mikill fjöldi Íslendinga er í athugasemdum undir veffréttum. Staðfesta til dæmis þá skoðun mína, að hér gangi menn lausir, sem eigi heima á stofnun. Líklega eru þetta margumtalaðir kjósendur, sem áratugum saman hafa komið okkur í vandræði í kosningum. Samt eru moðhausarnir ekki einir ábyrgir fyrir órum sínum og sérstæðu orðbragði. Viðkomandi fréttamiðlar eru líka ábyrgir, þótt ekki hafi enn reynt á það. Þeir, sem ritstýra miðlum, eiga að fylgjast með skrifum moðhausanna og kasta þeim út eftir þörfum. Texti er texti, þótt hann birtist á veraldarvefnum.

Skipting fjórflokksins

Punktar

Fjórflokkurinn skiptist svona: Þar er hálfur þriðji bófaflokkur og hálfur annar bjánaflokkur. Bjánarnir lúta þar bófunum. Kvótagreifarnir stjórna fjórflokknum að mestu og hindra þannig framgang stjórnarskrár. Njóta þar stuðnings þjóðarfrelsarans eina, sem telur nýja stjórnarskrá munu takmarka svigrúm sitt til leiksýninga. Ég tek hvern einasta nýflokk fram yfir forseta og fjórflokk eins og hann leggur sig. Undir forustu Sjálfstæðisflokksins hefur hann keyrt þjóðfélagið til andskotans. Við þurfum að eignast nýtt líf án fjórflokksins. Og það gerist ekki meðan hálf þjóðin elskar fjórflokkinn.

Framtíðin byrjar

Punktar

Björt framtíð hefur tekið flugið, skotizt framúr Vinstri grænum og Framsókn. Það er góð byrjun á hægfara andláti fjórflokksins. Aðrir nýflokkar hafa enn ekki náð vopnum sínum. Píratar eru þó enn von, hafa lítið látið á sér kræla. Eitthvað skakkt er í kortunum hjá Dögun og Hægri grænum, sem hafa verið í umræðunni um skeið. Á þeim vettvangi þarf fólk að athuga sinn gang betur og skoða ný vinnubrögð og nýtt fólk. Samstaða virðist úr myndinni, enda ná eins manns flokkar varla langt. Staðan er bara góð nokkrum mánuðum fyrir kjörið. Brýnt er þó, að meiri hreyfing komist á pólitíska litrófið sem allra fyrst.

 

Þvættingur ársins

Punktar

Þvættingur ársins 2012 fjallaði um Atlantshafsbandalagið. Það “fer ekki með hernaði á hendur nokkru ríki og getur því ekki talist hernaðarbandalag”. Rekur semsagt ekki hernað í Afganistan, þótt Íslendingar hafi tekið þátt og lent þar í tómu tjóni. Setninguna á Árni Páll Árnason, forsætiskandídat hinnar deyjandi Samfylkingar. Setningin er réttnefndur þvættingur. Árni Páll telur henta væntanlegu stjórnarsamstarfi að hvítþvo bandalag viljugra ríkja af kuski á hvítflibbanum. Staðreyndin er þveröfug, Atlantshafsbandalagið er hættulegur gamlingi, sem ráfar um þriðja heiminn til að leita sér vígvalla.

Áldraumar endurnýjaðir

Punktar

Frá upphafi frumvinnslu áls hér á landi hafa risið órar um fullvinnslu áls hér á landi. Lengst náðu þeir í steikarpönnugerðinni Alpan, sem þurfti að flytja inn ál til framleiðslunnar. Þannig að ekkert samband var milli þess og álveranna. Svo dó Alpan. Einu sinni létu menn sig dreyma um álfelgur á bíla og löngu síðar um rafkapla. Ekkert hefur komið út úr því, enginn vill hætta fé í drauma. Nú hefur verkfræðistofan HRV lagt til, að verkin verði látin tala. Vafalaust munu nokkrir verkfræðingar fá vinnu við skýrslur um það efni. Sem skattgreiðandi legg ég til, að þær verði ekki á minn kostnað.

Stórkarla lýðskrum

Punktar

Munurinn á Sigmundi Davíð og Vigdísi Hauksdóttur er, að Sigmundur er mæltur á íslenzku, en Vigdís ekki. Að öðru leyti er ofsinn svipaður. Sigmundur á spakmælið fræga: “Tjónið af þessarri ríkisstjórn er orðið meira en tjónið af hruninu”. Hefði getað sagt ýmislegt hafa farið miður hjá henni, sem hefði haft tiltekinn kostnað ríkisins í för með sér. En að bera stjórnina saman við þúsund milljarða hrunið er stórkarlalegt í meira lagi. Svoleiðis dettur bara þeim í hug, sem eru svo uppteknir af lýðskrumi, að þeir hafa misst allt jarðsamband. Enda ekkert eftir af fylginu, ekki einu sinni það genetíska.

Eiginhagsmunaaðilinn

Punktar

Áramótaræðu Ólafs Ragnars Grímssonar hef ég gleymt. Man þó, að hann reyndi hér og þar að fiska í gruggugu vatni flokkadrátta, einkum um stjórnarskrána. Líklega telur hann reynsluna hafa sýnt, að hann geti bullað hvaða innantómu frasa sem er. Þjóðin elski hann og muni elska hann alla leið fram af brún. Það hafi sést í kosningunni í haust. Alténd var ávarpið lítt landsföðurlegt, minnti helzt á ráðherrakíf í áramótagreinum. Hann hyggst bregða fæti fyrir skilgreiningar á embætti forsetans. Telur slíkar munu þrengja svigrúmið til að túlka embættið upp til himna. Fyrst er fremst er hann eiginhagsmunaaðili.