Punktar

Ný og ný fordæmismál

Punktar

Ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar láta viðgangast, að bankarnir hlýða ekki hæstaréttardómum. Í stað þess að endurgreiða fórnardýrum sínum heimta þeir ný og ný fordæmismál. Viðurkenna aldrei, að dómar hafi neitt marktækt fordæmisgildi. Siðleysið veldur fólki óþarfa hörmungum. Er stór þáttur í víðtæku rugli siðblindra yfirmanna bankanna. Brýnt er að hreinsa til, reka verstu bófana og fá í staðinn sæmilega siðað fólk til starfa. Jafnframt þarf að afnema bankaleynd og ríkisábyrgð og banna samkrull fjárfestingar og viðskipta. Banksterar dagsins eru nákvæmlega eins og banksterar gærdagsins.

Vænkast hagur Dögunar

Punktar

Vænkast hagur Dögunar. Jón Jósef Bjarnason og Jóhannes Björn Lúðvíksson ætla í framboð. Hafa lagt gott til þjóðmálanna og verða góðir fulltrúar okkar á Alþingi. Nauðsynlegt og brýnt er að skipta út sem flestum þingmönnum. Losna við öskurapana, sem fíflast um þingsali með frammíköllum og málþófi. Umræðan þar snýst ekki um að ræða mál, heldur að ræða um að ræða þurfi um mál. Meðan almenningi finnst þetta fyndið er ekki von á góðu. Mér finnst þó líklegt, að þriðjungur kjósenda sé með viti og sé ekki í álögum fjórflokksins. Þeir ættu alls að geta náð inn tuttugu þingmönnum undir merkjum nokkurra nýrra flokka.

Greiðið út í krónum

Punktar

Kröfuhafarnir, sem eiga bankanna, eiga að geta fengið sig leysta út í krónum eins og innlendu kröfuhafarnir 2008. Ef greitt væri út í gjaldeyri, fengju vogunarsjóðirnir betri meðferð en innlendu kröfuhafarnir. Mismunun gengur auðvitað ekki í þessu frekar en öðru. Sama gildir um þá, sem fá greitt út úr IceSave. Fái þeir greitt í gjaldeyri, er verið að setja þá skör hærra en innlenda sparifjáreigendur. Því er stjórnvöldum skylt að sjá um, að allar bætur vegna hrunsins verði greiddar í sömu matador-mynt og hér er notuð. Því þarf nú þegar að stöðva greiðslur í gjaldeyri úr þrotabúum gömlu bankanna.

Feilnótan í sigrinum

Punktar

Við sigruðum ekki í IceSave á grundvelli neins réttlætis. Úrskurðurinn snýst ekki um réttlæti. Snýst um tæknileg mistök í orðalagi tilskipunar Evrópu um innistæðutryggingar. Við sigruðum þannig á lagatækni Njáls Þorgeirssonar á Bergþórshvoli og Marðar Valgarðssonar á Hofi, en ekki á efnisatriðum. Eftir stendur, að íslenzkir bankabófar fóru með nýtízku Ponzi-kerfi um Bretland og Holland. Nafn landsins var meira að segja notað í IceSave. Stofnuðu virðingu okkar í voða. Ganga enn allir lausir. Því er tæpast hægt að segja, að við höfum hreinsað okkur af skítnum, sem loðir við landið vegna fjárglæfranna.

Feðgarnir delera

Punktar

Undarlegustu minningarorð síðustu daga um IceSave koma frá Landsbanka-feðgunum. Ímynda sér, að dómurinn feli í sér, að við höfum farið skaðlaust út úr braski þeirra með Landsbankann. Svo er aldeilis ekki. Kostaði ríkið tugi milljarða við endurstofnun og endurfjármögnun Landsbankans. Feðgarnir áttu þannig mikinn þátt í hruninu. Það olli ekki bara ríkinu tjóni, heldur -öllum þeim, sem lentu í vísitöluhækkunum lána í kjölfarið. Og loks er þar á ofan snjóhengjan, sem felst í gjaldeyriserfiðleikum þjóðfélagsins. Meira að segja IceSave er skandall, því dánarbúið greiðir rétt umfram forgangskröfur.

Heimsklassa óreiðumaður

Punktar

Erum daglega að borga skuldir óreiðumanna. Langdýrastur er Davíð Oddsson. Kostaði okkur 200 milljarða í endurreisn einkavinavæddu bankanna, sem fóru á hausinn 2008. Kostaði okkur líka 270 milljarða í gjaldþroti Seðlabankans vegna glórulausrar innspýtingar árið 2008 í gjaldþrota einkavinabanka. Og þetta er bara tjón ríkisins. Svo er allt tjón skuldara íbúðalána, sem leiðir beint af hruni einkavinabankanna og Seðlabankans. Óreiða Davíð sem forsætis og Seðlabankastjóra er langsamlega dýrasta óreiða, sem sögur fara af hér á landi. Komst meira að segja á skrá Time yfir 25 mestu óreiðumenn heimsins.

Íslandsmet í afneitun

Punktar

Bjarni Benediktsson formaður mælti 28. nóvember 2008 fyrir fyrsta IceSave samningnum á Alþingi. Fól ríkisstjórninni að semja um IceSave á grundvelli minnisblaðs Baldurs Guðlaugssonar samningamanns. Fyrsti og slappasti IceSave samningurinn. Síðan greiddi Bjarni Benediktsson atkvæði með síðasta IceSave samningnum, er kenndur er við Buchheit og síðan var felldur í þjóðaratkvæði. Samt neitar Bjarni þessari fortíð. Gengur lengra en allir aðrir pólitíkusar landsins í að afneita fortíð sinni. Afneitar líka Sjóvá og N1 og BNT. Afar heppilegt er fyrir Flokkinn að hafa formann, sem á Íslandsmet í afneitun.

Gerðu sitt bezta

Punktar

Það voru ekki landráð, er Geir Haarde og Árni Mathiesen samþykktu uppkast Baldurs Guðlaugssonar að fyrsta IceSave. Ekki heldur er Bjarni Benediktsson mælti fyrir málinu 28. nóvember 2008. Þeir voru bara að gera sitt bezta í erfiðri stöðu. Eins og allir gerðu, sem síðar komu að hinum ýmsu IceSave samningum. Verst var staða Geirs og félaga. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn neitaði að lána, nema Norðurlöndin lánuðu. Og Norðurlöndin neituðu að lána nema samið yrði um IceSave. Þá var samið um 6,5% okurvexti. Þeir lækkuðu síðan með hverjum nýjum samningi og komust niður í núll með dóminum í gær.

Skitinn fínimannsklúbbur

Punktar

Hæstiréttur er dæmigerður fyrir villigötur íslenzkrar lögfræði. Dómar eru fullir af hártogunum og fáránlegum orðskýringum. Munurinn á að skoða og að rannsaka er nánast enginn samkvæmt málvenju. En Hæstiréttur framleiðir mun, sem er óskiljanlegur þeim, er kunna íslenzku. Orðhengilsháttur einkennir meira eða minna alla íslenzka lagatækni. Svo sem sýna orðskrípi á borð við skattasniðgöngu og umboðssvik. Samin til að draga úr tilfinningu fólks fyrir stórglæpum fínimanna. Vona, að DV kæri hártogun Hæstaréttar til Evrópu. Svo þessi skitni fínimannsklúbbur fái þar enn eina hirtingu, sem hann á skilið.

Sigurinn í IceSave

Punktar

Ég hafði rangt fyrir mér, tók samninga fram yfir dómstól. Niðurstaðan fyrir hinum fjölþjóðlega dómstóli er, að við þurfum ekkert að borga til viðbótar. Ekki einu sinni vexti. Þar spörum við 35-40 milljarða frá Buchheit-samningi, sumir segja meira. Beint tjón ríkisins af IceSave verður ekkert, þótt óbeint tjón verði mikið. Auðvitað var IceSave meðverkandi í falli einkavinavæddu bankanna, sem kostaði ríkissjóð hundruð milljarða. Og í falli Seðlabankans, sem kostaði ríkissjóð hundruð milljarða. En óvissuþáttum hrunsins er lokið. Við vitum, hvar við stöndum. Og fjölþjóðlegu matsfyrirtækin vita það líka.

Hreinsun í Flokknum

Punktar

Sjálfstæðismenn byrjaðir að hreinsa til hjá sér. Hinn sögufrægi Árni Johnsen felldur frá þingmennsku í prófkjöri á Suðurlandi. Tryggvi Þór Herbertsson, eigandi gjaldþrota pappírsfélaga, felldur í prófkjöri á Norðurlandi eystra. Þingmenn með fjárglæfrafortíð á bakinu eiga erfitt uppdráttar í prófkjörum flokksins að þessu sinni. Hreinsun flokksmanna nær samt ekki svo langt, að þeir hafni öllu sérhagsmunaliði. Kristján Þór Júlíusson var sigurvegari á Norðurlandi eystra. Hann verður seint vændur um að taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni Samherja og annarra kvótagreifa. Öllu eru takmörk sett.

Don Kíkóti Íslands

Punktar

Ögmundur Jónasson landvættur segir útlendinga leggja heil byggðarlög í rúst. Vill banna það eins og margt útlent; klám, vændi, hass og happdrætti. Ekki nefndi hann byggðarlögin. Kannski telur hann Grímsstaði á Fjöllum vera heilu byggðarlögin. Að venju er Ögmundur að fiska í gruggugu við að elta vinsældir þjóðrembinga. Munið eldvatn, glerperlur og þýzkt lífsrými úr eldhafi Evrópu, fyrri vindmyllur xenofóbans. Leikur landvætti gegn vondum útlendingum, sem vilja Íslandi illt. En fjölmiðlungar eru svo heimskir, að þeir spyrja ekki landvættina um dæmi. Ögmundur er orðinn, ekki landvættur, heldur Don Kíkóti.

Tvöfalt tjón af Davíð

Punktar

Fyrir margt löngu sagði Davíð Oddsson þjóðráð að einkavæða Símann og fá 60 milljarða fyrir. Til að byggja hátæknispítala og bæta vegi og netsamband í strjálbýlinu. Svo einkavinavæddi hann Símann. Ekki kom ein einasta króna út úr því. Hins vegar varð Síminn gjaldþrota undir nýrri kennitölu, sem heitir Skipta. Gjaldþrotið nemur 62 milljörðum til viðbótar við 60 milljarðana, sem týndust, þegar Davíð fékk þjóðráð sitt í hausinn. Einkavinavæðing Símans er dæmigert rugl, er Sjálfstæðisflokkurinn bauð þjóðinni á tíma Davíðs og býður enn. Bjarni Benediktsson vill einkavæða orkuna. Kjósendur hans eru galnir.

Stjórnarskrárflokkurinn

Punktar

Góð leið til að vekja daufa kjósendur til lífs er að bjóða fram undir merki nýrrar stjórnarskrár. Björt Framtíð gerir það ekki. Hálf þjóðin tók þátt í þjóðaratkvæði um stjórnarskrána. Flokkarnir og Björt Framtíð hafa sparkað í allt þetta fólk. Höfða má til þess. Fá gott fólk úr stjórnlagaráði til að skipa efstu sæti framboðslista. Svo sem Þorvald Gylfason og Ómar Ragnarsson. Margir mundu styðja slíkan lista, þótt þeir styðji hvorki hagsmunasamtök né flokk, sem kallar sig pírata. Með því að hafa nýju stjórnarskrána langefst á stefnuskránni má ná til fólks, sem senn fer að fatta svik allra pólitíkusa.

Óvissan í Evrópu

Punktar

Óvissutíð er risin í Evrópu. Bretland hótar brottfalli sínu og fær við því margvísleg viðbrögð. Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, er ekki að skafa utan af því. Segir Pólverja í krafti íbúafjölda taka sæti Bretlands sem eitt fimm leiðandi ríkja Evrópusambandsins. Georg Soros gengisbraskari segir braskarana veðja á, að sterlingspundið lækki í verði vegna óvissu um framtíð Bretlands. David Cameron forsætis fiskar í gruggugu vatni þjóðrembu og getur misst ferlið úr höndum sér, valdið kreppu heima. Sem fyrr stjórna Frakkland og Þýzkaland ferð Evrópu, vonandi framhjá brezkum undanbrögðum.