Punktar

Lífseigur spuni

Punktar

Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður endurtekur spunann um, að málþóf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hindri framgang stjórnarskrárinnar. Segja þó lög um alþingi, hvernig málþóf verði stöðvað og gengið til atkvæða. Forseti alþingis getur ákveðið það eða níu þingmenn. Oddný var ekki spurð um þetta í útvarpinu, enda eru fréttamenn hættir að brjóta málin til mergjar. Málþóf hindrar ekki afgreiðslu, heldur svik nýs formanns Samfylkingarinnar við loforð um framgang stjórnarskrárinnar. Nauðsynlegt er að greiða atkvæði, svo að kjósendur fái að vita, hvaða þingmenn munu bregðast stjórnarskránni.

Kafað í prósenturnar

Punktar

Kannanir segja okkur, að fimmflokkurinn skelfilegi fá alla þingmenn á næsta kjörtímabili. Staðan er ekki svona slæm. Gallup gefur beztu upplýsingarnar um dreifingu úrtaksins. Aðeins sex af hverjum tíu svara spyrlunum. Af þeim, sem svara, nefna aðeins átta af hverjum tíu einhvern flokk. Af þessari rest eru aðeins átta af hverjum tíu, sem nefna hinn hræðilega fimmflokk bófa og bjána. Fréttin úr nýjum könnunum byggist því á svörum fjögurra af hverjum tíu kjósendum. Gefur okkur bjartsýni til að vona, að nýju flokkarnir eigi góðan séns. Hafa margir ekki birt framboð enn og eiga eftir að kynna sig.

Slátrar líka Samfylkingunni

Punktar

Árni Páll Árnason feilaði, þegar hann reyndi að beita klækjum til að slátra stjórnarskránni. Á stuttri formannstíð hans hefur fylgi flokksins hrunið. Þingflokkurinn er klofinn vegna mistaka hans. Fylgið mun áfram rýrna, þegar flökkufylgi flokksins frá 2009 fattar, að Árni Páll sveik stjórnarskrána. Og áttar sig á, að hann er umbi Sjálfstæðisflokksins í Samfylkingunni. Að hann er að undirbúa stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Að vísu er stjórnarskráin ekki fremsta hitamál allra. Samt mun hún vera þung á metunum í kosningunum í apríllok, þegar Samfylkingunni verður slátrað.

 

Fullt hús bófa og bjána

Punktar

Fjórflokkurinn eða fimmflokkurinn er skelfilegur. Þar eru bófaflokkar tveir á framfæri kvótagreifa og pilsfaldagreifa. Annar þeirra tvöfaldar fylgi sitt út á Nígeríubréf með tilboði til fávísra kjósenda. Svo eru þar bjánaflokkar tveir, sem hafa svikið þjóðina tvöfalt. Í fyrsta lagi með því að sigla stjórnarskránni í strand. Og í öðru lagi með því að reyna að troða afsali þjóðarauðlindarinnar í hendur kvótagreifa í tuttugu ár. Fimmti flokkurinn fer í stjórnarsæng með hverjum, sem býður. Samkvæmt könnunum fær þessi fimmflokkur ALLA þingmenn næsta kjörtímabils, fullt hús. Þjóðin virðist galin.

Píratar góður kostur

Punktar

Píratar hófu undirbúning kosninganna af krafti. Framboð eru komin í ljós og stuðningsfólk flokksins virkt á fésbók og í öðrum nýmiðlum. Þarna er ungt fólk, sem skilur nýmiðla og getur beitt sér framhjá hefðbundnum fjölmiðlum. Get vel hugsað mér að kjósa pírata, einkum þar sem Birgitta Jónsdóttir er í framboði í mínu kjördæmi. Ég á að vísu eftir að sjá, hvernig Lýðræðisvaktin stjórnarskrármanna fer af stað. Og hverjir verða þar í framboði. Hef trú á Þorvaldi Gylfasyni og öðrum þeim félögum. Þau eru enn varla farnir að mælast í skoðanakönnunum. En það lagast vonandi, þegar þau loksins komast í gang.

Flótti víða brostinn á

Punktar

Margir flýja Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana. Flýja Moggann, kvótagreifana, fjárglæfra-formanninn og málþófsmenn hans, ályktanir landsfundar að hætti ameríska teboðsins. Skrítið samt, að flóttaliðið þorir varla að fara lengra en yfir í Framsókn. Hafa um margt annað að velja, svo sem Hægri græna og Samfylkinguna undir formennsku frambjóðanda Flokksins. Ég get hins vegar vel skilið, að kratar í Samfylkingunni flýi í mótmælaskyni undan Árna Páli Árnasyni yfir í Bjarta framtíð. Get líka skilið, að fólk flýi vinstri græna yfir í vinstri smáflokka. Í Dögun, Pírata eða jafnvel enn nýrri framboð þar.

Undir fölsku flaggi

Punktar

Við höfum lengi vitað, að Flokkurinn og Framsókn eru andvíg frumvarpinu að stjórnarskrá. Fara ekkert í felur með afstöðuna. Samfylkingin þykist hins vegar styðja frumvarpið, en berst gegn því að tjaldabaki. Stefna hennar er að salta málið án atkvæðagreiðslu til að fela svik þingmanna. Þess vegna er lögum um alþingi ekki beitt gegn málþófi. Sama er að segja um Vinstri græna, þótt þar séu svikin við þjóðaratkvæðið ekki eins megn. Ekki tekst að smala saman níu þingmönnum til að styðja þjóðaratkvæðið með því að leggja fram dagskrártillögu. Fimmflokkurinn mun hindra atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.

Fá að leika lausum hala

Punktar

Erlendis komast þingmenn og aðrir pólitíkusar ekki upp með botnlaust bull og fleipur. Pressan tekur þá fyrir, greinir sundur bullið og fær fræðimenn til að salla þá niður. Þar kæmust Árni Páll Árnason og Magnús Orri Schram ekki upp með að muldra í síbylju, að málþóf hindri framgang nýrrar stjórnarskrár. Erlendis mundi pressan reka lög um alþingi upp að nefinu á úreltu gaurunum. Mundi spyrja þá, hvernig þeim dettur í hug að fara með slíkt fleipur. Hér fá þeir hins vegar óáreittir að endurtaka bullið. Þurfa ekki að svara sértækum spurningum um ákvæði í lögum, sem mæla fyrir um, hvernig málþóf sé stöðvað.

Eldhús sjónhverfingamanna

Punktar

Samkvæmt stjórnarandstöðu Sjálfstæðis og Framsóknar er hægt að leysa vanda þjóðarinnar með einu pennastriki. Með því að lækka skatta. Þannig má efla  hag heimilanna og auka félagslega velferð, til dæmis bjarga Landsspítalanum. Allt með því að lækka skatta. Einkum lækka skatta á auðfólk og fyrirtækja sem veiða í þjóðareign sjávarins, svo og stimpilgjöld og vörugjöld. Samkvæmt löngu hrakinni kenningu frjálshyggju um, að lækkun skatta fylli ríkissjóð. Á eldhúsdegi alþingis var þetta allt svona einfalt. En Sigmundur Davíð tekur sig bezt út í gervi sjónhverfingamanns við að draga kanínur upp úr hattinum.

Trúa öllum Nígeríubréfum

Punktar

Sigurður G. Tómasson lýsir vel stefnu hrunflokkanna: “Lækka skattana, borga skuldirnar, reka alla kommana og svo fá allir sleikjó á eftir.” Kristinn Hrafnsson lýsir vel vinsælustu flokkum landsins með ímyndaðri skoðanakönnun: “Veldu reynsluna. Við rústuðum Íslandi, en það var geðveikt gaman”, 33%. “Það var hárrétt að hunsa heilbrigða skynsemi. Gerum það aftur”, 18%.”.. “Ég kann spila á gítar og vinur minn á harmoníku”, 13%. Er nokkur furða, þótt margir telji íslenzka kjósendur afspyrnu heimska og altjend óvenjulega lausa við allt, sem heitir minni. Trúa sérhverju Nígeríubréfi, sem þeim berst.

Uppnám Samfylkingar

Punktar

Stjórnarskráin nýja hefur verið í uppnámi síðan Árni Páll Árnason tók að sér að slátra henni. Hún komst ekkert í meira uppnám við að koma aftur fram í breytingartillögu. Kenning Magnúsar Orra Schram í sjónvarpinu í kvöld var bull. Margrét Tryggvadóttir segir réttilega, að alþingi beri skylda til að taka afstöðu til uppkastsins. Meira er uppnámið ekki af hennar völdum. Allt uppnám í málinu er Samfylkingunni að kenna, tilraunum hennar til að þjóna hugðarefnum Sjálfstæðisflokks. Því er réttlátt, að fylgi Samfylkingarinnar hefur rýrnað um helming. Við þurfum ekki tvo Sjálfstæðisflokka, einn nægir.

 

Flett ofan af svikurum

Punktar

Nú súrnar heldur betur plottið hjá stjórnarsinnum, sem þóttust vilja nýju stjórnarskrána, en tefldu henni í öngþveiti á alþingi. Margrét Tryggvadóttir hefur unnið það afrek að leggja nýju stjórnarskrána fram sem breytingu á frávísunartillögu flokksformanna. Arfavitlausri frávísun Árna Páls Árnasonar Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar er þar með stefnt í voða. Þegar tillaga Margrétar verður borin undir atkvæði, kemur skýrt í ljós, hve lítil eru heilindi alþingismanna. Þá munu stjórnarskrársinnar taka vel eftir hvernig atkvæði einstakra þingmanna falla. Alls ekki þarf að kjósa þá í vor.

Gæfuhjól Framsóknar

Punktar

Misjöfn gæfa Framsóknar og Sjálfstæðis stafar af, að Framsókn skipti um formann og þinglið eftir hrun. Sjálfstæðis burðast enn með formann og kandídata úr ofurgræðginni fyrir hrun. Sigmundur Davíð var líka róttækari í IceSave, sem er Íslendingum hjartans mál. Er líka iðnari við að endurskrifa söguna, segir ríkisstjórnina hafa afhent vogunarsjóðum bankana. Gleymir, að það var að kröfu Framsóknar. Segist líka hafa hvatt til kaupa ríkisins á kröfum í bankana á botngengi. En gögn um þá hvatningu er hvergi að finna. Sigmundur er þannig hraðlygnari en Bjarni. Gleður fábjána og magnar fylgið.

Þá dreymir um ofbeldi

Punktar

Svo vissir eru ofbeldishneigðir sjálfstæðismenn um kosningasigur, að þeir eru farnir að hóta fréttamönnum. Styrmir Gunnarsson segir mannabreytingar nauðsynlegar á fréttastofunni. Jón Gunnarsson segir rétt að fækka þeim, sem grunaðir eru um samfylkingu eða vinstri grænt. Ofbeldishneigðin er arfur frá Davíð Oddssyni, sem enn er dýrlingur þeirra. Stjórnaði landinu með ógnunum. Verkfræðingar og náttúrufræðingar þorðu ekki að andmæla Kárahnjúkavirkjun af ótta við atvinnumissi. Davíð lagði niður heila Þjóðhagsstofnun til að sýna mátt sinn. Og vitgrannir kjósendur vilja fá bófaflokkinn aftur til valda.

Mammútur Ólafs floppar

Punktar

Nokkrum sinnum hef ég kvartað yfir hægagangi í störfum Sérstaks saksóknara. Sárafáum málum er lokið á þann hátt, að þau séu komin fyrir dómstóla. Fyrir nokkrum árum lofaði Ólafur Þór Hauksson meiri hraða í afgreiðslu mála. Með örri fjölgun starfsmanna hefur starfið skriðð hægar. Því hægar sem mál hafa skriðið, þeim mun meira hefur aukizt þögn Sérstaks saksóknara. Nú er þar allt orðið leyndó að hefðbundnum hætti yfirstéttar íslenzkra embættiskónga. Ekki er lengur vitað neitt um, hvort einhver sakamál birtist upp úr þessu Pandóruboxi hans á næstu mánuðum. Hundrað manna mammútur Ólafs er að floppa.