Punktar

Orð og borð er misjafnt

Punktar

Sumir fjölmiðlar birta úrdrátt úr stefnu stjórnmálaflokka, rétt eins og það skipti einhverju máli. Engum gagnast að fræðast um mismunandi stefnur flokka. Það eru bara orð og orð eru ódýr, ónýt. Miklu nær er að kanna það, sem pólitíkusar gera. Til dæmis má kanna gerðir þeirra þingmanna, sem eru í framboði. Stuðluðu þeir að hagsmunum heimila, þjóðareign auðlinda og auknu gegnsæi kerfisins? Útskýra þarf, hvernig Framsókn berst á Alþingi gegn þjóðareign auðlinda sama dag og flokkurinn þykist í pósti styðja þjóðareign. Þú lærir ekkert af orðum pólitíkusa. Lærir af að fylgjast með gerðum þeirra.

Árni Páll segi af sér

Punktar

Árni Páll Árnason á að segja af sér sem formaður Samfylkingarinnar. Framtak hans í stjórnarskrármálinu var vægast sagt út úr kú. Nema hann hafi spillt því af ásettu ráði. Fyrirfram var ekki hægt að reikna með, að bófaflokkur á framfæri kvótagreifa mundi fallast á málamiðlun. Eftirgjöf mætir Flokkurinn jafnan með aukinni hörku. Telur eftirgjöf réttilega vera merki um ræfildóm og staðfestuleysi. Enda kom það á daginn, Árni Páll fékk ekki fimmeyring fyrir stjórnarskrána. Hann átti að beita ákvæði 71 í fundarsköpum Alþingis og fá afstöðu þingmanna upp á borðið. Er hér eftir stimplaður sem ræfill.

Alþingi er svívirða

Punktar

Efast um, að nokkurs staðar á Vesturlöndum sé eins ömurleg stofnun og það alþingi, sem lauk störfum í nótt. Sekust er stjórnarandstaðan, sem breytti þingstörfum í skrípaleik málþófs. Nærri jafnsekir eru stjórnarsinnar, sem misstu tök á liðinu og misstu við það kjark til að stjórna. Niðurstaðan var að svíkja okkur um stjórnarskrána. Hún hafði verið í löngu ferli og hlotið eindreginn stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var ekki okkar alþingi, þetta var þing sérhagsmuna. Þetta var siðblint alþingi. Næsta þing verður vonandi ekki skipað neinum þeim þingmanni, sem sveik þjóðina að þessu sinn.

Skrítið ferli kjósenda

Punktar

Ekki eru það Evrópusinnar, er flýja Sjálfstæðisflokkinn yfir í Framsókn, sem er enn andstæðari Evrópu. Og ekki flýja þeir yfir í Samfylkinguna, sem er rúin fylgi. Flóttinn í Framsókn hlýtur að eiga aðrar skýringar. Til dæmis að þetta sé bara vinsamleg aðvörun, flóttamennirnir fara eins skammt og unnt er. Ekki er heldur hægt að skýra fylgishrun Samfylkingarinnar með Evrópu. Stuðningur við Evrópu er þrefalt meiri en sem nemur fylgi Samfylkingarinnar í könnunum. Stórslys var þar að velja Sjálfstæðismann sem formann. Hann fór beint í að rústa stjórnarskránni og öðru því, sem angrar Flokkinn.

Fólkið fagnar bófunum

Punktar

Samkvæmt skoðanakönnunum fær svikuli fjórflokkurinn með varadekkinu alla þingmenn kjörna. Þar með lýkur uppgjöri þjóðarinnar við hrunið, sleginn er botn í búsáhaldabyltinguna. Allt verður eins og áður var, bófaflokkar við völd. Gætt verður hagsmuna pilsfaldakapítalista og kvótagreifa á kostnað fólksins. Engar opnanir verða á aðgangi almennings að pólitísku valdi. Og það eru kjósendur sjálfir, sem ákveða þetta, samkvæmt skoðanakönnunum. Að vísu á annar hver eftir að ákveða sig, en hvað eftir annað sýna tölurnar yfirburði fjórflokksins og varadekksins. Þetta er ferleg uppgjöf fólksins.

Alger uppgjöf á þingi

Punktar

Fjórflokkurinn með varahjólinu náði samkomulagi á þingi í gærkvöldi. Nýju stjórnarskránni var fleygt út á hafsauga. Þjóðaratkvæði gerð marklaus vegna óyfirstíganlegra þröskulda um þáttöku. Náttúruverndarlögum frestað, þangað til annað kemur í ljós. Ekkert ákvæði um þjóðareign auðlinda. Stóriðja á Húsavík ríkisstyrkt að hætti bófaflokkanna. Ríkisstjórnin og fylgilið hennar gáfust endanlega upp fyrir yfirgangi andstöðunnar á Alþingi. Bófaflokkarnir hafa tekið þar völdin. Aumingjastjórnin er í minnihluta. Samkvæmt ákvörðun kjósenda munu stóru bófaflokkarnir tveir taka við lyklavöldum eftir mánuð.

Sauðsvarti þriðjungurinn

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn býður okkur enn lukkuriddara úr hruninu til að stjórna landinu. Berst harðar en nokkru sinni áður fyrir sérhagsmunum kvótagreifa og pilsfaldakapítalista. Eðlilegt er, að slíkur flokkur fái nú botnfylgi sitt, sauðsvartan almúgann, 25% þjóðarinnar. Hins vegar er fráleitt, að sama gildi ekki um Framsóknarflokkinn. Hann stendur eins þéttan vörð um kvótagreifa og sérvalda braskara og systurflokkurinn. Stefnuskrá hans er í algerri andstöðu við gerðir hans á Alþingi. Framsókn á bara að hafa 10% fylgi, sauðsvartasta almúgann úti á landi. Alls er hópur hinna sauðsvörtu um þriðjungur fólksins.

Evra tekin upp í laumi

Punktar

Júlíus Sólnes verkfræðingur er greindur maður með athyglisgáfuna í lagi. Var í Tyrklandi og tók eftir, að Tyrkir hafa tekið upp evru á laun án þess að spyrja kóng eða prest. Allt verð á vörum og þjónustu er auglýst í evrum þar í landi. Þegar Júlíus reyndi að borga með tyrkneskum lírum, settu menn upp svip og reiknuðu honum óhagstætt gengi. Það er semsagt ódýrara að borga þar með evrum er lírum. Allir nota evru, auglýsa bíla og lausamuni í evrum og semja um laun sín í evrum. Þetta sama eigum við að gera hér, taka í ró og mag upp alvöru evru samhliða krónunni án þess að biðja evrugreifana leyfis.

Óreiðan send til baka

Punktar

Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa breytt um stefnu í málum banka, sem ofkeyra sig. Hér eftir telst skattgreiðendum ekki skylt að leysa banka og sjóði úr óreiðunni. Lánardrottnarnir verða að borga brúsann. Einnig eigendur banka og sjóða, svo og þeir, sem eiga inni háar fjárhæðir. Aðeins þeir fá greitt, sem eiga inni minna en 100.000 evrur. Stjórn Geirs H. Haarde hefði átt að fara þessa leið í neyðarlögunum 2008, þá hefði tjón ríkisins orðið skaplegt. Hér eftir mun Evrópusambandið svara svona málum með að senda vandann bara aftur til bankanna. “Kemur okkur ekki við”, mun Evrópa segja.

Vægur áhugi á breytingum

Punktar

Stórmál líðandi stundar verða sum hver smærri í sniðum eftir mánuð, þegar kemur að kosningum. Þá kemur í ljós, að svonefndir hagsmunir heimilanna eru tilfinningamál minnihlutahóps. Vægi hagsmuna heimilanna verður í hófi. Og þá kemur í ljós, að stjórnarskráin er ekki efst á áhugalista meirihluta þeirra, sem í sjálfu sér styðja nýja stjórnarskrá. Vægi stjórnarskrárinnar verður líka í hófi. Sama er að segja um áhuga fólks á upplýsingafrelsi og gegnsæi. Hann brýst ekki út í kosningunum. Af þessum ástæðum mun stór hluti kjósenda áfram halla sér að hefðbundnum bófaflokkum, þótt þeir eigi það sízt skilið.

Lagatækni í hundahaldi

Punktar

Sumir hundaeigendur telja hund sinn svo ljúfan, að um hann gildi ekki reglur um hundahald. Því má hvarvetna sjá lausa hunda á ferð. Í einstaka tilviki er hætta á ferðum, svo sem sýnir dæmi Fréttablaðsins í dag frá Reykjanesbæ. Þar hafði hundur ítrekað verið laus og kvartað yfir honum, hafði bitið mann. Í þessu tilviki þorðu kennarar við leikskólann Gimli ekki að setja börnin út vegna hundsins. Hann beit illa hundafangara, sem kom á staðinn. Hundinum var auðvitað lógað hið snarasta. Dæmi um íslenzka frekju er, að hundeigandinn fékk sér lagatækni í málið. Af því að hann hafði ekki notið andmælaréttar.

Bankakerfið er ónýtt

Punktar

Bankakerfi Vesturlanda er ónýtt alla leið frá Kýpur til Íslands. Meginvandi þess er, að græðgin fékk að leika lausum hala í bönkunum. Þekkjum það úr hruninu. Taumlaus auðhyggja án raunverulegs ríkiseftirlits virkar ekki. Forsenda Hannesar Hólmsteins fyrir íslenzka ævintýrinu reyndist firra. En það skrítna er, að firran ríkir hér enn. Íslenzku bankarnir eru enn ofvaxnir og raka þó saman fé. Erfitt er að reka grunnstoðir velferðar, því bankarnir þrífa tugi milljarða árlega úr veltu þjóðarinar. Þetta gengur ekki lengur. Ríkið þarf að grípa í taumana, setja bönkum skorður og afnema bankaleynd.

Skiptum út 100%

Punktar

Framboðslistar nýju flokkanna eru óðum að birtast og gefa mér von um góðan árangur þeirra í kosningunum. Mér líst almennt vel á tvo efstu frambjóðendur hvers lista í hverju kjördæmi. Hjá Lýðræðisvaktinni, Pírötum og Dögun. Hin framboðin virðast flest vera eins manns framboð eins og Samstaða Lilju Mós. Mér sýnist, að minnsta kosti þessi þrjú framboð séu með frambjóðendur, sem ég treysti margfalt betur en bófum og bjánum fjórflokksins og fimmta hjóli hans, varahjólinu Bjartri framtíð. Kjósið það af þessum þremur framboðum, er samræmist bezt hugmyndum ykkur. Aðalatriðið er að skipta út á Alþingi 100%.

Þeir gargi út apríl

Punktar

Flott væri að hafa alþingi í skrípó fram undir kosningar. Gargandi bófar eru til þess fallnir að hrista upp í kjósendum, sem hingað til hafa yppt öxlum. Málþófið er til þess fallið að sannfæra fólk um, að enginn þingmaður megi ná endurkjöri. Verði stjórnarskráin til umræðu, man fólk á kosningadegi eftir þvermóðskunni á þingi. Að kröfu kvótagreifa og annarra, sem bezt mega sín, eru bófaflokkarnir tveir andvígir auknu lýðræði. Óbeit á stjórnarskránni nær einnig inn í raðir stjórnarsinna. Því lengur, sem alþingi bullar, því meiri líkur á, að fólk átti sig á þjónustu alþingismanna við þrönga sérhagsmuni.

Að tala eða að gera

Punktar

Þingmenn Framsóknar berjast á þingi gegn nýrri stjórnarskrá, einkum ákvæði, sem segir þjóðina eiga þjóðarauðlindir. Varaformaður Framsóknar segir þetta sósíalisma. Endurspeglar þá staðreynd, að Framsókn er og verður varðhundur kvótagreifa. Halldór Ásgrímsson vomir þarna enn að tjaldabaki. Sama dag og varaformaðurinn tjáir óbeit sína á auðlindaákvæðinu dreifir flokkurinn sínum kosningaáróðri. Þar lofar hann þjóðareign auðlinda á næsta kjörtímabili. Þetta getur Framsókn gert, því að margir kjósendur spyrja bara, hvað flokkar segja og lofa. En skoða ekki, hvað þeir gera. Þannig komast bófar til valda.