Punktar

Þröngt um sjónhverfingar

Punktar

Stjórn ríkisfjármála er að þessu sinni erfiðari en oftast áður, því að ýktar sjónhverfingar eru úreltar. Ekki dugir að segjast ræna fé erlendra fjárfesta en láta samt ríkið borga skuldurum það, sem upp á vantar. Ríkið hefur ekki ráð á neinu og hefur heldur ekki ráð á að punga í Íbúðalánasjóð. Ríkið þarf að rétta af Landsspítalann og vernda velferðina, þótt Brynjar segi rétt að skera hana. Og ekki er svigrúm til að dreifa peningum yfir skuldara. Svigrúm er heldur ekkert til að lækka skattprósentu á hátekjufólki. Reynslan hefur hrakið síngjarna tilgátu um, að lægri prósenta leiði til hærri ríkistekna.

Kínversk umhverfisást Elkem

Punktar

Ekki kemur á óvart, að járnblendi Elkem á Grundartanga skori hæst í mengun orkufreks iðnaðar, komið í kínverska eigu. Í Kína er umhverfið lágt skrifað, svo og í fyrirtækjum, sem þeir reka erlendis. Raunar er Kína heimsins mesta bæli umhverfissóða, andstæða Japans, þar sem umhverfið er hátt skrifað. Ekki kemur á óvart, að Ólafur Ragnar Grímsson lofsyngur kínverska umhverfisást. Ferill forsetans er samfelld öfugmælavísa. Brennisteinsoxíð á Grundartanga er komið að þolmörkum. Stjórnendur fyrirtækisins fela sig fyrir blaðamönnum. Virðingarleysi þeirra fyrir náttúrunni er tífaldur Jón Gunnarsson þingmaður.

Gamla Ísland endurheimt

Punktar

Þrennt stendur upp úr viðræðum silfurskeiðunga í ættarbústaðnum. Verið er að finna leið út úr loforðavanda Framsóknar, búa til hókus-pókus um skuldavanda heimilanna. Verið er að ákveða fækkun skattþrepa, sem silfurskeiðungar kalla einföldun skattkerfisins. Þannig færa þeir Ísland nær löndum Sovétríkjanna sálugu og Sádi-Arabíu. Í þriðja lagi skiptir miklu hin sálræna yfirlýsing um fundarstað í ættarbústað. Ættirnar, sem eiga ríkið, hafa endurheimt völdin og falið silfurskeiðungum sínum að semja um helmingaskiptin. Umbar auðgreifa og kvótagreifa eru að gera díl. Gamla Ísland er komið aftur í boði kjósenda.

Hótanir útvatnaðar

Punktar

Kjósendur hafna ekki eða játast flokkum, stefnu eða gerðum. Nánast allar skoðanir eru minnihlutaskoðanir. Jafnvel skuldaniðurfærsla Framsóknar hefur aðeins 25% fylgi. Í lýðræði taka flokkar sig saman, sem hafa samtals yfir 50%, bræða saman atriði úr loforðum/hótunum aðila og mynda stjórn. Reynslan sýnir, að sáttmálar eru bara pappír, í bezta falli leiðbeiningar. Ekkert segir, að B og D verði að setja ríkið á hausinn. Lækkun ríkistekna og hækkun útgjalda eru bara loforð eða hótanir flokkanna. Skuldaniðurfærsla Framsóknar fær að venju skoðun sérfróðra. Úttektin mun leiða til útvötnunar hótana.

Röng forgangsröð

Punktar

Sé gott að græða fé á því að rupla þá, sem kallaðir eru hrægammar, á að nota fenginn í allt annað en flata niðurgreiðslu húsnæðisskulda. Hún mun að mestu renna til þeirra, sem tóku óhófslán vegna óhófshúsnæðis. Ríkissjóður þarf sjálfur þetta fé til að efla Landsspítalann og létta lyfjakostnað fólks. Og svo þarf hann að eiga næstum hundrað milljarða í afgang á ári hverju, bara upp í vexti. Þeir stafa af kostnaði við stofnun nýrra viðskiptabanka og endurreisn gjaldþrota Seðlabankans fyrir fimm árum. Ríkissjóður getur ekki á sama tíma verið að strá peningum yfir ofurfrek gæludýr silfurskeiðunganna.

Fráleit niðurfærsla

Punktar

Því meira sem ég hugsa um flata skuldaniðurfærslu Framsóknar, því meira sýnist hún út í hött. Ekkert vit er í að nota sameiginlegt fé okkar til að borga fyrir þá, sem steyptu sér í rosaskuldir til að eignast 400 fermetra húsnæði. Meginhluti flatrar niðurfærslu fer í að greiða slíkt óhóf og það er fráleitt. Því miður er óráðsíufólkið öflugt og liggur á Framsókn með kröfur sínar. Það eina, sem hægt er að gera fyrir þetta fólk, er að gefa því kost á að skila lyklunum og ganga út skuldlaust. Lyklaleiðin er sanngjarnari en flata niðurfærslan, sem er á kostnað þeirra, sem ekki höfðu ráð á að skulda.

Indjáni í Danmörku

Punktar

Beinagrind af konu í Danmörku frá tíma Vínlandsfundar sýnir, að hún var fædd í Danmörku af ættum indjána. Þessi merki fornleifafundur við Otterup á Fjóni staðfestir tengsl Norðurlanda við Ameríku á tímum Guðríðar Þorbjarnardóttur, víðförlustu konu víkingaaldar. Tennur sýna uppvöxt í Danmörku og erfðaefni er það sama og indjána. Þetta kom fram í arkeometríu, fræðigrein, sem tengir saman fornleifar og náttúruvísindi. Strontíummagn í tönnum sýnir uppvöxt í Danmörku og haplotýpan X2c sýnir ættir frá indjánum í Norður-Ameríku. Ef til vill var samgangur milli heimsálfa meiri en bara ferðir Þorfinns og Leifs.
(Videnskab.dk)

Sældartími kverúlanta

Punktar

Sældartími verður framundan undir stjórn B og D. Ýmsir skattar lækka, einkum á ríku fólki. “Gróði” ríkisins af minni tekjum þess verður sendur þeim, sem höfðu ráð á að kaupa stærstu húsin, ríka fólkinu. Gróðinn af TAPI ríkisins verður nefnilega sendur þeim, sem eiga B og D með húð og hári. Utan um sigur gróðakarlanna verður búinn til hókus-pókus að hefðbundnum hætti framsóknar. Þetta verður einkum gósentíð fyrir okkur kverúlantana, sem eigum eftir að skrifa um framvinduna á þessum ósköpum. Yndislegt verður að lesa rökin, sem silfurskeiðungar munu búa til fyrir yfirvofandi samningi um ríkisstjórn.

Stikkfrí kjósendur

Punktar

Nú fer málið að vandast. Afhenda þarf peningana, sem kjósendum Framsóknar var lofað. Hverjir fá, þeir sem tóku á leigu eða þeir sem þurfa á lyfjum að halda eða uppskurði á Landsspítala? Sennilega ekki, forgangsröðin byrjar á þeim, sem mestu óráðsíulánin tóku, 90% framsóknarlánin sælu. Þegar búið er að ljúga einu, þarf að ljúga aftur og aftur til að viðhalda lyginni. Gamalt loforð kallar á nýtt. 90% óráðsíulán framsóknar urðu að forsendubresti, sem framsókn ætlar að leysa með nýjum hókus-pókus. Þetta verður orðið skrautlegt áður en yfir lýkur. En taka kjósendur einhverja ábyrgð á öllu sínu rugli?

Grunur vex um vanbúnað

Punktar

Því lengur, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er að koma sér að verki, þeim mun meira eflist grunurinn. Því lengri sem formáli viðræðna er, því líklegra er, að reiknivinnu hafi skort að baki loforðs. Gefið er í skyn, að hann eigi í spjalli við Bjarna Benediktsson, en Bjarni neitar, að svo sé. Allt mjög skrítið, en Sigmundur segist ætla að byrja að díla núna um helgina. Í dag er liðin vika frá kosningum og því tímabært orðið að byrja. Sigmundur reynir að vinna tíma til að fá dæmið reiknað með því að þykjast vera í undirbúningi viðræðna. Gerði hann ekki ráð fyrir að þurfa að reikna út loforðið stóra?

Tregar og hægar tilraunir

Punktar

Tilraunir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til myndunar ríkisstjórnar eru að byrja að minna á tilraunir Þorsteins Pálssonar á sínum tíma. Tóku óratíma og almenningur fékk á tilfinninguna, að Þorsteinn kynni ekki fagið. Vissi ekki, hvernig hann ætti að fara að þessu. Þótt tilraunir Sigmundar hafi staðið í fimm daga, eru þær ekki byrjaðar enn! Er enn að reyna að finna út, hvernig sé hægt að fara í kosningaloforð Framsóknar. Og selja formönnum flokkanna þá tilgátu, að þau séu að einhverju leyti framkvæmanleg. Er semsagt hægfara að leita að formönnum, sem geta látið draga sig inn á þetta sérstæða sjónarmið.

Fullkomni pólitíkusinn

Punktar

Nigel Farage og Sjálfstæðisflokkur hans unnu mikinn sigur í kosningunum til sveitarstjórna í Bretlandi. Farage er einnig þingmaður í Evrópuþinginu og heldur þar frábærar ræður gegn framkvæmdastjórum bandalagsins, einkum gegn José Barroso. Farage er ólíkur öðrum pólitíkusum, sem sífellt reyna að gera sig merkilega. Hann er alþýðlegur, gæti verið maðurinn, sem þú vilt hitta á brezku kránni. Orðheppinn með afbrigðum, svo sem má sjá af myndskeiði, þar sem hann leikur Barroso sundur og saman í nöpru háði. Farage hefur það, sem pólitíkusa sárlega vantar, tilfinninguna fyrir, að pólitík sé bara leikur.

Dauðaleit að lausn

Punktar

Vandinn við loforð Framsóknar er, að ekki er hægt að efna það. Ekki er bara erfitt að efna það, heldur er líka erfitt að ljúga sig út úr því. Sigmundur Davíð gefur kost á öðrum aðferðum við millifærslu, en pólitískir viðmælendur hans finna enga lausn heldur. Það er botn íslenzks lýðræðis, þegar kjósendur hafa samþykkt loforð, sem engin leið er að efna. Þótt voðalegir útlendingar, sem af hagkvæmnisástæðum eru kallaðir hrægammar, vilji slá af kröfum, verða ekki til peningar. Ofurskuldir verða bara minni. Einfaldara er að hámarka ruglið, láta Frosta prenta verðlausa seðla villt og galið og senda okkur?

Söltum Evrópuaðild

Punktar

Ég hef alltaf verið stækur Evrópusinni, vildi beint í sambandið, burtséð frá viðræðum um hina og þessa kafla. Taldi það beztu leiðina undan áþján lélegra pólitíkusa og kontórista á Íslandi. Tel regluverk Evrópu vera það bezta, sem við höndlum af nútímanum. Hins vegar tel ég óráð að ganga í bandalagið núna. Það horfist í augu við mistök í evru, Schengen, Maastricht og stjórnarskrá. Sambandið þarf að læra af reynslu, breyta þessum plöggum og semja peninga- og bankasamning. Áður en það getur tekið við fleiri ríkjum. Heppilegt er, að viðræðurnar við Evrópu verði saltaðar og við þýðum áfram evrópskt regluverk.

Bjarni maríneraður

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer ágætlega í viðræður um nýja ríkisstjórn. Aflar sér upplýsinga um, hvað sé fast í hendi einstakra flokka. Og hvaða flokkar séu líklegir til að þola helztu mál Framsóknar, einkum skuldamál heimilanna. Hins vegar gengur þetta afar hægt hjá honum. Hálfan annan dag að komast að atriðum, sem hægt er að fá botn í á einum formiðdegi. Líklega er hann að marínera viðmælendurna í leiðinni. Greinilegt er, að kringum Bjarna Benediktsson urðu menn strax taugaveiklaðir. Enda orðnir ruglaðir í ríminu af langvinnum valdaskorti. Með hverjum deginum verður Bjarni meðfærilegri.