Punktar

Ótímabær veizlustjórn

Punktar

Ótímabært er fyrir Björgólf Thor Björgólfsson að fara að spila veizlustjóra í fjármálaheiminum. Hans mál eru enn ekki útkljáð, þótt honum hafi tekizt að fá banka til að afskrifa lán. Gegn því að greiða sjálfur 22 milljarða upp í tjónið, sem hann olli Landsbankanum. Og lofa 12 milljörðum til viðbótar. Slíkir eru ekki taldir neinn silkipappír í safalaskinni enn sem komið er. Tjón er tjón og afskriftir jafngilda ekki hvítþvotti. Spámaður var sóttur úr Hvíta húsinu í partí á Fríkirkjuvegi 11. Var ótímabær tilraun BThB til að gera sig aftur að gullfiski fjármála. Sum höfum við meira en gullfiskaminni.

Óvinirnir í skóginum

Punktar

“Öll dýrin í skóginum eru vinir” er leiðasta klisjan. Fékk slæmt rothögg í hruninu, en vaknar nú aftur til lífs. Kjósendum finnst dónalegt að tala illa um spillingu og þjófnað glæpagengja í stjórnmálum. En dýrin í skóginum eru engir vinir. Þar eru rándýr, sem klófesta Lilla klifurmús og félaga. Íslenzk þjóðmál eru þvílík Afríka úti í hafsauga, að um þau verður bara fjallað á kjarngóðri íslenzku. Sé farið að draga í land með lýsingar, ganga bófar bara á lagið og heimta aukna undirgefni þægra kjósenda. Hér vaða uppi hrunverjar, skattsvikarar, einkavinavæddir pilsfalda-kapítalistar og einkum kvótagreifar.

Katrín og gamlingjarnir

Punktar

Vinstri græn standa betur eftir kosningar en Samfylkingin. Formannaskiptin tókust vel. Katrín Jakobsdóttir þarf bara að hindra gamlingjana í að stýra úr aftursætinu. Steingrímur og Ögmundur eru menn gamla tímans og ekkert malt er í Ögmundi, þegar á reynir. Hann mun klikka, atkvæði hans nýtist ekki til samlagningar. Hann álpast út um tún, þótt hann fari ekki af landareigninni, eins og Lilja og Atli, Jón og Ásmundur. Meiri framtíð er í vinstri grænum flokki en Blair-istum, sem reyna að spila hækju fyrir nýfrjálshyggju. Bófar kvótagreifa og annarra auðgreifa þurfa bara eina Framsókn sér til aðstoðar.

Hataða ljósið skín

Punktar

Mest af ljósinu, sem skín inn í rottuholuna á Íslandi, kemur frá hinu hataða Evrópusambandi. Við værum Afríka án þess. Frá Evrópu hafa komið tilskipanir um lög um neytendavernd og umhverfismat, lög um samkeppniseftirlit og um hringamyndun, reglur um skaðabætur farþega vegna seinkunar og niðurfellingar flugs. Evrópusambandið hefur líka kúgað símafélög til að snarlækka gjöld á reikisímtölum milli landa. Evrópusambandið hefur nefnilega burði til að setja alþjóðlegum viðskipta-glæpahringjum stólinn fyrir dyrnar. Hér á landi er hins vegar enginn áhugi á skjaldborg Evrópu. Bara tekin upp með semingi.

Harðnandi forgangsröðun

Punktar

Velferðin er langt frá að vera svo norræn, að ríkið ábyrgist heilsu okkar, langlífi, afkomu og hamingju. Ríkið lætur okkur borga fimmta hluta beint í heilsukostnaði, þar á meðal tannlækningar að mestu. Sumir deyja enn fyrir aldur fram, einkum vegna greiðs aðgangs að fíkniefnum, allt frá áfengi og tóbaki yfir í mildari ósköp. Spítalatækni er orðin svo fullkomin, að bara sjúkrahús við Persaflóa hafa ráð á að beita henni allri. Sum lyf kosta yfir milljón á mánuði á mann. Sundur dregur með takmörkuðum ríkisauði og vilja þjóðarinnar til velferðar. Senn mun ný stjórn láta forgangsraða enn harðar.

Dauða Samfylkingin

Punktar

Samfylkingin sýnist mér vera dauð. Alþingiskosningarnar drápu hana. Hún er engin samfylking lengur, enginn turn í tveggja turna tali. Banalegan hófst með Blair-ismanum, sem setti nýfrjálshyggju á oddinn. Síðan kom Jóhanna og frestaði andlátinu, en hún var síðasti kratinn og er nú farin. Í staðinn er kominn bankavinurinn bezti, Árni Páll Árnason, sem er eins og klipptur út úr Sjálfstæðisflokknum. Enn eru þarna kontóristar ýmissa stofnana, sem smíðaðar voru á valdatíma flokksins. Í fremstu víglínu eru þar fáir til stórræðanna. Össur faldi sig í kosningaslagnum og hóf kosningaskrif að kosningum loknum.

Þar vildi ég vera

Punktar

Evrópa er góð. Vildi búa þar, væru hér ekki hestar, óbyggðir og fjölskylda (ekki í þessari röð). Í Evrópu ríkir friður, lítið um hryðjuverk og glæpi. Öflugt félagsöryggi, voldug menningarsaga, virðing við umhverfið. Hvergi minna misrétti og minni spilling en í Evrópu. Ævilíkur eru hvergi meiri og íslenzkir kjósendur eru víðs fjarri. Gæti vel hugsað mér að búa mitt á milli Parísar, Bruxelles og München. Sennilega í Alsace, kannski Þýzkalandsmegin því að ég tala sæmilega þýzku. Evrópa er engin miðja alheimsins, en hún er öllum álfum til fyrirmyndar. Ber af Íslendingum eins og gull af eiri.

Lofgerð til þjóðarinnar

Punktar

Þú getur gabbað alla einu sinni og suma oftar. En þú getur aldrei gabbað alla alltaf. Sölumenn snákaolíu geta samt gabbað 25% þjóðarinnar ævinlega. Svonefnd heimska Íslendinga felst fyrst og fremst í pólitískri heimsku, sem sumpart felst í óskhyggju, trúgirni og von um vinning í happdrætti. Örþjóð á hjara veraldar hefur um aldir þurft aukaskammt af bjartsýni til að lifa af hallærin. Tengd óbilandi bjartsýni og trúgirni er minnimáttur kotkarla, sem lýsir sér einkum í þjóðrembu og vissu um, að fjölþjóðlegar lausnir gildi ekki um sérstöðu Íslands. Þess vegna ræður hér geðþótti fremur en regluverk.

Brenglað og hentugt

Punktar

Margoft hef ég sagt, að lýðræði er brenglað þjóðskipulag. Engin uppgötvun mín frá síðustu kosningum. Fjórði hver Íslendingur er flón, sem tekur engum sönsum og veldur vandræðum í kosningum. Eins og dæmið sýnir núna. Hins vegar hef ég líka margsagt, að lýðræði er hentugt þjóðskipulag. Hindrar flónin í að kenna pólitíkusum eða útlendingum um vandræði sín. Lýðræði er aðferð til að koma ábyrgð á rugli yfir á herðar þjóðarinnar. Þannig er hægt að skipta um landsfeður á fjögurra ára fresti á tiltölulega friðsaman hátt. Eftir kosningar hjaðnar svo þvaðrið, til dæmis um forsendubrest og hrægammasjóði.

Spuna ýtt úr vör

Punktar

Tilraunir silfurskeiðunga til stjórnarmyndunar eru erfiðar. Ekki vegna þess að stjórn landsmála sé erfið. Snýst bara um að kunna að spara. Fjölga til dæmis ekki ráðherrum. Vandi bófaflokkanna snýst um annað, að ljúga sig út úr kosningaloforðum, er ekki verða efnd. Láta líta svo út, sem úr sauðarleggnum hafi hrokkið forsendubrestur, er meini þeim örlætið. Þeim spuna hefur fálega verið tekið. En vilji er allt sem þarf. Vilji silfurskeiðungar eignast völd og spillingu, verða þeir að finna lausnina. Finna nýja sjónhverfingu, sem skýrir fyrri sjónhverfingar bófanna. Finna lausnina, sem bjánarnir kaupa.

 

Sjálfhverfir í vanskilum?

Punktar

Sighvatur Björgvinsson hefur lag á að æsa menn, enda fer hann með viðkvæmt mál: Forsendubrest sjálfhverfra vanskilamanna. Fleiri hafa fjallað um þetta, til dæmis forsíða Time: “Me-Me-Me”. Hallgrímur Óskarsson samskiptafræðingur segir, að fólk hugsi núna meira um sjálft sig. Þetta má kalla “ég um mig frá mér til mín” kynslóðina. Sighvatur segir, að 16.000 heimili hafi verið á vanskilaskrá fyrir hrun. Hafi aðeins fjölgað um 9.000 við “forsendubrest” hrunsins. Ekki er nóg að æsa sig gegn Sighvati, betra er að koma með rök. Er risin kynslóð sjálfhverfra vanskilamanna, sem vilja láta redda sér úr sukki?

Mælt með skattþrepum

Punktar

Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni OECD sker Ísland sig úr löndum, sem lentu í fjármálakreppu. Hér hélst óbreytt bil milli ríkra og fátækra, en í öðrum löndum jókst það. Efnamenn héldu til dæmis sínu á Spáni og Ítalíu, en fátækir látnir taka kreppuna á sig. Munurinn felst í, að þar var velferð skert. Hér reyndi ríkisstjórn að verja fátæka, einkum með hærri skattþrepum á auðmenn. Skattþrep eru nú í flestum nálægum ríkjum, nema í Sádi-Arabíu og Austur-Evrópu. OECD hvetur til slíkra þrepa. Silfurskeiðungar hafa samt uppi hótanir um að afnema skattþrepin, að kröfu bófa Sjálfstæðisflokksins.

 

Landsvirkjunarfroðan

Punktar

Við þekkjum tungutakið, froðuna og bullið. Hjá Landsvirkjun hljóðar það svo: “Auk þeirra ítarlegu umhverfisrannsókna og vöktunar sem Landsvirkjun hefur staðið fyrir er einnig unnið að úttekt á gildandi mati á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar, með aðstoð ráðgjafa, þar sem tekið er tillit til tæknibreytinga og reynslu af rekstri jarðvarmavirkjana og umhverfisáhrifum þeirra sem komið hafa fram frá því að Skipulagsstofnun úrskurðaði um allt að 90MW Bjarnarflagsvirkjun árið 2004.” Þyrlað er upp ryki. Landsvirkjun reynir að hindra, að óháð umhverfismat leysi gamla, gallaða matið hennar af hólmi.

Bófi eða bjáni

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lætur eins og honum einum pólitíkusa hafi ekki verið kunnugt um, að ríkið á ekki þrjúhundruð milljarða. Hann einn hafi ekki lesið blöð, hlustað á útvarp eða horft á sjónvarp. Allir fjölmiðlar og allir bloggarar voru á kafi í fjárskorti ríkisins. Hann lætur eins og hann sé bara bjáni. Meiri líkur eru þó á, að hann hafi logið upp loforðum sínum í fullri vissu um að efna þau ekki. Ætlað að bera við hinum víðfræga forsendubresti. Vegna heimsku fjórðungs kjósenda tókst honum þannig að ljúga sig inn á þing og kannski inn í ríkisstjórn. Því er sennilegra, að hann sé bófi en bjáni.

Hellar verði friðaðir

Punktar

Samráðsnefnd um verndun hella leggur til, að hellar verði friðaðir á þrennan hátt. Sumum verði beinlínis lokað, sumir gerðir að sýningarhellum og sumir hafðir opnir sem ferðamannahellar. Mér virðist þetta skynsamleg sátt milli umgengni og friðunar. Yfir okkur vofir margföldun ferðamanna, er leiðir til álags, sem þarf að mæta á skipulegan hátt. Neyðaraðgerðir að undangengnum skemmdum eru síður fýsilegar. Betra er að mæta vanda fljótt og skipulega. Við eigum að hafa lært af Þingvöllum og Geysi. Gullfoss er dæmi um betri tök á vanda. Ríkið þarf að leggja fram fé og hafa öll tök á málum af þessu tagi.