Punktar

Samstarf um þrælkun

Punktar

Samstarf er milli atvinnu- og verkalýðsrekenda um að halda launum niðri. Og helzt að færa aukinn hluta kökunnar til hinna ríkustu. Var hulið með því að auka aðgang að lánum, allt frá rekstrarlánum plastkorta til húsnæðislána. Skuldum vafið fólk gerir ekki byltingu, í mesta lagi búsáhaldabyltingu. Í hruninu sat fólk skyndilega uppi með 20% lægri laun. Í stað þess að ná því til baka með samtakamætti, heimtaði fólk afslátt. Og fékk afslátt, en ekki fráhvarf frá lánafjötrum yfir í stærri kökusneið. Með nýrri ríkisstjórn í fyrra var bil ríkra og fátækra aukið enn. Og eykst í nýju kjarasamningunum.

Traust rís ekki af engu

Punktar

Traust myndast ekki í samfélaginu með því, að almenningur fari að treysta. Yfirstéttin verður fyrst að vinna fyrir trausti. Meðan ekkert samband er milli orða og gerða pólitíkusa, byggist ekki upp neitt traust. Pólitíkusar verða fyrst að vinna fyrir trausti. Meðan bankar haga sér eins og þeir gerðu fyrir hrun, byggist ekki upp neitt traust. Banksterar verða fyrst að vinna fyrir trausti. Álitsgjafar bera virðingu fyrir orðum hver annars í samtali fámiðla. En hlutverk þeirra er ekki að bera virðingu fyrir gerðum bófanna. Gagnrýni á bófa er ekki einelti, jafnvel þótt sjálfur biskupinn haldi það.

Rangt er gefið

Punktar

Fólk er farið að fatta, að rangt er gefið í spili lífsins. Börn eiga ekki lengur von um betra líf en foreldranna. Fólk sér vítahringinn í lánafangelsi markaðshyggju, vaxandi gjá milli auðs og fátæktar. Fyrstu viðbrögðin eru reiði og tortryggni. Tækifærissinnaður loddari hleypur upp og lofar lýðnum skuldaleiðréttingu og hvaðeina. Það tekur tíma fyrir fólk að átta sig á, að lýðskrumari leysir engan vanda. Þegar það rís upp í alvöru af yfirvegun og skynsemi, er hætt við kollsteypu. Vítahringur gliðnunar samfélagsins verður stöðvaður, hugsanlega með handafli. Frjálshyggju verður þá varpað á haugana.

Ár loddarans

Punktar

Björn Valur Gíslason á heiðurinn af heiti ársins 2013. Það var Ár loddarans. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ögraði þjóðinni með trylltum kosningaloforðum, sem gerðu fjórðung þjóðarinnar að fífli. Í kosningabaráttunni bætti SDG um betur, gaf inn og sagðist mundu standa við hvert orð. Svo hefur ekki staðið steinn yfir steini. Allt reyndist vera taumlaus lygi. SDG er staffírugur og segist hafa sagt annað en skjalfest er. Og hann gefur ný loforð. Stór hluti af fjórðungi hans laumaðist brott, en samkvæmt könnunum standa enn eftir 15% kjósenda. Minnisstæður varði um ömurlegan pólitískan vanþroska í þúsundavís.

Fræg af frægð

Punktar

Celeb er persóna á Baksíðunni fyrir að hafa fengið þursabit eða verið gefnar sokkabuxur. Celeb er Jóna&Jón, er gamalt Séð og heyrt á læknastofunni segir, að ætli að giftast, því þetta sé stóra ástin. Þar sérðu í síðara tölublaði, að þau eru skilin. Erlendis er Celeb fólk, sem er frægt af auði sínum, óhófi eða afrekum. Hér er fátt um slíkt, auð vantar, óhóf og afrek. Því þurfa Séð og heyrt og Baksíður að tala um óþekkt fólk, sem á ekki krónu og röltir með tannbursta í plastpoka milli sambúða. Eru fræg af frægð sinni. Vitið þið, hvað Ásdís Rán hefur gert um ævina? Rétt hjá þér: Að vera mun betra Celeb.

Lögbrot í orkugeiranum

Punktar

Samkvæmt landslögum eiga opinberir aðilar að hafa meirihluta í fyrirtækjum orkugeirans. Eigendur HS Orku og Orkuveitunnar hafa reynt að brjóta þessi lög. Að fara á svig við lögin eins og það heitir á máli lagatækna. Það gera þau með samningi við fyrirtæki Heiðars Más Guðjónssonar. Hann eignast bara þriðjung í HS Orku, en á með sérstökum samningi að fá neitunarvald í stjórn. Fær semsagt meirihlutavald í stjórn á grundvelli þriðjungs eignaraðildar. Að þessu stendur meirihluti Bezta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ. Lögbrotin þarf að stöðva í tæka tíð.

Ara-í-Ögri duldin

Punktar

Ara-í-Ögri duld hefur löngum fylgt Íslandi. Burt—með-þá er hluti íslenzkrar þjóðmenningar. Afskekkt og einangruð eyþjóð á jaðri íshafsins óttast útlenda og hatar. Óttinn og hatrið nær þessa dagana frá hælisleitendum og vansælum Afríkubúum til fjölþjóðlegra samtaka á borð við Evrópusambandið. Menntafólk verður sumt forviða, þegar það fattar, að þetta er hluti þjóðarsálar. Helztu lýðskrumarar Framsóknar róa á þessi fengsælu djúpsálarmið. Þannig hafa tjáð sig af þingmönnum þau Vigdís Hauksdóttir, Frosti Sigurjónsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ásmundur E. Daðason, Þorsteinn Sæmundsson og Sigmundur Davíð.

Atvinnuleysi hverfur

Punktar

Ferðafólki fjölgar svo rosalega hér á landi, að senn fer að skorta mannskap í ferðaþjónustu. Þetta er handhæg aðferð við að eyða atvinnuleysi. En minnir um leið á, að þetta þurfa að vera lífvænleg störf. Mörg verðmæt störf eru í greininni, en fleiri eru þó láglaunastörf. Úr því þarf að bæta. Tekjur fólks í ferðaþjónustu þurfa að aukast. Og tryggja þarf, að sameiginlegir sjóðir þjóðarinnar fái sinn hluta af veltunni. Ferðaþjónusta er að verða stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og okkur ber að líta á hana sem alvöru. Hún verður okkur til góðs á erfiðum tíma, ef við kunnum að höndla hana með framsýni.

Höfuðborgir Íslands

Punktar

Róm var fyrsta höfuðborg Íslands. Þar var páfinn og er enn. Þangað gengu Guðríður Þorbjarnardóttir og Sturla Sighvatsson. Eins og ekkert væri. Síðar tók Kaupmannahöfn við. Þar var kóngurinn og er enn. Þar voru menningarvitar þjóðarinnar fram á 20. öld. Þangað sigldu menn, helzt árlega. Bráðum tekur Bruxelles við, þar eru kontóristarnir. Eða kannski verður það í Berlín, hver veit. Þar var ég ungur stúdent og leið vel. Við lifum nú í millibilsástandi sveitavargs. Með hverfi 101 sem menningarútvörð í eyðimörk þjóðrembu, haturs á útlandinu, menningunni og helzt öllu ókunnugu. Að hætti kolbíta í öskustó.

Lekinn var villandi

Punktar

AWP, fréttalekastofnun Birgittu Jónsdóttur alþingismanns og fleiri aðila, hefur ekki enn skýrt forsíðufrétt kvöldsins: „Glitnir 2007-2008 loans list, featuring very low risk loans to enterprises owned by staff and a 5bi ISK loan to the current Icelandic minister of finance.“ Meðan svo er vil ég draga til baka það, sem ég hef sagt um þetta mál, biðjast afsökunar og bíða eftir frekari útskýringum. Því er nú haldið fram, að skuld Bjarna Ben. við Glitni hafi verið rúmlega 150 milljónir króna. Það stendur, þangað til annað kemur í ljós. Ennfremur hefur Jón Bjarki Magnússon rannsóknablaðamaður neitað aðildinni að AWP, sem sagt er frá á heimasíðu AWP.

Nú seint á níunda tímanum var hinn umdeildi texti tekinn út af heimasíðu AWP. Þar með hefur verið viðurkennt, að hann var rangur. Settur var inn nýr texti, sem segir þetta vera hluthafaskrá. Birgitta tjáði sig nokkru síðar á fésbók, en sagði ekkert um þetta mál og baðst ekki afsökunar.

Nafn Jóns Bjarna sem aðila að AWP var líka tekið út. Engar skýringar gefnar. Þetta er eins og í Sovétinu, allt þegjandi og hljóðalaust.

 

Skulda- eða hlutafjárlisti?

Punktar

Á fésbók er á einum stað haldið fram, að tölurnar á Glitnis-listanum séu ekki skuldalisti, heldur hlutfjárlisti. Þetta séu einingar en ekki þúsundkallar. Raunverulegar skuldir séu ekki nema einn tuttugasti af uppgefnum tölum. Sé svo, þá er framsetning AWP röng. Þetta skýrist vafalaust með morgninum.
Þetta segir AWP í inngangi fréttarinnar:
„Glitnir 2007-2008 loans list, featuring very low risk loans to enterprises owned by staff and a 5bi ISK loan to the current Icelandic minister of finance.“
Þarna er bæði talað um lánalista og um milljarða í krónum, ekki um hlutafjárlista og einingar. Deilt er um, hvort þetta sé rétt. Hvort þetta séu íslenzkar krónur eða hlutafjáreiningar.

6 milljarðar Bjarna Ben

Punktar

Loksins eru ný skjöl um íslenzka bankaglæpi komin í dagsljósið. Opnuð hefur verið heimasíða AWP, Associated Whistle-Blowing Press. Það er stofnun, sem stendur að opinberri birtingu gagna um íslenzka hrunið. Þar eru þegar komin gögn um Glitni. Þar á meðal um greiðslur bankans fyrir Bjarna Ármannsson, fyrrverandi bankastjóra. Einnig um kaup og sölu Glitnis á eigin hlutabréfum. Þar kemur í ljós, að bankinn átti 30% í sjálfum sér. Feitasti bitinn er svo lánalistinn. Þar eru veðlaus lán til vildarvina, þar á meðal 5.967.126.000 króna lán til Bjarna Benediktssonar. Þú getur skoðað þetta á heimasíðunni. Umræða er hafin á fésbók minni.

Dauða borgin lifir

Punktar

Sunnudagsmorgna var miðborgin venjulega dauð. Fyrir utan hreinsibíla að tína upp rusl fólks, sem aldrei hefur lært umgengni. Ekki lengur. Í morgun voru kvosin og Bankastræti full af fólki. Í eins stigs frosti og tólf metrum á sekúndu, sem virkar eins og níu stiga frost. Voru ekki Íslendingar, sem lágu að venju timbraðir eða dauðir uppi í rúmi. Þetta voru Japanir, ungt fólk og myndarlegt, sem var með sælusvip að skoða heiminn. Verzlunareigendur nenntu ekki að opna. Miðborgin var eins og safn, þar sem verðmætir munir eru bak við gler. Kannski er borgin orðin Feneyjar, safn um fyrri alda búsetu.

Halda lyginni á lífi

Punktar

Um jólin dreifðu vefmiðlarnir góðu, Mogginn, DV og Vísir, lygasögu um bann Evrópusambandsins við dönskum kanilsnúðum. Fjarri sanni. Í sumum kanil, en ekki öðrum, er eiturefnið kúmarín. Evrópusambandið vill, að í bakstur sé notaður góður kanill, sem er laus við eitrið. Sambandið takmarkar því magn kúmaríns í kanil. Ekkert bannar notkun á kanil, hvorki í Danmörku né annars staðar í Evrópu. Flökkusagan espar þjóðrembda bloggara, er sjálfvirkt hamast gegn Evrópusambandinu. Telja sig hafa fengið flott dæmi um heimsku og illsku reglusmiðanna. Halda lyginni á lífi. Eins og meintu banni við heimabakstri.

Fortíðin heillar

Punktar

Þegar ég er búinn að endurlesa þá reyfara, sem undir niðri fjalla um götur, hverfi og borgir nútímans, er freistandi að röðin komi að fortíðinni. Á því sviði hef ég fátt lesið. Langar að lesa reyfarahöfunda, sem lýsa upp götur, hverfi og borgir liðins tíma. Hef lesið Peter Tremayne um Írland fyrir 1500 árum og P.C. Doherty um Egyptaland fyrir 3500 árum. Ennfremur bækur Jason Goodwin um Istanbul síðari hluta nítjándu aldar og Jenny White um Istanbul í upphafi tuttugustu aldar. Gæti þegið ráð um fleiri góða reyfarahöfunda, sem fjallað hafa um spennandi borgir fyrri tíma. Svo sem um Róm og Feneyjar.