Punktar

Margt til lista lagt

Punktar

Okkur er margt til lista lagt, réttar sagt til lista og bókmennta lagt. Að öðru leyti erum við út úr kú. Eins og Collingwood sagði, hefur þjóðin hvorki pólitískt raunsæi né rökfræðilega hugsun. Íslendingar eru grautarhausar og kunna ekki mun á staðreyndum og hvers kyns órum að hætti Jóns lærða. Þannig var fyrir rúmri öld og þannig er það nú. Höfum kosið yfir okkur taumlausan loddara sem forsætisráðherra. Erum ýkt útgáfa af Írum, góð í bókmenntum og listum, en léleg í pólitík. Erum ófær um að stjórna okkur sjálf og eigum að viðurkenna það. Til slíks eigum við að fá okkur kontórista frá Bruxelles.

Fyrstur kemur – fyrstur ræður

Punktar

Klukkan fimm þrjátíu í morgun spann Mogginn sögu um engar undanþágur hjá Evrópusambandinu. Klukkan sex í morgun spann Pressan sömu sögu. Málgögnin nýttu tímann, sem ríkisstjórnin smíðaði. Til að vera hálfum sólarhring á undan já-sinnum að túlka skýrsluna um Evrópuviðræður Íslands. Þetta er gömul tækni almannatengla. Vera heilli nótt á undan hinum við að búa til spuna. Þá rennur sú útgáfa viðstöðulaust inn í kvarnir pupulsins. Upp úr hádegi taka já-sinnar við að reyna að hrekja spunann. Þá er það orðið of seint. Fyrsta regla almannatengsla um fréttaspuna hljóðar: Fyrstur kemur, fyrstur ræður.

Borgarstríðsfréttir

Punktar

Fólk brjálast út af þéttingu byggðar í Reykjavík. Fyrsti steinkastalinn við Mýrargötu vekur skelfingu og fleiri eiga að fylgja þar á eftir. Einnig er byrjað að bora fyrir steinkastala á Lýsisreitnum við Eiðisgranda og öðrum við Höfðaborg. Alls staðar eru vandræðin svipuð. Framkvæmdir valda rótgrónum íbúum ónæði og skemmdum á húsum. Lífið versnar á svæðinu, til dæmis minnkar útsýni og bílaumferð eykst. Gömul byggð verður krækiber í helvíti, samanber Bráðræðisholt. Það versta er eftir: Ókleift verður að leggja bílum í gömlum hverfum, því skipulagður bílastæðaskortur steinkastala flæðir um nágrennið.

Plúsar og mínus Bjarna

Punktar

Til skamms tíma er Bjarni Benediktsson í góðum málum. Keppinautar hans innan flokks hafa báðir skandalíserað í ráðherrasætum. Kristján Þór og Hanna Birna eru engin númer lengur. Eru orðin lík í lestinni, upp á náð Bjarna komin. Formaður samstarfsflokksins framdi svo pólitískt harakiri í sjónvarpinu í gær. Bjarni er orðinn kjölfesta ríkisstjórnarinnar. Tiltölulega erfiðislítið búinn að láta pupulinn endurgreiða kosningaskuld Flokksins við kvótagreifa. Til langs tíma er vandi Bjarna þó ljós í veikri ríkisstjórn í samstarfi við rugludall. Skítur Framsóknar sullast smám saman óhjákvæmilega yfir á Bjarna.

Brengluð forgangsröðun

Punktar

250 manns bíða eftir hjartaþræðingu. Biðlistinn er langur og biðin tekur þrjá mánuði. Á þeim tíma deyja tíu prósent af biðlistanum. Það eru 25 manns. Þriðja hvern dag deyr einhver, því að hann er ekki þræddur, heldur hangir bara á biðlista. Afleiðing af óhóflegri skerðingu á rekstri Landspítalans. Við áttum von á, að þar færi staðan að lagast. En ný ríkisstjórn breytti fjárlagafrumvarpi og herti enn frekar að spítalanum. Þurfti nefnilega að rýma til fyrir kvótagreifum á fjárlögum ríkisins. Taldi sig þurfa að slá tugum milljarða af auðlindarentu. Brenglaður forgangur pilsfaldakapítalista.

Klæðlausi keisarinn

Punktar

Það þurfti Gísla Martein til að fletta ofan af rugluðum SDG. Í átta mánuði hafa fjölmiðlar leyft forsætis að leika lausum hala í fréttum og viðtölum. Látið sér lynda, að hann svari engu og tali tóma tjöru. Nú var SDG hengdur. Hann er búinn að vera, ófær um að gegna starfinu. Bjarni Benediktsson getur ekki haldið honum á floti. Fésbókin er 95% gegn 5% á því, að forsætis sé ruglaður. Þegar slíkur er farinn að útlista sig ofsóttan og er ævinlega reiður, er stutt í endalokin. Mest kemur mér á óvart, að það skyldi einmitt vera Gísli Marteinn, sem segir okkur, að keisarinn sé ekki í neinum fötum.

Bótaþegar og greifar

Punktar

Ráðherrar venja sig á að fara með rugl sem staðreyndir. Eygló Harðardóttir slær um sig með undarlegum tölum, sem fá ekki staðizt. Segir 277 bótaþega hafa árið 2011 svikið 3,4 milljarða út úr Tryggingastofnun. Ríkisendurskoðun er borin fyrir tölunum. Árlega tólf milljónir króna að meðaltali á hvern. Harla ótrúverðugt. Ráðherra dreifir tölum eins og staðreyndum til að magna hatrið á bótaþegum. Fróðlegra væri að kanna og sundurliða tölurnar. Hvers konar bætur voru þetta og hvað var í ólagi með veitingu þeirra? Fremur en að setja lög gegn einkalífi allra bótaþega. Eru greinilega engir kvótagreifar.

Borgarloftið frelsar þig

Punktar

Skemmtileg umræða um „labbakútastaði“ landsins var á fésbók Jakobs Bjarnars Gretarssonar í gær. Í tilefni dónaskapar ræðuliðs Menntaskóla Ísafjarðar í morfís-keppni um hártoganir og orðhengla. Aðrir staðir nefndir, kunnir að víðtæku samsæri um einelti, Grindavík og Sandgerði til dæmis. Seint verður þó Húsavík slegin út. Þar var fórnarlamb nauðgunar hrakið úr þorpinu í samstilltu átaki íbúa. Í framhaldi má minna á, að í félagsfræði hafa plássin allt frá miðöldum verið álitin millistöð fangavistar milli sveita og borgar. Spakmælið segir: „Stadtluft macht frei“, borgarloftið frelsar þig. Í 101.

Óhæfir til allra verka

Punktar

Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar eru sumir óhæfir til allra verka. Kristján Þór reynir hvað eftir annað að ýta sjúklingum fram af brúninni. Þótt ljóst sé, að gripið verði fram fyrir hendur hans. Með geðþótta kollvarpar Sigurður Ingi matvælaöryggi í trássi við heilbrigðisnefndir og Matvælastofnun. Hanna Birna heldur áfram frægum skítabrögðum úr borgarstjórn. Reyndi þá að grafa undan Gamla góða Villa og síðar undan Bjarna Benediktssyni með völdum leka. Sama eðlis er ruddinn Gunnar Bragi, sem sendir SMS um „veiðileyfi á Kiddu“. Þetta er aldeilis félegt bófagengi, Vigdís Hauks smellpassar í hópinn.

Endurvakin helmingaskipti

Punktar

Gamlir helmingaskiptataktar eru farnir að blómstra á nýjan leik með innreið bófaflokkanna í stjórnarráðið. Seðlabankastjórum verður fjölgað í þrjá og búið til pláss fyrir aflóga pólitíkusa á borð við Ólöfu Nordal. Annar aflóga pólitíkus, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fær formennsku í Iceland Naturally. Slíkt val ekki milli hinna hæfustu, heldur milli flokkshesta, sem ekki geta unnið fyrir sér. Fornaldarvinnubrögð valdshyggju og gerræðis einkenndu fyrri samstjórnir Sjálfstæðis og Framsóknar. Þau munu senn setja mark sitt á þessa samstjórn. Hæfasta fólkið er allt utan flokka og röðin kemur aldrei að því.

Bókhneigðir grautarhausar

Punktar

Íslandsvinurinn Collingwood heimsótti landið 1897 og skrifaði vinsamlega bók um þjóðina. Í bréfi til konu sinnar hefur hann flóknari sögu að segja: „Sé í raun og veru um einhverjar gáfur að ræða, eru það helst á bókmenntasviðinu. […] Aftur á móti virðist engin lifandi sála skilja vísindalegar staðreyndir, efnahagsleg sannindi, stjórnmálalegt raunsæi eða nokkur önnur fræðileg efni. Þeir eru haldnir hverskyns hugarórum.“ Þjóðin einkennist „einkum af vissum grautarhaushætti og algjörum skorti á þjálfun til þess að gaumgæfa og fara með staðreyndir.“ Þessi lýsing á enn firnavel við óhæfa kjósendur landsins.

 

Ferðapassinn óþarfi

Ferðir, Punktar

Ég skil ekki ferðapassann frekar en aðra flækjuhugsun. Finnst það einfalda vera betra. Fyrst hafnar ríkisstjórnin eðlilegum vaski á ferðaþjónustu og getur svo ekki kostað frágang og verndun helztu ferðamannastaða. Miklu nær er að hafa vaskinn í lagi og nota hluta teknanna til að kosta framkvæmdir og rekstur við ferðamannastaði. Enginn getur kveinað yfir að borga sama vask og aðrir. Ferðamenn pirrast fremur af aðgangseyri eða ferðapassa. Svo rífast menn og rífast. Eins og í kvótanum, sem ætti að bjóða út á frjálsum markaði og hætta grátbólgnu rifrildi. Hér skortir hnífskarpa hugsun hjá moðhausunum.

Vanstilltur forsætis

Punktar

Augljóst forgangsverkefni Seðlabankans er að kanna „óumbeðið“, hvaða áhrif „stærstu skuldaaðgerðir í heimi“ hafi á verðbólgu og hagþróun. Annars gæti bankinn ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem vaktari verðbólgu. Sigmundur Davíð óttast þetta forgangsverkefni. Á þá að bera harm sinn í hljóði, ekki bera hann á torg. Forsætisráðherra okkar hefur frá upphafi verið snarvilltur í heimi efnahags- og fjármála. Orðinn svo vanstilltur og kvartsamur, að hann ræðst á opinbera stofnun fyrir að vinna vinnuna sína. Eilíft væl hans um, að allir ofsæki hann og draumsýnir hans, mun óhjákvæmlega enda með skelfingu.

Einelti og ofsóknir

Punktar

Þetta var mikill dagur hjá samtökum hrunverja. Eftir fjögurra ára frystingu forsætisráðherra var kominn nýr, sem vildi mæta á aðalfund Viðskiptaráðs. Menn bjuggust við, að hann mundi þar hafa forustu í hópefli hinna forsmáðu, sem aftur höfðu náð völdum. En Sigmundur Davíð hafði annað í huga, eineltið sem hann telur sig sæta. Hann vældi eins og venjulega um ofsóknir gegn sér. Jafnvel seðlabankastjóri væri kominn í hóp hinna skringilegu bloggara, sem kunna ekki að meta drottningu Undralands. Og Már lætur lögboðnar skyldur ganga fyrir prívatkröfum loddarans. Þvílík móðgun við sjálfa drottninguna.

Hverjir eru sökudólgarnir?

Punktar

Velti stundum fyrir mér hugarfari þrjátíuþúsund Íslendinga, ef um hugarfar er að ræða. Stukku yfir í lest Sigmundar Davíðs í síðustu kosningum án þess að vera genetískir. Þar kennir áreiðanlega margra grasa. Tuttuguþúsund af hópnum eru þó ekki verri en svo, að þeir hafa síðan flúið lestina samkvæmt könnunum. Þeir hafa bara verið gripnir stundaræði, sem er að verða þjóðinni dýrt. Flestir þeirra kannast samt ekki við verknað sinn. Tíuþúsund sitja enn fastir við loddarann. Bíða væntanlega enn eftir tékkanum í pósti. Við þurfum enn að þreyja þrjú ár af geðveikri hagstjórn í boði allra þessara kjósenda.