Punktar

Haltu kjafti og hlýddu

Punktar

Örvænting pamfíla í áramótaræðum voru orð Altúngu: „Maður á að segja, að allt sé í bezta lagi.“ Á íslenzku þýðir það: „Haltu kjafti, hlýddu og vertu góður.“ Loddarar þola enga gagnrýni, vilja bara dýrkun án innistæðu. Fólk lifir að vísu ekki á gagnrýni einni saman, ekki frekar en það lifir á að dýrka pamfíla. En gagnrýni er nauðsynleg. Almenningur hefur fengið eigin aðgang að fjölmiðlun. Blogg, fésbók og tíst valta yfir hefðbundna miðla, sem loddarar hafa múlbundið. Núna heyrist margradda kór, sem pamfílar ráða ekki við, uppvísir að undirferli og tilfinningalausri steypu. Þá má því baða skriflega upp úr tjöru og fiðri.

Óbærilegur hávaði

Punktar

Í áramótaávörpum kveinkuðu pamfílar samfélagsins sér undan biturri gagnrýni. Predikuðu jákvæðni að hætti Altúngu í Birtingi: „Maður á að segja, að allt sé í bezta lagi.“ Enginn þessara pamfíla lifir í raunheimi, ekki forseti, biskup eða forsætis. Þetta er fólk, sem ræður ekki við embætti sín og vill fá að vera í friði með sína steypu. Múlbinding fjölmiðla gagnaðist þeim ekki, því fólk hefur öðlast eigin rödd í alþýðumiðlum. Þar er hver sinn eigin ritstjóri. Margradda texti í bloggi, fésbók og tísti er að æra yfirstéttargaura, sem við héldum áður vera gersamlega heyrnarlausa. Sé hávaðinn þeim óbærilegur, er það fínasta mál.

Hér vantar auðlindarentu

Punktar

Landsframleiðslan er töluvert meiri en hagtölur sýna. Þær mæla ekki hækkun í hafi á útflutningsvörum. Hækkun í hafi var aðferð eigenda fyrsta álversins og er enn fyrirmynd allra útflutningsgreifa. Kvótagreifar eiga fyrirtæki erlendis, sem taka kúfinn af arðinum og fela í skattaskjólum. Þetta fer ekki í hagtölur hér á landi, heldur hverfur út í buskann. Þess vegna er ekki marktækt að miða rentu auðlindanna við arðinn, sem gefinn er upp innanlands. Rentan á bara að vera hlutfall af aflamagni, ekki af meintum arði. Eðlilegt er, að auðlindarenta af sjávarauðlindum og orkuauðlindum sé mælanleg, 20% af magni að minnsta kosti.

Miðlungs skaup

Punktar

Áramótaskaupið var upp og ofan, stundum var handritið betra en leikurinn. Mjög erfiður tími fyrir skaup, því veruleikinn er fyndnari en paródían. Víða var komið við og almenningi sjálfum ekki sparaðar sendingar. Sjálfgefið er, að áramótaskaup fjallar mest um ríkisstjórn hvers tíma. Marklítið er að væla út af því. Þessi ríkisstjórn er ótrúlega miklu fyndnari en allar aðrar, sem ég hef fylgzt með í sextíu ár. Því er hætt við, að skopstæling falli flöt á köflum. Ég hló sjaldan, fannst þó margt hóflega fyndið. Gaman er að lesa á fésbókinni um harm skapþungra stjórnarsinna um útreið brandarakarla sinna. Það léttir lund.

Lömuð stjórnarandstaða

Punktar

Stjórnarandstaða Samfylkingarinnar og Vinstri grænna er nánast engin. Þingmenn þeirra nenna varla að vinna. Einkum er hávær þögnin hjá formönnum flokkanna. Eru hvorki sjáanlegir né heyranlegir vikum saman. Katrín Jakobsdóttir hefur þó karisma, sem heldur henni uppi, en Árni Páll Árnason hefur ekkert. Það liggur við, að Bezti flokkurinn sé skárri, þótt hann hafi þá fyndnu stefnu, að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Eins og rándýrin fari að éta gras. Helzt hafa píratar marktækt að segja gegn ofurvaldi heimskra bófa. En hafa því miður of þrönga skírskotun, höfða mest til ungra kjósenda, sem nenna ekki á kjörstað.

Heimsk og illgjörn stjórn

Punktar

Ríkisstjórnin er skipuð tveimur bófaflokkum, sem heyja stríð gegn almenningi. Landspítalinn er einn af vígvöllum þessa stríðs. Þar á ofan eru ráðherrarnir yfirleitt fremur vitgrannir og litlir verkmenn. Helzta vörn þeirra gegn áreiti umheimsins er að liggja í öskustónni og láta ekki á sér kræla. Sjáið Kristján Þór. Bjarni Ben er sá eini, sem er sæmilega máli farinn og getur brugðizt við áreiti. Fólk sér eymdina, svo sem sést í könnunum á fylgi í sögulegu lágmarki. Samt virðist stjórnin ekki geta kafað niður fyrir samanlagt 35% fylgi. Þar fann hún sinn botn. Þriðjungur kjósenda er nefnilega illa innrættur og vitgrannur.

Mannvonzka brauðmolatrúar

Punktar

Við skulum ekki blekkja okkur með orðhenglum. Brauðmolatrúin er mannvonzka, hvort sem henni er haldið fram af Pétri Blöndal eða Vilhjálmi Bjarnasyni. Næg reynsla er af trúnni á að hlynna að hinum ríku og að þá skoppi brauðmolar af borðum þeirra niður til hinna fátæku. Hún virkar ekki, hefur aldrei virkað og mun aldrei virka. Hafi hinir ríku of mikil fríðindi, setja þeir gróðann ekki í hagkerfið, heldur taka hann út úr því og koma honum fyrir í skattaparadísum aflandseyja. Þeir draga beinlínis úr efnahagsvexti. Við búum hins vegar við þá einu ríkisstjórn í heiminum, sem trúir á þetta úrelta trúarrugl frá Stanford.

Bjarni slengir bombum

Punktar

Sennilega er Bjarni Benediktsson hræddur um, að læknar fari að semja. Það tefur hann við að rústa Landspítalanum endanlega til að rýma fyrir einkarekstri að bandarískum hætti. Hvenær sem læknar byrja að gefa eftir hleypur hann að og slengir handsprengju inn í viðræðurnar. Sakar lækna í dag um að segja ekki frá kröfum sínum, þótt þögnin sé krafa sáttasemjara. Bjarni reynir ítrekað að æsa til deilna við sáttaborðið með því að kasta inn handsprengjum. Er þó málsvari hóps, sem hefur hrifsað sér fimmtíu og hundrað prósent betri kjör á valdatíma hans. En það eru elsku beztu greifarnir hans og um þá gildir ekki neitt aðhald.

Frá vori í vetur

Punktar

Herforingjar Egyptalands er harðskeyttari hjá Sisi en áður hjá Mubarak. Þeir ofsækja alla, sem stóðu að arabíska vorinu fyrir réttum fjórum árum. Fangelsa lýðræðissinna og strangtrúaða og dæma í drákonskar refsingar fyrir mótmæli. Bandaríkin horfa á þetta með velþóknun, því að þau taka harðstjórn herforingja ævinlega fram yfir lýðræði. Þannig valda þau andstöðu við útbreiðslu lýðræðis í heiminum. Framleiða þúsundir ofstækismanna í heimi múslima á degi hverjum. Aldrei í veraldarsögunni hefur heimsveldi haft jafn fáránlega utanríkisstefnu og stríðsóð Bandaríkin hafa rekið síðustu áratugina. Sjá grein í GUARDIAN.

Fyrirmyndar páfi

Punktar

Nýi páfinn er farinn að hreinsa til í Vatíkaninu, enda gamall útkastari á næturklúbbi. Franciscus flutti þrumandi ræðu um spillingu undirmanna sinna og hafði frumkvæði að friðarferli Kúbu og Bandaríkjanna. Hefur samt tíma til að sinna umhverfinu. Viðurkennir hlýnun jarðar og varar við henni. Er því kominn í andstöðu við bandaríska kardínála og pólitíkusa, sem afneita slíkum breytingum. Enda valda orð páfa óróa meðal þeirra, sem segja umhverfisvernd í mótsögn við biblíuna. Franciscus páfi er Argentínumaður. Í hópi suðuramerískra preláta, sem vilja, að kirkjan falli frá fylgispekt við auðbófa og fari að hugsa um fátæka.

„Sænska aðferðin“ Eyglóar

Punktar

Eygló Harðardóttir talar ekki íslenzku, heldur newspeak. Með handafli tekur hún hundruð manna af atvinnuleysisskrá og bendir svo á tölurnar, sem sýna fækkun á skrá og segir bætur óþarfar. Sker niður framlög til endurhæfingar atvinnulausra og segist beita „sænsku aðferðinni“ við að efla endurhæfingu. Þetta er auðvitað stjórnlaust bull frá A til Ö. Skárri var hún áður, þegar hún talaði um, hversu fallega hugsandi hún væri sjálf og hefði jafnvel skipað nefnd. Hún gerði aldrei handtak í embætti fyrr en nú, þegar hún leggst á þá, sem minnst mega sín. Við liggur, að illskárra væri að hafa Vigdísi Hauksdóttur sem framsóknarráðherra.

Dýrð Seltjarnarness

Punktar

Hafin er kosningabarátta fyrir bæjarstjórnarkosningar 2018. Sjálfstæðisfélag Seltjarnarnes sendi mér í lúguna í dag áróðursrit á kostnað bæjarsjóðs. Því er dreift um gervallt landið, því miklu skiptir, að allir viti um geðveikt flott Seltjarnarnes. Þar ríkir ferleg hamingja á öllum sviðum, enda hefur allur vandi mannlegra samskipta verið leystur. Þar syngja allir „Seltjarnarnesið er fagurt og frítt“. Þar rignir ekki einu sinni og þar hreyfir ekki vind. Okkur þessum fáu af Nesinu, sem erum á leið til Himnaríkis, mun vafalaust finnast oss þar í kot vísað, hafandi áður notið langvinnrar dýrðar Kim Il Sung og nú síðast náðar Kim Jong Il.

Olíuverð áfram hrunið

Punktar

Á hálfu ári hefur olía fallið um helming í verði á Brent mælikvarða, úr 115 dollurum á tunnu í 61 dollar. Ekkert bendir til, að hún hækki senn í verði. Ali al-Naimi, olíuráðherra Sádi-Arabíu, SEGIR, að framleiðsla verði ekki dregin saman, þótt verð fari niður í 20 dollara. Núverandi verð mundi koma skýrt fram í olíuverði á Íslandi, nema fyrir samráð olíufélaga um okurverð. Hins vegar er þetta slæmt fyrir olíuríki eins og Rússland. Rússar munu til dæmis eiga erfitt með að borga fyrir innflutning á íslenzkum fiski. Mun koma niður á makrílverði. En ríkisstjórnin á að knýja samráðs-einokunina til að stórlækka olíu og benzín.

Höfundar á bannlista

Punktar

Bækur Isabel Allende eru bannaðar í skólum Arizona samkvæmt lögum um bann við byltingaráróðri. Rit fleiri höfunda eru í banni, þar á meðal Fárviðrið eftir Shakespeare og Borgaraleg óhlýðni eftir Thoreau. Yfirvöldin taka enga sénsa á, að lýðurinn rísi upp í krafti orðsins. Víðar eru fornaldarófreskjur vestra, í Michigan var menntaskólakennari rekinn fyrir að sýna nemendum bók með Rómeó og Júlíu eftir Shakespeare. Ófreskjur valdsins hafa fyrir að finna, hvar hættur steðja að auðræðinu. Þróunarvísindi sæta vaxandi andstöðu og ófreskjurnar vilja setja sköpunartrú á stall í staðinn. En hér höfum við bara bæjarstjórann í Eyjum.

Flestir kaupa skattagögn

Punktar

Flest ríki Evrópusambandsins keyptu lista yfir handhafa þýfis í skattaskjóli. Og Luxemborg gafst fyrir sitt leyti upp á aðild að svindlinu. Margir milljarðar evra eru að skila sér í sköttum og sektum. Eitt land er þó utan þessara aðgerða. Það er Ísland, sem á þó tilkall til fjár, sem nokkur hundruð Íslendingar hafa falið. Skattrannsóknastjóri og fjármálaráðherra hafa hent þessum bolta milli sín mánuðum saman, án þess að gögnin hafi verið keypt. Það stafar auðvitað af sérstöðu Íslands sem spilltasta ríkis Vestur-Evrópu. Við erum kúguð af ofbeldi pólitískra bófaflokka, er beinlínis lifa á hlutdeild í skattasvindli greifanna.