Punktar

Ljúfa sólar-eitrið

Punktar

„Sólarkísilryk“ er nýjasta newspeak Faxaflóahafna. Þær hafa slengt þessu heiti á eiturgasið frá fyrirhugaðri sílikon-tetraklóríð verksmiðju Silicor/Calisolar á Grundartanga. Hefði þótt gott nafn í Auschwitz á tíma Hitlers sáluga. Blessuð sólin elskar allt og því er ljúft að slengja henni framan við orðið kísilryk. Gerir eitur svo fagurt og lystugt. Almannatenglar koma greinilega við sögu hjá Faxaflóahöfnum. Hefði „sólarduft“ ekki verið enn betra heiti á þessari mengun? Ekkert umhverfismat, bara teknar trúanlegar fullyrðingar fyrirtækis, sem á sótsvarta fortíð í Kanada og Bandaríkjunum. Íslendingar eru Jeppi á Fjalli.

(Vegna nafnleysis bloggsins er lokað fyrir athugasemdir hér. Þeim, sem vilja sjá umræðuna eða taka þátt í henni undir nafni, er bent á fésbókina.)

Atlaga að náttúruperlu

Punktar

Senn hefst atlaga Grindavíkur og HS Orku að Eldvörpum, einstæðri gígaröð, sem ætti að vera á heimsminjaskrá. Slíkt náttúrufyrirbæri finnst nefnilega ekki annars staðar í heiminum. Unnt hefði verið að nýta þessa stórbrotnu perlu sem verðmætan ferðamannastað í næsta nágrenni við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. En nú á að slétta Eldvörpin út til að mynda tvö 7500 fermetra borsvæði eftir heitu vatni. Jarðraskið er óafturkræft. Fengi heilbrigð skynsemi að ráða, væri allur Reykjanesskaginn vel í sveit sett gósenland fyrir ferðaþjónustu. En viljalausa þrælaþjóðin leyfir ævinlega sérhagsmunum verstu bófanna að ráða siglingunni.

Eftirspurn er auðlind

Punktar

Einkenni auðlinda er, að eftirspurn er meiri en framboð. Það gildir um fisk í sjó, ferðaþjónustu og orku fallvatna og jarðhita. Þessar þrjár greinar eru svonefndar þjóðarauðlindir. Af þeim getur þjóðin fengið sjóð af auðlindarentu eins og Norðmenn fá sjóð af sinni olíu. Við höfum klúðrað þessu mikilfenglega.  Til að finna rentuna er einfaldast að bjóða út afnot af auðlindunum. Og leigja þær til hæstbjóðandi, með hliðarafsláttum til að styrkja byggð á fallanda fæti. Vel þekkt markaðslausn með félagslegu ívafi. Til að hindra þessa skynsemi höfum við tvo bófaflokka og til að tala út og suður höfum við fjórhjól með varadekki.

Helztu friðarspillarnir

Punktar

Þegar þjóðfélagið er á hvolfi út af vinnudeilum, er alþingi upptekið við að ræða frekju Jóns Gunnarssonar. Hann vill setja lítt rannsakaða virkjunarkosti úr bið í virkjanaflokk. Þverbrýtur lögformlegt ákvarðanaferli til að stífla þingstörf á örlagastundu. Hann er þó ekki einn um að bregða fæti fyrir úrlausn vinnudeilna. Forsætis og fjármálaráðherra hafa kastað skætingi í verkfallsfólk. Ríkið hefur beina aðkomu að sumum vinnudeilunum og óbeina að hinum. Að vísu á ríkið ekki að niðurgreiða kaupgreiðslur atvinnurekenda. En það getur látið hjá líða að ausa benzíni á eldinn. Aðgerðir ráðherra eiga meginþátt í reiði fólks.

Inneignin er horfin

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn gat í gamla daga fullyrt ýmislegt, sem hefði ekki staðizt skoðun. En fólk tók orð foringjanna gild. Þeir höfðu mest fylgi. Höfðu inneign, voru taldir hjálpa fátækum sem ríkum. Nú er öldin önnur. Flokkurinn stóri er bara miðlungur að stærð. Forustumenn hans eru ítrekað staðnir að helberu rugli. Flokkurinn hefur ekki lengur þá gömlu inneign, sem áður dugði til trausts. Fólk trúir ekki lengur, að kaupmáttur okkar sé sá mesti í sögunni, skuldir fólksins hraðminnki, launin séu næstum bezt í heimi og hamingjan mest. Veruleiki fólks er annar. Öll inneign er horfin, traustið hrunið og sumarið kemur aldrei aftur.

Líkin límdu sig föst

Punktar

Vantraust kjósenda á Sigmundi Davíð og Bjarna Ben er heimsmet í sögu kannana. Þeir slá út Richard Nixon í hans pólitísku dauðateygjum eftir Watergate. Eru jafnvel óvinsælli en Evrópusambandið er í Grikklandi, sem má þó teljast nánast ókleift. Engir pólitíkusar, sem urðu hálfdrættingar á við Sigmund og Bjarna í óvinsældum, náðu aftur vopnum sínum. Þegar óvinsældir eru orðnar yfirþyrmandi, glatast öll inneign, þeir njóta ekki einu sinni vafans. Slíkir verða pólitísk lík, unz þeir hrekjast úr embætti. Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson eru pólitísk lík og verða aldrei vaktir upp. En líkin límdu sig við stólinn sinn.

Þú ert ekki marktækur

Punktar

Launakröfur seðlabankastjóra hafa löngum vakið athygli. Urðu auðvitað fyrirmynd annarra, sem sögðu: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það. Svo brjálast þessi sami seðlabankastjóri, þegar pakkið vill hærri sultarlaun. Fyrirgefðu, Már Guðmundsson, þú ert ekki marktækur, vertu ekki troða þinni gráðugu hugsun inn í þessa umræðu. Þú ert bara hagfræðingur, sem er fínt orð yfir trúarbragðafræði í fjármálum, peningalegar biblíusögur. Þú getur ekki heimtað sjö stafa tölu á mánuði í laun og röflað gegn 240 þúsund krónum fólks. En þetta frumhlaup stjórans sýnir firringuna, sem hlaupin er í yfirstéttina.

Freki karlinn fundinn

Punktar

„Freki karlinn“ er orðinn að miðlægu hugtaki í tali fólks um pólitíkina. Mig minnir, að Jón Gnarr sé höfundur hugtaksins. Hann sagðist oft hafa hitt freka karlinn, sem reynir að valta yfir allt og alla. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hver sé þessi persóna í raun. Með komu nýrrar ríkisstjórnar hélt ég fyrst það geta verið Sigurður Ingi Jóhannsson. Tuddaðist um víðan völl, en mannaðist síðan. Eða málhölt Vigdís Hauksdóttir, en hún reyndist bara tala hraðar en hún hugsar. Nú veit ég, að „freki karlinn“ er Jón Gunnarsson, sem hatar víðernin eins og pestina, enda gamall bóndi. Brýtur lög og reglur í taumlausri frekju.

Móðgelsi að eigin vali

Punktar

Mannréttindum eða friðhelgi einkalífs fylgir engin vörn gegn móðgunum að eigin vali. Enginn réttur til sækja málið fyrir dómstólum eða beita valdi. Söfnuðir geta ekki hindrað móðganir í garð löngu liðins spámanns, sem aðrir grínast að. Trúarbrögðum eða bannhelgi fylgir enginn réttur umfram aðrar lífsskoðanir. Fólk getur ekki heldur að eigin vali móðgast og kært orð Snorra í Betel. Bendi hann á, að fólk geti valið að reisa sér hús utan flóðasvæða, bítur fólk í það súra epli. Móðgelsi og bannhelgi að eigin vali eru réttlaus fyrirbæri. Hér lifum við í veraldlegu þjóðfélagi, þar sem móðgelsi um trú eða tabú njóta engrar verndar.

Snorri og frjálsa valið

Punktar

Snorri í Betel fær litlar þakkir fyrir að benda á, að fólk hefur val. Óvinsælt er að heyra sig bera einhverja ábyrgð á örlögum sínum og sinna. Auðvitað hefur fólk val um, hvort það byggir hús sitt á sandi. Eða á skilgreindu flóðasvæði. Sama er að segja um bæjarfélög, þau hafa val um að skipuleggja lóðir á slíku svæði. Eins er um pólitík og lýðræði. Fólk hefur val um þrælahald og margir kjósa þrælahaldið. Rétt eins og margir skipuleggja lóðir á flóðasvæði og aðrir byggja sér hús á flóðasvæði. Þetta er spurningin um frjálsa valið, hvort fólk  sé að einhverju leyti sinnar gæfu smiðir. En slík umræða er tabú hér á landi.

Lög og reglur blífi

Punktar

Markmið vegabréfa er að sýna fram á, að maður sé sá sem maður þykist vera. Ekki gengur, að fólk geti af trúarástæðum heimtað að fá að vera í dulargervi á mynd í vegabréfi. Fastar reglur um andlit hljóta að ná til múslima eins og annarra. Veraldlegt ríki getur ekki tekið tillit til sérvizku trúfélaga. Alveg eins og veraldlegt ríki getur ekki tekið matvæli úr umferð í mötuneytum með tilliti til sérvizku trúfélaga. Íslenzka ríkið er að leka í átt til óhóflegrar tillitssemi við trú múslima. Trúfrelsi jafngildir ekki frelsi frá siðum og reglum hvers lands. Sætti fólk sig ekki við siði og reglur lands, fer það ekki í það land.

Kennslustund í lýðræði

Punktar

Evrópumálaráðherra Þýzkalands tók ríkisstjórn Íslands í stutta kennslustund um daginn í hefðum lýðræðis. Michael Roth sagði engu máli skipta, hversu mörg bréf ríkisstjórnin sendi til Bruxelles um viðræðuslit. Málið þyrfti fyrst að eiga sína eðlilegu framvindu á Íslandi. Annað hvort þarf alþingi að álykta um slit eða þá að þjóðaratkvæðagreiðsla gerir það. Þá fyrst mun Evrópusambandið taka mark á Íslandi. Hér er ráðamönnum hins vegar ókunnugt um hefðir lýðræðis. Beita frekar annars konar valdstjórn, gerræði, þjófræði og auðræði. Í tvö ár hefur þessi ríkisstjórn hamast við að nauðga allri skynsemi í rekstri ríkisvaldsins.

Ég þakka mosaskeggjum

Punktar

Væri innanlandsflugið rekið frá Keflavíkurvelli, mundu fleiri ferðamenn fljúga beint út á land eða koma beint utan af landi. Skortur á tengingu innanlands- og millilandaflugs hamlar ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Samt hamast mosaskeggir við að heimta áframhald innanlandsflugs í Reykjavík. Það er gott. Fleiri gista í Reykjavík, þar sem bezt er að vera, og gista þar áfram. Og þá valda túristar minni skaða með átroðningi á ferðastöðum úti á landi. Takist mosaskeggjum að ná skipulagsvaldinu af Reykjavík, mun innanlandsflugið halda áfram að koðna niður. Framsóknarættaðir mosaskeggir geta ekki hugsað eina hugsun til enda, gott á þá.

Sjóðir tæta velferðina

Punktar

Tólf lífeyrissjóðir launafólks fjárfesta í heilbrigðisfyrirtækjum Ásdísar Höllu Bragadóttur í Garðabæ, sem er stefnt gegn velferðarkerfi spítalanna. Taka þátt í niðurrifi ókeypis þjónustu á vegum ríkisins til að rýma fyrir einkagróða að bandarískri fyrirmynd. Einkarekin heilsuþjónusta þar vestra er tvöfalt dýrari en ríkisrekin heilsuþjónusta í Norður-Evrópu og nær samt aðeins til hálfrar þjóðarinnar. Hún er þannig fjórum sinnum óhagkvæmari en þjónustan í Evrópu. Dæmigert fyrir græðgisvæðingu verkalýðsrekenda. Þeir ganga fram fyrir skjöldu við að rífa niður velferðarkerfi, sem forverarnir byggðu upp á siðaðri tímum.

CCP merkast á Íslandi

Punktar

Sennilega er CCP merkasta fyrirtæki á Íslandi. Nærri tvítugt að aldri með yfir 300 starfsmenn rekur það voldugasta gerviheim nútímans. Hámenntað fólk um allan heim tekur þátt í gerviheimi ótal sólkerfa, sem líkir eftir heimum ævintýranna. Líklega mætti gera Eve Online að kennslugrein í lífsleikni í íslenzkum skólum. Nokkrum sinnum hefur þessi flókni leikur verið að hruni kominn, einkum vegna árása hakkara, en hefur alltaf staðizt eldraunina. Einu sinni varð forstjórinn að biðjast nöldrara afsökunar á orðavali. Nú er tekið fullt tillit til kvartana og tillagna þátttakenda. GUARDIAN birti í dag vandaða grein um þessa sigurför.