Punktar

Vísitölubinding launa

Punktar

Viðbrögð atvinnurekenda við ákaflega kurteisum kröfum stéttarfélaga hafa skorið í augun. Menn heimta ekki einu sinni lífvænleg 500.000 króna mánaðarlaun, bara 300.000 króna sultarlaun. Bófarnir nenna varla að ræða málin viku eftir viku. Hóta verðhækkunum, uppsögnum, virkjunum. Studdir bókstafstrúarmönnum úreltrar hagfræði í Seðlabankanum og greiningadeildum bankstera. Þegar svona er komið, þarf að setja nýja kröfu á oddinn. Laun almennings verði vísitölubundin. Þegar útgjöld fólks eru ekki lengur föst krónutala, þurfa launin að hreyfast í sömu verðmætum og útgjöldin. Skrifið ekki undir samninga án vísitölubindingar launa.

Auðræði og þjófræði

Punktar

Eins og í Bandaríkjunum hefur nánast allur auður verið færður í hendur örfárra manna. Hér eru það kvótagreifar og nokkrir aðrir auðgreifar, sem eiga flokka og fjölmiðla. Á sama tíma fjölgar þeim, sem eiga tæpast til hnífs og skeiðar. Ætli það sé ekki tæplega hálf þjóðin. Verkföllin miklu, sem nú blasa við, eru partur af óhjákvæmilegri styrjöld milli þeirra, sem eiga, og hinna, sem eiga ekki. En stríðið er víðar en í vinnudeilum. Bófar greifanna á alþingi sækja að fleiri þjóðarauðlindum en fiski, hóta uppsögnum og sækja að víðernum landsins. Þegar löggan byrjar að skjóta á andófsfólk, nær byltingin að snúa taflinu sér í vil.

Fokið í flest skjól

Punktar

Þrælahaldarar hafa spilað út öllum hefðbundnu trompunum sínum gegn þrælunum. Atvinnurekendur hóta að hækka verð á vörum og þjónustu og kenna þrælunum um. Atvinnurekendur hóta að segja fólki upp vinnu og kenna þrælunum um. Stjórnin hótar að virkja í víðernum landsins til að refsa þrælunum. Til viðbótar er nýtt vopn, krítarkortin. Banksterar gera þræla háða krítarkortum og ætlast til, að þeir séu þægir, er kemur að skuldaskilum. Átti endanlega að slá verkfallsvopnið út höndum þrælanna. En það virkar bara ekki, þrælarnir eru of reiðir. Jafnvel í VR hafa þrælarnir skellt hurðum. Þá er fokið í flest skjól hjá þrælahöldurunum.

Fengum minni og skilning

Punktar

Minni mitt er slæmt. Ég bæti það upp með gúgli og annarri leit. Minni margra er mun betra, en almennt muna kjósendur fátt. Blogg og fésbók hafa fært almenningi minni, sem ekki var til fyrir aldamót. Núna er fortíðin grafin upp og komið upp um pólitíkusa og aðra falsara. Loforð og vanefndir forustumanna stjórnarinnar eru öllum ljós, sem vita vilja. Málsgreinar Vigdísar Hauks eru jafnóðum dregnar sundur og saman í háði. Fólk hefur fengið minni og skilning fyrir tilstilli bloggs og fésbókar. Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins sér fólk svart á hvítu, að hér ríkir gerræði og þjófræði. Og kjósendur geta nýtt sér það í kosningum.

Réttur texti án innihalds

Punktar

Töluvert hef ég skrifað um yfirlýsingar Sigmundar Davíðs gegnum tíðina. Þær eru afar skrítnar, yfirleitt skrifaðar eða sagðar á íslenzkt réttu máli. Öfugt við Vigdísi Hauksdóttur, sem segir brengluð orð og setningar. Þegar ég reyni að skilja, hvað Sigmundur meinar, næ ég engu samhengi. Hann flytur rétta, en samhengislausa íslenzku. Orsakasamhengin eiga sér ekki raunverulega rökfræði. Hann bullar út í loftið – á réttu máli. Flytur heilar ræður samhengislausar. Nýtt dæmi er innleggið í deilu Eyglóar Harðardóttur og Bjarna Benediktssonar. Sigmundur segir einhug í stjórninni um deiluna og rökstyður með – raunar engu.

Kjósendum að kenna

Punktar

Fyrir opnum tjöldum lofuðu ríkisstjórnarflokkarnir kjósendum gulli og grænum skógum. Í kyrrþey undirbjuggu þeir einkarétt eigenda sinna, auðgreifanna, á þjóðarauðlindum. Eftir kosningar fór tíminn fyrstu misserin í að púkka undir kvótagreifa og aðra auðgreifa. Þegar röðin kom að loforðunum, var ekki eftir neinn peningur. Þannig fer, þegar örvita kjósendur láta siðblinda bófa komast að kjötkötlunum. Allt, sem aflaga hefur farið á kjörtímabilinu, er beinlínis kjósendum að kenna. Ef menn trúa stjarnfræðilegum loforðum, fá þeir útkomuna, sem þeir eiga skilið. Fá ekki lýðræði, heldur gerræði, þjófræði og auðræði.

Lærum af reynslu annarra

Punktar

Uppboð aflakvótans mun færa þjóðinni auðlindarentu, sem hún fer enn á mis við. Uppboð er leið markaðshagkerfis að hagkvæmustu niðurstöðu. Því er ríkisstjórnin svona andvíg uppboðum, hún er andvíg frjálsum markaði. Er í vinnu hjá greifum, sem fá auðlindina frítt. En markaðslausnina þarf að framkvæma þannig, að hún tryggi hlut minni skipa og sjávarplássa á fallanda fæti. Uppboðum má skipta í stærðarflokka skipa. Og veita má afslátt af rentu fyrir löndun afla í byggðum, sem hafa farið halloka. Slíkar félagslegar hliðarleiðir hafa reynzt ágætlega erlendis. Við getum svo sannarlega lært af reynslu annarra í auðlindarentunni.

Siðvæðing ferðaþjónustu

Punktar

Gisting, matur og önnur ferðaþjónusta er mun dýrari á Íslandi en í löndum, sem gera út á verðlag. Hér er verðlag eins og í dýru löndunum. Engin ástæða er því fyrir lágum launum og svartri vinnu hér á landi. Lengi hafa menn komizt upp með að svíkja undan vaski og ráða fólk á undirverði. Skattayfirvöld sýna svartri vinnu of mikið tómlæti. Löt stéttarfélög nenna ekki að gæta hagsmuna útlendra starfsmanna og skólafólks á undirkaupi. Ríkisvaldið mannar sig ekki upp í að lemja í borðið. Líta ber á ferðaþjónustu sem alvöru atvinnu. Aðgangur hennar að auðlindum þjóðarinnar þarf að skila sér í auðlindarentu og ágætis launum.

Martröð ráðherrans

Punktar

Sumir draumar eru dagdraumar. Sumar martraðir eru dagmartraðir. Ein slík sækir ítrekað að fjármálaráðherra, þegar hann gengur frá skrifstofunni út á stéttina. Sýnist honum þá koma strætó, alltaf með sama númeri og sama bílstjóra. Sá sýnir honum löngutöng og Bjarni Benediktsson rífur hár sitt. Spurning er, hvort ekki megi létta þessari dagmartröð af ráðherranum. Undir siðblindunni leynist góður strákur, sem viti, að honum þarf að sýna löngutöng. Fornu minnin þarf að strika út. Ófært er, að ráðherra hafi gallaða siðblindu. Önnur spurning er, hvað gamla draumabókin segir um martröðina, þegar þjóðarstrætó sýnir Bjarna löngutöngina.

Einkastríð Sverris?

Punktar

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur bloggar forvitnilega og kveður oft fast að orði. Segir listgerninginn í Feneyjum vera fallinn í hendur Sverris Agnarssonar. Söfnuður múslima þar í borg kvartar um, að Sverrir rjúfi samning um, að ekki sé beðizt fyrir í moskunni/kirkjunni. Múslimar segja Sverri spilla ágætu samstarfi múslima við borgaryfirvöld. Engan miðil hef ég séð sannreyna valdatöku Sverris. Sjálfur hef ég bara séð fréttina í CORRIERE DEL VENETO um kvörtun múslima. Kanna þarf, hvort Sverrir tók völdin af Goddi listpáfa. Og efni prívat í nafni Íslands til átaka við friðsama múslima í hópi Feneyinga.

Vandræði löggunnar

Punktar

Ítrekað valda lögreglumenn vandræðum í samskiptum við borgarana. Mikilvægt er, að vitni taki þessi samskipti upp á snjallsíma. Reynslan um allan heim segir okkur, að löggur ljúga áreynslulaust um flest, séu sönnunargögnin ekki til. Í Bandaríkjunum hefur löggan lent í margvíslegum ógöngum út af myndskeiðum, sem sýna fíflagang og fruntaskap hennar. Óeirðir á almannafæri eru meira eða minna að frumkvæði löggunnar. Hún dulbýr sig jafnvel sem óróaseggi til að koma óorði á mótmælendur. Þannig reyndist það líka vera hér við Kárahnjúka. Fráleitt er að afhenda ómálga fábjánum löggunnar byssur til að magna óskunda, sem þeir valda.

Rifrildi ráðherranna

Punktar

Ráðherrar eru komnir í hár saman út af ábyrgðarlausum loforðum Framsóknar um niðurgreiðslur á húsnæði. Auðvelt er að sjá, að enginn peningur er í kassanum. Honum hefur öllum verið sóað í þágu hinna auðugustu. Í lækkun auðlindarentu og afnám auðlegðarskatts, breytingar á vaski og niðurgreiðslur íbúðalána hjá vel stæðu fólki. Vandinn felst í, að hér er hálf þjóðin á undirlaunum, sem duga ekki til framfærslu. Fólk þarf að eiga fyrir þaki yfir höfuðið án millifærslu úr ríkissjóði. Húsnæðisráðherra talar í austur og fjármálaráðherra í vestur. Sú deila magnar enn vantraust fólks á ríkisstjórninni, sem var þó ærið fyrir.

Dagur engu skárri

Punktar

Sumir telja, að Dagur B. Eggertsson mundi bæta Samfylkinguna, tæki hann við af Árna Páli Árnasyni. Þeir ættu að hafa þetta í huga: Umhverfisstefna Reykjavíkur á valdatíma Dags hefur verið ömurleg: Engar hömlur lagðar á Orkuveituna. Hún er enn á linnulausu orkufylleríi. Hellisheiðarvirkjun er svo ósjálfbær, að virkja þarf Hverahlíðar til uppfyllingar. Hellisheiðarvirkjun fylgir margfalt meiri brennisteinsmengun en ráð var fyrir gert. Veldur einnig jarðskjálftum. Faxaflóahafnir undirbúa meginmengun án umhverfismats með sílikon-tetraklóríð verksmiðju á Grundartanga, þrátt fyrir rygti Silicor/Calisolar í Kanada og USA.

Sikiley Íslands

Punktar

Kaupfélagið á Króknum er íslenzka mafían og Skagafjörður er Sikiley Íslands. Því vill utanríkisráðherra mafíunnar beina viðskiptum Íslands frá Vestur-Evrópu til Rússlands. Því ráða hagsmunir kaupfélags Þórólfs Gíslasonar, guðföður ríkisstjórnarinnar. Sölu þess á lambakjöti og makríl til Rússlands er stefnt í óvissu með aðild Íslands að refsiaðgerðum vegna Úkraínu. Ræðismaður Rússlands vinnur einmitt í kaupfélaginu. Gróðavænlegra væri að selja til Vestur-Evrópu, en það mundi raska sérhagsmunum kaupfélagsins á Króknum. Því reyndi Gunnar Bragi Sveinsson að slíta aðildarviðræðum við Vestur-Evrópu án aðkomu alþingis.

STUNDIN

(Vegna nafnleysis bloggsins er lokað fyrir athugasemdir hér. Þeim, sem vilja sjá umræðuna eða taka þátt í henni undir nafni, er bent á fésbókina.)

Orkubrandari ársins

Punktar

Orkuveitan hefur tilnefnt sig til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Brandari ársins. Hún hefur lengi verið í æðibunu, safnað skuldum upp á milljarða króna og hækkað gjöld á borgarbúa um ellefu milljarða. Hellisheiðarvirkjun er ekki sjálfbær; orkan eyðist, þegar af er tekið. Virkjun við Hverahlíðar á að bjarga því fyrir horn í bili. Brennisteinsmengun er margföld sú, sem áætluð var. Meira að segja hefur Hellisheiðarvirkjun orsakað jarðskjálfta. Orkuveitan er nánast eins lítið umhverfisvæn og hægt er að vera. Þar hefur verið samfellt fyllerí án nokkurrar fyrirhyggju, án nokkurrar tilfinningar fyrir því, sem náttúran þolir.

(Vegna nafnleysis bloggsins er lokað fyrir athugasemdir hér. Þeim, sem vilja sjá umræðuna eða taka þátt í henni undir nafni, er bent á fésbókina.)