Punktar

Gigtin drepur Samfylkinguna

Punktar

Samfylkingin er í rúst. Komin niður í eins stafs fylgi, er minnsti flokkurinn. Gigtin er að drepa hana. Á erfitt með hreyfa sig í lífsins ólgusjó. Tvennt leikur hana grátt í ellinni. Hún getur ekki skipt um formann, þótt hún hafi óvinsælasta flokksformann landsins. Og flokkurinn getur ekki hætt að tuða um Evrópusambandið, óvinsælustu stofnun heims. Staðan var ekki þessi fyrir hrun. Árið 2004 var Evrópusambandið undrabarn með undramynt. En José Manuel Barroso, versti pólitíkus Evrópu, hefur síðan rústað sambandinu á tíu ára valdaskeiði. Meðan aðrir breyta skoðunum í ljósi reynslunnar, geta Epal-kommarnir það ekki.

Uppreisn gegn túrisma

Punktar

Ágæt grein er í New York Times um uppreisn gegn túrisma víðs vegar í heiminum. Víðar en hér kemur í ljós, að setja þarf skorður við græðgi ferðaþjónustu. Ekki er blint hægt að auka túrisma um 20% árlega án þess að gera ráð fyrir, að þeir þurfi að sinna líkamlegum þörfum. Kaupmannahöfn og Barcelona eru farin að hemja túrisma skipulega. Fyrirmyndin er oftast Frakkland, sem hefur áratugum saman sett þröngar skorður við túrisma. Landið hefur nýtt sér menningu sína til að ýta túristum inn á menntaðar brautir. Frakkland er heimsins mesta túristaland, þótt það láti ekki túrista vaða yfir sig. Ýmislegt má læra af greininni í NYT.

(The Revolt Against Tourism)

Rugl inn – rugl út

Punktar

Skrítin eru excel um ferðaþjónustu. Hagtölur segja, að fólki við störf fjölgi hægar (10%) en ferðamönnum (20%). Fleiri ferðamenn á hvert starf. Aðrar tölur sýna minni vinnuframleiðni ferðaþjónustu. Skil að vísu ekki, hvernig framleiðni vinnu er þar mæld. Fréttir koma af mikilli svartri vinnu í greininni og launum undir taxta. Þannig er engin leið að gera sér grein fyrir gildi ferðaþjónustu. Er hún „kapphlaup niður á botn“? Er hún afleiðing „sveigjanlegs vinnuafls“? Er hún til góðs eða ills? Við getum þó gengið að því vísu, að hagtölur eru rugl. Samdar til að hagspekingar telji sig vera stærðfræðinga svo að þeim líði skár.

Með sólgleraugu og armani

Punktar

Í sjónvarpsfréttum gærdagsins trommaði Ríkisútvarpið upp langri apólógíu fyrir skipulagi sextán hæða turns við hótelið Kex. Ég hló svo mikið, að mér varð illt í maganum, þegar hápunktur áróðursins birtist. Dregin var fram eftirlíking af sikileyskum handrukkara með sólgeraugu og armani. Úr mafíósanum gaus bunan um frábæra verndunarást á gömlum húsum að baki turnsins. Ef ekki hefði verið fyrir sólgleraugun, hefðum við séð dýrið tárast, þegar það sagði titrandi röddu orðið Vitaþorp. Það var slagorð hinnar sextán hæða húsfriðunar. Bak við sólgleraugun var sagður vera braskarinn, sem hyggst gleðja Dag B. Eggertsson og Savonarola.

Spila með líf og heilsu

Punktar

Bófaflokkar ríkisstjórnarinnar hamast við að eyðileggja Landspítalann til að rýma fyrir einkarekstri. Hefnir sín vafalaust í næstu kosningum. Jafnvel bófar spila ekki svona með heilsu fólks. Fólk veit, að bráðaaðgerðir kalla á þjálfuð teymi, þar sem sérhver þarf að bregðast við á sekúndu. Þá duga ekki mállausar hjúkkur frá Rúmeníu, sendar af starfsmannaleigu Sinnum. Ennþá talar ráðherrann eins og samningar séu á vegum óviðkomandi nefndar frá Plútó. Galið er að gera slíkan fálka að ráðherra heilsumála. Í hans tilviki hefði mátt leigja Rúmena af starfsmannaleigu Sinnum. Þessi misserin stíga raunar fáir ráðherrar í vitið.

Fiktið dugar ekki

Punktar

Til skamms tíma taldi fólk stöðuna almennt góða. Laga þyrfti hér og þar. Mundi gerast, þegar „minn flokkur“ kæmist að völdum. Eftir hrun breyttist allt. Fólk fór að fatta, að staðan væri skelfileg. Yrði ekki breytt í hefðbundnum menúett fjórflokksins, né með varahjóli Bjartrar framtíðar. Fattararnir binda vonir við pírata. Sviku ekki nýju stjórnarskrána, sviku ekki þjóðareign auðlinda, sviku ekki unga fólkið um mannsæmandi laun og húsnæði. Nú skiptist fólk í þrjá jafna hluta. Í einum stað eru fávitarnir, sem kjósa bófaflokkana tvo. Í öðrum parti eru tossarnir, er enn trúa á hefðbundið fikt stjórnarandstöðu. Í þriðja hóp eru píratar.

Ungir kunna að gúgla

Punktar

Gef Jóni Einarssyni orðið: „Ísland, Ísland über alles, segja hinir þjóðrembdu, gefa auðlindarentuna til útvalinna, endurdreifa auði þar sem hinir ríku fá mest og þeir sem mest þurfa á að halda ekkert, þannig er þeirra réttlæti. Afleggja heimsins óréttlæti s.s. auðlegðaskatt sem lagðir eru á hreina eign yfir 120 m.kr. Herra Guð, hvílíkt óréttlæti. Svo er guðlast að gagnrýna elsku bestustu krónuna, sem dreifir auði frá efnaminni til efnameiri, krónuna sem við þurfum að greiða 6-12% af í vexti af húsnæðislánum, meðan hin ónýta evra er lánuð á 1-4% vöxtum í löndunum í kringum okkur. Unga fólkið er ekki fábjánar, það kann að gúgla.“

Stjórnlaus Landsbanki

Punktar

Bankaráð Landsbankans ber ábyrgð á Steinþóri Pálssyni bankastjóra. Ráðið skipa Tryggvi Pálsson, Danielle Pamela Neben, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Helga Björk Eiríksdóttir, Jóhann Hjartarson, Jón Sigurðsson og Kristján Þ. Davíðsson. Geti þau ekki rekið hann, þarf að skipta um bankaráð. Bankasýsla ríkisins skipaði þetta lið til að passa bankann. Nú er sú stofnun í dauðateygjunum. Í skipuriti hennar segir: „Stjórn Bankasýslu ríkisins skipa þau …“ og síðan kemur eyða. Stjórn Bankasýslunnar er semsagt flúin af hólmi. Bjarni Benediktsson tekur svo við um áramót. Því er enginn á vaktinni til að reka bankastjóra og bankaráð.

Ungir hraktir burt

Punktar

Vilji menn halda Íslandi í byggð, þarf unga fólkið að vilja búa hér. Rannsókn sýnir, að svo er ekki. Helmingur unga fólksins vill flýja. Enska er orðin sumum  tamari en íslenzka. Tilgangslaust er að stunda hér þjóðrembu að hætti Sigmundar Davíðs. Unga fólkið óttast einmitt þá vitfirrtu tillögu framsóknar að reisa hér áburðarverksmiðju til hagsbóta fyrir unga fólkið. Hér þarf atvinnutækifæri í öllu öðru en frumframleiðslu. Hér þarf há laun í samanburði við útlönd. Einkum þarf fólk að komast í traust húsnæði án þrældóms. Þvert gegn öllu þessu ofsækja stjórnmálabófar unga fólkið. Stefna að alræði fárra yfir þrælum á sultarkjörum.

Heimskra manna ráð

Punktar

Árum saman reyndi evruhópurinn ekki að gera grísku skuldirnar sjálfbærar. Er þó lykill að lausn málsins. Í staðinn voru bankavinirnir uppteknir við að tryggja hag bankstera. Ábyrgð lána var flutt af þeim yfir á evrópska skattgreiðendur. Þá hörðnuðu kröfur evruhópsins um rústun innviða Grikklands. Samt mátti ljóst vera, að sala ríkiseigna, hærri eftirlaunaaldur og lægra kaup mundu ekki gera skuldirnar sjálfbærar. Árum saman hafa undirmálsmenn þrúkkað um þætti, sem koma að litlu gagni. Angela Merkel og aðrir leiðtogar evruhópsins höguðu sér eins og vitfirringar á fundinum í Bruxelles um síðustu helgi. Því verr gefast heimskra manna ráð, sem fleiri koma saman.

Unga fólkið vill flýja

Punktar

Mér kemur ekki á óvart, að bófaflokkar stjórnmálanna hreki ungt fólk úr landi. Hér er markvisst unnið að þrælahaldi almennings, húsnæðisskorti og flutningi verðmæta úr auðlindunum til ýmiss konar auðgreifa. Enda sýnir ný rannsókn, að helmingur nemenda í 10. bekk vill heldur búa í útlöndum. Hófst hrunárið 2007 og hefur magnazt síðan á hverju ári. Unglingarnir búast samt ekki allir við að geta uppfyllt þennan draum og reikna með að flytjast til höfuðborgarsvæðisins. Tölur Háskólans á Akureyri sýna, að ungt fólk hefur alls enga trú á innantómri þjóðrembu pólitískra bófa. Það vonast til að geta blómstrað í sælunni erlendis.

(Rannsóknin)

Þegar Ríkiskaup lamast

Punktar

Mikið skil ég vel, að Ríkiskaupum fallist hendur við að framkvæma erfitt útboð flugfarseðla. Viðskipti embættismanna við flugfélög með vildarpunkta hafa lengi verið hornsteinn lífsstílsins á fyrsta farrými. Eftir útboð hverfur hvatinn til sífelldra utanferða, þegar myndsímafundir nægja. Því hefur útboð tafizt í þrjú ár og er ekki enn komið á koppinn. Ríkiskaup finna hvað eftir annað nýja og áhugaverða anga, sem þurfi að rannsaka. Dæmigert framfaramál, sem aldrei verður að veruleika. Því að Ríkiskaup lamast, þegar kemur að draumum embættismanna um röð utanferða á fyrsta farrými. Plús haug af vildarpunktum til afnota í fríum.

Evrópa í ruglinu

Punktar

Nú er aldeilis heima. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn neitar að taka þátt í rugli evruhópsins gegn Grikklandi. Efnislega segir sjóðurinn: Þið eruð fífl. Skuldir Grikklands eru ósjálfbærar. Afskrifa verður þessar skuldir, en þið neitið að afskrifa neitt. Við tökum ekki þátt í svona rugli. – Aldrei hafa öfgasinnaðir leiðtogar Evrópu fengið slíkt kjaftshögg og það frá Christine Lagarde. Enda eru þetta bankavinir, er hringsnúast um ímyndanir. Í stað þess að leysa mál, flækja þeir ímyndanir og standa andspænis hálfu verri vanda. Allt sökk svo í dúndrandi rugl, þegar geðbiluð hefnigirni Wolfgang Schäuble komst að háborðinu. Meiru fálkarnir þetta.

BBC

Þeir hata óvissuna

Punktar

Fréttir segja okkur að 20-30 starfsmenn skammstöfunar, sem áður hét Straumur-Burðarás, séu foxillir. Hafi gert ráð fyrir að skipta með sér 3,4 milljörðum króna í bónus eða 150 milljónum á mann. Telja sig svikna um fyrirsjáanleika, tízkuorð ættað frá kvótagreifum. Auðmenn nútímans hata hornstein kapítalismans, óvissuna, mest af öllu. Ríkið og Seðlabankinn telja fyrirtækið eiga að borga 39% stöðugleikagjald fyrir að flytja gjaldeyri úr landi. Sárt leiknir bónusmenn segjast munu stefna ríkinu fyrir ófyrirsjáanleika. Við megum eiga von á meiru af slíku rugli, er Gunnar Bragi og Martin Eyjólfsson undirrita TISA-landráðin.

Læsið Steinþór inni

Punktar

Konsert bankanna tók fyrir löngu völdin í Bandaríkjunum. Hefur nú tekið völdin í Evrópu. Ráðamenn dansa eftir fiðlu bankstera, sem færa tjón bankabrasks yfir á herðar skattgreiðenda. Sáum það í nauðgun Grikklands. Og við sáum það, þegar Jóhönnustjórn mistókst að koma böndum á endureistu bankana. Þar biðu Árni Páll og Steingrímur sinn pólitíska dauðdaga, líkin tvö í vinstri lestinni. Bankarnir haga sér eins og fyrir hrun. Taka 500 milljarða úr hagkerfinu í hreinan gróða! Meðhöndla fólk eins og hænur í verksmiðjubúi. Og trylltasti banksterinn hyggst reisa steindauða bankahöll í kvosinni litlu. Er ekki hægt að læsa bófana inni?